Í fyrsta hluta verkefnisins, hugmyndainnsetningu, gafst íbúum og öðrum gestum tækifæri til að leggja fram hugmyndir að verkefnum sem þeir vilja sjá framkvæmd í bænum. Innsetning hugmynda stóð yfir frá 1. til 21. október 2019. Hugmyndum var hægt að koma á framfæri með tvenns konar hætti. Annars vegar á íbúafundum og hins vegar í gegnum hugmyndakerfi verkefnisins.
Allt að sjö hugmyndir frá hverjum íbúafundi fóru í kosningu. Íbúar voru hvattir til að fjölmenna á íbúafundina og koma sínum hugmyndum á framfæri.
Hugmyndir íbúa þurfa vera á bæjarlandi og innan þéttbýlis. Þær geta varðað leik- og afþreyingarsvæði íbúa, vistvænar samgöngur, bætta lýðheilsu eða umhverfið almennt. Hugmyndin verður að falla að stefnu bæjarins og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar stofnanir eða sveitarfélag.
Mikilvægt er að hugmyndin sé skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað verkefnið snýst og hvar nákvæm staðsetning er. Greinargóð lýsing auðveldar mat og því hvort hún nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu. Starfsmenn Kópavogsbæjar geta óskað eftir nánari skýringum um hverja hugmynd.
Aðstoð og nánari upplýsingar eru veittar í Þjónustuveri Kópavogsbæjar í síma 441 0000 eða í tölvupósti á netfangið okkarkopavogur(hjá)kopavogur.is
Þeir sem einhverra hluta vegna geta ekki notað hugmyndakerfið eða mætt á íbúafundi en vilja taka þátt í verkefninu geta sent hugmyndir sínar á netfangið okkarkopavogur(hjá)kopavogur.is