Finnst næstum því fyndið hvað ég er mikill Kópavogsbúi

„Það var æðislegt að alast upp í Vallhólmanum, við krakkarnir í hverfinu gengum næstum sjálfala í Fossvogsdalnum og lékum okkur sólarhringum saman, meðal annars að gefa hestum og renna okkur á skíðum.“

„Það var æðislegt að alast upp í Vallhólmanum, við krakkarnir í hverfinu gengum næstum sjálfala í Fossvogsdalnum og lékum okkur sólarhringum saman, meðal annars að gefa hestum og renna okkur á skíðum.„

Auður æfði samkvæmisdansa í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar til 18 ára aldurs. „Ég man að við vorum fengin til að sýna á Sumardaginn fyrsta á sviði við Kópavogsskóla, úti í kuldanum en það gleymdist strax því þetta var svo gaman.“

Eftir grunnskólann fór Auður að sjálfsögðu í Menntaskólann í Kópavogi. „Það kom bara ekkert annað til greina. Ég er yngst af fjórum systrum sem allar fóru í MK, stóri Kópavogsfrænkuhópurinn minn var allur þar og í Hjallaskóla vorum við sterkur hópur af stelpum sem vorum samferða þangað. Við erum ennþá bestu vinkonur og köllum okkur Hjallapíur. Margar okkar búa enn í Kópavogi.“

Gátu ekki flutt úr Kópavoginum

Auður leitaði ekki langt yfir skammt að ástinni. „ Ég er gift Kópavogsbúa, Ívari Gestssyni, Hann var í Digranesskóla sem heitir núna Álfhólsskóli svo við vissum alltaf af hvort öðru á unglingsárum og byrjum saman um tvítugt. Hann er mikill bliki, nánast og borinn og barnfæddur Kópavogsbúi eins og ég.“ Eftir MK fór Auður í hjúkrun í Háskóla Íslands í fjögur ár og svo fór unga parið eitt ár á Neskaupstað til að vinna fyrir útborgun í íbúð. „Þegar við komum aftur til baka keyptum við fyrstu íbúðina okkar í Fensölum. Auðvitað í Kópavogi þó við höfum ekki ætlað að fara svona ofarlega. 200 Kópavogur var málið en svo fengum við ofboðslega fallega íbúð sem við tímdum ekki að sleppa. Síðan vorum við harðákveðin í því að fara aldrei ofar en enduðum svo uppi í Kórahverfi í níu ár.“ Þegar börnunum fjölgaði fannst þeim tími til kominn að stækka við sig og íhuguðu að gera tilboð í hús í Árbæ. „En kvöldið áður en þurfti að ganga frá því fundum við að við gátum ekki hugsað okkur að fara úr Kópavoginum og ákváðum að bíða eftir rétta húsinu hér.“ Sem fannst í Foldarsmáranum.

„Ég sæki það sem ég þarf í Smáralind, sundlaugarnar eru frábærar, fullt af skemmtilegum litlum görðum, fyrir utan Guðmundarlund og allt það fallega umhverfi.“

„Við keyptum húsið af miklum Kópavogsbúa sem kenndi mér einu sinni, Valdimar Valdimarssyni, sem nú vinnur á skrifstofu Kópavogsbæjar. Svona er Kópavogur lítill.“

Þarf aldrei að fara úr Kópavogi

Auður heillaðist fljótlega af heilsugæsluhjúkrun og hefur starfað í þrettán ár á Heilsugæslu Salahverfis svo hún þarf bókstaflega aldrei að fara út úr Kópavogi, að eigin sögn. „Ég vinn mikið og þá er dýrmætt að það er stutt í alla nærþjónustu. Ég sæki það sem ég þarf í Smáralind, sundlaugarnar eru frábærar, fullt af skemmtilegum litlum görðum, fyrir utan Guðmundarlund og allt það fallega umhverfi. Ég geng mikið hér í Kópavogsdalnum og út á Kársnesið, yndislegt að vera þar. Skólarnir eru góðir og íþróttafélögin framarlega svo það eru mörg tækifæri fyrir börn að alast upp hérna. Samfélagið innan hverfanna er sterkt og tekur á málum og mér finnst líka hafa verið góð uppbygging undanfarin ár, til dæmis hafa verið settir upp flottir leikvellir víðsvegar um bæinn ásamt ærslabelgjum.“

 

 

Þegar spurt er um eftirlætisstaði í Kópavogi nefnir Auður Menningarhúsin, Guðmundarlund og Hlíðargarð sem henni finnst reyndar að mætti nýta betur. „En svo hef ég sterka tengingu við Rútstún, þar sem allir bæjarbúar og þar á meðal stórfjölskyldan mín safnast saman á 17. júní, það er sennilega uppáhaldsstaðurinn minn og ég sakna þess að þar séu ekki stórtónleikar um kvöldið eins og var einu sinni.“

Kópavogur er heimurinn

Henni finnst stundum fyndið hvað hún er mikill Kópavogsbúi. „Það næstum því stendur á mér. Amma og afi bjuggu í Skólatröðinni, mamma býr enn í Álfatúninu, systur mínar og frænkur búa allar í Kópavoginum, ég vann í Sunnuhlíð þegar ég var í menntaskóla, þetta er bara heimurinn. Þetta bara gerist ósjálfrátt þó reyndar hjálpi að eiga maka sem er þarna líka. Þegar fólk er að ala upp börn er mikilvægt að það sé stutt í ömmur og afa og aðra ættingja og svo þegar kemur að þvi að maður þarf að aðstoða foreldra sína og tengdaforeldra þá er nálægðin ekki síður mikilvæg.“

Hún segist ekki reikna með að flytja nokkurntíma úr Kópavoginum. „Ég sé ekki tilganginn, veit ekki hvað það ætti að gera fyrir mig. Ég hef einmitt tekið eftir því hvað er verið að taka flott í gegn í Sunnuhlíðinni svo ætli ég endi ekki bara þar.“