Frístundastyrkir

Kópavogsbær veitir foreldrum/forráðamönnum barna á aldrinum 5-18 ára með lögheimili í Kópavogi, frístundastyrk vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Athugið að ráðstöfun frístundastyrkja er núna rafræn. Ekki er lengur tekið á móti kvittunum í Þjónustuverinu.

Frá og með 1. janúar 2024 er styrkurinn 59.000 krónur á barn á ári. Heimilt er að ráðstafa frístundastyrknum hvenær sem er á árinu óháð fjölda greina/námskeiða. Fimm ára börn í Kópavogi fá 85.000 króna frístundastyrk árið 2024. Gert er ráð fyrir að þau geti iðkað a.m.k. eina íþrótt eða aðra tómstund foreldrum að kostnaðarlausu.

Iðkendur eiga rétt á styrk frá og með því ári sem 5 ára aldri er náð, til og með því ári sem 18 ára aldri er náð. 

Kópavogsbær hefur samþykkt  að opna á notkun Frístundastyrks Kópavogs fyrir líkamsræktarkort ungmenna á aldrinum 16-18 ára.  Heimilt er að veita frístundastyrk til ungmenna, 16-18 ára miðað við fæðingarár, til kaupa á 3ja til 12 mánaða kortum að líkamsræktarstöðvum sem uppfylla skilyrði um fræðslu til iðkenda og fagmennsku í sinni starfssemi.

Vinsamlegast athugið að öll ráðstöfun frístundastyrkja er núna rafræn.

 • Fyrir hverja er frístundastyrkur?

  Til að starfsemi geti talist styrkhæf þarf námskeiðið/starfsemin að standa yfir í a.m.k. 10 vikur samfellt. Starfsemin þarf að vera byggð á uppeldislegum gildum og forvörnum og fara fram undir stjórn/leiðsögn menntaðs fagaðila á sviði íþrótta og/eða tómstunda.

  Vakin er athygli á að ekki er heimilt að flytja styrkinn á milli ára.

  Ekki er hægt að nýta styrkinn á sumarnámskeið.

 • Tilgangur með frístundastyrk

  Markmið og tilgangur með veitingu frístundastyrks er að öll börn á aldrinum 5 til 18 ára í Kópavogi geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.

 • Hverjir geta ráðstafað styrknum?

  Þeir foreldrar/forráðamenn sem eiga sama lögheimili og barn geta ráðstafað frístundastyrk þess. Hins vegar getur foreldri sem ekki á sama lögheimili og barn ráðstafað frístundastyrknum ef íþróttafélagið/tómstundafélagið stofnar viðkomandi sem forráðamann í skráningarkerfinu Nóra. Sama á við um aðra nákomna ættingja svo sem ömmur og afar. Til þess að skrá nýjan forráðamann þarf skriflegt leyfi frá núverandi forráðamanni. Vakin er athygli á því að þetta gildir ekki gagnvart Reykjavík.

Síðast uppfært 02. janúar 2024