Fréttir

Tilkynningar

Viðburðir

14.10.2024 kl. 17:00 - Bókasafn Kópavogs

Ritsmiðja: skrifað út frá staðsetningu

Skáldin og sviðslistakonurnar Eva Rún og Ragnheiður Harpa kenna ritsmiðju þar sem unnið er með að skrifa út frá staðsetningu. Smiðjan fer fram mánudagana 14. okt og 21. október kl 17 - 20  í bókasafni Kópavogs. Í ritsmiðjunni verða gerðar tilraunir í skrifum út frá vissum staðsetningum. Þemað að þessu sinni er Kópavogur. Þátttakendur munu kynnast fjölbreyttum hliðum skapandi skrifa og læra að nýta hin ýmsu tól úr verkfærakistu höfundarins. Leiðbeinendur eru Eva Rún Snorradóttir og Ragnheiður Harpa Leifsdóttir. Báðar starfa jöfnum höndum sem sviðslistakonur og rithöfundar og eru með vinnustofunni að leita leiða til að prófa áfram verkfæri úr sviðslistunum til að nýta í skrif sem enda ekki endilega í sviðslistaverki heldur bókmenntaverki. Takmörkuð pláss í boði. Smiðjan er í boði MEKÓ og þátttaka er ókeypis.  Vinsamlegast sendið póst til að taka frá pláss: rjuparun@gmail.com
17.10.2024 kl. 08:00 - Bókasafn Kópavogs

Skrímslasmiðja

Komdu og teiknaðu íslensku skrímslin og hjálpaðu okkur að skreyta barnadeildina fyrir Hrekkjavökuna. Í aðdragandanum að Hrekkjavökunni bjóðum við krökkum að koma og teikna fyrir okkur skrímslin úr íslensku þjóðsögunum.  Getur þú teiknað hræðilega skrímslahvalinn Rauðhöfða? Eða skelfilegan útburð? Skoffín eða Skuggabaldur? Endilega kíktu í smiðju hornið og kynntu þér fróðleik um íslensku skrímslin og teiknaðu svo þína útgáfu af skrímslunum.    Þessi viðburður er hluti af verkefninu ,,Blásum lífi í þjóðsögurnar" sem er styrkt af Barnamenningarsjóði. 
21.10.2024 kl. 13:00 - Bókasafn Kópavogs

Sófaspjall um andleg mál

Sigurlaug Guðmundsdóttir býður okkur í notalegt sófaspjall um andleg mál og fordóma gegn þeim. Sigurlaug leiðir spjallið og fer vítt og breitt um hvaðeina sem sem varðar duldu málefnin. Öll velkomin meðan húsrúm leyfir. Spurningar sem við veltum upp eru m.a.-Hvað felst í orkunni?-Hvaða máli skiptir hvernig við hugsum?-Hvað er skyggni?-Hvað eru bænir?-Hvað er ímyndunaraflið og hvernig getum við notað það okkur til góðs? -Hvað og hvar eru huldufólkið og álfarnir? -Hvernig sköpum við okkar eigin raunveruleika? Býður Sigurlaug gestum einnig að koma með eigin spurningar og vangaveltur.
22.10.2024 kl. 10:00 - Bókasafn Kópavogs

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman hittist alla þriðjudaga á 2. hæð aðalsafns kl. 10. Heitt á könnunni og öll velkomin! Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman | Bókasafn Kópavogs
22.10.2024 kl. 11:00 - Bókasafn Kópavogs

Get together

Get Together meet-ups will be held at the Library in Kópavogur, on the first floor in the Tilraunastofa - meeting room. The meet-ups are international meetings open to refugees, asylum-seekers, immigrants, and anyone seeking companionship. Whether you're a family or an individual, you're welcome to join us. Each week, we gather and do relaxing activities like painting, weaving, crafting, and more. It's all about getting together, making new friends, and sharing stories in a warm, supportive space.Get Together meet-ups are a collaboration between GETA aid organization and the Library in Kópavogur.We offer free coffee and treats for everyone! These meet ups are a part of the project The library in a multilingual society sponsored by Nordplus and Bókasafnasjóður. Get Together heldur alþjóðlegan fjölskyldu- og vinahitting á Bókasafni Kópavogs, á fyrstu hæð í Tilraunastofunni. Þetta er alþjóðlegur hittingur fyrir flóttafólk, hælisleitendur, innflytjendur og öll sem vilja félagsskap.Viðburðurinn er bæði fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Í hverri viku munum við hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman eins og að mála, prjóna, föndra o.fl. Í Get together hittum við nýja vini og deilum sögum okkar í þægilegu og öruggu umhverfi. Get Together er samstarfsverkefni milli GETA hjálparsamtök og Bókasafn Kópavogs. Við munum bjóða upp á kaffi og með því! Þessi viðburður er hluti af verkefninu Bókasafnið í fjölþjóðlegu umhverfi sem er styrkt af Nordplus og Bókasafnasjóði.
22.10.2024 kl. 20:00 - Bókasafn Kópavogs

Haltu mér - slepptu mér: karlmennskuhugmyndir og orðræða ungmenna

Haltu mér - slepptu mér er fyrirlestraröð fyrir foreldra ungmenna á aldrinum 12-18 ára um ýmis málefni sem tengjast þroska og uppeldi unglinga með áherslu á áskoranir í nútímasamfélagi. Karlmennskuhugmyndir og orðræða ungmennaÞorsteinn V. Einarsson, kennari og kynjafræðingur, fjallar um skaðlegar karlmennskuhugmyndir, orðræðu ungmenna, algóritma samfélagsmiðla og hvernig er hægt að skapa og styðja við jákvæða karlmennsku. Þorsteinn V. Einarsson - kynjafræðingur og kennariÞorsteinn er með B.Ed. í grunnskólakennarafræðum með kennsluréttindi og M.A. í kynjafræði. Hann starfar við fyrirlestra- og námskeiðahald í jafnréttismálum fyrir vinnustaði, foreldrahópa og í grunn- og framhaldsskólum. Samhliða miðlar hann fræðsluefni á samfélagsmiðlum í nánu samstarfi við Huldu Tölgyes. Önnur erindi í Haltu mér slepptu mér koma inn á málefni á borð við kvíða, miðlalæsi og lestrarvenjur ungmenna. Ókeypis aðgangur og öll velkomin. 24. september 2024, kl. 20:00Miðlalæsi: Algóritminn sem elur mig uppSviðsstjóri Netöryggismiðstöðvar Íslands, Skúli Bragi Geirdal, heldur erindi um miðlalæsi og samfélagsmiðlanotkun ungmenna. Skúli fer yfir þau atriði í stafrænu umhverfi sem ber að varast auk þess að gefa góð ráð varðandi notkun barna á skjátækjum og samfélagsmiðlum. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlanefndar í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu. 12. nóvember 2024 kl. 20:00Kvíði ungmennaBerglind Brynjólfsdóttir, sálfræðingur hjá Sálstofunni, ræðir um einkenni kvíða, hvað hægt er að gera til að aðstoða ungmenni með kvíða og forvarnir gegn honum. 3. desember 2024 kl. 20:00Bókaval og lestrarvenjur ungmennaJón Geir Jóhannsson, sérfræðingur frá Nexus, ræðir við foreldra um bækur fyrir ungmenni, val á bókum og mikilvægi þess að ungmenni fái og finni bækur sem vekja áhuga þeirra og eru við hæfi.
23.10.2024 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín hittist alla miðvikudaga á 2. hæð aðalsafns. Heitt á könnunni og öll velkomin! Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Kaðlín | Bókasafn Kópavogs.
23.10.2024 kl. 17:00 - Bókasafn Kópavogs

Flóra mannlífs | Austræn menning

Austræn menning / Session on Estern Cultures ATH! að erindið fer fram á ensku Sali Salem Alazzani verður með erindi um austræna menningu og þau austrænu menningarsamfélög sem hafa sest að á Íslandi. Sali starfar sem innflytjenda- og flóttamannasérfræðingur hjá fjölmenningardeild Vinnumálastofnunar. Hún er með meistaragráðu í alþjóðlegum samningarviðræðum á átakasvæðum. Flóra mannlífsins er erindaröð um ólíka menningarheima á Bókasafni Kópavogs og er hluti af verkefninu Bókasafnið í fjölmenningarlegu samfélagi. Verkefnið er styrkt af bókasafnasjóði og Nordplus og snýr að því að koma betur til móts við allan þann fjölbreytta hóp fólks sem heimsækir bókasafnið okkar og halda blómlegri fjölmenningu á lofti. Aðrir viðburðir í viðburðaröðinni Flóra mannlífsins: Fimmtudaginn 26. september kl. 19.00  –Friðarheimspeki búddismans: Eyrún Ósk Jónsdóttir rithöfundur verður með erindi um friðarheimspeki búddismans en hún er alin upp í búddatrú. ,,Eitt einstakt líf, vegur þyngra en allur alheimurinn.“ Miðvikudagurinn 20. nóvember kl. 17:00 – Ferð í gegnum arfleifð og persónulega uppgötvun: Jasmina Vajzovic deilir sögum frá heimalandi sínu Bosníu og Hersegóvínu, ræðir helgisiði, hátíðahöld og hversdaglegar venjur sem gera menningu hennar einstaka. Fyrirlesturinn gefur innsýn í hefðir, gildi og sögur Bosníu og Hersegóvínu og djúpstæð áhrif þessarar arfleiðar á fyrirlesarann. Miðvikudaginn 29. janúar – Saga mín: Sigríður Láretta Jónsdóttir ræðir við þrjá innflytjendur og biður þá um að deila sögu sinni. 
23.10.2024 kl. 12:15 - Náttúrufræðistofa Kópavogs

Hvað er jarðvegsmengun?

„Hvað er" er erindaröð á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs en þar varpa sérfræðingar úr ýmsum áttum ljósi á ólík hugtök og fyrirbæri og skýra þau út á mannamáli. Að þessu sinni mun Erla Guðrún Hafsteinsdóttir, sérfræðingur í umhverfis- og jarðefnafræði, fjalla um jarðvegsmengun en jarðvegsmengun getur haft víðtæk áhrif á tilveru okkar og heilsu, hreina vatnið og lífríki og fleira sem gæti komið á óvart. Að erindi loknu mun Erla Guðrún svara spurningum sem kunna að brenna á gestum. Erla starfar á sviði samgangna og umhverfis hjá Verkís og kemur til okkar sem fulltrúi FUMÍS - Fagfélags um mengun á Íslandi. Félagið var stofnað árið 2024 en markmið þess er að stuðla að aukinni þekkingu og vönduðum vinnubrögðum í málefnum mengunar í jarðvegi, yfirborðs- og jarðvatni. Félaginu er einnig ætlað að stuðla að auknu samráði og samstarfi ólíkra aðila í málefnum er varða mengun. Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir. Viðburðurinn er styrktur af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.
23.10.2024 kl. 18:00 - Gerðarsafn

SMÖRREGAMI | Kvöldstund í Gerðarsafni

SMÖRREGAMI er hugguleg kvöldstund fyrir fullorðna þar sem þátttakendur fá tækifæri til að kynnast origami, og njóta léttra veitinga með japönsku ívafi! Listsmiðjan er hugsuð sem skapandi og heildræn upplifun fyrir fullorðna, undir handleiðslu Yasuka Kawakami, sem kynnir gesti fyrir listinni að gera origami frá heimalandi sínu Japan. Þátttakendur læra að gera origami og búa til eigin óróa. Upplifunin að breyta einföldum pappír í fallega hangandi skúlptúra veitir mikla gleði. Yasuka mun leggja áherslu á form sem kallast trana sem samkvæmt japönskum sið er þekkt sem tákn vonar og friðar. Verð fyrir SMÖRREGAMI er 12.900.-Innifalið í kvöldstundinni er aðgangur að sýningum safnsins ásamt léttum veitingum frá Krónikunni og vínglas/óáfengur drykkur.Til að bóka pláss er hægt að senda á gerdarsafn@kopavogur.is eða hringja í 441 7601 á opnunartíma safnsins. Lágmarksfjöldi er 8 manns, hámark 15 komast að. Athugið að skráning er bindandi.
24.10.2024 kl. 13:00 - Gerðarsafn

Haustfrí | Origami smiðja fyrir börn

Velkomin í fjöltyngda smiðju sem leiðir saman menningarheima í gegnum japanskt origami! Í haustfríinu verður boðið upp á skemmtilega og skapandi fjöltyngda smiðju í Gerðarsafni ‏þar sem ‏þátttakendur á öllum aldri fá að kynnast origami, japanskri listhefð, ‏þar sem pappír er brotinn í litla skúlptúra. Þátttakendur læra að fylgja einföldum leiðbeiningum og enda svo á að búa til sinn eigin origami óróa. Smiðjan er opin gestum á öllum aldri, en hvorki er krafist kunnáttu í origami né bakgrunns í listum. Hægt er að koma við á þeim tíma sem hentar hverjum og einum og dvelja eins lengi og hentar. Mælst er til að börn mæti í fylgd með fullorðnum. Leiðbeinendur eru Yasuka Kawakami frá Japan og íslenska listakonan Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Saman tala ‏‏þær japönsku, íslensku og ensku. Smiðjan er liður í viðburðaröðinni Together sem er skipulögð af Menningarhúsunum í Kópavogi í samstarfi við GETU – hjálparsamtök. Markmiðið er að stuðla að gagnkvæmum skilningi menningarheima og að vera samskipta- og sköpunarvettvangur fyrir fólk úr ólíkum áttum. Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin.
24.10.2024 kl. 08:00 - Bókasafn Kópavogs

Skiptimarkaður fyrir hrekkjavökubúninga

Verið velkomin á búningaskiptimarkað á hrekkjavökunni!  Á aðalsafni verður hægt að skiptast á hrekkjavökubúningum í öllum stærðum og gerðum. Gefðu gömlum búningum framhaldslíf og/eða taktu með þér annan í staðinn.
Fleiri viðburðir