Íþróttapúls Kópavogs

Jakob Sindri Þórsson, Anna Birna Snæbjörnsdóttir og Gunnar Guðmundsson. Á myndina vantar Ævar Ólafsson.

Kópavogsbær stendur fyrir öflugu íþróttastarfi með fjölmörgum íþróttafélögum og þátttöku þúsunda barna og unglinga. Til að viðhalda gæðum og þróa starfið enn frekar ákvað bærinn að ráðast í viðhorfskönnun meðal foreldra og forsjáraðila. Verkefnið fékk heitið Íþróttapúls Kópavogs og er nýtt verkefni sem felst í reglulegri viðhorfskönnun á íþróttastarfi í Kópavogi. Verkefnið var fyrst framkvæmt sumarið 2025 og er liður í að efla þjónustu þar sem gagnaöflun og samráð við íbúa er nýtt. Markmiðið var að fá skýra mynd af upplifun af æfingum og þjónustu íþróttafélaga bæjarins, draga fram hvað vel er gert og hvaða þætti megi bæta. Niðurstöður könnunarinnar gefa einstakt tækifæri til að styðja stefnumótun í íþróttamálum og auka gæði íþróttastarfs fyrir börn og ungmenni.

Til viðbótar lýtur markmiðið að því að styrkja samráð við íbúa. Með reglulegum Íþróttapúlsi er stefnt að opnum samskiptum þar sem raddir foreldra og forsjáraðila fá að heyrast og hafa bein áhrif. Stefnt er að því að endurtaka Íþróttapúlsinn á tveggja ára fresti. Þannig verður hægt að fylgjast með þróun yfir tíma og mæla árangur af þeim umbótum sem gerðar verða.

Íþróttapúlsinn er samstarfsverkefni íþróttadeildar undir stjórn Gunnars Guðmundssonar deildarstjóra, sem leiddi verkefnið, Önnu Birnu Snæbjörnsdóttur sviðsstjóra menntasviðs í náinni samvinnu við Jakob Sindra Þórsson, teymisstjóra stafrænnar þróunar á skrifstofu umbóta og þróunar, og Ævar Ólafsson, teymisstjóra greiningardeildar á skrifstofu áhættu og fjárstýringa.

Könnunin var hönnuð af Gallup í samráði við bæinn og send út í lok maí 2025. Unnið var með rýnihópum foreldra og forsjáraðila að mótun spurningalistans auk þess sem ytri sérfræðingar komu að rýninni. Tæplega tvö þúsund svör bárust. Þessi mikla þátttaka sýnir bæði þörfina og áhugann hjá foreldrum og forsjáraðilum að koma skoðunum á framfæri.

Niðurstöðurnar úr Íþróttapúlsinum 2025 gefa heildstæða mynd af stöðu íþróttastarfsins í Kópavogi. Heildaránægja svarenda með íþróttastarf er mikil. Ánægja með heildarþjónustu íþróttafélaganna er mikil en 79% svarenda segjast ánægð eða mjög ánægð með starfið. Þetta er afar jákvæður vitnisburður um íþróttastarfið í bænum.

Þátttakendur voru spurðir út í marga þætti. Af þeim efnisatriðum sem mæld voru mældist ánægja með íþróttamannvirki einna hæst, eða 87%, sem bendir til þess að fjárfestingar bæjarins í íþróttamannvirkjum skili sér til notenda. Gæði þjálfunar mældist einnig hátt sem þýðir að almennt eru svarendur ánægðir með þjálfarana og starfið sem fram fer á æfingum.

Foreldrar og forsjáraðilar voru jafnframt spurðir um ýmsa þætti er snúa að velferð barna í starfinu, s.s. líðan á æfingum, vinatengsl, jafnræði kynja og viðbrögð við einelti eða ofbeldi. Ánægjulegt er að flestir svarenda meta þessa þætti vel. Um 81% svarenda eru sammála eða mjög sammála fullyrðingunni: „Ég myndi mæla með íþróttastarfsemi félagsins við aðra“. Þessi niðurstaða er sérstaklega mikilvæg, því hún gefur til kynna að orðspor íþróttafélaganna meðal svarenda er gott. Ánægja með hvernig félögin tryggja jafnræði kynjanna mældist einnig há, sem er gott merki um að drengir og stúlkur fái sambærileg tækifæri. Viðbrögð við alvarlegum málum (s.s. einelti, ofbeldi) mælast aðeins lægri sem er þörf áminning.

Án efa ein mikilvægasta niðurstaða könnunarinnar er hversu vel foreldrar og forsjáraðilar meta líðan barna sinna á æfingum. Niðurstaðan sýnir að börnin upplifa jákvæða og uppbyggilega stemningu í íþróttastarfi bæjarins. Almennt virðast foreldrar og forsjáraðilar upplifa að æfingar séu öruggt athvarf þar sem börnin njóta sín, eignast vini og fái að vaxa sem einstaklingar í heilbrigðu og hvetjandi umhverfi. Þetta er grundvallaratriði í öllu íþróttastarfi og ber vott um að bæði þjálfarar og íþróttafélögin hafi lagt áherslu á velferð og vellíðan barnanna.

Athyglisverður hluti könnunarinnar sneri að viðhorfi til áherslna í þjálfun, hvort leggja eigi meiri áherslu á árangur/keppni eða á jafna þátttöku og leik. Niðurstöðurnar sýna að í yngri flokkum (5–12 ára) töldu yfir 44% svarenda að núverandi jafnvægi eigi að vera óbreytt, 38% að það mætti hafa meiri áherslu á leik fremur en keppni og 19% vildu sjá meiri afreksfókus. Í eldri flokkum (13–18 ára) voru 37% svarenda sem töldu núverandi jafnvægi fínt, 23% að það mætti hafa meiri áherslu á leik fremur en keppni og 41% að það þyrfti meiri áherslu á afreksmiðaða þjálfun en leik. Þessi niðurstaða er mikilvægt innlegg í umræðu um íþróttastefnu: svarendur meta félagslega þáttinn og gleðina við íþróttir mjög mikils, sérstaklega hjá yngri börnum, og vara við ofuráherslu á árangur of snemma.

Heildarmyndin er mjög jákvæð, foreldrar og forsjáraðilar eru ánægðir með starf íþróttafélaganna og telja börnin hljóta góða þjálfun á góðum stað. Ábendingar um úrbætur beinast helst að betri upplýsingagjöf og samskiptum og vera vakandi fyrir góðu jafnvægi milli keppni og þátttöku.

Niðurstöðurnar 2025 sýna að íþróttastarf í Kópavogi stendur vel og jafnframt hvar tækifæri eru til framfara. Með því að bregðast við þessum niðurstöðum og endurtaka mælinguna reglulega, en næsti Íþróttapúls verður 2027, mun Kópavogsbær geta tryggt samfellu í umbótum og haldið áfram að þróa íþróttastarf í Kópavogi í takt við þarfir og væntingar íbúanna.

Niðurstöður íþróttapúlsins voru kynntar í lýðheilsu- og íþróttanefnd 16. október, í bæjarráði 13. nóvember og fyrir íþróttafélögunum í Kópavogi 18. nóvember árið 2025.