Fjárhagsaðstoð og félagsleg ráðgjöf

Fjárhagsaðstoð er veitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglum sveitarfélagsins, en samkvæmt þeim er hverjum og einum skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. 

Meginástæður fyrir fjárhagsaðstoð eru atvinnuleysi eða veikindi og þegar fullreynt er að réttur til bóta eða annarra greiðslna er ekki fyrir hendi annars staðar. Aðstoðin miðar að því að styrkja íbúa til sjálfshjálpar og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.

Upphæð fjárhagsaðstoðar

Upphæð fjárhagsaðstoðar tekur mið af skattskyldum tekjum umsækjanda eða hjóna og sambúðaraðila og koma skattskyldar tekjur til frádráttar við útreikning fjárhæðar.

Frá 1. janúar 2024 eru viðmiðunarmörk fjárhagsaðstoðar kr. 246.024  fyrir einstakling en kr. 393.639  fyrir hjón og sambúðaraðila. Fjárhæð fer eftir húsnæðisaðstæðum hverju sinni. Aðstoðin er veitt óháð barnafjölda, þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög, barnalífeyrir og umönnunargreiðslur mæti kostnaði vegna barna.

Húsaleigubætur og vaxtabætur mæta mismunandi kostnaði vegna húsnæðis. Fjárhagsaðstoð er skattskyld. Umsókn um fjárhagsaðstoð er skrifleg og til þess að hún teljist gild þarf að skila eftirtöldum gögnum:

  • Nauðsynleg gögn

    • Staðfest skattframtal, álagningarseðill og staðgreiðsluyfirlit Ríkisskattstjóra frá umsækjanda og maka eða sambúðaraðila.
    • Upplýsingar um tekjur og aðrar greiðslur umsækjanda og maka eða sambúðaraðila, þ.m.t. launaseðlar tveggja síðustu mánaða, greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins, lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun, sjúkrasjóðum stéttarfélaga, Sjúkratryggingum Íslands og/eða Fæðingarorlofssjóði.
    • Ef umsækjandi er vinnufær þarf að skila staðfestingu á að skráningu hjá Vinnumálastofnun eða að bótarétti úr Atvinnuleysistryggingasjóði sé lokið.
    • Ef umsækjandi er óvinnufær þarf að skila inn læknisvottorði.
    • Ef umsækjandi er í námi þarf að skila inn staðfestingu á skólavist og að umsækjandi eigi ekki kost á námsláni hjá LÍN.

    Nánari upplýsingar veita ráðgjafar í ráðgjafateymi á velferðarsviði, sími 441 0000.

Síðast uppfært 16. janúar 2024