Holl næring er ein af grundvallar þáttum góðrar heilsu. Ef við borðum hollan mat drögum við úr líkum vannæringar eða ofnæringar og því að þróa með okkur lífsstílstengda sjúkdóma.
Embætti Landlæknis framkvæmir reglulega landskannanir á mataræði landsmanna. Samkvæmt nýjustu könnun er grænmetis- og ávaxtaneysla þjóðarinnar enn of lítil. Mælt er með því að fólk borði ekki minna en 400 g af grænmeti og ávöxtum á dag en neysla landsmanna var í síðustu könnun um 239 g eða tæp 60% af því sem ráðlagt er.
Fituneysla okkar er enn of mikil en almennt borða karlar feitara fæði en konur. Neysla flestra næringarefna er almennt góð en eitt vítamín sker sig úr og það er neysla D-vítamíns, sem er undir ráðleggingum, nema hjá þeim sem taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa að staðaldri.
Ekki má gleyma hreyfingunni og góðu jafnvægi hreyfingar og næringar, því meira sem við hreyfum okkur þeim mun meira getum við borðað og þannig aukið líkurnar á að fá flest næringarefnin úr matnum okkar. Að auki dregur hreyfing úr líkum á ofþyngd og andlegri vanlíðan.