Barnaskóli Kársness hefur göngu sína

Nemendur í 4.bekk Barnaskóla Kársness ásamt bæjarstjóra og góðum gestum.
Nemendur í 4.bekk Barnaskóla Kársness ásamt bæjarstjóra og góðum gestum.

Barnaskóli Kársness hefur tekið til starfa og var fyrsti skóladagur í dag, þriðjudaginn 26.ágúst. Mikil gleði ríkti í skólanum meðal nemenda og kennara enda langþráð stund runnin upp.

Í tilefni dagsins heimsótti Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs skólann, hitti nemendur úr fjórða bekk sem sungu fyrir bæjarstjóra og góða gesti og skoðaði skólann undir leiðsögn Gerðar Magnúsdóttur skólastjóra.

„Við erum afskaplega stolt af þessari skólabyggingu sem myndar glæsilega umgjörð utan um gott og metnaðarfullt skólastarf. Ég er sannfærð um að nemendur, kennarar og starfsfólk allt eiga eftir að njóta þess að vera hér við nám og störf,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.

Barnaskóli Kársness er samrekinn leik- og grunnskóli 1.til 4.bekkjar. Í honum eru tæplega 300 börn á grunnskólaaldri og 40 börn á leikskólaaldri og fjölgar leikskólarýmum á Kársnesi sem því nemur.

Fyrsti dagur í aðlögum barna í leikskólum var einnig í dag en fyrst um sinn er leikskólinn í rýmum sem eru tilbúin meðan unnið er að því að ljúka álmunni sem hýsa mun leikskólann. Líf og fjör var á skólalóðinni sem er tilbúin að hluta til en unnið verður að lokafrágangi hennar næstu vikur. 

„Þetta eru mjög spennandi tímamót fyrir skólastarf í Kópavogi, enda fyrsti samrekni leik- og grunnskóli bæjarins tekinn til starfa. Það er metnaður og eftirvænting í hópi nemenda og starfsfólks,“ segir Gerður Magnúsdóttir, skólastjóri.