Umhverfissvið

Til baka í Stefnur sviða

Stefna umhverfissviðs

Stefna umhverfissviðs byggir á heildarstefnu Kópavogsbæjar sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Um stefnuna

Stefna umhverfissviðs var unnin af sviðsstjóra, deildarstjóra og starfsfólki umhverfissviðs og lögð fyrir skipulagsráð og umhverfis- og samgöngunefnd. Stefnan var samþykkt á fundi bæjastjórnar þann 12.10. 2021.

Framkvæmd og ábyrgð

Sviðsstjóri umhverfissviðs hefur frumkvæði að mótun stefnunnar og að fram fari reglulegt endurmat. Sviðsstjóri ber ábyrgð á framkvæmd hennar í samstarfi við stjórnendur og annað starfsfólk umhverfissviðs. Út frá stefnuáherslum sviðsins er gerð aðgerðaráætlun til árs í senn með mælanlegum markmiðum og aðgerðum, sem ætlað er að koma þeim meginmarkmiðum sem sett eru fram í stefnunni til framkvæmdar. Gæðamarkmið eru sett ár hvert og skulu þau m.a. nýtast sem smærri skref til að fylgja eftir aðgerðaráætlun. Fyrirhuguð er regluleg uppfærsla og endurskoðun stefnu, markmiða- og aðgerðaáætlunar.

Stefnan hefur til hliðsjónar aðrar stefnur, samþykktir og áætlanir Kópavogsbæjar svo sem: Bæjarmálasamþykkt, aðalskipulag, Barnasáttmála SÞ, persónuverndarsamþykkt, lýðheilsustefnu, öryggisstefnu, jafnréttis- og mannréttindaáætlun, loftslagsstefnu og samgöngustefnu sveitarfélagsins.

Auk stefnu sviðsins þá tilheyra eftirfarandi stefnur umhverfissviði: Aðalskipulag, loftslagsstefna og samgöngustefna.

Tilgangur

Umhverfissvið Kópavogsbæjar sér um skipulags- og byggingarmál í Kópavogi eins og lög og reglugerðir kveða á um og samkvæmt þeim reglum sem bæjarstjórn setur. Einnig sér sviðið um framkvæmdir, viðhald mannvirkja og landsvæða bæjarins auk reksturs þeirra.

Umhverfissvið Kópavogs stefnir að því að skapa trausta ímynd og veita íbúum og hagsmunaaðilum sveitarfélagsins örugga og góða þjónustu. Áhersla er lögð á að skapa árangursríka, skilvirka og hagkvæma þjónustu og gott samstarf við önnur svið bæjarins. Leitast er við að skapa fjölskylduvænan, metnaðarfullan og skemmtilegan vinnustað.

Efnisinnihald

Stefna umhverfissviðs felur í sér sex málaflokka og stefnuáherslur sem starfsemi sviðsins og deilda þess byggir á. Í hverri stefnuáherslu eru tilgreind meginmarkmið.

U.1 Umhverfið og góð þjónusta í forgangi

Umhverfissvið Kópavogs veitir fjölbreytta þjónustu til íbúa og annarra aðila sem þurfa þjónustu sviðsins. Þjónustan skal vera skipulögð þannig að hún mæti þörfum notenda á skilvirkan hátt. Í því felst að hún berist notandanum á tilsettum tíma og sé samfelld. Þjónustan er veitt á grundvelli laga um mannvirki nr. 160/2010, skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Umhverfissvið hefur umsjón með leyfisveitingum og framkvæmdum innan sveitafélagsmarka Kópavogs ásamt því að vinna að skipulagi bæjarlandsins og almennum rekstri samgöngu- og veitukerfa.

U.1.1 – Tryggja bæjarbúum góða innviði

Stefnt er að því að fasteignir, götur og þjónustuhúsnæði sveitarfélagsins séu vel við haldin og að viðbragðstími sé viðunandi og boðleiðir stuttar. Hugað skal að fjölbreyttum þörfum við uppbyggingu innviða sveitarfélagsins.

U.1.2- Stuðla að sjálfbærara bæjarfélagi

Lögð er áhersla á að bjóða íbúum sveitarfélagsins upp á fjölbreyttar og umhverfisvænar samgöngur, meðal annars með því að vera í forystuhlutverki þegar kemur að umhverfi Borgarlínu í Kópavogi og samgöngur er hana varðar. Unnið verður að umhverfisvænni sorphirðu við undirbúning að samræmingu úrgangsflokkunar á höfuðborgarsvæðinu.

U.1.3 - Skilvirk þjónusta

Mikilvægt er að nýta þá tækni sem er til staðar til að auðvelda samskipti, skilvirkni og gegnsæi, bæði fyrir starfsfólk umhverfissviðs ásamt þeim sem nýta sér þjónustu sviðsins. Lögð er áhersla á að koma samskiptum yfir á rafrænt form þannig að þjónustuþegar sveitarfélagsins hafi jafna möguleika á að nýta sér þjónustu sviðsins. Með því að auðvelda þjónustuþegum aðgang að umhverfissviði hafa þeir frekari mögulega á þátttöku í skipulags- og byggingamálum. Stuðlað verði að aukinni símenntun starfsmanna er viðkemur rafrænum skráningum og samskiptum.

U.2 Umhverfisvæn uppbygging 

Framkvæmdadeild sér um áætlunargerð, þarfagreiningu verkefna, útboð og innkaupamál vegna hönnunar og stofnframkvæmda. Auk þess sér framkvæmdardeild um að framkvæma stærri verk og viðhaldsverkefni, fylgja þeim eftir og afhenda til rekstraraðila. Framkvæmdadeild þjónustar innri hagsmunaaðila Kópavogsbæjar við ráðleggingar og tillögur varðandi framkvæmdir og skuldbindingar.
Einnig veitir deildin innri- og ytri hagsmunaaðilum þjónustu varðandi landupplýsingar og við gerð hæða- og mæliblaða. Þjónustan er veitt á grundvelli laga um mannvirki nr. 160/2010, lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998

U.2.1 Áhersla á þarfir og umhverfi notenda

Að byggingar og íþróttamannvirki uppfylli þarfir og kröfur íbúa og þjónustuþega. Einnig verði allar framkvæmdir í samræmi við skipulag og uppbyggingaráform nýrra hverfa. Mannvirki eru byggð með hagkvæmni og sjálfbærni að leiðarljósi. Leitast verður eftir auknu samstarfi við innri hagsmunaaðila og þarfagreining unnin í samvinnu við þá. Nýframkvæmdir á vegum Kópavogsbæjar uppfylla kröfur umhverfisvottunar.

U.2.2 Uppbygging gatna og veitna

Lögð verður áhersla á hagsmuni gangandi, hjólandi, notenda almenningssamgangna og einkabíls við uppbyggingu gatna. Götur verða skipulagðar og hannaðar með hliðsjón af samgöngustefnu Kópavogsbæjar. Gæði og afhendingaröryggi á vatni verða tryggð og allt húsnæði Kópavogs skal tengt við fráveitu.

U.2.3 Aðgengi uppfærðra gagna

Stefnt er að því að mæli- og hæðarblöð séu gerð um leið og skipulag liggur fyrir eða við endurnýjun lóðaleigusamnings. Tryggt sé að öll mæli- og hæðablöð séu aðgengileg íbúum og öðrum notendum. Einnig er lögð áhersla á að kortavefurinn sé uppfærður með nýjustu gögnum og að tekið sé við gögnum frá Þjóðskrá og Fasteignaeftirlitinu sem séu öllum aðgengileg.

U.3 Áhersla á umhverfismál og umferðaröryggi 

Gatnadeild veitir íbúum sveitarfélagsins og fyrirtækjum margþætta þjónustu. Grunnur að þjónustu gatnadeildar er að vegfarendur og íbúar sveitafélagsins telji sig örugga við leik og störf. Lagður er metnaður í að veita íbúum skjót svör við ábendingum sínum. Þjónustan er veitt á grundvelli laga um mannvirki nr. 160/2010, vegalög nr. 80/2007 og lög um vatnsveitur sveitafélaga nr. 32/2004.

Gatnadeild sér um rekstur, viðhald og hirðingu bæjarlands utan lóða, samgöngumannvirkja og allar eignir sem því tengjast. Einnig sér deildin um rekstur og viðhald lóða stofnana bæjarins. Gatnadeild sér um rekstur þjónustumiðstöðvar, vatnsveitu, Bílastæðasjóðs og Vinnuskóla. Gatnadeild sér enn fremur um sorphirðu, mengunarvarnir og uppgræðslu á bæjarlandi.

U.3.1 Áframhaldandi áhersla á umhirðu, aðgengi og aðstöðu

Stefnt er að því að haldið sé vel við opin svæði í Kópavogi er varðar t.d. grasslátt og umhirðu gróðurs. Íbúum verður gefið tækifæri til að kolefnisjafna neyslu sína með gróðurrækt á opnum svæðum. Séð verður til þess að samgöngukerfi séu örugg, hreinsuð reglulega og búnaði vel viðhaldið. Aukið aðgengi verði að útivistarsvæðum og aðstaða bætt.

U.3.2 Bæta umferðaröryggi allra vegfarenda óháð ferðamáta

Stefnt er að því að fjölga aðgerðum til að hindra gálausan akstur á götum, göngu- og hjólastigum í bænum. Lögð verði áhersla á öryggismál allra vegfaranda t.d. með endurbættum þverunum við gönguleiðir barna og viðhaldi stíga. Áframhaldandi vetrarþjónustu á götum og göngustígum til að tryggja samgöngur og öryggi gangandi vegfarenda.

U.3.3 Umhverfisvænar lausnir í viðhaldi og rekstri

Stefnt er að því að auka gróður innan og utan þéttbýlis. Umhverfisvænar lausnir verði hafðar að leiðarljósi við allan rekstur og framkvæmdir deildarinnar og gerðar kröfur um að verktakar hugi einnig að þessum málum.

U.4 Fasteignir með áherslu á orkunotkun og innivist 

Eignadeild þjónustar innri hagsmunaaðila í samskiptum við eftirlitsaðila og verktaka. Einnig þjónustar deildin stjórnendur við að framfylgja lögum er varðar aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Þar að auki sér deildin um að íbúar leiguíbúða á vegum sveitafélagsins fái þjónustu er varðar viðhald og endurbætur. Þjónustan er veitt á grundvelli húsaleigulaga nr. 36/1994, mannvirkjalögum nr. 160/2010 og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980

Eignadeild annast viðhald og endurbætur á leiguíbúðum og öðrum fasteignum í eigu sveitarfélagsins. Deildin kemur einnig að innkaupum á tækjum og búnaði vegna þeirra. Auk þess sér deildin um rekstur smíðahúss.

U.4.1 Eftirlit með fasteignum bæjarins

Stefnt er að því að auka eftirlit með eignum Kópavogsbæjar. Liður í því er að gera markvissa áætlun um ástandsskoðun og framfylgja henni. Ástandskoðun fer fram reglulega til að fyrirbyggja þann skaða sem kann að verða á fasteignum vegna slæms viðhalds. Sérstök áhersla verður lögð á ástandsskoðun og eftirlit með leikskólum bæjarins og loftræstikerfum til að tryggja loftgæði og líðan þeirra sem nota fasteignir bæjarins.

U.4.2 Samstarf við innri þjónustuaðila

Náið samstarf við önnur svið tryggir góða þjónustu við bæjarbúa varðandi húsnæði í rekstri deildarinnar og skráningu gagna. Með því að auka samvinnu við framkvæmdadeild mun gæði framtíðarfasteigna og innanstokksmuna þeirra aukast, rekstur fasteignarinnar verður hagkvæmari og nýting betri fyrir bæjarfélagið.

U.4.3 Orkunýting í stofnunum bæjarins

Stefnt er að því að eftirfylgni orkunotkunar í stofnunum sveitafélagsins muni aukast og að orkunýting stofnanna sveitarfélagsins verði bætt. Aðgerðirnar munu til langs tíma lækka rekstrarkostnað bæjarins ásamt því að stuðla að umhverfisvænna bæjarfélagi. Til að árangur náist verður fjárfest í orkusparandi búnaði og tækjum.

U.5 Umhverfisvæn skipulagsheild 

Skipulagsdeild þjónustar alla þá er þurfa ráðgjöf eða upplýsingar er varðar skipulagsmál í bæjarlandi Kópavogsbæjar. Einnig sér deildin um að auglýsa og upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaraðila um allt það er viðkemur skipulagi sveitarfélagsins auk þess að fara eftir þeim ábendingum sem til deildarinnar koma. Þjónusta deildarinnar byggir á skipulagslögum nr. 123/2010, lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og náttúruverndarlögum nr. 60/2013 auk annarra laga er viðkemur skipulagsmálum.

Skipulagsdeild gegnir því hlutverki að hafa umsjón með skipulagi sveitafélagsins og ber ábyrgð á úrvinnslu þeirra erinda er berast skipulagsráði.

U.5.1 Gæði í byggðum hverfum

Stefnt er að því að auka lífsgæði þeirra íbúa sem búa í þegar byggðum hverfum með hliðsjón af breyttu skipulagi og þéttari byggð. Við gerð nýs skipulags skal sjálfbærni vera í forgrunni og tekið tillit til allra þátta.

U.5.2 Efla íbúasamráð

Íbúasamráð verður eflt með hliðsjón af þeim tækifærum sem bjóðast í nýrri tækni. Með nýrri tækni verður stuðlað að því að auka sýnileika skipulagsáætlana og fá sjónarhorn íbúa á öllum aldri í skipulagsferli allt frá upphafi til loka ákvarðana þannig að víðtæk þátttaka sé tryggð.

U.5.3 Umhverfisvænt skipulag

Við skipulag nýrra og eldri byggða verði umhverfismál og sjálfbærni höfð að leiðarljósi. Óþarfa rask á lífríki og náttúru verði sem minnst og íbúar fái tækifæri til að njóta umhverfisvænni ferðamáta og lífernis.

U.6 Rafræn samskipti og sýnileiki við byggingarframkvæmdir

Byggingarfulltrúi sér um byggingarmál á byggingarstigi, byggingareftirlit, skráning í fasteignaskrá, álagningu gatnagerðargjalda og umhverfismál. Byggingarfulltrúi þjónustar íbúa og aðra hagsmunaaðila við nýbyggingar og eftirlit með þeim ásamt eftirliti með breytingum er varðar byggingarreglugerð á eldra húsnæði. Embættið gætir hagsmuna allra við yfirferð teikninga og úttekta á öllum byggingum í sveitafélaginu.

Þjónusta embættisins byggir á lögum um útmælingar lóða í kaupstöðum, löggildum kauptúnum o.fl. nr. 75/1917, skipulagslögum nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010.

U.6.1 Eftirlit með byggingum

Stefnt er að því að finna skilvirkari leiðir til eftirlits með byggingum á landi sveitarfélagsins. Með þessum hætti er hægt að auka öryggi og gagnsæi við nýbyggingar og breytingar á eldra húsnæði.

U.6.2 Upplýsingar varðandi lög og reglugerðir framkvæmda

Stefnt er að því að byggingarfulltrúi geti með skilvirkari hætti leiðbeint hönnuðum, framkvæmdaraðilum og lóðarhöfum varðandi lög og reglugerðir er viðkoma byggingum og endurbótum. Einnig skal byggingarfulltrúi sjá til þess að skipulagsskilmálar hverfisins séu aðgengilegir öllum þeim er málið varðar.

U.6.3 Rafræn samskipti við þjónustuþega

Stefnt er að því að íbúar og þeir sem standa að framkvæmdum fái skjóta og góða afgreiðslu erinda sinna rafrænt í gegnum þjónustuvef Kópavogsbæjar. Með því er hægt að auka ánægju þjónustuþega og gera þjónustu skilvirkari.

Samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 12.10.2021.