Menningarmiðjan

Menningarmiðja Kópavogs er hugmyndasöfnun meðal íbúa um nýja ásýnd og upplifun í hjarta Kópavogs. Hugmyndirnar verða notaðar sem innlegg í mótun menningarmiðju Kópavogs.

Menningarmiðja Kópavogs er hugmyndasöfnun um nýja ásýnd og upplifun í hjarta Kópavogs. Hugmyndirnar verða notaðar sem innlegg í mótun menningarmiðju Kópavogs og í þeirri vinnu er rödd íbúa mikilvæg. Kallað er eftir hugmyndum um hvers konar upplifun, afþreyingu og aðstöðu í öllu rýminu á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu. Auk þess er óskað eftir hugmyndum um afþreyingu og upplifun á útisvæðinu við menningarhúsin og við Hálsatorg sem stendur við Digranesveg 1. Verkefnið snýst um að skapa heilsteypta og lifandi menningarmiðju í Kópavogi í samvinnu við íbúa. Hugmyndasöfnunin fer fram 23. júní til 14. júlí 2023 á rafrænu hugmyndakerfi verkefnisins.

 

Upplifunar- og fræðslurými

Í hugmyndasöfnuninni er kallað eftir hugmyndum frá almenningi um hvers kyns upplifun, afþreyingu og aðstöðu í öllu rýminu á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu.

Í byrjun árs 2024 stendur til að ráðast í endurhönnun á fyrstu hæð safnhússins, þar sem nú er barnadeild bókasafnsins og sýning Náttúrufræðistofu. Í rýminu verður áfram rekin barnadeild bókasafnsins og sýningar úr Náttúrufræðistofu, en kallað er eftir hugmyndum um breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Auk þess er ætlað að nýta rýmið á fjölbreyttari hátt þannig að það þjónusti almenning betur með ólíkri virkni eins og finna má víða í bókasöfnum í nágrannalöndum okkar. Hugmyndir þurfa ekki að einskorðast við hefðbundna bókasafnsstarfsemi eða sýningar úr Náttúrufræðistofu.

Dreymir þig um líflega og innihaldsríka náttúrufræðisýningu sem á erindi við alla unga sem aldna? Dreymir þig um samkomustað fyrir saumaklúbba? Öruggt leiksvæði fyrir ungabörn? Stað til að elda hafragraut og kæla mjólk? Til að framleiða hlaðvarp með vinum eða horfa á góðar kvikmyndir? Dreymir þig um rannsóknarstofu til að kanna lífsins leyndarmál?

Útisvæði við menningarhúsin

Útisvæðið við menningarhúsin eru römmuð inn af fjórum mikilvægum menningarstofnunum Kópavogs; bókasafni, Náttúrufræðistofu, Gerðarsafni og Salnum. Landrýmið sem kallað er eftir hugmyndum á, afmarkast af Borgarholti, Borgarholtsbraut og Hamraborg. Útisvæðið við menningarhúsin hefur ekki verið skipulagt með formlegum hætti en það hefur þróast á þann hátt að núna er það vinsælt leiksvæði fyrir börn og kærkominn áningarstaður fyrir fullorðna. Leitað er eftir hugmyndum frá almenningi um hvers konar afþreyingu á svæðinu, í stórum eða litlum skala.

Dreymir þig um plöntur sem vitna um gang ársins? Að geta eldað kvöldmat í sameiginlegu útieldhúsi? Rölta um höggmyndagarð eða útiæfingasvæði? Dreymir þig um að fá þér kaffi í sólinni á meðan börnin leika sér, um felustaði og leyndardóma? Dreymir þig um tónleika undir berum himni og opin hljóðnemakvöld?

Hálsatorg

Hálsatorg afmarkast af Kópavogshálsi, Digranesvegi og Hamraborg. Torgið hefur fallega ásýnd með hringlaga hellulögn, sviði og vegglistaverki. Torgið býður upp á ótal tækifæri þar sem það er nánast óskrifað blað. Leitað er eftir hugmyndum frá almenningi um afþreyingu og nýtingu til lengri eða skemmri tíma.

Dreymir þig um að spila körfubolta á kvöldin? Ganga um í skógi eða á milli gróðurreita? Leika þér á leikvelli fyrir alla aldurshópa? Dreymir þig um stað til að hjóla um eða skauta á eða jafnvel til að sitja á í sólinni, í næði og skjóli fyrir vindi?

Skilyrði

Mikilvægt er að hugmyndin sé skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað hugmyndin snýst. Greinargóð lýsing auðveldar mat. Starfsfólk Kópavogsbæjar getur óskað eftir nánari skýringum um hverja hugmynd. 

Til að hugmyndir verði teknar til skoðunar sem innlegg í heildar útfærslu og hönnun nefndra svæðaþurfa þær að samræmast skipulagi eða stefnu Kópavogsbæjar. Hugmyndin verður að falla að stefnu bæjarins og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar stofnanir eða sveitarfélög. 

Kópavogsbær áskilur sér rétt til að eyða út athugasemdum sem eiga ekki skylt við hugmyndasöfnunina. 

Næstu skref

Hugmyndasöfnun Kópavogsbæjar er liður í íbúalýðræði bæjarins við að endurhugsa og skipuleggja opin rými í bæjarlandslaginu. Verkefnastjóri hugmyndasöfnunarinnar er TheresaHimmer arkitekt sem kemur til með að vinna úr hugmyndunum og kynna þær á opnum degi í menningarhúsunum laugardaginn 9. september. Við sama tilefni verða kynntar til sögunnar hugmyndir sem starfsmenn menningarhúsanna og lista- og menningarráð hafa lagt til að breyttu fyrirkomulagi. Á kynningunni gefst almenningi kostur á að ræða fram komnar hugmyndir og bæta við þær. Verkefnastjóri mun síðan skila af sér þarfagreiningu út frá hugmyndum sem safnast hafa samanog vinna tillögu fyrir menningarmiðju Kópavogs sem verður kynnt síðar á árinu 2023. Stefnt er að því að upplýsingar um helstu niðurstöður hugmyndasöfnunarinnar verði gerðar aðgengilegar á heimasíðu bæjarins. 

Menningarmiðja Kópavogs – spurt og svarað

Hér má finna svör við algengum spurningum varðandi verkefnið. Aðstoð og nánari upplýsingar eru veittar í gegnum tölvupóst á menningarmidja(hjá)kopavogur.is.  

 • Hvert er markmið verkefnisins?

  Markmið verkefnisins er að vera vettvangur fyrir íbúa að taka þátt í að móta ásýnd bæjarins og koma hugmyndum sínum á framfæri. Hugmyndir sem koma fram í hugmyndasöfnuninni verða notaðar til að taka ákvarðanir um hvað ný menningarmiðja eigi að bjóða upp á, ráðast í tímabundin verkefni og hafðar til hliðsjónar í frekari vinnu á svæðinu.

 • Hvernig get ég komið minni hugmynd á framfæri? 

  Á rafrænum hugmyndavef. Á hugmyndavefnum er einnig hægt að kynna sér hugmyndir annarra og ræða þær. 

 • Hvernig virkar hugmyndavefurinn?

  Þú skráir þig inn í vefinn með netfangi eða Facebook aðgangi og byrjar á að gefa hugmyndinni þinni nafn, útskýrir hana nánar og rökstyður. Hægt er að láta mynd fylgja með til nánari útskýringar

 • Hvernig er best að setja hugmynd á vefinn? 

  Þú þarft að byrja á því að fara inn á vefsíðu verkefnisins. Þar býrðu þér til aðgang annað hvort með netfangi eða Facebook aðgangi. Að því loknu getur þú bætt við nýrri hugmynd, gefið henni nafn, útskýrt hana nánar og látið mynd fylgja með. Þú getur sett inn eins margar hugmyndir og þú vilt en mundu að hugmyndirnar þurfa að vera á tilgreindu svæði.

 • Get ég fengið aðstoð við innsetningu hugmynda? 

  Já, þú getur fengið aðstoð. Aðstoð og nánari upplýsingar eru veittar í gegnum tölvupóst á menningarmidja(hjá)kopavogur.is.

 • Á hvaða tímabili get ég sent inn hugmyndir? 

  Opið er fyrir innsetningu hugmynda frá 23. júní til 14. Júlí 2023.

 • Hvað verður um hugmyndir íbúa? 

  Hugmyndasöfnun Kópavogsbæjar er liður í íbúalýðræði bæjarins við að endurhugsa og skipuleggja opin rými í bæjarlandslaginu. Verkefnastjóri hugmyndasöfnunarinnar er Theresa Himmer arkitekt sem kemur til með að vinna úr hugmyndunum og kynna þær á opnum degi í menningarhúsunum laugardaginn 9. september. Við sama tilefni verða kynntar til sögunnar hugmyndir sem starfsmenn menningarhúsanna og lista- og menningarráð hafa lagt til að breyttu fyrirkomulagi. Á kynningunni gefst almenningi kostur á að ræða fram komnar hugmyndir og bæta við þær. Verkefnastjóri mun síðan skila af sér þarfagreiningu út frá hugmyndum sem safnast hafa saman. Stefnt er að því að upplýsingar um helstu niðurstöður hugmyndasöfnunarinnar verði gerðar aðgengilegar á heimasíðu bæjarins. 

  Notast verður við hugmyndir úr hugmyndasöfnuninni til að ráðast í tímabundin verkefni á meðan unnið er að langtímahönnun. Skapandi hugmyndum verður hrint af stað til að glæða miðbæjarsvæðið lífi á meðan frekari vinna fer fram. Slík aðferðafræði tíðkast víða um heim og nýtist við áframhaldandi hönnun. 

 • Um hvað snýst hugmyndasöfnunin? 

  Að vera farvegur fyrir íbúa að taka þátt í að móta miðbæ Kópavogs.

Síðast uppfært 23. júní 2023