Flokkun matarleifa

Árið 2023 var samræmt fjórflokka kerfi tekið upp á stór-höfuðborgarsvæðinu. Almenningur hefur lengi kallað eftir sérsöfnun á matarleifum en úr lífrænum úrgangi er hægt að framleiða metangas og moltu. Hér að neðan er hægt að finna góð ráð hvað varðar flokkun matarleifa.

Mælingar á matarsóun á Íslandi frá 2019 benda til þess að hver einstaklingur hendi í kringum 90 kíló af mat árlega og lendir mest í urðun. Þegar lífrænn úrgangur er urðaður leiðir það til myndunar og losunar á gróðurhúsalofttegunda. Söfnun á matarleifum og öðrum lífrænum úrgangi er stórt skref í átt að draga úr losun. Matarleifar eru dýrmæt auðlind sem er hægt að endurvinna, meðal annars til að framleiða metangas, jarðvegsbæti eða moltu.

 

Íbúar hafa fengið afhentar körfur og bréfpoka undir matarleifar. Karfan er hönnuð til þess að safna matarleifum og tryggir að það lofti um pokann. Karfan kemur þar af leiðandi í veg fyrir mögulegan leka. Þá skipta bréfpokarnir lykilmáli til að hægt sé að vinna nothæfa moltu úr matarleifunum. Bréfpokarnir brotna auðveldlega niður og festast ekki í vélbúnaði móttökustöðva SORPU.

Vinsamlegast notið eingöngu þar til gerða bréfpoka fyrir matarleifar.

 

Söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi kallar að hluta til á breyttar venjur. Í staðin fyrir að öllu sé blandað saman eins og áður þá fer úrgangurinn í sitthvora tunnuna. Fyrir marga gæti þetta þýtt að pokinn fyrir blandaða úrganginn fyllist síður og fara þurfi með frekar með bréfpokann með lífræna úrganginum út í tunnu. Við mælum með lífræni úrgangurinn standi ekki í bréfpokanum lengur en í þrjá daga.

 

Ráð til að koma í veg fyrir að pokinn leki eða lykti

 • Láttu pokann standa í grindinni sem fylgdi. Grindin sér til þess að það lofti nægilega um pokann.
 • Ef notuð er fata fyrir bréfpokann sem loftar ekki er frekari hætta á að pokinn leki.
 • Góð loftun er mikilvæg til að koma í veg fyrir raka í pokanum sem og lykt af innihaldinu.
 • Það má setja eggjabakka og notaðan eldhúspappír í pokann en það dregur í sig raka.
 • Það er einnig hægt að strá ósoðnum hrísgrjónum eða haframjöli í pokann. Það dregur líka í sig raka.
 • Láttu mestu bleytuna renna af mataleifum í sigti áður en þú hendir honum í pokann.
 • Láttu ekki blautan úrgang í pokann, t.d. sósur, súpur, jógúrt o.þ.h.
 • Notaðu einn poka í einu. Ef tvær pokar eru í grindinni er meiri líkur á rakamyndun.
 • Hafðu pokann opinn inn í skáp. Það skilar betri loftun, minni lykt og minni raka.
 • Losaðu pokann ef þú hendir matarleifum sem geta byrjað að lykta. T.d. fiskiroð.
 

 

Góð ráð sem varða sorptunnuna fyrir matarleifar

 • Mælt er með að láta tunnuna standa í skugga heldur en beint í sól, ef mögulegt er.
 • Ekki fylla pokann lengra en upp að brotalínunni.
 • Passaðu upp á að loka pokanum vel áður en þú setur hann í tunnuna.
 • Það getur verið gott að setja nokkra dropa af ediki í tunnuna. Það fælir flugur frá.
 • Gott að skola úr tunnunni reglulega eftir að hún hefur verið losuð.*

*Það er á ábyrgð íbúa að hreinsa sorpílát.

Hvað á heima í tunnunni fyrir matarleifar?

 • Matarleifar, hvort sem þær eru eldaðar eða óeldaðar
 • Brauð, kökur og grjón
 • Hýði og afskurðir af ávöxtum og grænmeti
 • Kaffikorgur, kaffipokar og tepokar
 • Sjávarfang og roð
 • Kjötbein og fiskibein
 • Pasta og hrísgrjón
 • Egg og eggjaskurn
 • Eldhúspappír og ólitaðar sérvíettur

Hvað á EKKI heima í tunnunni fyrri matarleifarnar?

 • Tóbak, sígarettur eða tóbakspúðar
 • Tyggjó
 • Mold eða annar jarðvegur
 • Kattasandur og dýraúrgangur
 • Jarðneskar leifar dýra
 • Ryksugupokar
 • Eyrnapinnar, plástrar eða bómull
 • Kol eða aska
 • Garðúrgangur

 

 

Sorpílát sem losuð eru í Kópavogi eru eign bæjarins. Kópavogur sér um að viðhalda og endurnýja skemmd sorpílát. Ef tjón á íláti er hægt að rekja til slæmrar umgengni kann íbúi að þurfa að greiða fyrir endurnýjun þess. Það er á ábyrgð íbúa að hreinsa ílátin.

Síðast uppfært 05. október 2023