Stafrænt vinnuafl innleitt í samstarfi við Evolv Robotics

Frá vinstri: Védís Hervör Árnadóttir, Jakob Sindri Þórsson, Ásdís Kristjánsdóttir, Sigurður Davíð Stefánsson, Viktor F. Shala, Eva Rut Bernhöft Reynisdóttir og María Ómarsdóttir. Á myndina vantar Rebekku Rán Figueras Eriksdóttur.

 

Kópavogsbær hefur gert samning við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Evolv um innleiðingu svokallaðs stafræns vinnuafls. Samningurinn markar upphaf að fjölmörgum verkefnum sem miða að því að leysa af hendi handvirka og tímafreka ferla, auk þess að auka skilvirkni og samræmi í þjónustu Kópavogsbæjar, sem einmitt eru meginmarkmið samningsins.

Leiðandi lausnir byggðar á stafrænu vinnuafli
Til að ná markmiðum samningsins um sjálfvirknivæðingu ferla hjá Kópavogsbæ munu aðilar nýta sér leiðandi lausnir frá Evolv. Stafrænt vinnuafl, e. Software Agent, framkvæmir verk sem annars þyrfti að vinna handvirkt í kerfum. Þannig getur stafræna vinnuaflið bæði aukið afköst og tryggt stöðugleika í ferlum.

Verkefnastjórn og samstarf
Jakob Sindri Þórsson, teymisstjóri stafrænnar þróunar, leiðir verkefnið hjá Kópavogsbæ, en tæknileg útfærsla hefur verið í höndum Viktors F. Shala, kerfisstjóra á skrifstofu þjónustu. Sigurður Davíð Stefánsson og Rebekka Rán Figueras Eriksdóttir hjá Evolv stýra innleiðingu stafræna vinnuaflsins hjá sveitarfélaginu. Samstarfið byggir á virkri samvinnu milli starfsfólks Kópavogsbæjar og sérfræðinga Evolv, sem saman leggja sitt af mörkum.

Fyrstu verkefni hafin
Samningurinn var formlega undirritaður fyrr á þessu ári. Fyrstu verkefnin miða að því að sjálfvirknivæða lykilferla í rekstri Kópavogsbæjar, nánar tiltekið á skrifstofu áhættu og fjárstýringar. Nú þegar starfar stafrænt vinnuafl hjá Kópavogsbæ, eftir að þrjú verkefni voru sett af stað í sumar, við að stemma af lánadrottna, afgreiða fasteignasala um ákveðnar beiðnir og vakta ógreidda reikninga.

Stafræn umbreyting og ávinningur
Með þessu samstarfi stígur Kópavogsbær undir forystu stafræns þróunarteymis á Skrifstofu umbóta og þróunar stórt skref í stafrænni umbreytingu þjónustunnar. Stefnt er að því að hið nýja stafræna vinnuafl skili margvíslegum ávinningi:

  • Aukinni hagkvæmni í rekstri bæjarins.
  • Styttri afgreiðslutíma.
  • Einfaldari ferlum.
  • Betri nýtingu á tíma starfsfólks.
  • Bættri þjónustu til íbúa.

Evolv er ört vaxandi íslenskt fyrirtæki á sviði sjálfvirknilausna og mun miðla sérþekkingu sinni við innleiðingu stafræns vinnuafls á sem skilvirkastan hátt fyrir Kópavogsbæ.

„Við hjá Kópavogsbæ leggjum mikla áherslu á stafræna þróun og nýsköpun í þjónustu. Samningurinn við Evolv gerir okkur kleift að taka stór skref í að sjálfvirknivæða ferla sem hingað til hafa krafist umfangsmikillar handavinnu. Tími starfsfólks mun því nýtast betur og þjónusta við íbúa og hagaðila batna,“ segir Jakob Sindri.

Framtíðarsýn Kópavogs
Það er von beggja samningsaðila að samstarfið skili auknum sveigjanleika og afkastagetu í þjónustu Kópavogsbæjar. Stafrænt vinnuafl getur unnið allan sólarhringinn og vinnur alltaf eins, sem þýðir að unnt verður að afgreiða mál hraðar og tryggja jafnari þjónustugæði. Kópavogsbær verður þar með meðal fremstu sveitarfélaga á Íslandi í nýtingu stafrænnar tækni til að bæta stjórnsýslu og þjónustu.

Samningurinn við Evolv er í samræmi við framtíðarsýn Kópavogsbæjar þar sem áhersla er lögð á framúrskarandi þjónustu, nýsköpun og tækninýjungar í starfsemi sem:

  • styður við starfsfólk,
  • sparar tíma og fjármuni,
  • eykur ánægju íbúa.

Markmið Kópavogsbæjar og Evolv í þessu verkefni eru sameiginleg, skýr og metnaðarfull. Samstarfið markar mikilvægt skref í átt að sjálfvirkari, skilvirkari og þjónustuvænni Kópavogi.