Ferðaþjónusta aldraðra

Ferðaþjónustu aldraðra er ætlað að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsvagna kleift að komast ferða sinna.

Ferðaþjónustu aldraðra er ætlað að gera þeim sem ekki geta nýtt sér eigin bíl eða almenningssamgöngur kleift að komast ferða sinna. Umsókn um ferðaþjónustu má nálgast hér  

Umsókn þarf að fylgja læknisvottorð. Almennt verð fyrir aldraða er 605 kr. fyrir hverja ferð og 1.212 kr. fyrir hverja ferð umfram 16 ferðir á mánuði.
Gjaldið er innheimt með gíróseðli um hver mánaðarmót.

Sé þörf á fylgdarmanni, er reiknað með strætógjaldi fyrir hann.

Gjaldskrár

Gjaldskrá ferðaþjónustu

Prenta gjaldskrá

Gildir frá janúar 2024

Fjöldi ferða fyrir aldraða
Verð
1 - 16 ferðir á mánuði
605 kr
Hver ferð umfram 16 ferðir á mánuði
1.212 kr

Ferðaþjónusta fyrir fatlaða

Gjald fyrir hverja ferð miðast við helming af fargjaldi almenningsvagna. Framhaldsskólanemar eiga kost á að fá árskort sem miðast við skólakort hjá Strætó. Sé þörf á fylgdarmanni, er reiknað með strætógjaldi fyrir hann.

Gjaldið er innheimt með gíróseðli um hver mánaðarmót.

Reglugerðir

Reglur um akstursþjónustu fyrir eldra fólk í Kópavogi

SKV. 29 GR. LAGA FÉLAGSÞJÓNUSTU SVEITARFÉLAGA MEÐ SÍÐARI BREYTINGUM NR. 40/1991

1. gr. Markmið og forsendur
Meginmarkmið akstursþjónustu fyrir eldra fólk í Kópavogi er að stuðla að auknu félagslegu sjálfstæði.
Akstursþjónustan er fyrir 67 ára og eldri, sem búa í heimahúsi og hafa ekki aðgang að eigin farartæki og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur.

Akstursþjónusta er í undantekningartilvikum veitt þegar um tímabundna hreyfihömlun er að ræða, óháð aldri.

Hafi umsækjandi nýtt sér akstursþjónustu fyrir 67 ára aldur, á grundvelli reglna um ferðaþjónustu fatlaðs fólks, á hann rétt á að halda þeirri þjónustu áfram og greiðir áfram sama gjald.

2. gr. Skilgreiningar á ferðum, fjöldi ferða og þjónustusvæði
Ferð er skilgreind sem akstur milli tveggja staða en ekki akstur fram og til baka. Hámarksfjöldi ferða er 16 ferðir í mánuði. Heimilt er að veita tímabundið fleiri ferðir við eftirfarandi skilyrði eða að undangengnu félagslegu mati á aðstæðum umsækjanda:

  • Akstur til að sækja læknismeðferð eða endurhæfingu á sjúkrahúsi eða endurhæfingarstofnun.
  • Akstur í félagsstarf aldraðra.
  • Akstur í dagvist aldraðra utan bæjarfélagsins, sé fullreynt að viðkomandi komist ekki í dagvist í Kópavogi.

Þjónustusvæði er höfuðborgarsvæðið frá Hafnarfirði í suðri og Kjalarnes í norðri. 

 3. gr. Gjaldtaka
Gjald fyrir akstursþjónustu er ákveðið af bæjarráði og gjaldskrá er birt á heimasíðu bæjarins. Hærra gjald er innheimt fyrir ferðir umfram 16 ferðir á mánuði, en á grundvelli tekna umsækjanda og félagslegs mats er heimilt að veita undanþágu frá hækkun gjaldsins og greiðir umsækjandi þá sama gjald fyrir allar ferðir.

Gjald með leigubíl skv. samningi við Blindrafélagið fer eftir gjaldskrá Blindrafélagsins.

4. gr. Umsóknarferli og úthlutanir, rökstuðningur synjunar
Umsókn um akstursþjónustu skal senda til velferðarsviðs Kópavogs eða rafrænt á þjónustugátt á heimasíðu Kópavogsbæjar. Með umsókn þarf að fylgja rökstuðningur fagaðila.

Umsækjendum er tilkynnt bréflega um niðurstöður umsóknar innan fjórtán daga frá því að umsókn berst. Sé umsókn hafnað, skal jafnframt kynntur réttur umsækjanda til áfrýjunar til velferðarráðs Kópavogs.

Notanda ber að tilkynna velferðarsviði um allar breytingar sem verða á högum hans og snerta þessa þjónustu.

5. gr. Framkvæmd og tilhögun ferða
Þegar umsókn hefur verið samþykkt getur umsækjandi snúið sér beint til framkvæmdaraðila ferðaþjónustunnar, sem tekur á móti beiðnum notenda, veitir upplýsingar um aksturstíma og skipulagningu ferða. Mikilvægt er að farþegar séu tilbúnir til brottfarar í anddyri brottfararstaðar á tilsettum tíma. Sé ástæða til aðstoðar bílstjóri farþega frá anddyri og inn í bíl. Ekki er beðið eftir farþega á meðan hann sinnir erindum sínum og bílstjórum er ekki heimilt að sinna erindum fyrir farþega.

Farþegar þurfa að vera viðbúnir því að tafir og breytingar á áætlun geti orðið, einkum vegna slæmrar færðar eða annarra hindrana.

6. gr. Öryggismál og tengd atriði
Ferðaþjónusta er veitt af framkvæmdaraðila sem sinnir þjónustu skv. samningi við Kópavogsbæ. Allur bílakostur er útbúinn samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja og er öryggisprófaður.

Akstursaðili ferðaþjónustu Kópavogsbæjar tekur á sig ábyrgð á ráðningu bifreiðastjóra og að starfsmenn séu með fullgild ökuréttindi, aukin ökuréttindi og hafi sótt skyndihjálparnámskeið. Óheimilt er að ráða starfsmann til aksturs í ferðaþjónustunni sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Hafi starfsmaður verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins.

Atvikaskrá ber að gera hjá báðum aðilum; velferðarsviði Kópavogsbæjar sem hefur umsjón með ferðaþjónustunni og akstursaðila sem er verktaki. Þar ber að skrá atvik og kvartanir sem upp kunna að koma.

7. gr. Akstur fyrir aldraða til og frá stofnunum
Reglur þessar gilda aðeins um þá er búa á eigin heimili. Sé viðkomandi á hjúkrunarheimili má í rökstuddum undantekningartilvikum veita viðkomandi akstursþjónustu til að sinna einkaerindum og fyrirbyggja félagslega einangrun.
Aldraðir sem búsettir eru á hjúkrunarheimilum og þurfa að leita þjónustu utan stofnunarinnar, s.s. sérfræðilæknishjálpar, rannsókna og sjúkraþjálfunar eiga ekki rétt á akstursþjónustu vegna þeirra erinda, sbr. ákvæði 14. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 þar sem fram kemur að slíkum
stofnunum beri að tryggja að þar sé veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar.

8. gr. Akstur í dagvist fyrir aldraðra
Akstur í dagvist fyrir aldraða er skv. 13.gr. laga 125/1999 um málefni aldraðra og reglugerð nr. 45/1990 um dagvist aldraðra sem kveður á um skyldu rekstraraðila til að annast um og bera kostnað af flutningsþjónustu fyrir þá sem dagvistina sækja, til og frá heimili sínu.
Aðeins er niðurgreitt vegna aksturs í dagvist utan Kópavogs, sé það ljóst að einstaklingur geti ekki nýtt sér dagvist innan sveitarfélagsins. 

9. gr. Akstur vegna tímabundinnar hreyfihömlunar
Akstursþjónusta er í undantekningartilvikum veitt þegar um tímabundna hreyfihömlun er að ræða, óháð aldri. Miðað skal við að umsækjandi hafi ekki hærri tekjur en örorkubætur frá TR.

10. gr. Áfrýjun
Umsækjandi getur skotið ákvörðun um úthlutun til velferðarráðs innan þriggja mánaða frá ákvörðun.
Jafnframt skal honum kynntur áfrýjunarréttur til úrskurðarnefndar velferðarmála þegar niðurstaða velferðarráðs liggur fyrir.

11.gr. Gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga með síðari breytingum.
Reglur þessar voru samþykktar í bæjarstjórn Kópavogs þann 8. desember 2020.

Ferðaþjónusta

  • Ferðapantanir eru í síma 515 2720 
  • Opnunartími 08:00 - 16:00 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir ráðgjafi ferðaþjónustunnar
 í síma 441 0000 

Síðast uppfært 01. febrúar 2024