Sorphirða

Í Kópavogi er fjórflokkun sorps við hvert íbúðarhús lögum samkvæmt; matarleifar, plast, pappír og blandaður úrgangur. Með því að flokka heimilisúrgang minnkum við sóun og endurnýtum verðmæti.

                                                              Flokkum í Kópavogi

 

Nýtt samræmt flokkunarkerfi á heimilisúrgangi byggir á breytingum á lögum um meðhöndlum úrgangs sem samþykkt voru á Alþingi í júlí 2021 og tóku gildi 1. janúar 2023. Lögin kveða á um að skylt verður að safna við öll íbúðarhús lífrænum eldhúsúrgangi, blönduðum úrgangi, plasti, pappír og pappa. Þá verður einnig skylt að safna textíl, málmum og gleri í nærumhverfi íbúa á grenndargámastöðvum.

Allir úrgangsflokkar við íbúðarhús í Kópavogi eru tæmdir á 14 daga fresti af Íslenska gámafélaginu. Notaðu leitargluggann undir sorphirðudagatal til að sjá hvenær næsta losun er áætluð í þinni götu.

Íbúum hefur verið úrvegað ílát til að safna lífrænum úrgangi inn á heimilum. Matarleifum er safnað í bréfpoka sem brotna auðveldlega niður og festast ekki í vélbúnaði móttökustöðva Sorpu. Bréfpokarnir eru aðgengilegir í matvöruverslunum.

Allar almennar upplýsingar um fjórflokkun heimilissorps má finna á vefnum www.flokkum.is. 

Hvað fer í hvaða tunnu?

Á heimasíðu Sorpu www.sorpa.is er á forsíðu gluggi merktur „Hvað á að gera við“ þar sem hægt er að slá inn öllu því helsta sem fellur til á heimilum. T.d. ef skrifað er eggjabakki í gluggann kemur fram að slíkt eigi að fara í pappírstunnuna.

Hér að neðan er hægt að sjá nokkur dæmi um hvað fer í hvaða tunnu við íbúðarhús.

Matarleifar

Í lífrænu tunnuna fara meðal annars:

 • Eggjaskurn
 • Matarleifar
 • Kaffikorgur
 • Fiskiúrgangur og bein

Blandaður úrgangur

Í tunnuna fyrir blandaðan úrgang fara meðal annars:

 • Blautklútar
 • Ryksugupokar
 • Bleyjur
 • Dömubindi

Pappír og pappi

Í pappírstunnuna fara meðal annars:

 • Dagblöð
 • Bréfpokar
 • Pítsakassar
 • Fernur

Plastumbúðir

Í plasttunnuna fara meðal annars:

 • Snakkpokar
 • Plastfilmur
 • Plastpokar
 • Sjampóbrúsar

Það er hægt að nálgast grænu körfurnar í móttöku bæjarskrifstofunnar í Hamraborginni, í Þjónustumiðstöð í Askalind 5 og í endurvinnslustöð Sorpu á Dalveg.

Grenndargámastöðvar

Grenndarstöðvar í Kópavogi verða endurskoðaðar með tímanum.  Unnið er að því að fjölga málmgámum um bæjarfélagið. Það er hægt að sjá staðsetningar grenndargáma inn á forsíðu Sorpa.is

Margar grenndargámastöðvarnar í Kópavogi munu taka á sig nýja mynd næstu mánuði. Flestar stöðvar munu vera með gáma til að skila málmumbúðum, glerumbúðum, textíl og skilagjaldsumbúðum en á nokkrum verður einnig hægt að skila plast og pappa.

 • Í málmgáminn má setja meðal annars niðursuðudósir, álpappír, álpakkar, málmlok af krukkum, sprittkertakoppar, skrúfur o.fl.
 • Í glergáminn má setja meðal annars litað og glært gler, krukkur, rúðugler,  o.fl.
 • Í textílgáminn má setja meðal annars fatnað, götótta sokka, gluggatjöld, teppi, kodda o.fl.
 • Skilagjaldsumbúðir eru dósir og flöskur úr áli, plasti og gleri.

 

Nýtt beiðnakerfi um breytingar á næsta leiti.

Umsóknarfrestur til að fá tvískipta tunnu fyrir pappa og plast á haustmánuðum rann út í hádeginu þann 29.8 en það var auglýst í Kópavogspóstinum, á facebook og á heimasíðu Kópavogs í ágúst. Nýtt beiðnakerfi verður sett í loftið í nóvember en þá verður hægt að biðja um tvískipta tunnu fyrir pappa og plast aftur. Þangað til verður ekki tekið við beiðnum þess efnis. Ástæða þess er að beðið er eftir að fá fleiri tunnur frá framleiðanda. 

Beiðnaformið verður aðgengilegt á kopavogur.is þegar það opnar aftur. Athugið að samþykkja þarf skilmála í beiðnaformi til að fá tunnu afhenta þegar opnar aftur fyrir skráningu. Tölvupóstsamskipti eru ekki fullnægjandi.

Til þess að láta vita um  mistök í dreyfingu á tunnum er hægt að senda póst á tunnuskipti(hjá)kopavogur.is

 

Sorpílát sem losuð eru í Kópavogi eru eign bæjarins. Kópavogur sér um að viðhalda og endurnýja skemmd sorpílát. Ef tjón á íláti er hægt að rekja til slæmrar umgengni kann íbúi að þurfa að greiða fyrir endurnýjun þess. Það er á ábyrgð íbúa að hreinsa ílátin.

Fyrirspurnir um sorpílát sendist á thjonustumidstod@kopavogur.is eða í síma 441 0000.

 

Tunnumerkingar til að hengja upp í sorpgeymslum:

 • Lífrænn úrgangur

  Þegar nýjum tunnum var dreift fengu íbúar litla körfu til að hafa inni og eitt búnt af pappírspokum til að setja í hana. Lífrænum úrgangi sem fellur til frá heimilinu er safnað í pokana sem er síðan skilað í minna hólfið á tvískiptu tunnunni eða í brúnar 140 l tunnur í fjölbýlishúsum.Pappírspokunum verður ekki frekar dreift til íbúa höfuðborgarsvæðisins heldur verða þeir aðgengilegir í verslunum Bónus, Krónunnar og Nettó og einnig í þjónustuveri og þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar.

  Það er mikilvægt að nota þartilgerða poka við söfnun á lífrænum úrgangi. Pokarnir brotna auðveldlega niður og festast ekki í vélbúnaði móttökustöðvar SORPU.

 • Tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang

  Í tvískiptu tunnuna fara matarleifar í minna hólfið. Matarleifum er safnað í bréfpoka sem brotna auðveldlega niður og festast ekki í vélbúnaði móttökustöðvar. Íbúar fengu körfur og búnt af bréfpokum úthlutað við fyrsta hluta innleiðingar nýja flokkunarkerfisins til að tryggja söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi inn á heimilum. 

  Pappírspokunum verður ekki frekar dreift til íbúa höfuðborgarsvæðisins heldur verða þeir aðgengilegir í verslunum Bónus, Krónunnar og Nettó og einnig í þjónustuveri og þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar.

  Í stærra hólfið fer allur úrgangur sem ekki er endurvinnanlegur svo sem bleyjur, dömubindi, blautklútar, ryksugupokar, tannburstar o.s.frv.

 • Bláa tunnan fyrir pappa og pappír

  Við innleiðingu nýja kerfisins varð bláa tunnan (áður endurvinnslutunnan) að pappa- og pappírstunnu. Í tunnuna fer hreinn pappi og pappír þar á meðal talið drykkjarfernur (tappi má vera með) brúsar, drykkjarrör, dagblöð, eggjabakkar, pappírsumbúðir og pítsukassar. Góð regla er að rífa stærri pappaumbúðir niður til að spara pláss og styrkja fingur.

 • Gráa tunnan fyrir plast

  Við innleiðingu nýja kerfisins varð gráa tunnan fyrir plast og plastumbúðir. Í tunnuna fer mjúkt og hart plast svo sem ýmiskonar plastumbúðir af matvöru, plastfilma, plastpokar, brúsar, plastdósir af unnum mjólkurvörum o.s.frv.

  Athugið að mikilvægt er að skola plastumbúðir áður en þær eru settar í tunnuna því óhreinar umbúðir eru óhæfar til endurvinnslu.

 • Tæmingar á tunnum

  Íslenska gámafélagið sinnir tæmingu fyrir Kópavogsbæ. Almennt eru tunnurnar tæmdar á 14 daga fresti. Sorphirðudagatal má sjá í tengdum skjölum hér til hliðar á síðunni.  Von er á að nýtt dagatal taki gildi með haustinu en það ætti ekki að valda neinum óþægindum fyrir íbúa.
  Sorphirðudagatal

  Samkvæmt gr. 6.12.18 í byggingarreglugerð skal sorptunnum vera komið fyrir í sorpgerði eða sorpskýli. Aðgengi að sorpskýli skal vera án hindrana þannig að tæming geti farið fram án vandkvæða. Á vetrum ber húseigendum að hreinsa snjó frá sorpgeymslum og þeirri leið sem flytja þarf sorpílát um innan lóðar. Ef aðgengi að sorpskýlum eða sorpgeymslum er hindrað, eru tunnurnar ekki tæmdar.

 • Grenndargámar og endurvinnslustöðvar

  Hér er hægt er að nálgast upplýsingar um grenndargáma í Kópavogi og staðsetningar þeirra . Breytingar verða gerðar á grenndargámastöðvum og þeim fjölgað á komandi misserum. Í grenndargáma verður hægt að losa sig við gler, málma, fatnað og annað textílefni, pappa og plast. Athugið að fatnaður og annað textíl efni á ekki að fara í tunnur við heimili.

  Á endurvinnslustöðvum er hægt að losa sig við annan úrgang sem til fellur á heimilinu og sem ekki má setja í tunnur eða á grenndargámastöðvar. Nánari upplýsingar um endurvinnslustöðvar eru á heimasíðu SORPU

 • Djúpgámar

  Færst hefur í vöxt að komið sé fyrir djúpgámum utan við fjölbýli eða stofnanir sem leysa af hólmi hinar hefðbundnu sorpgeymslur eða sorpgerði. Djúpgámar eru niðurgrafnar sorpgeymslur þar sem úrgangi er fleygt inn um toppstykkið sem líkist oftast hefðbundinni rusla- eða flokkunartunnu. Flokkun í djúpgáma er á sama hátt og í hefðbundnar tunnur, eða annarsvegar endurvinnsluefni, pappír og plast, og hinsvegar almennt sorp í orkutunnur. Í djúpgámum eru skynjarar sem segja til um fyllingarhlutfall gámsins og er hann einungis tæmdur þegar hann er fullur eða við að verða fullur – hefðbundin sorphirðudagatöl eiga því ekki við um djúpgáma.

   

  Þar sem til staðar eru fjórir eða fleiri djúpgámar verður hverjum og einum breytt í samræmi við flokkunarreglur við heimili. Þar sem eru færri en fjórir djúpgámar mun Kópavogsbær hafa samband við húsfélag varðandi breytingar á gámum. Stefnt er að því að breyta flokkum fyrir djúpgáma seinni part sumars og verður þá körfum og bréfpokum dreift til þeirra íbúa sem losa sig við úrgang í slíka gáma.

Síðast uppfært 02. október 2023