„Ég er stolt af því að vera orðin Íslendingur og geta kallað Ísland mitt heimaland. Um tíma færði maðurinn minn í tal að við ættum kannski að flytja til hlýrri landa, en nei. Ég vil ekki flytja til annars lands. Hér líður mér best og hér á ég heima.“

Þetta segir Patrycja Romanowska, 43 ára matráður í eldhúsi Kópavogsbæjar og íslenskur ríkisborgari síðan 2019. Patrycja er fædd og uppalin í Łomża, litlum bæ á pólskum mælikvarða, en þar búa um 60 þúsund manns í tveggja tíma akstursfjarlægð frá pólsku höfuðborginni Varsjá.

„Mér finnst bærinn svo rólegur, fólkið svo gott og héðan er stutt í allar áttir.“

„Ég kom fyrst til Íslands í fimbulkulda í janúar 2006. Þá hafði maðurinn minn verið hér í vinnu í sex mánuði og rómað fegurð landsins. Með mér var Adrian, þriggja ára sonur okkar og ætluðum við að stoppa hér í eina til tvær vikur en svo leið tíminn og við tók fallega, íslenska vorið og sumarið, og hér erum við enn, nítján árum síðar,“ segir Patrycja og skellir upp úr, alsæl.

„Mér líður stórkostlega vel á Íslandi og frá fyrsta degi leið mér eins og heima. Fyrstu sautján árin bjuggum við í Kópavogi, fyrst í Engihjallanum og svo í Kársnesinu, en fyrir tveimur árum fluttum við til Reykjavíkur og hvern einasta dag langar mig aftur heim í Kópavog. Mér finnst bærinn svo rólegur, fólkið svo gott og héðan er stutt í allar áttir. Ég sakna þess að hlaupa meðfram fagurri sjávarsíðunni í Kársnesinu, hringinn upp í Hamraborg, fara í Kópavogslaug og koma við í Te & Kaffi í Hamraborginni. Það er svo margt ljúft og gott í Kópavogi.“

Erfitt fyrir móðurhjartað.

Patrycja hefur undanfarin átta ár starfað við góðan orðstír í eldhúsi Kópavogsbæjar við Digranesveg.

„Þetta er besti vinnustaður sem ég hef unnið á og samstarfsfólkið er yndislegt. Ég vakna á hverjum morgni full tilhlökkunar fyrir vinnudeginum og kvíði ekki vinnuvikunni fram undan á sunnudegi því ég hreinlega elska að mæta til vinnu og eiga dagana með skemmtilegu fólki. Hér er alltaf svo gaman og starfið er fjölbreytt; ég vinn með öllum deildum og finnst alltaf jafn skondið þegar fólk kemur fyrst inn í eldhús því það eru allir svo svangir,“ segir Patrycja af glaðværð, en í Póllandi á árum áður starfaði hún við ýmis sölu- og þjónustustörf, meðal annars við símsvörun á leigubílastöð.

Hún hefur aldrei fundið fyrir óvild eða útlendingahatri í sinn garð hér á landi.

„Þvert á móti tóku Íslendingar strax vel og hlýlega á móti mér. Þeir voru einstaklega hjálpsamir, jafnvel meira en pólskir vinir mínir eða aðrir útlendingar hér. Það var auðvitað erfitt að ég talaði eingöngu pólsku og nær enga ensku en þá komu Íslendingar til bjargar, fóru með mig til sýslumanns til að fá kennitölu, koma barninu í leikskóla, finna íbúð og gera allt sem þurfti,“ segir Patrycja sem ákvað fljótt að læra íslensku.

„Þegar ég byrjaði að vinna hjá Kópavogsbæ töluðu allir íslensku og hjálpuðu mér að tala og læra meira“

„Það var erfitt fyrir móðurhjartað að skilja ekki barnið mitt þegar það kom heim úr leikskólanum og talaði reiprennandi íslensku. Mér hefur alltaf þótt íslenska vera einstaklega hljómfagurt tungumál og þegar það er talað ómar það eins og þegar sungið er fallegt lag. Það var því sannkallað kikk fyrir mig að hefja nám í tungumálaskóla þaðan sem ég lauk fjórum stigum af íslenskunámi. Í fyrstu skildi ég meira en ég talaði, enda vann ég þá hjá fyrirtækjum þar sem allir töluðu pólsku eða ensku, en þegar ég byrjaði að vinna hjá Kópavogsbæ töluðu allir íslensku og hjálpuðu mér að tala og læra meira, sem var yndislegt.“

Íslenska lykillinn að Íslandi

Þau hjónin eignuðust dótturina Nikolu árið 2007 og gengu systkinin öll sín grunnskólaár í Kársnesskóla.

„Kársnesskóli er frábær menntastofnun. Mér er minnisstætt þegar kennari hringdi í mig og bað mig að taka erindinu ekki illa en hann mæltist til þess að systkinin færu í aukatíma í íslensku. Ekki vegna þess að þau stæðu sig illa í skólanum heldur vildi hann hjálpa þeim að standa jafnfætis íslenskum börnum í íslensku. Mér þótti undurvænt um það; að skólinn hugsaði um hvað meira væri hægt að gera fyrir börnin mín,“ segir Patrycja snortin.

Hún segir öllu muna að tala íslensku. „Það opnar manni dyr að íslensku samfélagi, því ef maður talar eingöngu pólsku sem Íslendingar skilja fæstir, þá verður maður út undan og lokast inni. Mér þótti alltaf erfitt og óþægilegt að þurfa að biðja aðra um hjálp til að komast í heimabankann eða hvað sem það nú var, en nú þegar ég tala íslensku er ég orðin sjálfbjarga með allt. Krakkarnir tala svo íslenskuna miklu betur en pólsku, en auðvitað er gott að hafa vald á sem flestum tungumálum og stundum blanda þau saman íslensku og pólsku og líka ensku til að halda sér við.“

Eignaðist auka mömmu í Kópavogi

Patrycja eignaðist sína bestu vinkonu í Kópavogi, nánar tiltekið á dansæfingum barna í Kórnum.

„Þar kynntist ég Írisi Anítu, mínum íslenska sálufélaga. Við vorum á sama tíma með börnin okkar í danstímum hjá Hvönninni og náðum strax saman eins og við hefðum verið vinkonur alla ævi. Íris Aníta er nú flutt til Noregs en það hefur litlu breytt fyrir okkar vinskap því við erum í miklu sambandi yfir hafið. Ég á líka gott samband við foreldra hennar sem eru mér sem auka foreldrar. Mamma Írisar Anítu er eins og íslensk mamma mín, og við vinkonurnar eins og samrýmdar systur sem hugsum, elskum og tölum um það sama,“ segir Patrycja þakklát.

Sjálf kenndi hún um tíma smábörnum að dansa hjá Hvönninni, en sonur hennar Adrian var í íslenska landsliðinu í samkvæmisdansi fram á fullorðinsár og hampaði meðal annars Íslandsmeistaratitlum.

„Dansinn hefur lengi verið hluti af lífi okkar. Nikola byrjaði í dansi þegar Adrian æfði fótbolta hjá Breiðabliki en þá var hann stundum dansherra hjá systur sinni. Það endaði svo með því að hún hætti í dansinum fyrir handbolta og hann hætti í fótboltanum fyrir dansinn. Ég lærði af honum danssporin og tók að mér danskennslu lítilla barna, sem var frábært ævintýri sem stóð yfir í tvö ár. Við stóðum fyrir danskeppni og sýningum þar sem börnin fengu medalíur, en á endanum varð danskennslan aðeins of tímafrek með fullu starfi og því að hugsa um heimilið og fjölskylduna. Mér fannst samt virkilega erfitt að hætta því ég elskaði að vera með krökkunum.“

 

Elskar íslensk bjúgu

Patrycja segir marga Pólverja búa í Kópavogi. Þeir haldi sambandi sín á milli og séu með hópa á Facebook.

„Íslendingar og Pólverjar eru vinaþjóðir og algengt að pólskir vinir mínir eigi líka góða íslenska vini. Það er ekki vandamál hverrar þjóðar fólk er; það snýst meira um það hvaða mann það hefur að geyma,“ segir Patrycja sem upplifir Íslendinga vingjarnlega og hjálpsama með gott hjartalag.

„Ég hef lært af Íslendingum að taka lífinu með ró og stressa mig ekki um of á hlutunum. Hér lifi ég rólegra lífi og upplifi minni streitu en ef ég byggi úti. Pólverjar eru óþolinmóðari að eðlisfari, þeir þurfa að gera allt strax og vilja drífa í hlutunum. Þeir eru vinnusamir og ef við viljum fá eitthvað brettum við upp ermar og vinnum mikið til að safna peningum og hafa það gott. Mín börn fóru fljótt að vinna með skólanum, seinni parta og um helgar, og mér finnst það gott. Unglingar vilja gjarnan fá allt og það kostar mikið. Þá er bæði hollt og gott að læra að bjarga sér og vinna fyrir því sjálf.“

„Ég hef lært af Íslendingum að taka lífinu með ró og stressa mig ekki um of á hlutunum.“

Patrycja fer reglulega til Póllands til föður síns en móðir hennar andaðist í vor.

„Ég sakna fjölskyldunnar í Póllandi en ekki landsins sjálfs. Það er gaman að fara út í viku, hitta alla, versla og borða pólskan mat, og koma svo aftur heim. Í dag eru krakkarnir orðnir stórir og vilja ekki alltaf fara með, og þegar þau voru lítil spurðu þau í sífellu hvenær við færum aftur heim til Íslands. Þannig líður okkur líka. Ég get ekki hugsað mér að flytja aftur til Póllands. Mér líður svo miklu betur hér og það eina sem ég vildi mögulega skipta á væri veðrið. En þá er líka hægt að fara út í sólina í viku og svo aftur heim,“ segir Patrycja og brosir.

Þegar hún er í Póllandi, og reyndar hvar sem er í heiminum, fær hún heimþrá til Íslands og saknar íslenska vatnsins mest.

„Ég elska íslenska vatnið beint úr krananum og um leið og ég kem inn í flugstöðina hleyp ég af stað til að kaupa mér íslenskt vatn á flösku. Þá dýrka ég íslenskan gamaldags mat eins og hangikjöt, flatkökur, plokkfisk, harðfisk og bjúgu með kartöflum og uppstúf. Fjölskyldan er sama sinnis og um jól vilja krakkarnir hamborgarhrygg og sykurbrúnaðar kartöflur. Við höfum hugsað um að fara til útlanda yfir jólin, en nei. Krakkarnir taka það ekki í mál. Fyrir þeim eru engin jól án íslensks hangikjöts og brúnaðra kartaflna,“ segir Patrycja glettin.

Hún fer heldur ekki sérferð í pólsku búðirnar hér heima.

„Enda tek ég íslensk bjúgu fram yfir pólskar pulsur. Hins vegar fer ég stundum í pólskar búðir til að kaupa pólskt sælgæti sem er ægilega gott og fæst í úrvali hér í Kópavogi og víðar.“

Útlit og orðspor mikils virði

Patrycja er glæsileg eins og títt er um pólskar konur og dugleg að mæta í ræktina.

„Pólskar konur hugsa mikið um útlitið. Þær eru í góðu líkamlegu formi og vel til hafðar, en það eru leifar frá gömlum tíma þegar mömmur og ömmur stóðu fast á því að dæturnar og þær sjálfar væru alltaf fallegar og fínar til fara með tilliti til almenningsálitsins. Gott orðspor var mikils virði og að láta ekki góma sig í ópússuðum skóm heldur vera alltaf vel snyrt og hrein á almannafæri. Sjálf fékk ég hálfgert menningarsjokk þegar ég sá íslenskar stelpur mæta í náttbuxum að kaupa sér ís á kvöldin og sór þess að það myndi ég aldrei gera, en í dag veit ég að það á aldrei að segja aldrei. Ég heyri enn í dag pólskar konur af eldri kynslóðinni brýna fyrir þeim yngri að hafa sig til og klæða sig vel, og við pössum vel upp á það,“ segir Patrycja sem lumar á ráðum fyrir gott útlit og heilsu til íslenskra kvenna.

„Súrkálið er allra meina bót, ríkt af C-vítamíni og gott fyrir meltinguna. Við notum líka óspart agúrkusneiðar til að draga úr bólgum og þrota við augu. Þá er eitt bætiefni sem við notum mikið í Póllandi en hefur verið illfáanlegt hér á landi og það er Colostrum sem er unnið úr broddi kúamjólkur. Það fæst í uppáhalds búðinni minni í Kópavogi, Mamma veit bezt, og er frábært vítamín fyrir allan aldur,“ upplýsir Patrycja sem þykir íslenskar konur einkar fagrar.

„En þær þurfa að hugsa meira um sjálfar sig, að fresta því ekki að fara til læknis og passa upp á eftirlit með brjóstum sínum. Ég veit að þær vinna mikið og hugsa vel um heimilið og fjölskylduna, en þær gleyma margar að setja sjálfar sig í fyrsta sætið. Í dag hugsar mín kynslóð pólskra kvenna betur um okkur sjálfar en kynslóðirnar á undan. Það er mikilvægt því ef okkur sjálfum líður vel, þá líður fjölskyldunni vel líka.“