„Kópavogur er örlagastaður í mínu lífi. Ég er fæddur á Vesturgötu 38 í Reykjavík og var gallharður Vesturbæingur og KR-ingur út í gegn, eða allt þar til ég heillaðist af Kópavogsmærinni Sigrúnu Ingólfsdóttur árið 1970. Í upphafi okkar ástarsambands sömdum við um að búa í Kópavogi á meðan börnin sem við ætluðum að eiga yxu úr grasi og flytja svo yfir í Vesturbæinn þegar við værum orðin ein á ný. En þegar að því kom var ég orðinn svo mikill Kópavogsbúi að ég spurði Sigrúnu hvort við ættum ekki frekar að flytja bara í vesturbæ Kópavogs í staðinn, út í Kárnes. Krakkarnir okkar höfðu jú öll gengið í skóla hér og stundað sínar íþróttir, og þótt ég hafi alltaf haft stórt KR-hjarta hef ég miklar taugar til Breiðabliks og get ekki annað eftir að hafa fylgt börnunum mínum eftir þar í áranna rás.“

„Þótt ég hafi alltaf haft stórt KR-hjarta hef ég miklar taugar til Breiðabliks og get ekki annað eftir að hafa fylgt börnunum mínum eftir þar í áranna rás.“

Þetta segir Einar Bollason, landsþekkt körfuboltagoðsögn, hestamaður, kennari og athafnamaður. Hann er Kóp Boi, eins og Herra Hnetusmjör kallar það; stoltur Kópavogsbúi, en er þó alls ekki heima í Kópavogi eins og stendur heldur í Flórída þar sem hann ver allt að þremur mánuðum á ári í sól og sumaryl.

„Okkur hjónunum líkar vel að vera í Flórída og reynum að fara einu sinni á vetri til að slappa af og hafa það huggulegt. Hér er sól og hiti og hægt að fylgjast með NBA-körfuboltanum. Ég fer ekki lengur á NBA-leiki, ég hef séð þá svo marga, en ég fylgist með í sjónvarpinu. Þetta er yndislegt líf. Við erum dugleg að hreyfa okkur, syndum alla daga, förum í ræktina fjórum sinnum í viku og löbbum eftir St. Pete-ströndinni við Mexíkóflóann. Við komum því alltaf heim í betra formi en þegar við fórum út. Þetta er mikið ævintýri, við erum í hálftíma akstursfjarlægð sunnan við Orlando, rétt við Disney-garðana og fylgjumst með flugeldasýningum þeirra öll kvöld.“

Stúlkan sem fór í minnisbók heilans

Það var ástin sem dró Einar í Kópavog. „Það er nú efni í smá ástarsögu,” segir Einar leyndardómsfullur. Hann er fjórum árum eldri en Sigrún. „Ég sá hana fyrst á Norðurlandamótinu í handbolta árið 1964. Í þá daga var ekki til löglegt íþróttahús til að halda svo stóra keppni á Íslandi en Íslendingar fengu í staðinn að halda mótið utanhúss. Við fórum því vinirnir, sem voru allir í handbolta, fótbolta eða körfubolta, til að horfa á landsliðið spila alla þessa leiki, en Sigrún var mikil handboltastjarna úr Breiðabliki og í landsliðinu á þessu móti. Okkur strákunum þótti æðislega gaman að fylgjast með þessu móti og þar sá ég Sigrúnu fyrst, þessa útiteknu og sætu sextán ára snót, en þá var ég í þann mund að kvænast annarri sem ég var með. Ég gleymdi þó aldrei þessari fallegu handboltastúlku sem mér fannst auðvitað vera hálfgerður krakki, en hún fór í minnisbókina í heilanum og gleymdist mér eigi,“ segir Einar einlægur.

Fimm árum síðar sá hann Sigrúnu aftur inni á skemmtistað, þá skilinn við konu sína.

„Þar sat hún við hlið vinkonu sinnar og ég bauð henni upp í dans. Hún þóttist ekki sjá mig en ég gaf mig ekkert, sko. Þar með var ekki til baka snúið og höfuð við nú verið saman í 55 ár. Við vorum bæði á fullu að spila með okkar félagsliðum og landsliðum og vorum samferða á æfingar. Búskapinn hófum við í einu herbergi í Vogatungu þar sem foreldrar hennar voru að byggja sér hús og þurftum stundum eftir æfingar að styðja hvort annað upp bráðabirgðastiga, og þetta var allt yndislegt,“ segir Einar sem vitaskuld heldur enn með Val í handbolta, félaginu sem Sigrún spilaði hvað lengst með, og Sigrún heldur með KR í körfubolta.

„Það skiptir máli því við komum bæði úr þessum íþróttaheimi og höfum alltaf verið samstíga. Við erum bæði alætur á íþróttir og þótt við mætum ekki lengur á völlinn njótum við þess að fylgjast með. Það skiptir máli að hjón eigi sér lík áhugamál, og þegar Sigrún kom með mér í hestana hafði hún aðeins tvisvar farið á bak á meðan ég hafði verið í sveit á Mýrum í Villingaholtshreppi öll sumur til fjórtán ára aldurs. Hún hafði þetta bara í sér og er mikil tilfinningavera, sem skiptir máli ef maður ætlar að ná sambandi við dýr. Það var eins og hún hefði aldrei gert annað en að vera á hesti.“

Frumherjahugsun og sveitarómantík

Sigrún var þriggja ára þegar hún flutti í Kópavog en þá voru íbúarnir um 2000 talsins. „Svo þegar ég flyt í bæinn upp úr 1970 er hafin þessi rosalega uppbygging sem var alveg sérstakt að upplifa. Þá var Kópavogur svolítið sveitó og með malargötur. Ég var með Vinnuskóla Kópavogs sem sumarvinnu þegar verið var að búa til götur og malbika og þurfti þá að grafa upp gamlar skólpleiðslur og vatnslagnir og ekki til teikningar. Þá þurfti að ná í gamla verkstjóra sem voru hættir að vinna því þeir gátu stikað út hvar gamlir brunnar og lagnir voru. Allt var það meira og minna unnið eftir minni því Kópavogur byggðist upp á gömlum sumarbústaða- og garðlöndum og kom stóra skipulagið seinna,“ segir Einar.

Hann minnist gamallar tíðar með hlýju og segir Kópavogsbúa gott fólk.

„Ég held því hiklaust fram að Kópavogsbúar séu mjög stoltir af því að búa í Kópavogi. Það á sannarlega við um mig.“

„Þegar ég flutti í Kópavoginn var svolítið gaman að eldri íbúunum sem eru nú farnir yfir móðuna miklu. Það var svo mikill frumherjahugur í þeim, menn voru að berjast við að byggja sín hús og oft af litlum efnum. Menn þekktust líka innanbæjar eins og í minni bæjarfélögum á landinu en nú er bærinn orðinn svo stór. Þó eimir enn af þessu og ég held því hiklaust fram að Kópavogsbúar séu mjög stoltir af því að búa í Kópavogi. Það á sannarlega við um mig.“

Þoldi engan slóðaskap

Einar starfaði sem kennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði í tuttugu ár og leysti einnig af sem skólastjóri við Þinghólsskóla. „Ég kenndi dönsku því amma var með danska vinnukonu og töluverð danska töluð á mínu heimili. Tungumál liggja vel fyrir mér og ég varð snemma góður í dönsku, en tungumálamanninum leiddist stærðfræði og eðlisfræði,“ segir Einar sem naut þess að kenna.

„Mér þótti rosalega gaman að kenna og þótt launin hafi ekki verið há var kennslan mjög gefandi. Mér hefur alltaf verið annt um börn og ungmenni, og það var gaman að kynnast öllu því frábæra fólki sem starfaði með mér. Líka í Vinnuskólanum sem okkur tókst að gjörbreyta í hugum fólks þegar kom að unglingavinnu. Þar ber að þakka bæjaryfirvöldum sem studdu okkur með alvöru verkefnum og gerðu okkur kleyft að vinna í minni flokkum. Þá kynntist maður svo vel bænum sem var í mikilli uppbyggingu,“ segir Einar sem fylgist enn með skólastarfi í landinu.

„Ég hef dálitlar áhyggjur af agaleysi í skólum í dag. Betur má ef duga skal. Ég var þekktur fyrir að leggja áherslu á að láta mína nemendur læra og þoldi engan slóðaskap. Vinir mínir sem enn eru að kenna segja að ef ég kenndi í dag með þeim aðferðum og ákefð sem ég beitti til að fá mína nemendur til að læra yrði sennilega búið að reka mig innan viku og kæra mig fyrir Fræðsluráði, því það má víst ekkert í dag. Þarna úti eru frábærir kennarara en þetta er orðið skuggalegt, eins og góður vinur sem kenndi í áratugi í Snælandsskóla og var hættur að þora einn inn í stofu til að eiga alvarlegt samtal við nemenda. Maður heyrir sögur þar sem kennari ávítir nemenda fyrir að hafa ekki skilað ritgerð og þá tekur nemandinn upp símann og hringir í lögfræðinginn pabba sinn og spyr: Viltu segja eitthvað meira við mig?,“ segir Einar alvarlegur í bragði.

Hann tekur fram að Kópavogur geti verið stolt af sínum menntastofnunum.

„Við höfum verið heppin með kennara og skólastjóra og hér er mikill metnaður fyrir skólastarfinu. Ég vona að ég hafi skilið eftir spor sem skiptu máli og gamlir nemendur mínir skipta þúsundum. Mér er minnisstætt þegar við breyttum gagnfræðaskólanum og Flensborg í framhaldsskóla en okkar fyrstu stúdentar urðu einmitt sjötugir á þessu ári. Þar á meðal hvorki meira né minna en þrír bæjarstjórar; Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrum ráðherra og bæjarstjóri í Hafnarfirði, Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðarbæ í árafjöld og Tryggvi Harðarson sem var bæjarstjóri á Seyðisfirði. Ég hef hingað til ekki fundið mikið fyrir því að vera að eldast og brá því pínulítið í brún þegar ég áttaði mig á því að gamlir nemendur mínir væru komnir á áttræðisaldurinn,“ segir Einar og skellir upp úr.

Þótti gamall að keppa 34 ára

Körfuboltaferill Einars er glæstur. Hann var bæði landsliðsmaður og landsliðsþjálfari Íslands, formaður KKÍ, starfaði við fjölmiðla tengt körfuboltanum og vann ótal titla með sínum liðum, svo fátt sé upptalið. „Ég fór á mína fyrstu körfuboltaæfingu fimmtán ára og fann strax hvað karfan átti vel við mig. Það sem stendur upp úr körfuboltaferlinum er fyrsti Íslandsmeistaratitillinn 1965. Þá vorum við KR-ingar búnir að byggja upp nýja körfuboltadeild innan KR og kepptum við ÍR sem var algjört stórveldi á þeim tíma. Loks tókst okkur að rjúfa múrinn og verða Íslandsmeistarar, og urðum það fjögur ár í röð,“ rifjar Einar upp með stolti.

Fyrsta landsleikinn segir Einar líka ógleymanlegan sem og kveðjuleikinn á ferlinum. „Þá kepptum við auka úrslitaleik við Val í uppseldri Laugardalshöllinni og unnum hörkuleik með tveimur stigum. Ég var orðinn 34 ára og sló gamalt met Ríkarðs Jónssonar knattspyrnumanns frá Akranesi um nokkrar vikur að vera svona gamall að spila. Að hugsa sér að í dag eru menn að spila fram undir fertugt og sem dæmi er Ronaldo 41 árs og enn í fullu fjöri á fótboltavellinum, en þarna þekktist þetta ekki.“

Gott að verða gamall í Kópavogi

Einar er 82 ára; ern, hraustur og kröftugur. „Auðvitað finnur maður fyrir því að vera að eldast og íþróttirnar tóku sinn toll. Við Sigrún berum þess merki að hafa verið lengi í íþróttum. Hún er komin með tvær nýjar mjaðmir og ég með tvö gervihné, sem tókst vel. Axlirnar á báðum eru hálf lélegar en ef þú spyrð hvort við sjáum eftir því að hafa verið svona lengi í íþróttum og lemstruð eftir það, þá myndum við ekki hika við að gera það allt aftur.“

Í dag nýtur Einar þess að sjá barnabörnin í íþróttum.

„Maður fær heilmikið út úr því því það er bara svo hollt að stunda íþróttir og félagsskapurinn er þannig að maður er óhræddari um börnin í íþróttum. Mér finnst þau að mörgu leyti vera í verndaðra umhverfi og maður getur verið sáttur við það.“

Einar segir gott að eldast í Kópavogi.

„Hér er mikið gert fyrir gamla fólkið og ég efast um að annað bæjarfélag á landinu hafi gert jafn mikið í menningar- og íþróttamálum fyrir íbúa sína.“

„Hér er mikið gert fyrir gamla fólkið og ég efast um að annað bæjarfélag á landinu hafi gert jafn mikið í menningar- og íþróttamálum fyrir íbúa sína. Félagsmiðstöðvarnar eru frábærar, hjúkrunarheimilin, heilsueflingin Virkni og vellíðan, og sundlaugarnar eru til fyrirmyndar. Ég fer á hverjum morgni í sund í okkar yndislegu Kópavogslaug og finnst synd að fleira eldra fólk nýti sér ekki þá stórkostlegu heilsulind sem sundlaugarnar okkar eru. Það er þó að aukast með Virkni og vellíðan og stórkostlegt að sjá eldra fólkið koma í auknum mæli til að hreyfa sig. Hreyfing skiptir öllu máli til að halda heilsu fram á gamals ár.“

Þau hjónin búa á einum af uppáhalds stöðum Einars í Kópavogi.

„Við vorum svo heppin að komast inn í blokk fyrir 55 ára og eldri í Kópavogsgerði sem er neðsta blokkin við hliðina á gamla Kópavogshælinu. Meðfram sjónum, sjálfum Kópavognum, er stórkostlegur göngustígur og mikil fegurð. Ég held mikið upp á Kópavogsdalinn og Suðurhlíðarnar. Þar höfum við alltaf búið og það finnst mér dálítill munur því þar er sólin og veðursældin.“

Gaman að láta gott af sér leiða

Einar hefur verið virkur í ýmiss konar félagsstarfi, þar á meðal Lionsklúbbi Kópavogs frá því um 1980. „Þar eru frábærir menn innanborðs í afskaplega gefandi félagsskap. Við höfum verið duglegir að byggja upp alls konar í Kópavogi, styrkt Rjóðrið mikið, innréttuðum stóran og glæsilegan sal, og tókum að okkur að byggja upp Kópavogsbýlið í samvinnu við bæinn og Byko sem hefur styrkt okkur rausnarlega í gegnum árin. Lionsklúbbur Kópavogs er einn sá stærsti á landinu því endurnýjunin er stöðug og yngri menn að koma inn. Endurnýjun er víða vandamál og ég held að menn þurfi að leggja vinnu í það að yngja upp í klúbbunum og þegar nýir menn koma inn að vera fljótir að láta þá hafa alvöru hlutverk þannig að þeir finni að þeir séu velkomnir. Það er enda eftirsóknarvert að vera í Lions, gaman að geta látið gott af sér leiða og eignast vandaða og góða félaga.“

Græddi hálfan sentimetra

Einar er sestur í helgan stein. „Já, en maður fylgist með og þykist hafa skoðun á öllu. Maður reynir að róa sig með árunum. Ég hef alltaf verið stórhuga og það var nóg að gera hér áður fyrr en maður er óskaplega þakklátur fyrir margt í þessu lífi og stoltur af því hvernig við byggðum upp Íshesta á sínum tíma. Þá komu um 200 þúsund ferðamenn til landsins en nú koma milljónir manns,“ segir Einar um ferðaskrifstofuna og hestaferðafyrirtækið Íshesta sem þau hjónin stofnuðu árið 1982 en fyrirtækið seldu þau árið 2012.

„Í dag er ég alveg hættur að fara á bak. Við höfum þvælst um allt land á hestum í áratugi og söknum þess vissulega en ákváðum að tími væri kominn til að hætta eftir seinni hnéaðgerðina 2018. Hér í Kópavogi riðum við upp í Fák og auðvitað Flóttamannaveginn sem enginn getur farið lengur því búið er að loka honum fyrir hestaumferð, en það var skemmtileg reiðleið innan Kópavogs.“

Hann lítur sáttur um öxl.

„Ég myndi segja að draumar mínir hafi ræst. Auðvitað hafa skipst á skin og skúrir, eins og allir lenda í, en ég hef þá skoðun að hafi maður dug til að berjast gegn mótlætinu kemur maður svo mikið sterkari út. Það er mér efst í huga, sem og börnin og barnabörnin, svo ég tali nú ekki um heilsuna og hvað margir af mínum vinum eru horfnir. Þá þakkar maður Guði fyrir,“ segir hann hnarreistur.

Hæðin spilaði stóra rullu í því að Einar fór í körfuna.

„Fullvaxinn var ég 196 sentimetra hár en svo varð ég 195 sentimetrar og nú er ég 196 og hálfur. Þetta þótti mér dularfullt því maður á að minnka með aldrinum og spurði lækni út í þetta. Hann sagði ástæðuna geta legið í stálinu sem sett var í hnéð og þar græddi ég hálfan til heilan sentimetra!“, segir hann og hlær.

Syngja saman Heims um ból

Framundan eru jól vestanhafs. „Við héldum okkar fyrstu jól í Flórída 1990. Fyrst um sinn vorum við önnur hver jól heima, en nú erum við oftast hér úti um jól sem er voða huggulegt. Aðfangadagur er ekki haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum og þá förum við út að borða en jóladagur er aðal dagurinn vestra og þá eldum við kalkún á ameríska vísu,“ segir Einar og hlakkar til.

Þau Sigrún eiga fimm uppkomin börn, þar af fjórar dætur og einn son, sextán barnabörn og tvö barnabarnabörn.

„Ég sakna íslenskra jóla ekkert sérstaklega því það eru alltaf íslensk, hátíðleg jól þar sem við erum og nú mæta allir fjölskyldumeðlimirnir til Flórída, þrjátíu talsins. Það verður trúlega einsdæmi og ólíklega leikið eftir. Barnabörnin eru mörg hver í námi erlendis og sum komin með maka, en allir gefa sér tíma til að koma saman um þessi jól, sem er dásamlegt. Sigrún setti sér markmið um að prjóna sokka á öll átján barnabörnin, og víst er að ég get ekki hjálpað henni þar. Vitaskuld tókum við hjónin með okkur nýjustu bækurnar eftir Arnald og Ólaf Jóhann, sem við lesum hér úti um jólin. Á aðfangadagskvöld höfum við fjölskyldan svo til siðs að setjast niður til að hlusta á aftansönginn í útvarpinu, höldumst í hendur og syngjum saman Heims um ból, en það gerum við ekki þegar við erum heima á jólum,“ upplýsir Einar.