Skúlptúrinn má snerta og sitja á
Tveir glænýir skúlptúrar prýða nú Hálsatorgið í Hamraborg. Hægt er að virða þá fyrir sér úr fjarlægð en þá má líka snerta og sitja á. Skúlptúrarnir eru bekkir gerðir úr byggingarúrgangi ýmis staðar frá í Kópavogi.

Listamennirnir að baki skúlptúrnum eru þeir Arnar Skarphéðinsson, Kári Arnarsson og Kjartan Thors. Kári og Arnar eru arkitektar en Kjartan er vöruhönnuður. Verkefnið unnu þeir í Skapandi Sumarstörfum í Kópavogi en gáfu bænum lokaafurð sína, bekkina tvo, svo bæjarbúar gætu notið afraksturins.

Félagarnir vildu blása nýju lífi í byggingarúrgang sem annars myndi enda í urðun. “Við erum búnir að fá að gramsa í ýmsum geymslum hér og þar í Kópavogi og þessi aðferðafræði er náttúrulega bráðnausynleg í dag” segir Kjartan Thors en honum er hringrásarhagkerfið einkar hugleikið. Með verkefninu vilja þeir sýna hvernig hægt sé að sporna við auðlindasóun og skapa eitthvað nýtt og spennandi í leiðinni.

Ásamt því að smíða bekkina tvo unnu strákarnir að skráningarkerfi fyrir úrgangsefnivið sem þeir kalla Hringskrá. Hringskrá er bæði aðferðafræði og stafrænt skráningarkerfi sem á að styðja við skráningu og hönnun efniviðs sem skal endurnýta. Markmið Hringskránnar er að búa til kerfisbundna lausn fyrir innleiðingu fyrirliggjandi efniviðs í hringrásarhagkerfið.
Listamennirnir þrír nýttu sér Hringskrána þegar kom að hönnun bekkjanna en skráningarkerfið gerði þeim kleift að teikna upp stafræn þrívíddarlíkön áður en haldið var af stað í smíðavinnu.

Skúlptúrarnir eru skemmtileg viðbót í Hamraborgina. Gestum og gangandi er velkomið að tylla sér á bekkina á Háslatorgi.
