Tíbrá: Kristinn Sigmundsson og Þóra Einarsdóttir í Salnum

Þóra, Kristinn og Matthildur kynna söngtónlist Áskels Mássonar á tónleikum með yfirskriftinni Í nýrri veröld. Tónleikarnir eru liður í tónleikaröðinni Tíbrá. Er þetta í fyrsta skipti sem haldnir eru tónleikar þar sem einblínt er á söngverk Áskels.

Á tónleikunum verður frumflutt nýtt verk Áskels við ljóð Matthíasar Jóhannessen, Kominn nóvember. 

Auk þess munu tvö eldri verka Áskels hljóma í Salnum þar sem annars vegar er leikið á bjöllur með söngröddinni en hinsvegar á selló. Mun Frank Aarnink leika á bjöllur en Bryndís Halla Gylfadóttir á selló.

Áskell Másson er einn af okkar merkustu tónskáldum. Verk hans sem telja hátt áannað hundrað eru afar fjölbreytt. Má þá telja einleiks- og hljómsveitarverk, óperur og óratoríur, sönglög og kórverk. Hann hefur samið fyrir leikhús og sinfóníur og fyrir marga heimskunna listamenn. Verk hans hafa verið leikin um allan heim. Hefur Áskell hlotið margvísleg verðlaun fyrir list sína hér heima og erlendis og einstaklega gaman fyrir Salinn að verk hans Kominn nóvember verði frumflutt af þeim Þóru, Kristni og Matthildi. En verkið samdi hann einmitt með þau í huga.

Efnisskrá:
Kominn nóvember - Matthías Johannessen
Ljóðsveigur - Johann Jónsson
Fjögur ljóð - Steinn Steinarr
Þrjú kínversk ljóð 
Spor - Thor Vilhjálmsson
Bæn - Odesseas Elytis í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar
Fagra veröld - Tómas Guðmundsson

Flytjendur:
Þóra Einarsdóttir, sópran
Kristinn Sigmundsson, bassi
Matthildur Anna Gísladóttir, píanó
Bryndís Halla Gylfadóttir, selló
Frank Aarnink, slagverk