Ábendingar og hraðamælingar

Í hverri viku berast fjölmargar ábendingar um hraðakstur á götum Kópavogs. Þegar ábending berst, eru mælitæki sett upp á viðkomandi götu í um vikutíma sem mæla raunhraða umferðar og safna tölulegum gögnum sem geta gefið góða mynd af stöðu mála. Þrátt fyrir þessa kerfisbundnu mælingu hafa niðurstöðurnar ekki verið aðgengilegar íbúum nema með milligöngu starfsfólks Kópavogsbæjar. Þetta hefur valdið því að fjöldi íbúa býr við óvissu um árangur ábendinga sinna og hvort gripið sé til aðgerða.

Hafa ber í huga að aldrei er hægt að koma í veg fyrir allan hraðakstur og við mat á umferðarhraða er horft til hátterni meirihluta ökumanna en ekki einstaka ökumanns. Einnig er horft til aðstæðna í nágrenni götunnar, hvort líklegt sé að umferð gangandi vegfarenda sé meiri en annarsstaðar, hvort augljós gönguleið sé á akstursleið o.s.frv.

Opinber birting hraðamælinga

Í október 2025 lagði Birkir Rútsson, deildarstjóri gatnadeildar, til að hraðamælingagögn yrðu gerð opinber á vef bæjarins. Með þessu gætu allir íbúar auðveldlega séð nýjustu niðurstöður hraðamælinga og upplýsingar um hvar þarf að ráðast í aðgerðir. Með því að birta gögnin opinberlega er markmiðið að stuðla að auknu gagnsæi, draga úr álagi á stjórnsýsluna og fækka erindum um stöðu mála. Í stað þess að svara hverjum ábendingaraðila skapar opin birting samræmt upplýsingaflæði og eykur traust á ferlinu.

Áhrif á upplýsingagjöf og stjórnsýslu

Opnun hraðamælingagagna er í samræmi við áherslu Kópavogsbæjar á að tryggja íbúum aðgang að upplýsingum og efla stafræna þjónustu. Bæjarfélagið ber ábyrgð á að veita góðar og fjölbreyttar upplýsingar og þjónustu til að tryggja lífsgæði íbúanna. Með auknu gagnsæi dregur úr álagi á starfsfólk, þar sem færri þurfa að svara einstaklingsbundnum fyrirspurnum og fólk getur nálgast þær upplýsingar sem það þarf, þegar það þarf á þeim að halda.

Frá hugmynd til framkvæmda

Hugmyndin um opinbera birtingu fékk strax góðan hljómgrunn. Védís Hervör Árnadóttir, umbóta- og þróunarstjóri, kom verkefninu í ferli hjá stafrænni þróun og fyrsta útgáfa af skýrslunni var klár í lok nóvember. Ragnar Magnús Ragnarsson, gagnasafnsstjóri, leiddi tæknilega vinnu verkefnisins í nánu samstarfi við þá Birki og Encho Plamenov Stoyanov, verkefnastjóra á gatnadeild. Verkefnið var unnið í samvinnu við þá Andra Pál Heiðberg og Guðmund Inga Jónsson hjá Expectus. Verkefnið er liður í aukinni stafrænni upplýsingagjöf Kópavogs og leggur grunn að frekari verkefnum.