Margt var um manninn á tuttugustu lokahátíð Skapandi Sumarstarfa í Kópavogi.
Lokahátíð Skapandi Sumarstarfa í Kópavogi fór fram í tuttugasta skipti fimmtudag 24. júlí. Skapandi Sumarstörf í Kópavogi veita ungu listafólki á aldrinum 20-26 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur það reynst mikilvægur stökkpallur fyrir margt af efnilegasta listafólki landsins.

Í sumar voru starfrækt 13 spennandi og ólík verkefni en að baki þeim stóðu 28 ungir listamenn úr mismunandi listgreinum og höfðu þau aðsetur í Molanum, miðstöð unga fólksins.

Hátíðin var vel sótt og var þetta í þriðja skipti sem listafólki Skapandi Sumarstarfa bauðst að sýna afrakstur sumarsins í Salnum en þau hafa verið í sérstöku samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi og hafa boðið upp á fjölbreytta viðburðadagskrá í allt sumar.

Lokahátíðin stóð yfir frá 17.00 - 20.00 en listamannabásum var komið fyrir í forsalnum þar sem gestir gátu skoðað málverk og gluggað í bókverk áður en gengið var inn í sal. Meðal atriða sem komu fram á hátíðinni voru brot úr stuttmyndum, leiklestrar og sýnishorn af söngleik byggðum á verkum Jórunnar Viðar.

Dagskránni lauk með frumsýningu á afmælismyndbandi um starfsemi Skapandi Sumarstarfa síðustu 20 ár sem endaði á slagorðinu “Lengi lifi listin!” sem áhorfendur hrópuðu í takt og þar með lauk vel lukkuðum afmælisfögnuði.