Mál er varðar friðlýsingu Álftaness - Skerjafjarðar í samræmi við náttúruverndaráætlun 2004-2008 hefur verið til umfjöllunar í umhverfisráði.
Á fundi umhverfisráðs 29. nóvember 2010 var málið lagt fram á ný.
Guðríður Þorvarðardóttir frá Umhverfisstofnun og Sigurður Ármann Þráinsson kynntu verkefnið um friðlýsingu Skerjafjarðar, tillögu að skilmálum og næstu skref við friðlýsingu svæðisins og Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs kynnti svæðið út frá náttúru og hvaða áhrif friðlýsing hefur á það. Umhverfisráð þakkar þeim komuna og felur skipulags- og umhverfissviði áframhaldandi vinnu við friðlýsingu svæðisins og að fundað verði með þeim sveitarfélögum sem hlut eiga að máli.
Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar 21. mars 2011 var lögð fram fundargerð frá fundi aðila nærliggjandi sveitarfélaga dags. 13. janúar 2011 og greint var frá fundi með nefndarmönnum umhverfis- og skipulagsnefnda á höfuðborgarsvæðinu 11. mars 2011.
Staða málsins kynnt og nefndin látin vita af kynningarfundi um svæðið sem haldinn verður í kjölfarið.
Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar 7. nóvember 2011 voru tillögur að friðlýsingu Skerjafjarðar lagðar fram.
Ákveðið að vinna áfram að málinu.
Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar 12. desember 2011 var málið lagt fram á ný.
Frestað.
Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar 6. janúar 2012 var málið lagt fram á ný ásamt kostnaðaráætlun vegna skiltagerða og áningastaða.
Fulltrúar meirihlutans í umhverfis- og samgöngunefnd (Samfylkingin, Vinstri hreyfingin grænt framboð og Næst besti flokkurinn) leggja til við bæjarstjórn að hún samþykki tillögu að friðlýsingu Skerjafjarðar innan marka Kópavogs samkvæmt auglýsingu um búsvæðavernd í Skerjafirði innan bæjarmarka Kópavogs og geri samning við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofu Kópavogsbæjar um umsjón og rekstur svæðisins, þar sem gert er ráð fyrir að umsjón og eftirlit með svæðinu verði áfram í höndum Kópavogsbæjar og Náttúrufræðistofu Kópavogs.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks eru andvígir hugmyndum um friðlýsingu í ljósi þess að í dag er bæjarvernd á leirum í Kópavogi og Fossvogi. Ekki hefur verið sýnt fram á að ávinningur sé af friðlýsingu umfram bæjarvernd. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja því eðlilegt að kjörnir fulltrúar Kópavogs fari með ákvörðunarvald i málefnum Kópavogs en ekki kjörnir fulltrúar ríkisins þ.e. ráðherra.
Fulltrúar meirihlutans telja friðlýsinguna hafa mikið gildi fyrir Kópavog og að kjörnir fulltrúar í Kópavogi muni hafa áfram ákvörðunarvald yfir hinu friðlýsta svæði.