Vinna að heildarsýn fyrir Kópavogsdal

Starfshópur hefur verið skipaður sem vinna mun tillögur að heildarsýn fyrir Kópavogsdal, og leggja mat á hvort ástæða sé til að gera breytingar á gildandi skipulagsáætlun Kópavogs. Starfshópurinn kallar eftir þarfagreiningu frá skilgreindum hagaðilum á svæðinu og hugmyndum frá íbúum.

Kópavogsdalur skipar mikilvægan sess í útvist og íþróttalífi bæjarins og tengist töfrandi gönguleið um Kárnesið. Aðliggjandi eru verðmæt opin svæði eins og Kópavogstúnið, Þinghóll og hið mikilvæga verndarsvæði fugla á Kópavogsleirunni. Dalurinn og aðliggjandi svæði og stígar veita Kópavogsbúum ómetanleg lífsgæði. Nú stendur yfir mat á stöðu Kópavogsdals og að móta framtíðarsýn. Öllum Kópavogsbúum stendur til boða að koma með hugmyndir og ábendingar.

Á fundi bæjarráðs Kópavogs þann 28. september síðastliðinn var samþykkt að skipa starfshóp til að vinna tillögum að heildarsýn fyrir Kópavogsdal og leggja mat á hvort ástæða sé til að gera breytingar á gildandi skipulagsáætlunum fyrir svæðið. Nánari afmörkun svæðisins miðast við deiliskipulagssvæði Kópavogsdals.

Starfshópurinn kallar eftir þarfagreiningu frá hagaðilum með starfsemi í dalnum, sem og skriflegum umsögnum frá aðilum sem gætu haft hagsmuna að gæta í dalnum eða búa yfir þekkingu eða upplýsingum sem geta verið gagnlegar fyrir starfshópinn.

Hagaðilar með starfsemi í dalnum sem skila inn þarfagreiningu gefst kostur á að skýra frá sýn sinni fyrir dalinn og tiltaka það sem þeir telja sig þurfa að breyta eða lagfæra í dalnum. Til dæmis er viðkomandi sáttur við aðstöðu sína, sér hann fyrir sér breytingu eða möguleika til framþróunar á rekstrinum eða starfseminni, kallar það á breytta landnotkun, telur hann sig þurfa eitthvað annað og þá hvað og hvers vegna? Óskað er eftir greinargóðum röksemdum fyrir þörfum hagaðila og hvernig þær þjóna hagsmunum Kópavogsbæjar og Kópavogsbúum.

Hagaðilar sem gætu haft hagsmuna að gæta í dalnum og vilja skila inn skriflegum umsögnum geta komið á fræmfæri ábendingum og sjónarmiðum sínum hvað varðar sýn þeirra fyrir dalinn. Óskað er eftir greinargóðum röksemdum fyrir umsögnum og ábendingum og hvernig þær þjóni verkefninu að móta heildarsýn fyrir Kópavogsdal.

Þarfagreiningum og umsögnum þarf að skila skriflega skriflega til Kópavogsbæjar, Digranesvegi 1, 200 Kópavogi eða á netfangið sigrun.maria@kopavogur.is eigi síðar en kl. 15:00 föstudaginn 1. desember 2023.

Jafnframt mun öllum íbúum Kópavogsbæjar gefast tækifæri til að skila inn hugmyndum um nýtingu og framtíðarsýn fyrir dalinn á https://heildarsynkopavogsdals.betraisland.is. Gáttin verður opin frá 15.nóvember til 29. nóvember 2023.

Starfshópinn skipa: Hjördís Ýr Johnson, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Auður Dagný Kristinsdóttir, Íris Svavarsdóttir, Hákon Gunnarsson,Kristinn Dagur Gissurarson,  Tryggvi Felixson. Starfsmaður er Sigrún María Kristinsdóttir.

Starfshópurinn mun skila inn skýrslu og tillögum til bæjarstjóra í ársbyrjun 2024. 

Kópavogsdalur loftmynd

Síðast uppfært 13. nóvember 2023