Lýðheilsa í Kópavogi

Í Kópavogsbæ eru lýðheilsumál í fyrirrúmi. Bærinn tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi samfélag hjá Landlæknisembættinu og hefur sett sér lýðheilsustefnu sem spannar vítt svið.

Lýðheilsa íbúa er eitt af forgangsmálum Kópavogsbæjar og birtist það skýrt í lýðheilsustefnu bæjarins. Í aðgerðaáætlun, sem byggir á lýðheilstustefnunni eru verkefni skilgreind með áherslu á að efla líkamlega, andlega og félagslega vellíðan bæjarbúa.
Í starfinu er stuðst við gagnreyndar aðferðir, fylgst með rannsóknum á sviðinu og árangri starfsins í gegnum lýðheilsuvísa. Leitast er við að hafa samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila bæjarins við þróun nýrra verkefna.
Kópavogsbær tekur m.a. þátt í verkefninu Heilsueflandi samfélag undir formerkjum Embættis Landlæknis.

Sex megin markmið lýðheilsustefnu Kópavogsbæjar

Sex megin markmið lýðheilsustefnu Kópavogsbæjar

 • Aukin geðrækt

  Geðheilsan leggur grunninn að því hvernig okkur líður, hvernig við hugsum og hegðum okkur. Þegar  geðheilsan er góð aukast líkurnar á tilfinningalegri, andlegri og félagslegri vellíðan. Góð geðheilsa hjálpar okkur að takast á við streitu, erfið samskipti og álag sem flest okkar þurfa einhvern tíma að ganga í gegnum. Góð andleg líðan eykur afkastagetu okkar og hefur jákvæð áhrif á tengsl okkar við fjölskyldu, vini og félaga.

  Til að hlúa að geðheilsu okkar þurfum við að fá nægan svefn, lifa heilsusamlegu lífi og leggja okkur fram um að mynda jákvæð tengsl. Við þurfum að þjálfa okkur í góðum samskiptum og að takast með uppbyggjandi hætti á við þær áskoranir sem mæta okkur á lífsleiðinni.

  Geðorðin 10:

  1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara
  2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
  3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
  4. Lærðu af mistökum þínum
  5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina
  6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu
  7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig
  8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
  9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína
  10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast
 • Stuðla að neyslu hollrar fæðu

  Holl næring er ein af grundvallar þáttum góðrar heilsu. Ef við borðum hollan mat drögum við úr líkum vannæringar eða ofnæringar og því að þróa með okkur lífsstílstengda sjúkdóma.

  Embætti Landlæknis framkvæmir reglulega landskannanir á mataræði landsmanna. Samkvæmt nýjustu könnun er grænmetis- og ávaxtaneysla þjóðarinnar enn of lítil. Mælt er með því að fólk borði ekki minna en 400 g af grænmeti og ávöxtum á dag en neysla landsmanna var í síðustu könnun um 239 g eða tæp 60% af því sem ráðlagt er.

  Fituneysla okkar er enn of mikil en almennt borða karlar feitara fæði en konur. Neysla flestra næringarefna er almennt góð en eitt vítamín sker sig úr og það er neysla D-vítamíns, sem  er undir ráðleggingum, nema hjá þeim sem taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa að staðaldri. 

  Ekki má gleyma hreyfingunni og góðu jafnvægi hreyfingar og næringar, því meira sem við hreyfum okkur þeim mun meira getum við borðað og þannig aukið líkurnar á að fá flest næringarefnin úr matnum okkar. Að auki dregur hreyfing úr líkum á ofþyngd og andlegri vanlíðan.

 • Heilsuefling innan stofnana, starfsemi og starfsstaða bæjarins

  Kópavogsbær samanstendur af mörgum vinnustöðvum en hvatt er til heilsueflingar innan stofnana og fyrirtækja bæjarins, óháð aldri eða getu þeirra sem þar starfa. Leikskólar og grunnskólar bæjarins fá stuðning til þess að verða heilsueflandi skólar og starfsmenn bæjarins fá styrki til líkamsræktar. Í mötuneytum bæjarins er lögð áhersla á að fæðuframboð sé hollt og í samræmi við ráðleggingar frá Embætti Landlæknis.

 • Öruggt umhverfi sem hvetur til hreyfingar og útivistar

  Umhverfi okkar og aðstaða til að njóta þess sem hrein náttúran hefur upp á að bjóða er einn af hornsteinum heilbrigðs lífsstíls. Í Kópavogi er lögð áhersla á að byggja upp fjölbreytt útivistarsvæði, leik- og dvalarsvæði, fyrir alla aldurshópa og gott stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi, hvort sem er til heilsuræktar eða samgangna. Unnið er að því að aðgreina hjólastíga frá göngustígum, til að tryggja öryggi allra vegfarenda, um allan bæ.

  Æfingatæki, bekkir, fróðleiksskilti og vatnsfontar eru víða við stígakerfi bæjarins en ýmis önnur verkefni eru í undirbúningi sem munu bæta aðstæður og hvetja til aukinnar hreyfingar og útiveru bæjarbúa.

 • Samstarf við heilsugæslustöðvar og aðra hagsmunaaðila

  Kópavogsbær leggur áherslu á samstarf og samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila, þeirra á meðal heilsugæslustöðvar. Bærinn er með í undirbúningi samstarf við heilsugæslustöðvar þar sem fyrst um sinn verður litið til samstarfs um hreyfiseðla.

Síðast uppfært 24. febrúar 2020