Menntasvið

Til baka í Stefnur sviða

Menntastefna Kópavogsbæjar 2021-2030

Menntastefna Kópavogsbæjar 2021-2030 byggir á heildarstefnu Kópavogsbæjar til 2030 sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Starfsfólk menntasviðs vinnur eftir gildum Kópavogsbæjar sem eru: UMHYGGJA - FRAMSÆKNI - VIRÐING – HEIÐARLEIKI

Um menntastefnu Kópavogsbæjar 
Menntastefna Kópavogsbæjar var unnin í víðtæku samráði kjörinna fulltrúa, nefnda og ráða, stjórnenda og starfsmanna menntasviðs, foreldra, barna og ungmenna, og annarra hagaðila. Frá hausti 2019 og til vors 2020 voru skipulagðir fjöldi funda í stofnunum menntasviðs til kortlagningar og greiningar á áherslum. Verkefnastjóri stefnumótunar menntasviðs sat fjölda þessara funda og um 85% stofnana skilaði gögnum inn í vinnu við stefnumótun. Einnig voru skipulagðir vinnufundir stefnumótunar með nefndum menntasviðs, menntaráði, leikskólanefnd og íþróttaráði. Hlé var gert á vinnunni vegna Covid-19 til vors 2021 þegar vinna við lokadrög stefnumótunar hófst að nýju. Skipulagðir voru vinnufundir með nefndum og ráðum, stjórnendum stofnana menntasviðs og starfsmönnum skrifstofu sviðsins. Jafnframt var boðið til fjarfundar fyrir fulltrúa foreldra í skólaráðum og stjórnum foreldrafélaga og 4. júní 2021 var opnað fyrir samráðsgátt menntastefnu á heimasíðu Kópavogsbæjar þar sem óskað var eftir ábendingum frá samfélaginu við fyrstu drög að menntastefnu Kópavogsbæjar.

Stefnan var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 12.10.2021.

Framkvæmd og ábyrgð


Menntaráð Kópavogsbæjar ber ábyrgð á mótun menntastefnu, eftirliti með framkvæmd og reglubundinni endurskoðun. Sviðsstjóri ber ábyrgð á framkvæmd hennar í samstarfi við stjórnendur og annað starfsfólk menntasviðs. Aðgerðaáætlun, sem er ætlað að styðja við framkvæmd stefnunnar, er unnin til eins árs í senn. Gæðamarkmið eru sett ár hvert og skulu þau m.a. nýtast sem smærri skref til að fylgja eftir aðgerðaráætlun. Stefnan og aðgerðaáætlun eru endurskoðaðar reglulega.
Menntastefna hefur til hliðsjónar aðrar stefnur, samþykktir og áætlanir Kópavogsbæjar svo sem: Bæjarmálasamþykkt, gæðastefnu, Barnasáttmála Sþ, lýðheilsustefnu, jafnréttis- og mannréttindaáætlun, persónuverndarsamþykkt, aðalskipulag, innkaupastefnu, og menningarstefnu.

Tilgangur


Menntasvið annast framkvæmd menntunar í Kópavogi. Undir sviðið fellur starfsemi leik- og grunnskóla, tónlistarskóla, frístundastarf og íþróttastarf. Hlutverk sviðsins er að vinna að menntun, velferð, forvörnum og heilbrigði barna og íbúa á ólíku aldursbili og tryggja þeim hvetjandi, skapandi og nærandi umhverfi til náms, óháð því hvort það fer fram í skóla eða í gegnum frístunda- og íþróttastarf. Menntun í Kópavogi byggir á stefnu stjórnvalda um Menntun fyrir alla, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í heildarstefnu Kópavogsbæjar. Áhersla er lögð á að hlustað sé á raddir barna og ungmenna og þau hvött til áhrifa og ábyrgðar. Markvisst er unnið að því að skapa umhverfi menntunar sem gerir börnum og ungmennum kleift að rækta hæfileika sína og styrkleika, menntun sem stuðlar að andlegu, félagslegu og líkamlegu heilbrigði, og menntun sem byggir á áherslum sjálfbærrar þróunar.

Stefnan er sameiginleg sýn um framtíðaráherslur í menntun og frístundastarfi í Kópavogi. Henni er ætlað að draga fram þá hæfni sem börn og íbúar á ólíkum aldurstigum geta öðlast í gegnum jafnt formlegt sem óformlegt nám. Hún tekur einnig til þess hvers konar þjónustu og stuðning bæjarfélagið vill veita börnum, ungmennum og öðrum íbúum til að stuðla að því að einstaklingarnir fái notið styrkleika sinna og geti tekið þátt í leik og námi á eigin forsendum. Stefnan tekur einnig til þess hvers konar aðstæður bæjarfélagið vill skapa starfsfólki til að stuðla að framsæknu og faglegu mennta- og frístundastarfi. Þannig skapar hún skýran ramma um megináherslur í málaflokknum, lýsir forgangsröðun mikilvægustu verkefna til að sviðið nái markmiðum sínum og leiðum til að ná þeim.

Efnisinnihald


Menntastefna byggir á fimm stefnuáherslum. Í hverri stefnuáherslu eru tilgreind meginmarkmið sem eru útfærð sem mælanleg markmið með mælikvörðum í aðgerðum í árlegri aðgerðaáætlun.

M.1 Námsumhverfi sem tekur mið af getu hvers og eins, stuðlar að framförum, vellíðan og skilningi á samfélagi og umhverfi

Allt námsumhverfi kallar á að við mótun þess og framkvæmd sé tekið mið af styrkleikum, getu og hæfni hvers og eins og að virðing sé borin fyrir fjölbreytileika barna hvað varðar félagslegan og menningarlegan bakgrunn. Í Kópavogi eiga börn að hafa aðgengi í nærumhverfi að námi og stuðningi sem mætir þeim á eigin forsendum, ýtir undir sjálfstæða hugsun og stuðlar um leið að ábyrgri þátttöku í eigin námi. Menntun felur í sér nám í leik- og grunnskóla, frístundastarfi og íþróttastarfi. Lögð er áhersla á heildstæða nálgun í námi barns með samfelldu og virku samstarfi allra sem sinna menntun í bæjarfélaginu og þjónustu við börn og fjölskyldur. Hagsmunir barns og þarfir þess eru ávallt í forgrunni í því skyni að stuðla að sjálfseflingu, félagslegri hæfni, trú á eigin getu og sterkri sjálfsmynd. Mótun hæfni til ákvarðanatöku, árangursríkra samskipta og menningarlæsis, stuðlar að aukinni virðingu og umburðarlyndi, sjálfstrausti og leggur grunn að sameiginlegum skilningi í fjölmenningarlegu samfélagi og ýtir undir vellíðan og góðan námsárangur. Hnattrænar áskoranir eins og loftslagsmál og sjálfbærni eru samofnar áskorunum í nærsamfélagi.

M.1.1 Læsishæfni í víðum skilningi


Lestur er undirstaða alls náms og forsenda jafnra tækifæra til virkrar þátttöku í samfélagi. Áhersla er á uppbyggingu kunnáttu og hæfni allra barna í að lesa, skilja, túlka og færa hugsanir í talað og ritað mál og getu til að vinna með ritmál, orð, tölur, myndir og tákn á gagnrýninn hátt. Staða ólíkra hópa verði reglubundið rýnd. Læsi vísar einnig til læsis á ólíka tjáningarmiðla og læsi á umhverfi, hegðun, siðferði, réttindi og ábyrgð, og aðstæður. Stuðningur foreldra við uppbyggingu læsishæfni er mikilvægur og tryggja þarf stuðning með fjölbreyttum leiðum.

M. 1.2 Lærdómssamfélag fyrir öll börn

Börnum verði tryggð jöfn tækifæri til náms og þroska í nærumhverfi í samræmi við stefnu um menntun fyrir öll börn. Skoðuð verða tækifæri til aðlögunar núverandi skipulags, kennsluaðferða, námsmats, kennsluhátta, og námsaðstöðu með það að markmiði að tryggja að einstaklingsbundnar þarfir séu ávallt í fyrirrúmi. Áhersla verði á fræðslu, þjálfun og nauðsynlegan stuðning til starfsfólks og stjórnenda við innleiðingu stefnunnar.

M.1.3 Virk þátttaka barna í ákvarðanatöku

Markviss uppbygging þekkingar, hæfni og viðhorfa styrkja getu barna til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis-og lýðræðisþjóðfélagi. Með ástundun lýðræðis í öllu námi eflist félagshæfni og börn læra að hlusta og bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og móta sínar eigin. Sérstaklega verði hugað að mótun leiða til að hlusta á raddir barna og þau hvött til áhrifa og ábyrgðar um málefni sem varða þeirra eigið líf, nám og mótun samfélags.


M.1.4 Virðing fyrir fjölbreytileika og ólíkum menningarheimum

Samfélagsþátttaka krefst þekkingar og skilnings á ólíkum menningarheimum, færni í framkomu og samskiptum, umburðarlyndis og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. Áhersla er á að öll börn verði læs á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru. Gott aðgengi að upplýsingum fyrir íbúa sem ekki hafa íslensku að móðurmáli skal sérstaklega tryggt og útfærsla leiða við móttöku nýrra íbúa stuðla að góðri aðlögun og vellíðan. Viðhaft verði skipulagt samráð við fjölskyldur barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli um nám í leik- og grunnskóla, virka þátttöku í frístunda- og íþróttastarfi og hvers kyns menningarstarfi.

M.2 Snemmtækur stuðningur, forvarnir og fræðsla fyrir börn og foreldra

Í Kópavogi er lögð áhersla á snemmtækan stuðning, forvarnir og markvissa fræðslu í allri þjónustu við börn og fjölskyldur. Þjónustan er skipulögð þannig að hún mæti einstaklingsbundnum þörfum notenda á heildstæðan og skilvirkan hátt. Fyrirbyggjandi forvarnaraðgerðir og snemmtækur stuðningur við börn og fræðsla til foreldra byggja á rýningu gagna, tölfræðilegum upplýsingum og viðurkenndum aðferðum. Starfsfólk bregst við ef upplýsingar gefa til kynna að grípa þurfi inn í aðstæður hjá einstaklingum eða hópum. Þar sem við á er þjónusta samþætt milli mennta- og velferðarsviðs.

M.2.1 Samræmt þjónustustig í þágu farsældar barna

Samhæfð stuðningsþjónusta er forsenda þess að hægt sé að koma til móts við börn og fjölskyldur á markvissan hátt. Stefnt er að áframhaldandi samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og samvinnu fagfólks innan sem utan sveitarfélags. Nálgun í skólaþjónustu sé heildstæð í því miði að veita viðeigandi stuðning við börn og fjölskyldur. Áhersla verði á að verklag við veitingu þjónustu stuðli að samfellu, óháð því hvar nám fer fram, og að meðalhófs sé gætt við ákvörðun hennar. Stuðlað verði að samþættingu þjónustu mennta- og velferðarsviðs í gegnum skilgreindan samstarfsvettvang með skýrum tilgangi, verklagi og ábyrgð. Þjónustan taki mið af reglubundnu mati á þörf með rýni gagna og upplýsinga um líðan og þarfir barna. Eftirlit með gæðum samþættrar þjónustu verði tryggt.

M.2.2 Heilbrigði og vellíðan barna í forgrunni

Öflugar forvarnir og heilsuefling í bernsku auka líkur á heilbrigði og vellíðan til framtíðar. Áhersla verði lögð á heilsueflingu og forvarnir til að styrkja getu til að stjórna tilfinningum, sporna við áhættuhegðun, byggja upp þrautseigju og sinna sjálfshjálp. Stefnt er að mótun hverfisbundinna forvarnaráætlana og samfelldri nálgun í fræðslu milli leik- og grunnskóla og tónlistarskóla, frístunda og íþrótta. Áhersla verði á forvarnir gegn einelti, ofbeldi og mismunun af ýmsu tagi og stuðningi til foreldra barna með hegðunarerfiðleika eða andlega vanlíðan. Starfsfólk verði hvatt til að sækja sér fræðslu um heilsu og líðan barna og fái tækifæri til að miðla þekkingu og reynslu sín á milli.

M.2.3 Ófullnægjandi skólasókn

Í nútímasamfélagi mæta börnum og fjölskyldum þeirra ýmsar áskoranir, sem geta leitt til ófullnægjandi skólasóknar. Áhersla verði lögð á að bregðast tímanlega við skólasóknarvanda nemenda og að til staðar séu viðeigandi bjargir. Stuðlað verði að markvissum stuðningi við börn, foreldra, skólastjórnendur, kennara og annað starfsfólk. Jafnframt verði samstarf milli fagfólks og stofnana sem koma að málefnum barna eflt.

M.2.4 Gagnadrifin ákvarðanataka við mótun og framkvæmd þjónustu

Við ákvarðanatöku, mótun þjónustu og eftirlit með innleiðingu er brýnt að beita gagnreyndum upplýsingum. Stefnt er að miðlægri yfirsýn gagna og notkun stafrænna lausna til að auka aðgengi að gögnum og upplýsingum. Horft verði sömuleiðis til reglubundinnar upplýsingaöflunar í gegnum þjónustukannanir meðal barna, foreldra og starfsfólks og skilvirkum rafrænum þátttökuskráningum í frístundum og íþróttum. Niðurstöður mælinga verði íbúum og veitendum þjónustu aðgengilegar. Starfsfólk verði hvatt til að sýna frumkvæði að framþróun þjónustu.

M.3 Samráð, samvinna, starfsþróun og starfsaðstaða

Uppeldi, menntun og mótun hæfni er sameiginlegt verkefni samfélags. Foreldrar eru fyrstu fyrirmyndir barna og með sameiginlegum stuðningi við menntun þeirra náum við þeim árangri sem að er stefnt. Samstarf þarf að byggja á gagnkvæmri virðingu og trausti. Starfsfólk menntasviðs skapar traust með reglubundnu og markvissu samtali og stuðningi við notendur þjónustu sviðsins og virku samráði við hagsmunahópa. Kópavogur leggur mikinn metnað í að bjóða upp á faglegt og fjölbreytt nám í leik- og grunnskólum, tónlistarskóla, frístundum og íþróttum. Við menntun í Kópavogi starfar faglegt og framsýnt starfsfólk sem vinnur saman sem ein heild að því að tryggja gott og árangursríkt starf. Aðstaða fyrir menntun mætir sömuleiðis ólíkum þörfum og ýtir undir vellíðan þeirra sem nýta hana og starfsfólks.

M.3.1 Samvinna við foreldra og reglubundin endurgjöf

Skólar eru hjartað í hverju skólahverfi til náms, samveru, frístunda og leikja. Önnur mannvirki í eigu bæjarfélags verði íbúum einnig aðgengileg. Áhersla er á að virkja foreldra til þátttöku í skólasamfélaginu og að þeir fái til þess fjölþættan stuðning. Áhersla verði á aðgengi að fjölbreyttri fræðslu til foreldra áður en barn byrjar í leikskóla og þar til það verður 18 ára, auk annars konar stuðnings.

M.3.2 Samhæfing og faglegt samstarf milli starfsfólks í menntun

Samfella í nálgun í menntun kallar á samhæfingu starfa og náið samstarf allra þeirra sem koma að námi barna. Stefnt verði að mótun lærdómssamfélags þar sem stjórnendur, kennarar, þjálfarar, frístundaleiðbeinendur og annað starfsfólk vinnur markvisst saman og lærir hvert af öðru. Horft verði til umbóta sem snúa að fjölgun tækifæra til samstarfs og bættu aðgengi að kennslufræðilegri ráðgjöf og símenntun þvert á stofnanir. Hugað verði sérstaklega að fræðslu til þjálfara til að auka skilning á þörfum og þroska barna.

M.3.3 Framsækið starfsumhverfi


Faglegt, jákvætt, styðjandi og hvetjandi starfsumhverfi er forsenda árangurs. Stefnt er að því að nýta stafrænar lausnir og framsæknar aðferðir við stjórnun og stuðla að virkri þátttöku starfsfólks í ákvarðanatöku í því markmiði að auka gæði þjónustu, sveigjanleika og starfsánægju. Starfsfólki verði jafnframt veitt fjölbreytt tækifæri til að afla sér þekkingar og miðla henni áfram og þannig hámarka hæfileika sína og framlag. Einnig verði lögð áhersla á þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og sókn í styrktarsjóði.

M.3.4 Aðstaða og aðbúnaður styður við nám og leik

Öflugt menntastarf þarfnast umhverfis sem styður við nám og leik. Áhersla er á að skapa börnum og starfsfólki vinnuvistvænt umhverfi, heilsusamlega næringu, aðstöðu og búnað sem styður við nám og leik. Unnið verði að reglubundnu eftirliti á starfsaðstöðu og viðmið þróuð um heilsufarsþætti og öryggi. Verklag verði samræmt í samstarfi við umhverfissvið. Horft verði til aukins samráðs við börn og starfsfólk um mótun umhverfis og aðstöðu til náms og leikja.

M.4 Menntun með áherslu á gleði, leik og sköpun

Í Kópavogi eru leikur, sköpun og gleði ríkir þættir í allri menntun, óháð því hvar nám fer fram. Þjálfun hæfni til að nýta skapandi hugsun til að takast á við álitamál og ágreiningsefni sem snúa að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags ásamt getu til að bregðast við nýrri tækni og áhrifum á umhverfi er mikilvæg. Sköpunarkrafturinn er virkjaður með frumkvöðlastarfi og nýsköpunar- og vísindaverkefnum í leik- og grunnskóla, og í frístundum og íþróttum. Nálgunin kallar á fjölbreytta kennsluhætti, samþættingu námsgreina, ígrundun eigin starfshátta og prófun nýjunga. Einnig er mikilvægt að leggja aukna áherslu á sjálfbærni- og umhverfismennt og virka ábyrgð nemenda á eigin námi. Nálgunin kallar á aðgengi að sveigjanlegri aðstöðu til náms og nútíma tæknibúnaði til að kenna ábyrga umgengni við tækni og þannig efla börn og ungmenni sem stafræna borgara framtíðarinnar.

M.4.1 Nútíma tæknibúnaður í öllu námi

Stöðug tilkoma nýrrar tækni kallar á sífellda endurskoðun á kennslu í upplýsingatækni og hvernig hún er nýtt í námi. Stefnt er að leiðandi hlutverki í innleiðingu nútíma tæknibúnaðar og snjalltækja í menntun. Leggja skal áhersla á að börn þrói með sér stafræna borgaravitund, þ.e. kunnáttu og hæfni til að meta margs konar upplýsingar og getu til að búa til og miðla efni með fjölbreyttum aðferðum með notkun ólíkra stafrænna miðla, á ábyrgan hátt. Hæfni kennara, frístundaleiðbeinenda, þjálfara og annars starfsfólks til að nota ólíka tækni og aðferðir við nám og kennslu verði efld sem og ráðgjöf til foreldra.

M.4.2 Fjölþættar leiðir til skapandi náms

Gagnrýnin og skapandi hugsun ýtir undir sjálfbæra þróun og getu til að bregðast við breytingum í samfélagi. Áhersla er lögð á að öll börn fái tækifæri til að þjálfa slíka hæfni. Skoða þarf leiðir til umbóta sem tryggja að nýsköpun, vísindi og fjölþætt listsköpun verði áhersluþáttur í öllu námi, s.s. með uppsetningu nýsköpunar-, tækni- og listasmiðja og víðtæku samstarfi við menningarstofnanir. Sömuleiðis verði horft til tækifæra til að flétta kjarnagreinar, skapandi greinar og nám í gegnum tónlist, listir, frístundir og íþróttir enn frekar saman.

M.4.3 Samfella í tónlistaruppeldi

Tónlist eflir félagshæfni, stuðlar að vellíðan og góðum námsárangri. Stefnt er að því að aðstaða og aðgengi barna að tónlistaruppeldi verði eins góð og kostur er. Áhugi á tónlist verði kveiktur með hlustun og söng frá unga aldri sem byggt verður ofan á í tónmenntakennslu, námi í tónlistarskóla og stafrænni kennslu. Með það að markmiði verði unnið að gerð áætlunar um samfellu í tónlistaruppeldi. Stuðlað verði á sama tíma að samhæfingu í starfi og aukinni samvinnu kennara og starfsfólks leik-, og grunnskóla og tónlistarskóla í Kópavogi.

M.4.4 Jafn aðgangur að fjölbreyttu iðn- og tækninámi

Samfélag framtíðarinnar þarfnast einstaklinga með hagnýta kunnáttu, leikni og hæfni. Áhersla er á að jafna tækifæri og aðgengi barna að fjölbreyttu iðn- og tækninámi og tengja námið betur atvinnulífi og störfum. Börn geta þannig nýtt áhugasvið og styrkleika í námi. Markviss náms- og starfsráðgjöf skiptir í þessu sambandi lykilmáli og horft verður til fjölbreytni í fræðslu til foreldra og barna. Stefnt verði að uppbyggingu aðstöðu og tækja til iðn- og tæknimenntar sem mætir skilgreindum þörfum. Einnig verði samstarf milli grunnskóla og iðn- og tækniskóla eflt til að tryggja samfellu í námi.

M.4.5 Sjálfbærni- og umhverfismenntun

Sjálfbærni er einn af grunnþáttum menntunar og áhersla í öllu námi í Kópavogi. Sjálfbærni kallar á að þörfum samtíðar sé mætt án þess að möguleikar komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum séu skertir. Áhersla á sjálfbærni kallar sömuleiðis á getu til að hugsa hnattrænt og leita lausna á sameiginlegum viðfangsefnum. Stefnt verði að aukinni áherslu á sjálfbærni- og umhverfismennt og útfærðar leiðir til að samtvinna sjálfbærni inn í allt nám, skólabrag og menningu.

M.5 Frístundir og íþróttir fyrir alla íbúa

Kópavogur leggur sig fram um að skapa aðstæður og umhverfi sem styður við öflugt nám í gegnum frístundir og íþróttastarf fyrir íbúa á öllum aldursstigum, hvetur til aukinnar hreyfingar og útivistar og stuðlar þannig að góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu. Í þessu felst uppbygging mannvirkja og aðstöðu sem mætir þörfum iðkenda og starfsfólks, gott aðgengi að aðstöðunni og reglubundið eftirlit og viðhald. Aðgengi að fjölbreyttu frístunda- og íþróttastarfi er einnig tryggt með frístundastyrkjum til barna og ungmenna og uppbyggingu aðstöðu og stuðningsþjónustu fyrir ungt fólk 16-25 ára. Fjölbreytt frístunda- og íþróttastarf stuðlar að félagsmótun og þátttakendur öðlast hæfni til að eiga góð samskipti við aðra, setja sig í spor annarra, sýna virðingu og öðlast vilja til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag.

M.5.1 Þátttaka barna í frístunda- og íþróttastarfi

Virk þátttaka í frístundum og íþróttastarfi þroskar félagshæfni og vinnur gegn félagslegri einangrun. Áhersla er á að allir geti tekið þátt óháð aldri, áhugasviði og getu og fái tækifæri til að nýta styrkleika sína. Tækifæri ólíkra samfélagshópa til þátttöku sé sömuleiðis tryggð. Unnið verði eftir viðurkenndum aðferðum við hæfniuppbyggingu sem nýtist í námi og leik, og til að efla andlega, félagslega og líkamlega heilsu. Einnig að gæði starfsins og öryggi þátttakenda sé í fyrirrúmi og að unnið verði gegn hvers kyns mismunun, einelti og ofbeldi. Mikilvægt er að starfsfólk, leiðbeinendur og þjálfarar hafi viðeigandi menntun og gott aðgengi að símenntun.

M.5.2 Lífsgæði íbúa á öllum aldursstigum

Heilbrigði felur í sér andlega, félagslega og líkamlega vellíðan og skiptir alla máli óháð aldri. Áhersla er á að auka lífsgæði íbúa með góðu aðgengi að mannvirkjum og aðstöðu innan og utandyra þar sem heilsueflandi starfsemi fer fram. Íbúar á öllum aldursstigum eigi þess kost að stunda skipulagða hreyfingu og taka þátt í uppbyggjandi frístundastarfi. Áfram verði unnið að mótun úrræða til að stuðla að heilsueflandi lífsstíl og þátttöku ólíkra samfélagshópa í skipulagðri hreyfingu og frístundum. Samfella í þjónustu við ólíka hópa verði tryggð með góðu samstarfi fagfólks og stofnana innan sem utan sveitarfélags.

M.5.3 Aðgengi og aðstaða til hreyfingar

Hvatning til hreyfingar kallar á að uppbygging íþróttamannvirkja mæti ólíkum þörfum íbúa fyrir aðgengi og aðstöðu. Áhersla er á að uppbygging mannvirkja fylgi íbúaþróun og skapi tækifæri til samnýtingar fyrir fjölbreytta viðburði. Að sama skapi verði gott aðgengi tryggt að útivistarsvæðum og þar verði góð aðstaða til hreyfingar fyrir íbúa. Mótuð verði áætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja og útivistarsvæða með þessa hagsmuni að leiðarljósi. Sömuleiðis verði áhersla á reglulegt viðhald á íþróttamannvirkjum með öryggis- og heilsufarsþætti í forgangi.

M.5.4 Stuðningur við ungt fólk 16-25 ára

Fjölbreytt aðstaða til afþreyingar, frístunda, hreyfingar og skapandi verkefna þarf að standa ungu fólki 16-25 ára til boða. Horft verði til þess að byggja upp heildstæða ráðgjafar- og stuðningsþjónustu fyrir ungt fólk í virku samstarfi við Geðræktarhús og Ungmennahúsið Molann. Einnig verði horft til umbóta varðandi aðstöðu og fjölgun tækifæra til atvinnu- og starfsþjálfunar. Við mótun, innleiðingu og endurskoðun þjónustu verði notast við gagnreyndar upplýsingar og aðkoma ungs fólks tryggð.

M.5.5 Frístunda- og íþróttastarf barna með fjölbreyttar þarfir og ólíkan bakgrunn

Félagsmótun er mikilvægur þáttur í frístunda- og íþróttastarfi. Það styrkir einstaklinga að upplifa sig sem hluta af heild, tryggir betri árangur í námi og er mikilvægur grunnur fyrir framtíðina. Sérstaklega verði hugað að því hvernig hægt er að skipuleggja þjónustu þannig að öll börn og ungmenni, óháð stuðningsþörfum, félagslegum eða efnahagslegum aðstæðum eða uppruna, fái hvata til þátttöku og verði virk í fjölbreyttu frístunda- og íþróttastarfi.

Samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 12.10.2021