„Ég þekki flest tré í Kópavogi með nafni,“ segir Friðrik og hlær. „Ég er nefnilega trjánörd. Og stoltur af því. Uppáhaldsstaðurinn minn í Kópavogi er trjásafnið í Meltungu, austast í Fossvogsdal. Þetta er almenningsgarður, 8 hektarar og þarna er verið að prófa og rannsaka tré og runna.“ Friðrik er borinn og barnfæddur í Kópavoginum, nánar tiltekið á fæðingarheimili sem var starfrækt í stuttan tíma á Hlíðaveginum árið 1960, og alinn upp á Kópavogsbraut 69. „Þar var ekki mikið af trjám þegar ég var að alast upp, en það hefur gjörbreyst og miklu meira skjól núna. En ég var ekkert að velta því fyrir mér því ég var ekki með þennan undarlega áhuga sem barn.“

„Uppáhaldsstaðurinn minn í Kópavogi er trjásafnið í Meltungu, austast í Fossvogsdal. Þetta er almenningsgarður, 8 hektarar og þarna er verið að prófa og rannsaka tré og runna.“

Friðrik er meistari í skrúðgarðyrkju og var ráðinn til Kópavogsbæjar í því skyni að færa Kópavog úr gráu yfir í grænt . „Það var flest mjög óhrjálegt í umhverfinu hér og endalaust hægt að gera til að bæta ef aðstæður voru fyrir hendi. Til að byrja með voru ekki til peningar til að gera neitt en svo breyttust tímar á tíunda áratugnum og allt fór á fullt í uppbyggingu hér í bænum, ný hverfi á nokkurra ára fresti. Ég hef haft aðkomu að því að það verði græn svæði í þessum nýju hverfum.“

Heiðursmannasamkomulag á Kársnesinu

En aftur að uppvextinum. „Þegar ég var að alast upp var ég ekki á leikskóla i og sumarfríin voru löng svo ég hljóp um Kársnesið eftirlitslaust og lék mér í nýbyggingunum og fjörunni. Svo var farið í dagsferðir með nesti þangað sem núna er Salahverfið og Lindahverfið eða í Gálgahraunið út á Álftanesi, allt skemmtilegir ævintýraheimar.“

Það voru stórir árgangar barna á Kársnesinu á þessum árum og mikið um að vera í leikjum alveg fram á kvöld úti á götu. „Við vorum í brennó, lékum Fallin spýta og Einakrónu og Fram fram fylking. Og svo voru líka götubardagar milli ýmissa fylkinga, götur og hlutar af götum sem börðust. Ég hef oft á fullorðinsárum velt fyrir mér hvernig þetta var skipulagt. Allt í einu vissu bara allir að það væri bardagi niðri á Þinghólsbraut og þangað var skundað með spýtur og skildi og farið að skylmast og hörfað og sótt. Og það var ekki verið að berjast um neitt, þetta var bara leikur. Ef einhver meiddist þá var það slys, enginn vildi meiða neinn í alvörunni. Ég man eftir einu sinni að þá mætti einn í hinu liðinu með járnstöng í staðinn fyrir spýtu og það kom kurr í hópinn og hann var rekinn burt. Það var svona heiðursmannasamkomulag. Í minningunni er þetta gaman og spennandi, og fyrst og fremst leikur.“ Þegar bardögum linnti voru nýbyggingar spennandi leiksvæði og síðast en ekki síst fjaran. „Við vorum í fjörunni allan daginn, fórum í nýbyggingarnar að stela efni og búa til báta. Ekki til sigla á heldur var frauðplast í grunninn og plastdúkur fyrir segl. Svo var kjölurinn steinn eða glerflís svo skipið myndi ekki velta og svo var þetta bara sjósett og horft á það fara út á haf. Það var mikil sköpun í þessu.“


 

„Allt í einu vissu bara allir að það væri bardagi niðri á Þinghólsbraut og þangað var skundað með spýtur og skildi og farið að skylmast og hörfað og sótt. Og það var ekki verið að berjast um neitt, þetta var bara leikur.“

Kópavogsbúi sem býr í Reykjavík

Það var alltaf vindur eða næðingur á Kársnesinu á þessum árum í minningunni. „En það hefur gjörbreyst með trjánum, þau bæði veita skjól og hækka hitann.“ Friðrik er samt ekki mótfallinn því að fella tré ef svo ber undir. „Þó maður sé trjánörd verður maður að passa sig að taka þau ekki inn á sig. Stundum þarf að fella tré en þá þarf að vera góð ástæða. Sumir vilja láta fella tré af því þeir sjá ekki Esjuna út um gluggann en það er engin trygging fyrir óbreyttu útsýni árum saman ef fólk býr í borg eða bæ. Tré er ekki alltaf einkamál þeirra sem búa næst því.“

Friðrik viðurkennir að hjarta hans slær með Kópavogi. „Ég er Kópavogsbúi sem býr í Reykjavík. Það er eins og sumir eru alltaf Strandamenn sama hvar þeir búa. Ég er hér fæddur og uppalinn og hér er ævistarfið.“ Og krókurinn beygðist snemma. „Ég man eftir því að þegar ég var svona átta eða níu ára gerði ég minn fyrsta skipulagsuppdrátt og teiknaði fjöruna upp á pappír, helstu kennileiti, grjót, varir og fjörukambinn. Síðan hef ég teiknað ógrynni af lóðum, bæði í Kópavogi og víðar, og má kannski segja að ég beri einhverja ábyrgð á gróðurfari í Kópavogi í nútímanum. Mér finnst gaman að fara á stúfana, skoða garða og opin svæði bæjarins og rifja upp af hverju ég gerði svona eða hinsegin og hvernig það hefur heppnast. Þegar ég fer á eftirlaun langar mig að taka þetta saman og koma þessu frá mér. Ef mér verður leyft að hætta. Ég sé ekki fram á að eftir allan þennan tíma verði ég einn daginn bara búinn og hættur. Ég á ýmislegt eftir.“


Ljósmyndir: Sigríður Rut Marrow