07.02.2025 kl. 18:00 - Bókasafn Kópavogs
Sögustund í barnadeild bókasafnsins á Safnanótt.
Þorvaldur Davíð les úr Sokkalöbbunum á Safnanótt kl. 18:00.
Aðgangur ókeypis og öll innilega velkomin.Viðburðurinn er liður í dagskrá Safnanætur í Kópavogi sem styrkt er af Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.
Í landi Sokkalabbanna búa tilfinningaríkir sokkar í ýmsum litum. Með lestri bókarinnar læra börn að tala um og skilja hinar ýmsu tilfinningar, hvort sem þær eru erfiðar, skrítnar eða skemmtilegar.
Höfundar bókarinnar eru rit-og myndhöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir og leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Hér taka þau höndum saman í gullfallegri sögu fyrir lítil börn með stórar tilfinningar.
07.02.2025 kl. 21:00 - Bókasafn Kópavogs
Seiðandi ensk þjóðlög hljóma á þessum síðkvöldstónleikum á Safnanótt í túlkun hins einstaka tónlistarmanns Chris Foster. Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.Chris Foster er frá enskur þjóðlagasöngvari og gítarleikari sem hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 2004. Hann telst brautryðjenda á sviði enskrar þjóðlagatónlistar þar sem hann setur gömul ensk þjóðlög í nútímalegan búning með sérstæðum, frumlegum gítarleik og hrífandi söngtúlkun.Chris Foster hefur gefið út sjö sólóplötur og leikið með öðrum listamönnum inn á fjölmargar plötur. Hann hefur komið fram á tónleikum víðs vegar um heiminn, í Bandaríkjunum, í Kína, í Bretlandseyjum sem og á meginlandi Evrópu. Frá árinu 2001 hefur hann verið liðsmaður í þjóðlagadúóinu Funa ásamt Báru Grímsdóttur en dúóið hefur gefið út fjórar plötur, komið fram á tónleikum, hátíðum, í útvarpi og haldið námskeið í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína.
Tónleikar Chris fara fram á annarri hæð bókasafnsins og eru hluti af Safnanótt í Kópavogi sem er styrkt af menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.
Tónleikanir er hluti af verkefninu Bókasafnið í fjölmenningarlegu samfélagi en það er styrkt af Bókasafnasjóði og Nordplus.
https://open.spotify.com/album/7v3fZQBEOj8NhfjmMgh3MU?si=eixY63_1RV6W--im1pmb6Q
Aðgangur er ókeypis og öll innilega velkomin.
07.02.2025 kl. 19:30 - Salurinn
Kristofer Rodríguez Svönuson, bæjarlistamaður Kópavogs, kynnir glænýja tónlist undir nafninu Watachico á stórtónleikum í Salnum á Safnanótt.
Í tónlist sinni kannar Kristofer tónlistarhefðir Suður-Ameríku á sinn persónulega máta og bræðir inn í hljóðheim sinn. Útkoman er slagverksdrifin spunatónlist sem þræðir línuna á milli síkadelískrar latíntónlistar og sálma.
Með Kristofer kemur fram stórskotalið tónlistarfólks, þau Birgir Steinn Theodórsson, Daði Birgisson, Daníel Helgason, Ingibjörg Turchi, Matthías Hemstock, Örn Elías Guðmundsson (Mugison), Rósa Guðrún Sveinsdóttir, Samúel J. Samúelsson, Sölvi Kolbeinsson og Tumi Torfason.
Hljómsveitin mun flytja nýjustu verk Kristofers ásamt lögum af fyrstu plötu hans, Primo, sem tilnefnd var til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2020.
Ókeypis er á tónleikana og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.**
Tónleikarnir hefjast kl 20 en frá því um klukkan 19:30 mun hljómsveitin Nola Copa flytja útsetningar Össurar Geirssonar á sveiflutónlist frá New Orleans.
Sveitina skipa Arnar Leví Baldvinsson, Bríet Helga Hjartardóttir Ísberg, Egill Orri Ormarsson Líndal, Hildur Bella Rafnsdóttir, Ísak Trausti Ingólfsson Lehmann, Margrét Kristín Kristinsdótir, Rúnar Páll Árnason og Þóra Sif Óskarsdóttir.
***
Kristofer Rodríguez Svönuson er slagverksleikari og tónskáld af íslenskum og kólumbískum uppruna. Hann er fæddur árið 1988 og ólst upp í Kópavogi þar sem hann býr enn í dag. Árið 2014 útskrifaðist Kristofer úr FÍH. Fyrir hönd skólans tók hann þátt í ýmsum verkefnum bæði innanlands og erlendis og ber þar helst að nefna þáttöku í Young Nordic Jazz Comets með hljómsveitinni Two Beat Dogs og verðlaun á Nótunni 2013 með hljómsveitinni Gaukshreiðrið.
Kristofer lagði stund á slagverksnám á Kúbu undir leiðsögn David Lopez og í Kolumbíu undir leiðsögn Fabio Ortiz sem er af mörgum talinn fremsti slagverksleikari Suður-Ameríku um þessar mundir.
Kristofer hefur starfað með mörgu af helsta tónlistarfólki Íslands í jazz, heimstónlist og poppi og ber þar helst að nefna Mugison, KK, Hjálma, Cell7, Júníus Meyvant, Los Bomboneros, Lay Low, Tómas R. Einarsson, Stuðmenn, Sunnu Gunnlaugsdóttur, Skuggamyndir frá Býsans, Ragnheiði Gröndal, SJS Big Band, Sigríði Thorlacius, Berndsen, Kristjönu Stefánsdóttur, Stórsveit Reykjavíkur, Kiru Kiru, Ingibjörgu Turchi og Soffíu Björg.Kristofer hefur einnig spilað með tónlistarfólki og tónskáldum á borð við Jack Steadman (Bombay Bicycle Club) og Nighmares On Wax.
Kristofer hefur samið og gefið út tónlist, einn og með öðru samferðarfólki sínu. Árið 2019 gaf hann út síma fyrstu plötu, Primo, sem gefin var út af Lucky Records og var platan tilnefnd sem plata ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum. Um þessar mundir er Kristofer að vinna að nýrri plötu.
Tónleikarnir eru hluti af Safnanótt í Kópavogi sem styrkt er af Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.
https://open.spotify.com/album/0ht8S3eHEy9UwhQVBaZ8T1?si=-oTYcPaPS5iGpX3l9yeVUQ
07.02.2025 kl. 18:00 - Menning í Kópavogi
Ó-ljós er nýtt verk eftir Styrmi Örn Guðmundsson sem sýnt verður á Safnanótt í Kópavogi 2025.
Í verkinu gerir listamaðurinn tilraunir með teikningu og fleiri miðla svo til verða hreyfanleg vídeómálverk. Gömul og ný tákn gegna hlutverki og huglægar skírskotanir í trú, trúleysi og manngildi koma við sögu.
Verkinu verður varpað á Kópavogskirkju föstudaginn 7. febrúar og laugardaginn 8. febrúar frá 18 - 24, bæði kvöldin.
---
Styrmir Örn Guðmundsson (f. 1984) er sögumaður, dansari, söngvari og myndskreytari. Hann hrífst af hinu fjarstæðukennda, en með því er frekar átt við milda og kærleiksríka afstöðu en þráhyggju fyrir hinu fáránlega. Hann ber umhyggju fyrir hinu fjarstæðukennda. Hann aðstoðar það við að þróast. Hann gefur því pláss meðfram öllu öðru, þar sem það getur tekið form hins óþolandi nágranna eða þíns besta vinar.
---
Um árabil hefur Kópavogsbær kallað eftir nýju ljóslistaverki sem varpað er á Kópavogskirkju á Safnanótt en kirkjan er helsta kennileiti bæjarins og sést víða að. Á meðal listamanna sem unnið hafa verk fyrir Kópavogskirkju á Safnanótt eru Dodda Maggý, Eygló Harðardóttir, Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Þóranna Björnsdóttir.
Viðburðamynd: Stilla úr vídeói í vinnslu eftir Styrmi Örn Guðmundsson.
Viðburðurinn er liður í dagskrá Safnanætur í Kópavogi sem styrkt er af Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.
07.02.2025 kl. 18:00 - Gerðarsafn
Það verður opið á Krónikunni í Gerðarsafni á Safnanótt fram eftir kvöldi þar sem hægt verður að fá sér ljúffengar veitingar og drykki. Frá 18:00 til 21:00 mun DJ Ívar Pétur úr FM Belfast spila lög frá flestum heimshornum í huggulegri og létt-dillandi stemmningu. Fjölbreytt dagskrá verður í boði á Safnanótt í Gerðarsafni.
Klukkan 19 bjóða Dýrfinna Benita og Sadie upp á listamannaleiðsögn um verk sín á sýningunni Stara.
Klukkan 21 hefst opnunarkvöld gjörningafestivals Gerðarsafns og Hamraborg Festivals. Viðburðurinn er sá fyrsti í gjörningafestivali sem teygir sig yfir allt árið 2025. Þau sem koma fram á þessu fyrsta kvöldi eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Curro Rodriguez, Hrefna Lind Lárusdóttir og Tara & Silla.
Ókeypis er á sýningar í Gerðarsafni á Safnanótt, föstudaginn 7. febrúar á milli 18 og 23. Sýningin Stara stendur nú yfir á efri hæð safnsins en þar sýna Adele Hyry, Dýrfinna Benita Basalan, Jenny Rova, JH Engström, Jói Kjartans, Kristinn G. Harðarson, Michael Richardt og Sadie Cook. Á neðri hæð stendur yfir grunnsýning á verkum Gerðar Helgadóttur.
Sjáumst á Safnanótt.
07.02.2025 kl. 22:00 - Bókasafn Kópavogs
Eva Rún Snorradóttir og Halla Þórlaug Óskarsdóttir eru rithöfundar, listakonur og listrænir stjórnendur bókmenntahátíðarinnar Queer Situations sem fram fór í fyrsta sinn sumarið 2024 í Salnum í Kópavogi og vakti mikla athygli. Queer Situations er helguð hinsegin bókmenntum í víðu samhengi, bókum höfunda sem skilgreina sig sem hinsegin en einnig bókmenntum sem falla út fyrir meginstrauminn.
Á Safnanótt bjóða þær Eva Rún og Halla Þórlaug til kvöldstundar á Bókasafni Kópavogs þar sem þær lesa brot úr eigin verkum, útgefnum og í vinnslu auk þess sem þær fjalla um og lesa úr nokkrum af eftirlætis hinsegin bókmenntum. Aðgangur er ókeypis og öll innilega velkomin.
Eva Rún Snorradóttir er sjálfstætt starfandi sviðslistakona, leikskáld og ljóðskáld. Hún hefur um árabil starfað með sviðslistahópunum Kviss búmm bang og 16 elskendur. Eva Rún hefur sent frá sér ljóðabækurnar Heimsendir fylgir þér alla ævi, Tappi á himninum og Fræ sem frjóvga myrkrið sem og sagnasveiginn Óskilamunir. Árið 2019 hlaut hún ljóðaverðlaunin Maístjarnan fyrir bókina Fræ sem frjóvga myrkrið. Árið 2020 var hún valin sem leikskáld Borgarleikhússins þar sem hún vann að verkinu Góða ferð inn í gömul sár sem frumsýnt var í febrúar 2023. Fyrsta skáldsaga Evu Rúnar, Eldri konur kom út 2024 og er tilnefnd til Fjöruverðlaunanna.
Halla Þórlaug Óskarsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í myndlist árið 2012 og MA gráðu í ritlist við Háskóla Íslands árið 2014. Hún hefur unnið sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1, stýrt menningarþáttunum Víðsjá, Tengivagninum og Bók vikunnar, auk þess að sinna umfjöllun um barna- og unglingabækur í þættinum Orð um bækur. Hún sendi árið 2020 frá sér ljóðsöguna Þagnarbindindi sem hún hlaut ljóðaverðlaunin Maístjarnan fyrir.
Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar styrkir Safnanótt í Kópavogi.
07.02.2025 kl. 20:00 - Bókasafn Kópavogs
Gunni Helga les uppáhaldskaflana sína úr eigin bókum auk þess sem hann þarf hjálp krakkanna við að finna nafn á bókina sem hann er að skrifa.
07.02.2025 kl. 19:00 - Gerðarsafn
Verið velkomin á leiðsögn með Dýrfinnu Benitu Basalan og Sadie Cook um verk þeirra á sýningunni Störu á Safnanótt 7. febrúar kl. 19:00 í Gerðarsafni.
Dýrfinna Benita Basalan (f.1992) er myndlistarkona, fædd og uppalin á Íslandi, með rætur að rekja til Filippseyja. Hún kláraði BA nám í myndlist og hönnun í Gerrit Rietveld Academie, Amsterdamárið 2018. Dýrfinna hefur starfað sjálfstætt á sviði myndlistar síðan, auk þess að vinna með listahópnum Lucky 3, sem hún stofnaði árið 2019 ásamt Melanie Ubaldo og Darren Mark. Árið 2022 hlaut hópurinn Hvatningarverðlaun Myndlistarráðs fyrir gjörninginn PUTI, sem var upprunalega framkvæmdur á Sequences 2021 í OPEN. Dýrfinna vinnur með fjölbreytta miðla, þar á meðal blýantsteikningu, innsetningar og stálskúlptúra. Umfangsefni hennar skoða fáránleika í samfélaginu á tímum post-kapítalismans þar sem sönn verðmæti eru gjörn á að glatast, eins og viska, heilsa og auðlindir. Hún dregur innblástur frá sínum persónulegum upplifunum og samskiptum við umheiminn, sem eiga það til að vekja upp blendnar tilfinningar.
Sadie Cook (f.1997) er listakvár frá Bandaríkjunum sem býr og starfar á Íslandi. Hán skapar verk sem liggja á mótum ljósmyndunar og innsetninga og snúast um snertingu, löngun, áföll og ummerki. Verk háns hafa verið birt og sýnd bæði á hér á landi og alþjóðlega. Síðar á árinu mun hán ásamt samstarfskvári sínu Jo Pawlowska sýna verk á einkasýningu í D-sal ListasafnsReykjavíkur. Sadie á verk í bókum sem varðveittar eru af MOMA, Tate, og Met söfnunum. Hán útskrifaðist frá Yale, hlaut Fulbright styrk og hefur verið gestafyrirlesari við Yale, Harvard, ogNYU. Sadie býr í Reykjavík með maka sínum Diljá Þorvaldsdóttur, rekur Gallery Kannski við Lindargötu í Reykjavík og er stjórnarmaður hjá Nýlistasafninu.
07.02.2025 kl. 20:00 - Bókasafn Kópavogs
Í þessari spennandi ungmennasmiðju á Safnanótt fá þátttakendur tækifæri til að umbreyta flíkum í samræmi við hefðir Asante fólksins í Gana.
Adinkra táknin eiga sér langa sögu innan ganískrar menningar. Þau eru oft notuð til að skreyta hluti eins og skartgripi, leirmuni og fatnað en hvert tákn ber sína merkingu.
HVAÐ Á AÐ KOMA MEÐ:
Komdu með eigin flík, til dæmis langerma eða stuttermabol, til að skreyta með Adinkra táknum að eigin vali! Allt annað efni verður á staðnum.
NÁNARI UPPLÝSINGAR:
-Smiðjan er fyrir ungmenni en öll eru velkomin á meðan húsrúm leyfir.-Engrar reynslu krafist.-Kíktu við hvenær sem er á milli 20 - 22 og vertu eins lengi og þú vilt.-Smiðjan fer fram á ensku.- Smiðjan fer fram á þriðju hæð bókasafnsins í Huldustofu.- Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin!
LEIÐBEINANDIAhmed Fuseini er listamaður frá Ghana sem er búsettur á Íslandi þar sem hann stundar mastersnám í alþjóðlegum fræðum við Háskóla Íslands. Hann hlaut þjálfun í Adinkra list frá unga aldri.
***
Adinkra - African/Ghanaian Symbols
Join us for a unique multicultural workshop celebrating African/Ghanaian culture through the Adinkra symbols!
In this exciting hands-on workshop, participants will have the chance to print beautiful Adinkra (farewell) symbols on fabric following the tradition of the Asante people of Ghana. Adinkra symbols are deeply meaningful, often used as ornaments on prestigious objects like jewelry, pottery, and clothing, each symbol carrying its own story and significance.
WHAT TO BRING:Bring your own shirts to decorate with Adinkra symbols of your choice! All other materials will be provided.
DETAILS:-No prior art experience required.-Drop by anytime between 20 - 22 PM and stay as long as you like.-The workshop will be conducted in English.
INSTRUCTOR:Ahmed Fuseini, a Ghanaian artist currently based in Iceland, trained in the art of Adinkra from a young age. He is also pursuing an MA in Global Studies at the University of Iceland.
Free Event - Everyone Welcome!
07.02.2025 kl. 18:00 - Bókasafn Kópavogs
Fjörugasti og fjölskylduvænasti skemmtistaðurinn verður opinn á Bókasafni Kópavogs á Safnanótt þar sem fjölskyldur og vinahópar koma saman til að hafa gaman og syngja karókí.
Á staðnum verður:-Karókí-Poppvél-Myndakassi-Diskóljós
Ekki missa af sannkallaðri partýstemningu fyrir alla fjölskylduna.
Öll velkomin - jafnt ungir sem aldnir.
Viðburðurinn verður haldinn í Tilraunastofunni á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs.
Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar styrkir Safnanótt í Kópavogi.
07.02.2025 kl. 19:00 - Náttúrufræðistofa Kópavogs
Veist þú hvað hrafn, rjúpa, snjótittlingur og æðarfugl eiga sameiginlegt? En tjaldur, lóa, kría, æðarfugl og sandlóa?
Á safnanótt mun Sölvi Rúnar Vignisson líffræðingur fræða börn um fugla, ferðalög sumra og kyrrsetu annarra. Af rúmlega 80 tegundum fugla sem teljast íslenskar er stærstur hluti þeirra farfuglar, þó eru einnig tegundir sem þreyja veturinn hér ár eftir ár. Hvernig stendur á því að sumir kjósa að fara á meðan aðrir halda kyrru fyrir?
Gestir geta svo tekið þátt í laufléttum spurningaleik og þeir sem skila inn spurningunum eiga möguleika á því að vinna Fuglaspilið eftir Hespu.
Sölvi er brunnur þekkingar þegar kemur að farkerfum fugla og hafa þær verið viðfangsefni rannsókna hans síðustu ár.
Viðburðurinn fer fram í anddyri Náttúrufræðistofu Kópavogs og er tilvalin fjölskyldustund fyrir börn og fullorðna 6 ára og uppúr!
Aðgangur er ókeypis!
Öll hjartanlega velkomin!
Safnanótt er styrkt er af Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.
07.02.2025 kl. 18:00 - Bókasafn Kópavogs
Komdu og búðu þér til grímu á Safnanótt!
Boðið verður uppá grímuföndur fyrir alla aldurshópa, glimmerlím, fjaðrir og alla heimsins liti svo þú skartir þínu fegursta á Safnanótt.
Föndrið verður á 1. hæð, Bókasafnsins og Náttúrufræðistofu.Allur efniviður og leiðbeiningar á borðnum á staðnum.
Aðgangur er ókeypis!
Öll hjartanlega velkomin!
Viðburðurinn er liður í dagskrá Safnanætur í Kópavogi sem styrkt er af Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.