Sérdeildir og sérúrræði við grunnskóla

Í Kópavogi eru starfrækt sérúrræði sem taka mið af þörfum nemenda. Foreldrar geta sótt um telji þeir að úrræðin geti mætt þörfum barna þeirra. 

Sérúrræðin sem starfrækt eru við grunnskóla Kópavogs eru tímabundin lausn fyrir nemendur.  Ávalt er leitast við að viðkomandi nemandi fái kennslu í sínum bekk eins mikið og kostur er.

Reglulega er metið hvort nemandi hafi áframhaldandi þörf fyrir sérúrræðið eða hvort hann verði útskrifaður úr því. Gerð er nánari grein fyrir sérúrræðum í sérstökum starfsreglum. Nemendum, sem stunda nám utan skólahverfis í sérdeildum eða námsveri, stendur til boða skólaakstur. Sjá nánar reglur um akstur fatlaðra.

 • Námsver fyrir nemendur í 5.-10. bekk Kópavogsskóla

  Hlutverk námsversins er að veita nemendum með þroskafrávik og/eða annan fjölþættan námsvanda kennslu við hæfi.

  Sjá nánar starfsreglur Námsvers í Kópavogsskóla.

 • Smiðja fyrir nemendur í 8.-10. bekk Snælandsskóla

  Hlutverk smiðjunnar er að veita nemendum með þroskafrávik og/eða annan fjölþættan námsvanda kennslu við hæfi hvers og eins.

  Sjá nánar starfsreglur Smiðju í Snælandsskóla.

 • Sérdeild fyrir nemendur með einhverfu í Álfhólsskóla

  Hlutverk deildarinnar er að veita nemendum sem þar eru kennslu við hæfi hvers og eins.

  Sjá nánar starfsreglur einhverfudeildar í Álfhólsskóla.

 • Tröð - skammtímaúrræði

  Tröð hefur það hlutverk að kenna nemendum í 1.–10. bekk úr grunnskólum Kópavogs sem þurfa sérstakan stuðning í afmarkaðan tíma.
  Tröð er til húsa í Neðstutröð 6 og stjórnað frá Grunnskóladeild Menntasviðs.

  Sjá nánar starfsreglur Traðar.

 • Atvinnutengt nám

  Námið er ætlað nemendum í 10. bekk sem hafa dregist aftur úr í námi og/eða eiga við félags- og tilfinningaleg vandamál að stríða. Markmið atvinnutengds náms er m.a. að kynnast ákveðnum þáttum atvinnulífs, bæta líðan nemenda og styrkja sjálfsmynd þeirra.

  Sjá nánar starfsreglur um atvinnutengt nám.

 • Stuðningur við nemendur með hegðunar- og tilfinningavanda

  Forvarnarverkefni:

  Í grunnskólum bæjarins starfar teymi sem samanstendur af fjölskylduráðgjafa og grunnskólakennara. Teymið fer á milli skóla og heldur námskeið fyrir nemendur. Markmiðið er að beina sjónum að hæfni nemenda til tengslamyndunar og bæta líðan þeirra í leik og starfi. Kennarar tilnefna nemendur á námskeiðið í nánu samstarfi við foreldra.

  Sjá nánar starfsreglu forvarnarverkefnis.

  Klókir krakkar:

  Námkeiðið Klókir krakkar er hópmeðferðarúrræði ætlað 8-12 ára börnum með kvíðaröskun. Námskeiðið sem þrír sálfræðingar halda á vegum Kópavogsbæjar, stendur í 10 vikur, eina og hálfa klukkustund í senn. Börnin og foreldrar þeirra fá fræðslu um eðli kvíða og eru kenndar aðferðir til að takast smám saman á við kvíða barnanna.  Að námskeiði loknu fá foreldrar eitt eftirfylgdarviðtal við sálfræðing. Sálfræðingar grunnskólanna, með samþykki foreldra, sækja um námskeiðið.

 • Sjúkrakennsla

  Nemendur sem vegna langvarandi veikinda eða slysa geta ekki tekið þátt í almennu skólastarfi eiga tímabundið kost á sjúkrakennslu. Umfang kennslunnar ræðst af aðstæðum hverju sinni og er skipulögð í samvinnu skólastjóra og foreldra.

 • Sérskólar

  Ef sérþarfir barns eru miklar og flóknar geta foreldrar sótt um skólavist fyrir barn sitt í sérskóla. Um er að ræða 3 skóla, KlettaskólaBrúarskóla og Arnarskóla
  Sjá nánari upplýsingar um skólana á heimasíðum þeirra.

Síðast uppfært 13. janúar 2020