Ljóðstafur Jóns úr Vör

Á hverju ári efnir lista- og menningarráð Kópavogsbæjar til ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör.

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar efnir til samkeppni um Ljóðstaf Jóns úr Vör. Öllum skáldum er velkomið að taka þátt en ljóðið má ekki hafa birst áður. Ljóði skal skilað í fjórum eintökum og skal hvert eintak merkt dulnefni. Með fjórritinu skal fylgja eitt lokað umslag merkt dulnefni skáldsins sem inniheldur upplýsingar um nafn, símanúmer og netfang skáldsins. Einungis umslög sem tilheyra vinnings- og viðurkenningarljóðum verða opnuð en öllum öðrum gögnum eytt. Ljóðstafurinn verður afhentur ásamt viðurkenningum laugardaginn 21. janúar 2023 við hátíðlega athöfn í Salnum en þá verða liðin 21 ár síðan Ljóðstafurinn var fyrst veittur.
Skilafrestur í keppnina er til og með 5. nóvember 2022!

Utanáskrift umslags er:
Ljóðstafur Jóns úr Vör
Menning í Kópavogi
Digranesvegi 1
200 Kópavogi.

Um Ljóðstaf Jóns úr Vör

Árið 2001 var stofnað til ljóðasamkeppni á vegum Lista- og menningarráðs Kópavogs og Ritlistarhóps Kópavogs, sem hlaut nafnið Ljóðstafur Jóns úr Vör, í minningu skáldsins sem lést 4. mars 2000. Jón fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000.

Ljóðstafur Jóns úr Vör er veittur að lokinni samkeppni þar sem öllum er frjálst að senda inn frumsamin ljóð á íslensku, og undir dulnefni. Hér takast því á reyndari skáld og þau yngri í jöfnum leik.

Veitt eru peningaverðlaun og verðlaunaskáldið fær til varðveislu í eitt ár silfurskreyttan göngustaf, sem var í eigu Jóns úr Vör. Á stafinn er festur skjöldur með nafni verðlaunahafa ásamt ártali. Verðlaunin eru veitt við hátíðlega athöfn á fæðingardegi Jóns úr Vör þann 21. janúar ár hvert.

Eftirfarandi hafa hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör

2021
Þórdís Helgadóttir: Fasaskipti

2020
Björk Þorgrímsdóttir: Augasteinn

2019
Brynjólfur Þorsteinsson: Gormánuður

2018
Sindri Freysson: Kínversk stúlka les uppi á jökli

2017
Ásta Fanney Sigurðardóttir: Silkileið nr. 17

2016
Dagur Hjartarson: Haustlægð 

2015
Ljóðstafur ekki veittur 

2014 
Anton Helgi Jónsson: Horfurnar um miðja vikuna

2013
Magnús Sigurðsson: Tunglsljós

2012
Hallfríður J. Ragnheiðardóttir: Triptych 

2011
Steinunn Helgadóttir: Kaf 

2010
Gerður Kristný: Strandir

2009 
Anton Helgi Jónsson: Einsöngur án undirleiks 

2008
Jónína Leósdóttir: Miðbæjarmynd

2007
Guðrún Hannesdóttir: Offors

2006 
Óskar Árni Óskarsson: Í bláu myrkri

2005 
Linda Vilhjálmsdóttir: Niður

2004 
Hjörtur Marteinsson: Hvorki hér né ...

2003 
Ljóðstafur ekki veittur

2002 
Hjörtur Pálsson: Nótt frá Svignaskarði

Síðast uppfært 02. nóvember 2022