Stefnur, samþykktir og erindisbréf

Barnasáttmálinn í Kópavogi

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti 22. maí 2018 að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og komast þannig í alþjóðlegan hóp barnvænna sveitarfélaga. Stýrihópur, með þátttöku barna og ungmenna, vinnur að innleiðingunni, þar sem lögð er áhersla á að vinna með grunnstoðir Barnasáttmálans.

Grunnstoðirnar eru: 2. greinin sem fjallar um jafnræði og enga mismunun, 3. greinin sem fjallar um að við gerum ávallt það sem barni fyrir bestu, 6. greinin sem fjallar um rétt barns til að lifa og þroskast, 12. greinin sem fjallar um rétt barns til að tjá sig.

Bæjarmálasamþykkt

Bæjarmálasamþykkt um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar var samþykkt á 1100. fundi bæjarstjórnar, þann 15. júlí 2014. Síðast breytt á fundi bæjarstjórnar 8. nóvember 2016, sbr. auglýsingu í Stjórnartíðindum, nr. 1128/2016 frá 7. desember 2016. 

Í bæjarmálasamþykkt er tekið á stjórn og skipan bæjarstjórnar og verkefni sveitarfélagsins, fundi og fundasköp, réttindi og skyldur bæjarfulltrúa, bæjarráð, fastanefndir, ráð og stjórnir, bæjarstjóra og aðra starfsmenn, fjármál sveitarfélagsins og samráð við íbúa.

Eineltisstefna

Kópavogsbær hefur það að leiðarljósi að vera góður vinnustaður og starfsfólki líði vel í vinnunni.

Þann 12. janúar 2012 var eineltisstefna Kópavogsbæjar samþykkt. Uppfærð stefna var samþykkt í bæjarstjórn 13. júní 2023. Þar kemur fram sú meginstefna að Kópavogsbær hafi það að leiðarljósi að vera góður vinnustaður og að starfsfólki líði vel í vinnunni.

Eineltisteymi Kópavogsbæjar er skipað fulltrúum allra sviða bæjarins, auk jafnréttisráðgjafa. Hlutverk teymisins er að veita stjórnendum ráðgjöf þegar einelti eða vísbending um einelti kemur upp á vinnustað. Teyminu er heimilt að sækja sér utanaðkomandi ráðgjöf.

Gæðastefna Kópavogsbæjar

Í gæðastefnu Kópavogsbæjar hefur bæjarstjórn sett fram stefnu sem hæfir tilgangi og samhengi þess umhverfis sem bæjarfélagið starfar í, styður við og endurspeglar strategísk áform þess.

Gæðastefnan er rýnd og samþykkt árlega af bæjarstjórn og er um leið undirstaðan fyrir stjórnunarkerfi gæða sem einnig er rýnt árlega í samræmi við ISO 9001 gæðastjórnunarstaðlinum.

Innkaupastefna Kópavogsbæjar

Markmið innkaupastefnu er að tryggja að innkaup séu samkvæmt lögum og reglum um opinber innkaup og séu ábyrg, hagkvæm, vistvæn, heiðarleg og gagnsæ.

Innkaupastefnan byggir á heildarstefnu Kópavogsbæjar sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Stefnan tekur mið af gæðastefnu og stefnu fjármálasviðs ásamt því að hafa aðrar stefnur og áætlanir Kópavogsbæjar til hliðsjónar. 

Jafnlaunastefna

Kópavogsbær hefur það að markmiði að allir þeir starfsmenn sem vinna sambærileg eða jafn verðmæt störf fái sömu laun og kjör fyrir sín störf.

Jafnlaunastefnan tekur til alls starfsfólks Kópavogsbæjar. Meginmarkmið jafnlaunastefnu Kópavogsbæjar er að allar launaákvarðanir skulu vera gegnsæjar, málefnalegar, skjalfestar og rekjanlegar. Markmið Kópavogsbæjar er að vera vinnustaður þar sem konur og karlar hafi jöfn tækifæri í starfi, starfsemin taki mið af jafnréttisáætlun sveitarfélagsins og enginn óútskýrður launamunur sé til staðar.

Jafnréttis- og mannréttindastefna

Jafnréttis- og mannréttindastefna Kópavogs er byggð á jafnræðisreglunni og miðar að því að allir fái notið mannréttinda án tillits til kyns, uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

Kópavogsbær hefur einsett sér að vera í fararbroddi í mannréttindamálum með sérstakri áherslu á jafna stöðu kynjanna. Jafnréttis- og mannréttindastefnan er mikilvægt framlag til þess að ná því markmiði.

Lýðheilsustefna

Lýðheilsustefnan hefur það að markmiði að Kópavogsbær sé jákvætt heilsueflandi samfélag sem stuðlar að vellíðan og öryggi meðal bæjarbúa á öllum aldursskeiðum með jöfnuði til heilsu að leiðarljósi.

Meginmarkmið lýðheilsustefnunnar:

Mannauðsstefna

Mannauðsstefnan styður við framfylgd Stefnu Kópavogsbæjar sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þá hefur mannauðsstefnan gildi Kópavogsbæjar að leiðarljósi og styður við markvissa notkun þeirra og innleiðingu á starfsstöðum Kópavogsbæjar.

Mannauðsstefnan var unnin af mannauðsstjóra og mannauðsteymi Kópavogsbæjar. Stefnan byggir á áherslum sem fram komu á stjórnendadegi ársins 2022 þar sem stjórnendur settu fram sín sjónarmið og vinnustofum með starfsfólki sem fram fóru í lok árs 2022 og í byrjun ársins 2023. 

Stefnan var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 9. janúar 2024.

Menningarstefna

Tilgangur menningarstarfs Kópavogsbæjar er að auka lífsgæði Kópavogsbúa á öllum aldri með fjölbreyttu menningar- og listalíf , fræðslu og miðlun vísinda.

Öflugt og fjölbreytt starf í menningu og listum styrkir bæjarbrag, eykur víðsýni, örvar samfélagið í heild og þar með efnahagslega framþróun þess. Síðast en ekki síst ýtir það undir jákvæða ímynd bæjarins og laðar að nýja íbúa og um leið innlenda jafnt sem erlenda gesti.

Persónuverndarsamþykkt

Kópavogsbær hefur einsett sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem sveitarfélagið og undirstofnarnir þess vinna.

Persónuverndarsamþykkt lýsir vinnslu sveitarfélagsins á persónuupplýsingum. Sveitarfélagið mun auk þess leitast við að veita þeim einstaklingum sem unnið er með persónuupplýsingar um nánari fræðslu um þá vinnslu sem sveitarfélagið hefur með höndum hverju sinni, eftir því sem við á. Ýmsar stofnanir sveitarfélagsins hafa jafnframt sett sér sínar eigin persónuverndarsamþykktir og vísast til þeirra þar sem það á við í persónuvendarsamþykkt Kópavogs.

Senda má upplýsingar og ábendingar til persónuverndarfulltrúa Kópavogsbæjar.

Siðareglur bæjarfulltrúa

Kópavogsbær var fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að setja sér siðareglur árið 2009 en þær voru endurskoðaðar og samþykktar einróma árið 2015.

Markmið reglnanna er eins og fram kemur í fyrstu grein þeirra að „skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Kópavogsbæjar og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.“

Með kjörnum fulltrúum er átt við bæjarfulltrúa og aðra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum Kópavogsbæjar.

Forsætisnefnd sker úr hvort reglurnar hafa verið brotnar og tekur mál til umfjöllunar að eigin frumkvæði eða á grundvelli skriflegrar rökstuddrar ábendingar. Nefndin getur lagt til að forseti bæjarstjórnar ávíti viðkomandi vegna brotsins ef nefndin telur að um brot sé að ræða.

Skjalastefna Kópavogsbæjar

Skjalastefna Kópavogsbæjar er gerð með hliðsjón af heildarstefnu Kópavogsbæjar sem samanstendur af framtíðarsýn, hlutverki, gildum og yfirmarkmiðum. Tilgangur hennar er að uppfylla kröfur sem gerðar eru til skjalastjórnar samkvæmt lögum og reglugerðum. Að tryggja kerfisbundna stjórnun, örugga meðferð og varðveislu opinberra skjala. Tilgangurinn er einnig að lýsa ábyrgð starfsmanna.

Stefna Kópavogsbæjar

Stefnupýramídi Kópavogsbæjar er myndræn framsetning á stefnu bæjarins.

Stefna Kópavogsbæjar felur í sér hlutverk, gildi og framtíðarsýn og yfirmarkmið úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Yfirmarkmiðin samanstanda af 36 markmiðum úr fimmtán af sautján Heimsmarkmiðum.

Stefnur sviða

Stjórnsýsla Kópavogsbæjar skiptist í fimm svið; menntasvið, umhverfissvið, velferðarsvið, fjármálasvið og stjórnsýslusvið. Hvert svið hefur sett stefnu sem byggir á heildarstefnu Kópavogsbæjar og yfirmarkmiðum úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Umhverfisstefna

Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar skal vera liður í daglegu starfi Kópavogsbæjar og stofnana bæjarins. Umhverfisstefnuna á að kynna fyrir starfsfólki, íbúum og starfsmönnum fyrirtækja í Kópavogi og birta opinberlega á vef Kópavogsbæjar.

Við framkvæmd stefnunnar skal leitast við að hafa jafnræði allra íbúa og jafnrétti að leiðarljósi og tryggja aðgengi fatlaðra sem ófatlaðra. Umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs ber ábyrgð á umhverfisstefnunni og vinnur hana í samvinnu við allar deildir og stofnanir bæjarins hvað varðar framkvæmd og eftirlit og í samráði við íbúa. 

Vafrakökustefna

Þessi vefur notar vafrakökur (e. cookies)* til að tryggja notendum sem bestu upplifun af vefnum. Vafrakökur eru skrár sem komið er fyrir á tölvu notanda sem heimsækir vefinn og geymir upplýsingar um heimsóknina. 

Vefstefna

Vefstefnan á að stuðla að því að skapa heildstæða notendaupplifun fyrir þá sem þurfa á þjónustu Kópavogsbæjar að halda með samræmdu útliti, umgjörð og innihaldi.

Öryggisstefna

Kópavogsbær hefur sett sér það markmið að vera slysalaus vinnustaður. Til að svo megi verða þarf að efla öryggisvitund starfsmanna og stuðla að öflugri öryggismenningu.

Kópavogsbær leggur áherslu á að öryggi starfsmanna, nemenda og annarra þjónustuþega sé í fyrirrúmi og að leita allra leiða til að efla öryggi.

Forvarnir og góð vinnubrögð skapa öruggara umhverfi sem fyrirbyggi óhöpp og slys. Í öryggisstefnu bæjarins felst meðal annars að á öllum vinnustöðum verði til staðar virkar öryggisnefndir og starfsmenn bæjarins vinni eftir samþykkt um öryggismál.

Fyrirspurnir og ábendingar sem varða öryggismál má senda á netfangið oryggi@kopavogur.is.

  • Öryggi í forgang - samþykkt