Kársnes

Kársnesið  nær frá Hafnarfjarðarvegi í austri og vestur að Kársneshöfn.

Hverfi Kópavogs Digranes Fifuhvammur Kársnes Smárinn Vatnsendi

Eins og allsstaðar í Kópavogi eru falleg og skemmtileg svæði á Kársnesi sem gaman er að fara um.

  • Kársnesstígur

    Kársnesstígur
    Kársnesstígur liggur umhverfis Kársnesið sem er vestasti hluti Kópavogs. Á leiðinni er fjöldinn allur af leiksvæðum og auðvelt aðgengi er frá stígnum að Sundlaug Kópavogs. Stígurinn tengist bæði göngustíg í Fossvogi og Kópavogsdal. Hann er mjög vinsæll hjá gangandi og hjólandi vegfarendum. Við stíginn er bláfánahöfn við Fossvog sem er svæði Siglingaklúbbsins Ýmis og smábátahöfn vestast á nesinu. Fjaran við stíginn er vinsæll áningastaður og ekkert er skemmtilegra en að skoða lífið í fjörunni í skemmtilegum göngu eða hjólatúr.

     Sjá myndavef

  • Kópavogstúnið

    Kópavogstún
    Kópavogstún liggur vestan við Hafnarfjarðarveg. Túnið er stórt og geymir mikla sögu. Á staðnum er minnisvarði um svokallaðan Kópavogsfund sem fram fór 1662 þar sem sögur herma að fyrsta flugeldasýningin á Íslandi hafi farið fram þar.  Kópavogstún hefur verið vinsælt til útvistar. Einnig hefur túnið verið notað sem tjaldstæði á fjölmennum viðburðum í sveitafélaginu. Á svæðinu má finna tóftir af þingstaðnum og einnig af gömlu fangahúsi sem stóð syðst á túninu. Þingstaðurinn var friðlýstur 1938.

  • Hlégerðisvöllur (Stelluróló)

    Stelluróló

    Var fyrsti gæsluvöllurinn í Kópavogi og hefur verið starfræktur í rúm 50 ár. Hlégerðisvöllur er í daglegu tali oft nefndur Stelluróló eftir konu sem vann á vellinum og hét Guðbjörg Arnórsdóttir. Er starfræktur gæsluvöllur í Hlégerði á þeim tíma er leikskólar bæjarins eru í sumarfríi. Völlurinn er í miklu skjóli og bíður upp á skemmtun og leik fyrir alla.  

  • Borgarholt

    Kópavogskirkja

    Á Borgarholti stendur eitt af kennileitum Kópavogs, Kópavogskirkja.  Kirkjan var reist á árunum 1958 – 1962. Kirkjan sést víða að og er ein af þekktari byggingum Kópavogs. Af holtinu er frábært útsýni í allar áttir. Á góðum degi er hægt að sjá allan fjallahringinn umhverfis höfuðborgarsvæðið ásamt því sem Snæfellsjökull blasir við í fjarska. Borgarholt er ekki síður athyglisvert fyrir þær sakir að þar er að finna um fjórðung tegunda í flóru Íslands.

     

  • Rútstún

    Rútstún
    Rútstún er perla í hjarta í Kársness. Svæðið nota Kópavogsbúar til að koma saman á 17. júní ár hvert og gera sér glaðan dag. Svæðið er einstaklega skjólsælt og er það ekki síst því að þakka að árið 1959 var farið í að gróðursetja skjólbelti umhverfis túnið. Þar er leiksvæði fyrir börn og einnig hægt að renna sér á sleða á veturna.  Frábært að skella sér á Rútstún til leiks og fara svo í sund í Kópavogslaug sem er í göngufæri frá túninu.

     

  • Sundlaug Kópavogs

    Sundlaug Kópavogs

    Sundlaug Kópavogs var opnuð 1967. Í dag er Sundlaug Kópavogs ein vinsælasta sundlaug landsins. Þar má finna skemmtilega vaðlaug fyrir yngri kynslóðina og rennibrautir fyrir þá eldri. Einnig eru á svæðinu heitir potta, kaldur pottur, 50 metra sundlaug, innilaug og gufubað. Í lauginni er einnig líkamsræktarstöð. Á góðum sumardegi er sundlaugin vinsæll samkomustaður Kópavogsbúa og annarra gesta.

    Nánari upplýsingar má finna hér.

Síðast uppfært 13. janúar 2020