22.04.2025 kl. - Bókasafn Kópavogs
Umhverfis ofurhetjan er vitundarvakningarverkefni sem er samstarfsverkefni Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs þar sem börn geta leyst fimm umhverfistengd verkefni og að því loknu fá þau afhent viðurkenningar skjal um að þau séu umhverfis ofurhetjur.
Einnig fá þau fræ í verðlaun sem þau geta gróðursett heima. Verkefnið mun svo standa fram á haust.
Hægt er að velja 5 af eftirfarandi atriðum, sum þeirra eru verkefni sem öll fjölskyldan vinnur saman, og sum eru árstíðarbundin.
Þegar barnið hefur klárað 5 verkefni getur það komið á safnið og fengið skjalið og verðlaunin afhent annað hvort í barnadeild eða hjá starfsmanni náttúrufræðistofu:
Taka bók á bókasafninu um náttúruna og náttúruvísindi t.d. dýr, gróður, himingeiminn og lesa heima eða fá einhvern til að lesa fyrir sig.
Skoða vandlega náttúrufræðisýninguna í Náttúrufræðistofu Kópavogs.
Fara með einhverjum fullorðnum á endurvinnslustöð eða í grenndargám með flokkað rusl og efni.
Plokka, fara með einhverjum fullorðnum og týna upp rusl úr náttúrunni. (Athuga að vera með hanska, og fara varlega og rólega í verkefnið og ræða fyrir fram um að passa sig að taka ekki upp neitt oddhvasst eins og nálar og glerbrot).
Fá fjölskylduna sína til að elda eina máltíð úr frystinum.
Borða afganga.
Fá fjölskylduna til að elda eina grænmetismáltíð (kjöt og fiskvinnsla skilur eftir sig stórt kolefnisfótspor, og það að borða einu sinni í viku grænmetismáltíð er mjög gott fyrir umhverfið)
Velja að gefa fremur upplifun eða notaða gjöf í afmælis- eða tækifærisgjöf. Taka virkan þátt í hringrásarhagkerfinu, gefa, selja eða kaupa notaða hluti frekar en nýja.
Labba einu sinni eitthvert sem þið farið venjulega á bíl.
Búa til pödduhótel í garðinum.
Leyfa túnfíflunum að vera í garðinum (ekki tína þá, ekki slá þá) en þeir eru nauðsynleg næring fyrir fyrstu skordýrin á vorin.
Planta birkitré (birki er eina skógmyndandi tegundin í íslensku flórunni og birkiskógar eru fjölbreytt vistkerfi þar sem fjöldi lífvera lifir í samlífi hver við aðra.)
Umhverfisverkefni að eigin vali
03.05.2025 kl. 13:00 - Salurinn
Eitt ár síðan ég sá ykkur 10 sinnum í Salnum og síðan þá hef ég droppað Elli Egils, Steik og Sushi, Til i allt 3 og ég veit ekki hvað og hvað
Ég hlakka til að taka á móti öllum kynslóðum
3. og 4. maí í Salnum
Tónleikarnir eru styrktir af 66 Norður
EKKERT ALDURSTAKMARK
18.05.2025 kl. 12:30 - Salurinn
Tónleikaspjall í tali og tónum þar sem veitt verður innsýn í efnisskrá Tíbrártónleika dagsins. Hægt verður að kaupa ljúffengar veitingar frá Krónikunni á meðan spjallið stendur yfir en umsjón með viðburðinum hefur Elísabet Indra Ragnarsdóttir.
Á Tíbrártónleikum dagsins mun KIMI tríó flytja ný verk eftir Þuríði Jónsdóttur og Kolbein Bjarnason.
Ókeypis er á tónleikaspjallið sem stendur yfir frá 12:30 – 13:00. Húsið verður opnað klukkan 12:00. Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
18.05.2025 kl. 13:30 - Salurinn
KIMI tríó skipa Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir, söngkona, Katerina Anagnostidou, slagverksleikari og Jónas Ásgeir Ásgeirsson harmóníkuleikari. Á efnisskrá eru frumflutningur á Livia‘s Room eftir Þuríði Jónsdóttur og nýju verki eftir Kolbein Bjarnason.
KIMI hefur vakið verðskuldaða eftirtekt og viðurkenningu fyrir ferskt og áhugavert efnisval en þau hafa starfað náið með fjölda tónskálda auk þess að hafa einbeitt sér að eigin útsetningum á þjóðlagatónlist.
KIMI ensemble frumflytur tvö áhrifarík verk eftir Þuríði Jónsdóttur og Kolbein Bjarnason sem leiða áhorfendur frá Róm til forna, gegnum fangabúðir Sovétríkjanna fram á stríðsvelli samtímans.
Dyngja Livíu eftir Þuríði Jónsdóttur er frumflutningur á tónlistinni úr samnefndu leikverki, sem KIMI og tónskáldið tóku þátt í ásamt leikhópnum House of Stories í Björgvin 2022. Verkið fjallar um Lívíu Drúsillu, fyrstu keisaraynju Rómaveldis. Hún var á sinni tíð óvenju valdamikil, verandi kona, og var fyrir þær sakir ásökuð um lævísi og svikabrögð í sögubókunum. Opinber ímynd hennar á meðan hún lifði var hins vegar þveröfug og var henni hampað sem siðprúðri og trygglyndri eiginkonu Ágústusar keisara. Verkið endurspeglar flókna stöðu kvenna, sem birtist oftar en ekki í tvískinnungi sögulegrar skrásetningar, ýmist í formi hins karllæga sjónarhorns sagnaritaranna eða skorti á skrásetningu sagna kvenna. Þórgunnur Anna, söngkona KIMA, persónugerir hér einkaherbergi Lívíu, sem eitt sinn var ríkulega skreytt veggmyndum af flóru og fuglalífi hvaðanæva að úr Rómaveldi; herbergið féll lengi vel í gleymsku, en var að lokum grafið upp og skreytingarnar fluttar til Rómar þar sem þær eru enn til sýnis. Textinn er skrifaður af norska leikskáldinu og rithöfundinum Lene Therese Teigen sem einnig leikstýrði leikverkinu.
Kolbeinn Bjarnason hefur síðastliðin tvö ár unnið að margþættum sönglagabálki fyrir KIMA ensemble. Textar verksins eru sóttir til ljóðskálda 20. og 21. aldar og eru á ýmsum tungumálum, m.a. grísku, rússnesku, ensku og íslensku - og eru allir fluttir á frummálinu af Þórgunni Önnu, söngkonu KIMA, þar sem Katerina, slagverksleikari hópsins, ljáir hverju ljóði einstakan blæ með þeim 25 ólíku slagverkshljóðfærum sem hún leikur á. Kveikjan að bálknum var ljóð gríska ljóðskáldsins Antonis Kavafis (1863-1933), „Guðinn yfirgefur Anton“, sem hverfist um hinsta kvöld Rómverska hershöfðingjans Markúsar Antóníusar í Alexandríu; hann var hægri hönd Sesars og síðar meir erkióvinur Ágústusar keisara, sem einmitt var eiginmaður Lívíu Drúsillu.
Auk tveggja ljóða eftir Kavafis semur Kolbeinn við ljóð hinnar úkraínsku Írínu Ratúsjinskaju (1954-2017), Palestínumannsins Refaats Alareer (1979-2023) og rússneska skáldsins Natöshu S (1987- ) sem yrkir á íslensku. Þema verksins er mannleg reisn og hugrekki andspænis stríði, kúgun og ofbeldi, þar sem tónskáldið tekur skýra afstöðu með mannréttindum gegn óvæginni valdbeitingu. Ljóð Írínu er samið í sovésku fangelsi seint á síðustu öld, hins vegar færir ljóð Natöshu okkur til samtímans þar sem skyggnst er inn í veruleika barns í stríðshrjáðri Úkraínu eftir innrás Rússa árið 2022. Refaat Alareer birti ljóð sitt á samfélagsmiðlum skömmu áður en hann var myrtur í árás Ísraelshers í desember 2023.Á undan tónleikunum, klukkan 13:00 verður boðið upp á spjall um efnisskrá tónleikanna. Aðgangur á spjallið er ókeypis og öll velkomin.Lista- og menningarráð styrkir tónleikaröðina Tíbrá.
18.05.2025 kl. 19:00 - Salurinn
Óratoríusveitin flytur Petite Messe Solennelle eftir Rossini ásamt Hljómeyki, einsöngvurum og hljóðfæraleikurum.
Óratoríusveitin og söngflokkurinn Hljómeyki flytja Litlu messu Rossini (Petite messe solennelle). Stjórnandi verður Stefan Sand. Einsöngvarar verða þau Vera Hjördís Matsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Þorbjörn Rúnarsson og Gunnlaugur Bjarnason. Eva Þyri Hilmarsdóttir og Erna Vala leika á píanó og Flemming Viðar Valmundsson leikur a harmóníku.
Þrátt fyrir nafnið (lítil hátíðleg messa) er messan þvert á móti stór í sniðum. Hún er skrifuð fyrir kór, einsöngvara, tvö píanó og eitt orgel en í flutningi þessum mun Flemming Viðar leika orgelpartinn á harmóníku. Verkið er raunar eitt af stórfenglegri verkum Rossini á síðari hluta ferilsins. Í verkinu má auðheyrilega finna óperulegt yfirbragð í dramatískum laglínum og augnablikum en einnig kyrrláta andlega fegurð. Rossini kallaði verkið sjálfur ,,síðasta synd gamals manns” og endurspeglar það hæfileika hans til að sameina hið helga og hið leikræna, jafnvel í trúarlegu samhengi.
Óratoríusveitin er nýtt félag sem stofnað var af Stefani Sand stjórnanda og söngvurunum Gunnlaugi Bjarnasyni og Veru Hjördísi Matsdóttur. Félagið stendur að flutningi á óratoríum og öðrum konsertverkum skrifuð fyrir söngvara og hljóðfæraleikara. Markmið sveitarinnar er að skapa ungu og upprennandi tónlistarfólki sem eru að stíga sín fyrstu skref að námi loknu, tækifæri til að koma fram við hlið reyndara tónlistarfólks og öðlast þar með dýrmæta reynslu. Sveitin leitast einnig við að brjóta upp hið hefðbundna tónleikaform, t.d. með því að leggja áherslu á túlkunar- og leiklistarlegu hlið verkanna og þar með styrkja sjónræna upplifun áheyrenda.
18.05.2025 kl. 15:00 - Gerðarsafn
Í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum 18. maí fjallar Valgerður Hauksdóttir um grafíklist og mismunandi aðferðir innan miðilsins. Á sýningunni Barböru má sjá grafíkverk frá upphafi ferils Barböru Árnason en hún var einn frumkvöðla grafíklistar á Íslandi. Barbara kynntist grafík í listaskólanum í Winchester og kom fljótlega í ljós að hún hafði einstaka hæfileika í því að ná fram ótrúlegum smáatriðum í tréstungum sínum en tréstungan gerir miklar kröfur til þeirra listamanna sem fást við hana. Barbara lagði málmristu og tréstungu fyrir sig síðustu tvö árin í Royal College of Art í London og verk hennar frá þessum tíma sýna að Barbara hafði nú þegar náð framúrskarandi tökum á tréstungulistinni. Stuttu síðar var Barbara tekin inn í breska grafíkfélagið yngst allra félaga til þessa.Valgerður Hauksdóttir er myndlistarmaður og grafíklistamaður. Hún er með meistaragráðu frá University of Illinois – Champaign / Urbana og BFA frá University of New Mexico – Albuquerque. Hún hefur starfað við kennslu í Myndlista- og handíðaskólanum, Listaháskóla Íslands og Indiana University. Hún hefur sýnt verk sín víða bæði hér heima og erlendis.
Aðgangur er ókeypis í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum. Verið öll hjartanlega velkomin!
19.05.2025 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs
Ertu byrjandi eða með áralanga reynslu af bróderíi? Viltu kannski rifja upp gamla takta og hitta aðra sem deila sama áhuga?
Þá gæti Bróderíklúbburinn hentað fyrir þig.
Bróderíklúbburinn hittist á mánudögum á Lindasafni í Núpalind 7 kl. 14:00.
Öll velkomin og heitt á könnunni.
20.05.2025 kl. 10:00 - Bókasafn Kópavogs
Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman hittist alla þriðjudaga á 2. hæð aðalsafns kl. 10. Heitt á könnunni og öll velkomin!
Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is
Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman | Bókasafn Kópavogs
21.05.2025 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs
Hannyrðaklúbburinn Kaðlín hittist alla miðvikudaga á 2. hæð aðalsafns. Heitt á könnunni og öll velkomin!
Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is
Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Kaðlín | Bókasafn Kópavogs.
21.05.2025 kl. 20:00 - Salurinn
Molinn, miðstöð unga fólksins og Salurinn kynna Púlsinn, nýja tónleikaröð sem verður haldin í Salnum, Kópavogi í vor. Markmið Púlsins er að gefa ungu tónlistarfólki tækifæri að koma fram á tónleikum í einum fallegasta tónleikasal landsins en jafnframt gefa þeim verkfæri og tól til þess að vinna í tónlistarferli sínum.
AGLA
Agla Bríet Bárudóttir er ung og upprennandi söngkona og lagahöfundur sem byrjaði nýlega að gefa út tónlist sem AGLA. Tónlistina semur hún í herberginu sínu á kassagítar og Juno-106 hljóðgervil sem hún elskar. Tónlistinni hennar má lýsa sem persónulegri popptónlist, singer-songwriter, alternative poppi með hjartnæmum textum sem segja sögur úr hennar lífi. Hún sækir mikinn innblástur í náttúruna og syngur á íslensku. AGLA vinnur eins og er með Baldvini Hlynssyni pródúsent.AGLA er á fullu að vinna í tónlist og má búast við nýju efni frá henni á árinu.
Flesh Machine
Flesh Machine er hugarfóstur stofnmeðlims sveitarinnar, Kormáks Jarls Gunnarssonar, sem samdi lögin um tíma sinn í tónlistarnámi í Berlín þar sem hann kljáist við mikinn kvíða, þunglyndi og lágt sjálfsmat. Með hjálp vina og núverandi meðlima hljómsveitarinnar, Baldur Hjörleifsson, Jón G. Breiðfjörð, Viktor Árna Veigarssyni og Lukas Zurawski, hafa þeir tekið upp lög fyrir tilvonandi fyrstu plötu “The Fool”. Hlaut hljómsveitin mikla athygli og góðar undirtektir við fyrstu útgáfu fyrir lagið “F Is For Failing” árið 2023, m.a. Frá helsta tónlistargagnrýnanda á Yoututbe, Anthony Fantano, sem stjórnar Youtube rásinni The Needle Drop. Hljómaveitin hlaut árið 2024 verðlaun á Stockfish Film Festival fyrir tónlistarmyndband af laginu ,,Problems”, leikstýrt af Snæfríði Sól Gunnarsdóttur
Púlsinn
26.mars - Amor Vincit Omnia & Woolly Kind
9.apríl - HáRún & Laufkvist
21.maí - AGLA & Flesh Machine
Molinn er miðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára þar sem hægt að mæta og nota aðstöðuna á ýmsan hátt, til dæmis með að bóka stúdíó og vinna í tónlist, æfa sig á sviði, halda viðburði en einnig til að slaka á, læra eða hafa gaman. Molinn er einnig skipuleggjandi Skapandi sumarstarfa í Kópavogi sem fagna 20 ára starfsafmæli í sumar.
21.05.2025 kl. 17:00 - Bókasafn Kópavogs
Miðvikudaginn 21. maí kl.17.00 ætlum við að hefja sumarlestursátakið okkar með smá gleði á Bókasafninu. Ævar Þór Benediktsson kemur í heimsókn til okkar og les upp úr bókum sínum og verður með lestrarhvatningu fyrir börnin. Síðan munum við kynna sumarlestursátakið.
Hlökkum til að sjá ykkur í sumarlestursskapi.
22.05.2025 kl. 17:00 - Bókasafn Kópavogs
Íris Ann hefur notað tarotspil frá unga aldri og haldið fjölda námskeiða um hvernig nota megi spilin í daglegu lífi. Hér mun hún segja frá því hvernig hún notar spilin, hver saga þeirra er og hvað þau tákna fyrir henni. Að því loknu gefst tími til spurninga og spjalls.
Íris Ann er ljósmyndari, listamaður, fyrrum eigandi Coocoo‘s Nest og kaffihússins Lólu Florens. Hún er lærð í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð sem í stuttu máli er eins konar heilun og jafnframt er hún lærð í Kundalini Activation sem er orkuvinna.
Fimmtudaginn 22. maí efnum við til konukvölds á löngum fimmtudegi á Bókasafni Kópavogs. Tarotspil, draumráðningar og fleiri skemmtiatriði verða á dagskrá.
Viðburðurinn verður í ljóðahorni á 2. hæð aðalsafns.Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.