Velferðarsvið

Til baka í Stefnur sviða

Stefna velferðarsviðs

Stefna velferðarsviðs byggir á heildarstefnu Kópavogsbæjar sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Um stefnuna

Stefna velferðarsviðs var unnin í samstarfi stjórnenda sviðsins og fulltrúa velferðarráðs og lögð fyrir velferðarráð, barnaverndarnefnd, notendaráð fatlaðs fólks, og öldungaráð. Stefnan var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 12.10.2021.

Framkvæmd og ábyrgð

Velferðarráð Kópavogsbæjar ber ábyrgð á mótun stefnunnar og stöðugu endurmati. Stjórnendur og aðrir starfsmenn velferðarsviðs bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar. Út frá stefnu sviðsins er gerð aðgerðaáætlun til eins árs í senn, sem ætlað er að koma þeim markmiðum sem sett eru fram í stefnunni til framkvæmdar. Sett eru gæðamarkmið fyrir hverja deild ár hvert og skulu þau m.a. nýtast sem smærri skref til að fylgja eftir aðgerðaáætlun. Fyrirhuguð er regluleg uppfærsla og endurskoðun stefnu, markmiða og aðgerðaáætlunar.

Tilgangur

Velferðarsvið Kópavogs annast framkvæmd félagslegrar þjónustu Kópavogsbæjar eins og lög og reglugerðir kveða á um og samkvæmt þeim reglum sem bæjarstjórn setur. Hlutverk sviðsins er að veita árangursríka þjónustu sem mætir fjölbreyttum þörfum einstaklinga og fjölskyldna fyrir stuðning. Leitast er við að veita framsækna þjónustu sem byggir á sérfræðiþekkingu og þverfaglegu samstarfi.

Velferðarsvið leitast við að skapa trausta ímynd og sýna hlutlægni, umhyggju og virðingu í verki gagnvart íbúum Kópavogsbæjar. Áhersla er lögð á árangursríka, skilvirka og hagkvæma þjónustu og gott samstarf við önnur svið bæjarins.
Stefnuáherslur og meginmarkmið stefnu velferðarsviðs tengjast yfirmarkmiðum Kópavogsbæjar sem fengin eru úr

Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Stefna velferðarsviðs hefur til hliðsjónar aðrar stefnur, samþykktir og áætlanir Kópavogsbæjar svo sem: Bæjarmálasamþykkt, gæðastefnu, innkaupastefnu, persónuverndarsamþykkt, Barnasáttmála Sþ, lýðheilsustefnu, jafnréttis- og mannréttindaáætlun, menningarstefnu og aðalskipulag.

Efnisinnihald

Stefna velferðarsviðs felur í sér fimm málaflokka sem byggja á grunnstoðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og sérlaga þar um. Í hverjum málaflokki eru tilgreindar stefnuáherslur og meginmarkmið sem tengd aðgerðaáætlun byggir á.

V.1. Árangursríkur stuðningur við íbúa

Velferðarsvið Kópavogs veitir margþætta og fjölbreytta stuðningsþjónustu til barna, fullorðinna og fjölskyldna. Þjónustan skal vera skipulögð þannig að hún mæti þörfum notenda á heildstæðan og skilvirkan hátt. Í því felst að hún berist notandanum tímanlega, miðist við einstaklingsbundnar þarfir og sé samfelld. Þjónustan er veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Markmið þjónustunnar eru breytileg eftir þörfum þeirra íbúa sem ólík stuðningsúrræði eiga að mæta en geta m.a. snúið að því að skapa skilyrði til að einstaklingar geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum, séu styrktir til sjálfshjálpar og geti búið sem lengst í heimahúsi. Meta skal gæði þjónustu með reglubundnum hætti í formi kannana og gera umbótaáætlanir byggðar á niðurstöðum þeirra.

V.1.1. Auknar forvarnir og snemmtækur stuðningur

Stefnt er að styrkingu fyrsta stigs forvarna og úrræða fyrir barnafjölskyldur þar sem rannsóknir sýna að snemmtækur stuðningur er árangursríkur og getur dregið úr þörf fyrir aðkomu þriðju stigs þjónustu. Árangur af stuðningi og úrræðum er betri ef brugðist er við á markvissan hátt þegar vandinn birtist og bið eftir þjónustu lágmörkuð, auk þess sem unnt er að fækka áföllum sem börn verða fyrir með snemmtækum stuðningi. Enn fremur er um að ræða hagræn og fjárhagsleg áhrif. Ef fyrsta og annars stigs úrræði skila fjölskyldum ekki fullnægjandi árangri kemur Barnavernd að máli þeirra með úrræðum skv. barnaverndarlögum. Mikilvægt er að tryggja að þær fjölskyldur fái viðeigandi stuðning.

V.1.2. Aukin og fjölbreytt stuðningsþjónusta

Stefnt er að þróun úrræða í stuðnings- og stoðþjónustu fyrir einstaklinga, börn og fjölskyldur. Markmið þjónustunnar eru m.a. að auka möguleika á snemmtækum stuðningi svo síður þurfi að grípa til kostnaðarsamra og íþyngjandi inngripa síðar. Einnig að þjónustan mæti ólíkum notendum með þarfir sem krefjast fagþekkingar við framkvæmd þjónustunnar. Ákvarðanir um þjónustu skulu byggja á vel ígrunduðu og heildstæðu mati á þörfum hvers umsækjanda.

V.1.3. Aukið aðgengi að þjónustu velferðarsviðs

Stefnt er að því að auka aðgengi íbúa að upplýsingum, fræðslu og þjónustu. Sérstaklega skal huga að framsetningu upplýsinga á heimasíðu Kópavogsbæjar þannig að þær séu aðgengilegar öllum íbúum, þ.m.t. íbúum af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki. Leggja þarf sérstaka áherslu á faglega móttöku og stuðning við þá íbúa sem koma frá öðrum menningarheimum og eru í þörf fyrir stuðning.

V.1.4. Markviss nýting tæknilausna

Mikilvægt er að nýta þá tækni sem til staðar er til þess að auðvelda fólki að búa á eigin heimili við góð lífsgæði þrátt fyrir öldrun, fötlun eða aðrar skerðingar.

Áhersla er lögð á að stuðst verði í auknum mæli við velferðartæknilausnir í því skyni að veita markvissa einstaklingsbundna þjónustu, einfalda störf starfsmanna og auka öryggi persónuupplýsinga.

V.2. Góð almenn félagsþjónusta 

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og húsaleigulögum nr. 36/1994, kemur fram að félagsþjónusta sveitarfélags hafi það hlutverk að veita þjónustu, aðstoð og ráðgjöf. Við framkvæmd þjónustunnar skal þess gætt að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við verkefni sem varða félagslega ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, aðstoð við einstaklinga með áfengis- og vímuefnavanda og húsnæðismál, þ.m.t. félagslegar leiguíbúðir og áfangaheimili.

Markmið veittrar þjónustu er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa með því að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar. Viðhafa skal skipulagt samráð við notendur félagsþjónustu t.d. með stofnun notendaráða.

V.2.1. Efla félagslega ráðgjöf

Stefnt er að því að efla almenna félagslega ráðgjöf við einstaklinga og fjölskyldur með það að markmiði að stytta biðtíma eftir slíkri þjónustu. Félagsleg ráðgjöf tekur m.a. til ráðgjafar á sviði fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála o.fl. Markmið hennar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar.

V.2.2. Bætt fjárhagsleg og félagsleg staða íbúa með virkni til valdeflingar

Stefnt er að því að vinna markvisst að því að bæta fjárhagslega og félagslega stöðu íbúa sem eru á fjárhagsaðstoð með þjónustu og stuðningi sem miðar að því að stytta tímabil fjárhagsaðstoðar.

Lögð er áhersla á virkni og þátttöku íbúa í samfélaginu með fjölbreyttum úrræðum til sjálfshjálpar, ábyrgðar og valdeflingar. Áhersla er lögð á fjölbreytt úrræði hvort heldur til að stuðla að lífsstílsbreytingum, hefja bataferli og endurhæfingu eða til endurkomu á vinnumarkað.

V.2.3. Aukið aðgengi að húsnæði sem mætir þörfum íbúa

Stefnt er að því að meta heildstætt húsnæðisnæðisþörf til að mæta ólíkum þörfum íbúa á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Fjölga þarf íbúðum í félagslega kerfinu í takt við metnar húsnæðisþarfir með það að markmiði að lágmarka biðtíma. Stofna þarf félagsleg búsetuúrræði fyrir einstaklinga sem glíma við fjölþættan vanda, s.s vegna áfengis- og vímuefnaneyslu, og eru í þörf fyrir sérhæfða þjónustu til að halda heimili.

V.3. Góð þjónusta við fatlað fólk og fjölskyldur þeirra 

Þjónusta við fatlað fólk er veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Einstaklingum með fötlun, langveikum börnum, og eftir atvikum foreldrum barna með fötlun eða langvinna sjúkdóma, skal standa til boða stuðningur sem miðar að aukinni félagslegri færni, stuðning sem miðar að því að efla sjálfstæði til að búa á eigin heimili og eftir atvikum að styrkja foreldra eða forráðamenn í uppeldishlutverki sínu.

Markmið þjónustunnar er að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. Þjónustan skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi. Tryggja skal að frumkvæðisskylda sé virt gagnvart fötluðu fólki skv. lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr.38/2018.

Þjónustu til fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra skal þróa í samstarfi við menntasvið.

V.3.1. Einstaklingsmiðuð og sveigjanleg þjónusta við fatlað fólk óháð aldri

Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða og sveigjanlega þjónustu og virkt samráð við notendur. Veitt stuðnings- og stoðþjónusta skal byggja á skýrum markmiðum og reglulegu endurmati í samráði við notendur. Leitast skal við að þróa nýjar leiðir með valdeflingu íbúa að markmiði.

V.3.2. Húsnæði sem mætir þörfum fatlaðs fólks

Lögð er áhersla á að uppbygging á húsnæði fyrir fatlað fólk haldi í við fyrirliggjandi áætlun sem gildir til ársins 2026 með áherslu á ólíkar þarfir íbúa á biðlista.

V.3.3. Uppbygging á úrræðum í vinnu og virkni fyrir fatlað fólk

Stefnt er að fjölgun tilboða í vinnu og virkni fyrir fatlað fólk til þess að mæta íbúum sem þurfa starfsþjálfun eða verndaða vinnu, í samstarfi við önnur sveitarfélög. Efla og auka við núverandi starfsþjálfunar-, vinnu- og virkniúrræði og fjölga störfum á vegum bæjarins sem henta fólki með skerta starfsgetu.

V.4. Góð þjónusta við aldraða og aðstandendur þeirra 

Þjónusta við aldraða er veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og laga um málefni aldraðra nr. 125/1999. Markmið þjónustunnar er annars vegar að veita öldruðum Kópavogsbúum og aðstandendum þeirra ráðgjöf og leiðsögn, og hins vegar að efla notendur til sjálfsbjargar og sjálfstæðis og gera þeim kleift að búa sem lengst á eigin heimili við sem eðlilegastar aðstæður með viðeigandi stuðningi. Við framkvæmd þjónustunnar er þess gætt að virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og er þjónustan veitt á því þjónustustigi sem eðlilegast er miðað við þarfir og getu notenda.

V.4.1. Aukin áhersla á snemmtækan stuðning til aldraðra

Stefnt er að aukinni áherslu á snemmtækan stuðning og hjálp til sjálfshjálpar. Lögð skal áhersla á einstaklingsmiðaðan stuðning og þjálfun til þess að efla notendur til að sinna sjálfir því sem þeir geta gert þrátt fyrir færniskerðingu.

V.4.2. Fjölgun dagdvalarúrræða og aukinn sveigjanleiki í þjónustu þeirra

Stefnt er að uppbyggingu dagdvalarrýma sem mæta þörfum aldraðra og aðstandenda þeirra fyrir mismunandi opnunartíma og þjónustu í samstarfi við Heilbrigðisráðuneytið. Áhersla verði lögð á fjölbreytt úrræði sem koma til móts við ólík áhugasvið notenda.

V.4.3. Góð andleg heilsa aldraðra

Stefnt er að auknum markvissum stuðningi við aldraða sem glíma við andleg veikindi, félagslega einangrun og/eða einmanaleika til þess að auka félagslega virkni og þátttöku í félagsstarfi. Auka þarf þjálfun og sérhæfingu starfsmanna sem sinna þjónustu við íbúa sem glíma við andleg veikindi.

V.5. Barnavernd 

Markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Markmiðum er náð með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum. Í barnaverndarstarfi skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda þar sem áhersla er lögð á að börnin njóti ávallt vafans.

Stuðningur og úrræði Barnaverndar er einstaklingsmiðaður fyrir hvert og eitt barn. Lögð er áhersla á að veita barni og fjölskyldu þess nauðsynlegan stuðning eins fljótt og auðið er og er jafnframt unnið skv. markmiðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

V.5.1. Aukið samstarf og fræðsla Barnaverndar

Stefnt er að auknu samstarfi Barnaverndar við þær stofnanir sem koma að málefnum barna í Kópavogi með það að markmiði að auka fræðslu og stuðla að meiri samfellu í þjónustu við barnafjölskyldur. Áhersla er lögð á að auka samstarf og efla skipulagða samvinnu við leikskóla, grunnskóla og mæðra- og ungbarnavernd heilsugæslu.

V.5.2. Uppbygging úrræða Barnaverndar

Stefnt er að styrkingu úrræða Barnaverndar til að veita börnum og fjölskyldum ráðgjöf og stuðning. Jafnframt skal veita börnum móttöku til að greina aðstæður þeirra, tryggja öryggi og veita viðeigandi stuðning.

Samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 12.10.2021..