Lýðheilsa í Kópavogi

Í Kópavogsbæ eru lýðheilsumál í fyrirrúmi. Bærinn tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi samfélag hjá Landlæknisembættinu og hefur sett sér lýðheilsustefnu sem spannar vítt svið.

Lýðheilsa íbúa er eitt af forgangsmálum Kópavogsbæjar og birtist það skýrt í lýðheilsustefnu bæjarins. Í aðgerðaáætlun, sem byggir á lýðheilstustefnunni eru verkefni skilgreind með áherslu á að efla líkamlega, andlega og félagslega vellíðan bæjarbúa.
Í starfinu er stuðst við gagnreyndar aðferðir, fylgst með rannsóknum á sviðinu og árangri starfsins í gegnum lýðheilsuvísa. Leitast er við að hafa samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila bæjarins við þróun nýrra verkefna.
Kópavogsbær tekur m.a. þátt í verkefninu Heilsueflandi samfélag undir formerkjum Embættis Landlæknis.

Fjögur áherslusvið lýðheilsustefnu Kópavogsbæjar

Fjögur áherslusvið lýðheilsustefnu Kópavogsbæjar

  • Umhverfi

    Heimsmarkmið 12

    Umhverfi og lýðheilsa eru samtvinnuð og því leggur Kópavogsbær áherslu á umhverfismótun sem felur í sér varðveislu grænna svæða til leiks, íþrótta, samvista og útiveru. Lýðheilsa snýr meðal annars að skipulagsmálum, loftlagsmálum, hljóðvist, sjálfbærni og meðhöndlun úrgangs. 
    Kappkostað verður að draga úr matarsóun í samræmi við heimsmarkmið 12.3 sem stefnir að því að minnka sóun matvæla um helming á hvern einstakling fyrir 2030.

    Það sem barninu er fyrir bestu 3

    Sem Barnvænt sveitarfélag og samfélag sem leggur grunn að góðri lýðheilsu er tekið mið af sjálfbærri þróun í starfi bæjarins og að bæði manngert og náttúrulegt umhverfi sé til þess fallið að efla lýðheilsu bæjarbúa. Kópavogsbær leitast við að skapa aðstæður sem hjálpa börnum jafnt sem fullorðnum til að stunda hreyfingu, leik og útivist og njóta menningar í sínu nánasta umhverfi.

    Heimsmarkmið 11

    Í anda heimsmarkmiðs 11.2 leggur Kópavogsbær áherslu á vistvænar samgöngur meðal annars með því að tryggja gott og vel merkt stígakerfi með viðeigandi árstíðabundinni þjónustu til að auka öryggi og draga úr slysahættu. Lagt er upp úr góðu aðgengi meðal annars fyrir fatlaða og aldraða svo sem með því að hafa bekki til að hvílast á.

    Heimsmarkmið 12

    Bærinn býður bæjarbúum upp á matjurtagarða sem ýtir undir sjálfbæra hugsun, ábyrga neyslu, útiveru og hollustu í takt við heimsmarkmið 12.2. Matjurtagarðar eru í boði fyrir skólabörn (skólagarðar) og fullorðna (garðlönd) og yngstu börnin fá aðstoð og kennslu við ræktun grænmetis.

  • Geðrækt

    Heimsmarkmið 3

    Kópavogsbær leggur sig fram um að skapa aðstæður fyrir íbúa til að hlúa að andlegri heilsu og er fyrsta sveitarfélagið til að opna Geðræktarhús þar sem hægt er að koma saman og vinna verkefni sem ýta undir bætta andlega líðan, jákvæðni og uppbyggjandi samskipti. Áhersla á geðrækt styður við heimsmarkmið 3.4. sem kveður á um að stuðla skuli að bættu geðheilbrigði og vellíðan. Í metnaðarfullu menningarstarfi bæjarins er boðið upp á fjölbreytta viðburði, skapandi starf og samveru sem efla andlega líðan og jákvæð samskipti.

    Líf og þroski 6

    Geðræktarstarf með börnum leggur jafnframt góðan grunn að 6. grein Barnasáttmálans um að stjórnvöld skuli tryggja að öll börn eigi rétt á því að lifa og þroskast.

  • Næring og hreyfing

    Grein 12  Grein 24

    Markmið Kópavogsbæjar er að stuðla að neyslu hollrar og fjölbreyttrar fæðu á sínum starfsstöðvum. Bærinn hefur gefið út næringarútreiknaða matseðla fyrir leikskóla og grunnskóla bæjarins og mun fylgjast með fæðuframboði í mötuneytum grunnskóla þar sem leitast verður við að eiga gott samstarf við börnin í takt við 12. grein Barnasáttmálans. Þá er fylgst með fæðuframboði fyrir eldri borgara hvort sem er í heimaþjónustu eða þeirra sem neyta matar í félagsmiðstöðvum bæjarins og reglulega gerðar kannanir meðal neytenda.

    Heimsmarkmið 3

    Kópavogsbær leggur áherslu á að skapa umhverfi sem hvetur til fjölbreyttrar hreyfingar og útivistar svo sem með því að setja upp göngustíga, æfingatröppur eða hreystitæki víðsvegar um bæinn. Stutt er við íþróttastarf í bænum þannig að allir aldurshópar geti fundið hreyfingu við hæfi. Börn eiga kost á frístundastyrkjum til að taka þátt í íþróttum eða öðrum tómstundum. Bærinn leggur áherslu á fjölbreytileika í hreyfimöguleikum fyrir eldri borgara. Virkni og vellíðan er verkefni sem snýr að þjálfun eldri borgara og verður haldið áfram að þróa það í samstarfi við íþróttafélögin og vísindasamfélagið í takt við áherslur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um Heilbrigða öldrun 2021-2030. Verkefnið Leikfimi heima snýr að eldri borgurum sem heilsu sinnar vegna þurfa aðstoð við heilsueflandi hreyfingu heima fyrir. Þá styður bærinn við sundleikfimi sem sniðin er að þörfum eldri borgara auk þess sem mikið framboð er af hreyfingu í félagsmiðstöðvum bæjarins.

  • Forvarnir og heilsuefling

    Grein 2 Grein 3 Grein 6 Grein 12

    Forvarnarstarf og heilsuefling snýr að öllum aldurshópum en ekki síst börnum. Grunnforsendur Barnasáttmálans byggja á 2., 3., 6. og 12. grein Barnasáttmálans og þessar greinar leggur Kópavogsbær til grundvallar í forvarna- og heilsueflingarstarfi barna. Allir grunnskólar hafa forvarnaráætlanir en stefnt er á að útvíkka þær enn frekar með gerð lýðheilsuáætlana í samstarfi leikskóla, grunnskóla, frístundar, félagsmiðstöðva og menningastofnana bæjarins.

    Fræðslan er útbúin í samræmi við aldur og þroska barna og unnið í samstarfi við skólahjúkrunarfræðinga og aðra fagaðila sem annast mikilvægt fræðslustarf í grunnskólunum. Í samræmi við 2. grein Barnasáttmálans verður lögð áhersla á að ná til allra barna, styðja þau í að byggja upp góða sjálfsmynd, hlusta og efla færni í samskiptum sem leggur grunninn að góðri geðheilsu, jákvæðni og heilbrigðum lífsviðhorfum.

    Heimsmarkmið 3 Heimsmarkmið 10

    Lýðheilsustarfið spannar meðal annars fræðslu um andlega líðan, hollustu, hreyfingu og menningu. Forvarnarstarfið miðar jafnframt að því að draga úr slysum í leik- og grunnskólum og á útivistarsvæðum. Forvarnarstarfið fellur vel að heimsmarkmiði 3.4 og forvarnarhluta heimsmarkmiðs 3.5 auk þess að byggja undir heimsmarkmið 10.3.

Síðast uppfært 22. nóvember 2022