Samfella í leik- og grunnskólum

Leik- og grunnskólar Kópavogs eru skólar án aðgreiningar. Stuðningur við börn einkennist af virðingu, umburðarlyndi og metnaði. 

Börnum er búið námsumhverfi sem gefur þeim tækifæri til að nýta hæfileika sína og sérstöðu. Samvinna barna, foreldra, kennara og sérfræðinga um skipulag náms barna er mikilvægur þáttur í skóla án aðgreiningar.  Ef grunur vaknar hjá foreldri um frávik hjá barni námslega eða félagslega, geta foreldrar leitað til skóla eftir aðstoð.  Sem dæmi um vanda barns sem leitað er aðstoðar fyrir má nefna: námserfiðleika, þroskafrávik, félags- og tilfinningarlega erfiðleika og einelti.

Besta leiðin er að hafa beint samband við kennara barnsins eða skólastjórn viðkomandi leik- eða grunnskóla. Einnig má hafa samband við skólaþjónustu leik- og grunnskóla á menntasviði Kópavogsbæjar.

Skólaþjónusta leik- og grunnskóla mótast af heildarsýn á aðstæður barna, hagsmuni þeirra og virku samstarfi við foreldra. 

Áhersla er lögð á :

  • Að grípa snemma inn í með stuðning ef þörf krefur
  • Upplýsingaflæði milli skólastiga
  • Samvinnu foreldra, starfsfólks skóla og annarra sérfræðinga
  • Fræðslu og ráðgjöf til barna, foreldra og starfsfólks skóla
  • Leikskólar

    Í leikskólum starfa sérkennslustjórar sem veita m.a. ráðgjöf til foreldra.

    Önnur sérfræðiþjónusta s.s. þjónusta sálfræðinga, iðjuþjálfa, talmeinafræðinga og sérkennsluráðgjafa er veitt gegnum leikskóladeild menntasviðs Kópavogsbæjar.

  • Grunnskólar

    Óski foreldrar eftir sér stuðningi fyrir barn sitt eða aðkomu sérfræðinga skólans, beina þeir óskum sínum fyrst til umsjónarkennara barns síns eða skólastjórn skólans.

    Í öllum grunnskólum starfa sérkennarar, talmeinafræðingar, náms- og starfsráðgjafar og sálfræðingar. Önnur ráðgjöf sérfræðinga s.s. kennsluráðgjöf er veitt gegnum grunnskóladeild menntasviðs.

    • Í hvaða grunnskóla á barnið mitt að fara?

      Lögheimili nemenda ræður því í hvaða skóla þau eiga námsvist. Foreldrar geta samt sem áður sótt um skólavist í hvaða grunnskóla sem er í bænum.

    • Skólahverfin

      Skólahverfin er afmörkuð eftir götum sem finna má hér að neðan:

      Skólahverfi  Álfhólsskóla 
      Afmarkast af Kjarrhólma, Smiðjuvegi, Dalvegi, Digranesvegi, Bröttubrekku og sunnan Nýbýlavegar. er í Digranes- og Hjallahverfi

      Skólahverfi Hörðuvallaskóli
      Kórahverfi

      Skólahverfi Kársnesskóli
      Kársnesið, vestan Hafnafjarðarvegar

      Skólahverfi Kópavogsskóli
      Afmarkast af Hafnarfjarðarvegi, Bröttubrekku, Digranesvegi, Nýbýlavegi og Fífuhvammi

      Skólahverfi Lindaskóli
      Lindahverfi

      Skólahverfi Salaskóli
      Salahverfi

      Skólahverfi Smáraskóli
      Smárahverfi

      Skólahverfi Snælandsskóli 
      Er norðan Nýbýlavegar, Hólmarnir tilheyra Álfhólsskóla.

      Skólahverfi Vatnsendaskóli
      Vatnsendahverfi þ.e. Þing og Hvörf.

  • Skil skólastiga

    Þegar börn fara úr leikskóla í grunnskóla eru haldnir skilafundir milli starfsfólks leik- og grunnskóla að vori. Á þeim fundum veitir starfsfólk leikskóla upplýsingar til grunnskóla og frístunda um stöðu hvers barns. Jafnframt er fundað með foreldrum og fulltrúum beggja skólastiga í einstaka málum. Einnig heimsækir starfsfólk beggja skólastiga hvert annað til þess að tryggja gott upphaf skólagöngu.

    Þegar nemendur fara úr grunnskóla í framhaldsskóla skilar grunnskólinn ítarlegri greinargerð um nemendur sem hafa fengið víðtækan stuðning í námi. Foreldrar, nemandinn, kennarar og fagaðilar taka þátt í að móta greinargerðina sem nefnist tilfærsluáætlun (sjá nánar reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla og reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskóla).

    Barn getur með heimild skólastjóra grunnskóla, að fenginni umsögn sérfræðiþjónustu, hafið grunnskólanám fyrir 6 ára aldur og útskrifast úr grunnskóla áður en tíu ára grunnskólanámi er lokið. Ákvörðun um slíkt er tekin í samvinnu foreldra og skólastjórnenda viðkomandi skóla. Barn getur með heimild leikskólanefndar, að fenginni umsögn sérfræðiþjónustu og leik- og grunnskólastjóra verið ári lengur í leikskóla.  

Síðast uppfært 08. mars 2023