Virkni og Vellíðan

Virkni og Vellíðan er verkefni sem miðar að heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi.

Þátttakendur í verkefninu Virkni og Vellíðan fá tækifæri á því að stunda hreyfingu í því félagi sem stendur næst heimili þeirra í Kópavogi. Okkar helsta markmið er það að stuðla að bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu bæjarbúa í Kópavogi og stuðla jafnframt að farsælli öldrun.

Verkefnið er á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við íþróttafélögin þrjú, Breiðablik, Gerplu og HK.

 • Hópþjálfun

  Fyrirkomulag Virkni og Vellíðan miðast við hópþjálfun undir handleiðslu þjálfara 2-3x í viku í um 45 mínútur í senn. Á æfingum er lögð áhersla á fjölbreytta þjálfun og er það í samræmi við það sem rannsóknir hafa sýnt, að fjölþætt þjálfun sem innheldur styrktar-, þol-, liðleika- og jafnvægisæfingar eru æskilegar eldra fólki. Hefðbundnar æfingar fara fram í Breiðablik (Fífunni) og HK (Kórnum). Valæfingar fara yfirleitt fram í öllum þremur félögunum, Breiðablik, HK og Gerplu (Íþróttamiðstöð Versölum). Þjálfarar útbúa 6-8 vikna æfingaráætlun og aðlaga æfingar út frá líkamlegri getu hvers og eins.

 • Öðruvísi æfingar

  Á miðvikudögum eru öðruvísi æfingar í boði fyrir þátttakendur sem vilja æfa 3x í viku. Markmiðið með þeim er meðal annars að kynna þátttakendum fyrir fjölbreyttum hreyfiúrræðum og heilsueflingu en einnig til þess að ýta undir áhugahvöt, félagslegt umhverfi og skemmtun. Það er mismunandi hvað er í boði á hverri önn, en sem dæmi hefur verið boðið upp á Zumba, Quigong, Jóga, Bandvefslosun og æfingar í fimleikasal Gerplu. 

  Annað slagið er boðið upp á kynningartíma á fjölbreyttum hreyfiúrræðum innan bæjarins fyrir þátttakendur í Virkni og Vellíðan. 

 • Heilsulæsi

  Virkni og Vellíðan leggur einnig áherslu á heilsulæsi hjá þátttakendum og því er reglulega boðið upp á fræðslu fyrirlestra. Þá fáum við til okkar fræðimenn sem flytja fyrir okkur erindi um ýmis málefni á borð við næringu, svefn, geðheilsu og fleira. 

  Á hverri önn stendur Virkni og Vellíðan einnig fyrir félagslegum viðburðum.

 • Tímabil

  Haustönnin stendur yfir í 4 mánuði. Önnin hefst um miðjan/lok ágúst og stendur til miðjan desember. Vorönnin stendur yfir í 5 mánuði, hún hefst í upphafi janúar og klárast eftir fyrstu vikuna í júní.

 • Verð og skráning

  Mánaðargjaldið er 4.500 krónur á mánuði en greitt er fyrir heila önn í einu svo æfingargjöld miðast við 18.000 krónur á haustönn og 22.500 krónur á vorönn.

  Hægt er að hafa samband á netfangið virkniogvellidan@kopavogur.is eða í gegnum facebook síðu verkefnisins , Virkni og Vellíðan í Kópavogi, ef frekari upplýsingar vantar.

  Hægt er að skrá sig í gegnum eftirfarandi hlekk.

  Skrá mig

Síðast uppfært 23. janúar 2024