Bæjarráð

2605. fundur 25. ágúst 2011 kl. 08:15 - 10:15 í Fannborg 2, Bæjarráðsherbergi
Fundargerð ritaði: Páll Magnússon bæjarritari
Dagskrá

1.1108008 - Afgreiðslur byggingarfulltrúa 16/8

19. fundur

Bæjarráð staðfestir afgreiðslur byggingarfulltrúa.

2.1108006 - Barnaverndarnefnd - 5

Lagt fram.

3.1012231 - Samþykkt fyrir barnaverndarnefnd Kópavogs. Drög

Lagt fram.

4.1108012 - Félagsmálaráð 23/8

1313. fundur

5.1101447 - Þjónustusamningur vegna frístundastarfs fyrir fötluð ungmenni

Mál sem vísað var til bæjarráðs sbr. lið 8 í fundargerð félagsmálaráðs 23/8.

Bæjarráð óskar eftir ítarlegri kostnaðargreiningu og að deildarstjóri þjónustudeildar fyrir fatlað fólk mæti á næsta fund ráðsins vegna málsins.

 

Bæjarráð felur sviðsstjóra velferðarsviðs að ganga til viðræðna við Hafnarfjarðarbæ um samstarf í málaflokknum.

6.1108011 - Forvarna- og frístundanefnd 23/8

4. fundur

Bæjarráð óskar eftir að fá kostnaðaráætlun og dagskrá vegna Hamraborgarhátíðar.

7.1108016 - Framkvæmdaráð 24/8

14. fundur

8.1007117 - Kjóavellir reiðskemma. Stofnframkvæmdir

Mál sem vísað var til bæjarráðs á fundi framkvæmdaráðs 24/8, sbr. lið 1 í fundargerð.

Bæjarráð samþykkir framkomna útfærslu Hestamannafélagsins Gusts að reiðskemmu á Kjóavöllum.

9.1010296 - Sorpmál í Kópavogi

Frá deildarstjóra framkvæmdadeildar um endurvinnslutunnur. Framkvæmdaráð samþykkti tillögu á fundi sínum.

Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins til næsta fundar og óskar eftir að deildarstjóri framkvæmdadeildar mæti til næsta fundar. Þá verði jafnframt gerð grein fyrir því hvaða sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætla að taka þátt í sameiginlegu útboði.

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

""Í samstarfsyfirlýsingu fjórflokkameirihlutans segir: ""Kópavogur verði fyrsta stóra sveitarfélagið til að taka upp flokkun sorps"". Meirihlutinn fékk þó í forgjöf niðurstöður tilraunaverkefnis um flokkun sorps sem fyrrverandi meirihluti stóð fyrir.  Akureyri er nú þegar búið að þessu fyrir nokkrum mánuðum. Þar láta menn verkin tala en segja minna.

Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson""

10.1103252 - Framkvæmdir við Arnarnesveg

Mál sem vísað var til bæjarráðs á fundi framkvæmdaráðs 24/8, sbr. lið 9 í fundargerð.

Bæjarráð samþykkir tillögu Vegagerðarinnar.

11.1108014 - Jafnréttis- og mannréttindanefnd 23/8

4. fundur

12.1106235 - Aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gagnvart börnum

Mál sem vísað var til bæjarráðs á fundi jafnréttis- og mannréttindanefndar 23/8, sbr. lið 1 í fundargerð.

Bæjarráð felur jafnréttis- og mannréttindanefnd að vinna að gerð aðgerðaráætlunar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gagnvart börnum.

13.1108009 - Leikskólanefnd 23/8

20. fundur

14.1108007 - Íþróttaráð 17/8

7. fundur

15.1105161 - Tímatöflur íþróttamannvirkja 2011/2012, liður 1 í fundargerð íþróttaráðs 17/8, liður 14 hér að frama

Lagt fram undir þessum lið erindi frá aðalstjórn HK, dags. 19. ágúst, þar sem farið er fram á að bæjarráð hafni afgreiðslu íþróttaráðs og fyrri ákvörðun bæjarráðs frá 21. júlí sl. gildi.

Sviðsstjóri menntasviðs og deildarstjóri íþróttadeildar sátu fundinn undir þessum lið.

 

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi tillögu:

""Legg til að fyrri samþykkt bæjarráðs standi varðandi tímatöflu í knatthúsunum og að gerð verði sambærileg úttekt á nýtingu íþróttahúsanna og sömu reglur verði þá látnar gilda í öllum íþróttagreinum.

Ómar Stefánsson""

 

Hlé var gert á fundi kl. 9.44. Fundi var fram haldið kl. 9.53.

 

Tillaga Ómars Stefánssonar var felld með þremur atkvæðum en einn greiddi atkvæði með henni.

 

Gunnar Ingi Birgisson óskaði eftir því að liður (a) yrði borinn upp til staðfestingar í bæjarráði og var það samþykkt.

 

Tveir fulltrúar greiddu atkvæði með tillögu íþróttaráðs undir lið 1a í fundargerðinni en tveir greiddu atkvæði á móti. Einn bæjarfulltrúi sat hjá. Afgreiðsla íþróttaráðs á lið 1a telst því ekki staðfest. Þar sem bæjarráð hafði áður staðfest ákvörðun íþróttaráðs frá 29. júní sl. um tímatöflur gildir sú ákvörðun.

 

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

""Undirrituð var ekki á fundi bæjarráðs fyrr í sumar þegar tímatöflur voru teknar til afgreiðslu og situr því hjá.

Guðríður Arnardóttir""

 

Gunnar Ingi Birgisson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Það er mjög merkilegt að formaður bæjarráðs skuli ekki hafa pólitískan kjark til að taka afstöðu í þessu máli.

Gunnar Ingi Birgisson""

 

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

""Undirrituð styður bæði sjónarmið.

Guðríður Arnardóttir""

 

Ólafur Þór Gunnarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Undirritaður leggur til vegna liðar 1e að sviðsstjóra menntasviðs verði falið að ræða við forsvarsmenn dægradvala, skólastjóra og íþrótta- og tómstundafélaga.

Ólafur Þór Gunnarsson""

 

Rannveig Ásgeirsdóttir tók undir bókun Ólafs.

 

Ármann Kr. Ólafsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Fyrr í sumar ákvað bæjarstjórn tímaskiptingu og því gengur ekki að breyta henni þegar vetrarstarfið er að hefjast. Undirritaður styður ákvörðun íþróttaráðs um að talning í mannvirkjunum verði aukin þannig að hægt verði að byggja á nýtingartölum við útdeilingu tíma í mannvirkjunum. 

Ármann Kr. Ólafsson""

16.1108002 - Skipulagsnefnd 23/8

1193. fundur

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Formaður bæjarráðs hefur bakkað inn í fortíðina og bannað skipulagsstjóra að vera með kynningu á erindum skipulagsnefndar.  Það er til skammar að fá ekki fullnægjandi kynningu á því sem taka á afstöðu til.

Ómar Stefánsson""

 

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

""Allir fundarmenn eru með gögn aðgengileg í fundarmannagátt.

Guðríður Arnardóttir""

 

Gunnar Ingi Birgisson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Ég mótmæli því að ekki sé hægt að kasta upp á vegg myndum af teikningum.

Gunnar Ingi Birgisson""

 

Skipulagsstjóri sat fundinn undir þessum lið.

17.1103073 - Kársneshöfn. Athafnasvæði. Breytt deiliskipulag.

Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu ásamt umsögn og vísar erindinu til afgreiðslu bæjarráðs.

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Til þess að minnast fyrri gangrýni Samfylkingar og VG óska ég bókað:

 

1. Bútasaumur (ekki er verið að skipuleggja heildarsvæðið)

2. Auglýst á há sumarleyfistíma

3. Samráð við íbúa og næsta nágrenni (mikil mótmæli)

4. Hæð nálægra húsa

5. Gönguleið umhverfis hafnarsvæði

6. Áætlun um aukið samráð við íbúa (málefnasamningur)

Jafnframt tel ég að húsinu hefði betur verið fyrir komið vestan við Vesturvör 36

Ómar Stefánsson""

 

Bæjarráð samþykkir erindið.

 

Skipulagsstjóri sat fundinn undir þessum lið.

18.1106427 - Dimmuhvarf 11. Skipta lóð í tvær lóðir

Skipulagsnefnd hafnar erindinu og vísar því til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar með þremur atkvæðum gegn einu og hafnar erindinu. Einn bæjarfulltrúi sat hjá.

 

Skipulagsstjóri sat fundinn undir þessum lið.

19.1106206 - Kópavogsbraut 1D, breytt deiliskipulag

Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu með áorðnum breytingum dags. 23. ágúst 2011 ásamt framangreindri umsögn og vísar erindinu til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir erindið.

 

Ólafur Þór Gunnarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Það er ástæða til að fagna sérstaklega breytingu á deiliskipulagi á lóðinni Kópavogsbraut 1d.

Ólafur Þór Gunnarsson""

Guðríður Arnardóttir tók undir bókun Ólafs.

 

Skipulagsstjóri sat fundinn undir þessum lið.

20.1107110 - Almannakór 9, breytt deiliskipulag

Skipulagsnefnd samþykkir erindið og vísar því til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir erindið.

 

Skipulagsstjóri sat fundinn undir þessum lið.

21.1011337 - Ennishvarf 9, breytt deiliskipulag

Skipulagsnefnd samþykkir erindið og vísar því til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir erindið.

 

Skipulagsstjóri sat fundinn undir þessum lið.

22.705208 - Vatnsendablettur 134, deiliskipulag

Skipulagsnefnd samþykkir að framlögð tillaga verði auglýst í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísar erindinu til afgreiðslu bæjarráðs

Guðríður Arnardóttir tekur undir eftirfarandi bókun meirihluta skipulagsnefndar:

""Tillagan er lögð fram til að efna ""eignarnámssátt"" sem fyrri meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði við landeiganda á Vatnsenda og var unnin án nokkurs samráðs við skipulagsnefnd Kópavogsbæjar þrátt fyrir að hún fari með skipulagsmál samkvæmt lögum.

Tillagan er í mikilli andstöðu við stefnu núverandi meirihluta, sem vill standa vörð um lífríki Elliðavatns og tryggja aðgengi íbúa bæjarins að bakka vatnsins.  Vegna eignarnámssáttarinnar frá 30. janúar 2007 sjáum við okkur knúin til að samþykkja að tillagan verði auglýst og til að standa vörð um fjárhagslega hagsmuni Kópavogsbæjar. Þá er rétt að árétta að fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðust gegn þeim samningi og bentu meðal annars á þær skipulagslegu forsendur sem bundnar voru í samninginn sem sviptu bæjarbúa þeim lýðræðislega rétti sínum að hafa áhrif  á
umhverfi sitt og skipulag. Með óbragð í munni vísum við allri ábyrgð þessa gjörnings á fyrri meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Undirrituð leggja áherslu á að tryggt verði aðgengi að opnu svæði fyrir almenning eins og getið er um í núverandi aðalskipulagi.""

 

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Í eignarnámssáttinni er tekið skýrt fram að ekki er um neinn byggingarrétt að ræða á þessum fjórum landspildum. Núverandi meirihluti hefur ekki gert neinar tilraunir til þess að leita sátta um þessi lönd eða Vatnsendablett 241a og er enn eitt skýra dæmið um algert aðgerðarleysi. Því dæmir bókun Selskapsins í skipulagsnefnd sig sjálf.

Ómar Stefánsson""

 

Gunnar Ingi Birgisson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Ég fagna því að Kópavogsbær skuli ætla að standa við öll ákvæði í eignarnámssátt Kópavogs við Vatnsendabónda. Árið 2009 ákvað meirihluti bæjarstjórnar að standa ekki við ákveðna hluti eignarnámssáttarinnar. Að þeirri samþykkt stóðu Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, Guðríður Arnardóttir, Hafsteinn Karlsson, Jón Júlíusson, Flosi Eiríksson og Ólafur Þór Gunnarsson. Það liggur fyrir að ef Kópavogsbær stendur ekki við eignarnámssátt bakar það Kópavogsbæ möguleika á verulegum skaðabótum frá landeiganda.

Gunnar Ingi Birgisson""

 

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

""Ég vil leiðrétta orð Gunnars Inga Birgissonar en tillaga að skiptingu lóðar að Vatnsendabletti 134 er búin að vera í fresti í bæjarráði frá árinu 2009.

Guðríður Arnardóttir""

 

Gunnar Ingi Birgisson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Fyrir lá andstaða ofangreindra aðila við ákvæði eingarnámssáttar varðandi Vatnsendablett 134.

Gunnar Ingi Birgisson""

 

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Gunnar er nú að skjóta sér undan ábyrgð sem þáverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins því þessi tillaga kom frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins inn í skipulagsnefnd og samþykkt af öllum þar.  Ekki lá fyrir álit einstakra bæjarfulltrúa þegar bæjarráð frestaði Vatnsendabletti 134  á fundi 2009.

Ómar Stefánsson""

 

Gunnar Ingi Birgisson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Í júní 2009 lá fyrir afstaða sjö framangreindra bæjarfulltrúa varðandi nýtingu á landinu milli vatns og vegar og voru á móti þeim atriðum sem stóðu í sáttinni um þetta svæði.

Gunnar Ingi Birgisson""

 

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Það er ekki rétt með farið hjá Gunnari í þessari bókun varðandi mína afstöðu.

Ómar Stefánsson""

 

Bæjarráð frestar afgreiðslu skipulagsnefndar með þremur samhljóða atkvæðum. Tveir bæjarfulltrúar sátu hjá.

 

Skipulagsstjóri og bæjarlögmaður sátu fundinn undir þessum lið.

23.1108005 - Skólanefnd 15/8

32. fundur

24.1104091 - Útboð á rekstri mötuneyta í grunnskólum

Frá sviðsstjóra menntasviðs, dags. 17/8, varðandi gjaldskrá skólamáltíða.

Ármann Kr. Ólafsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Við gerð fjárhagsáætlunar var ákveðið að leita nýrra leiða vegna skólamáltíða í grunnskólum Kópavogs eins og fram kemur í greinargerð. Staðreyndin er sú að ekkert var gert í þeim efnum heldur allt gert með hefðbundnu sniði. Það er meirihlutans að fylgja eftir ákvörðunum fjárhagsáætlunar. Hann réð ekki við verkefnið og er þessi hækkun því alfarið á hans ábyrgð.

Ármann Kr. Ólafsson""

 

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

""Þetta er rangt hjá Ármanni. Nú hafa tveir grunnskólar til viðbótar farið að elda sjálfir og enn er unnið að frekari sparnaði í rekstri mötuneytanna, og samkomulag náðist ekki um lækkun á innkaupsverði á skólamat. 

Guðríður Arnardóttir""

 

Rannveig Ásgeirsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

""Í kjölfar fjárhagsáætlunar 2011 var starfsmönnum menntasviðs falið að ræða við þá sem þjónustuðu skóla bæjarins með hádegisverð um aðra samsetningu á matarkosti þeirra og hugsanlega lækka þannig matarkostnað. Farið var í þá vinnu en í samtölum við þáverandi þjónustuaðila var fyrirséð að kostnaður myndi hugsanlega aukast vegna umtalsverðra breytinga í starfsemi þeirra, matarverð yrði ekki lægra og kröfum um manneldismarkmið yrði hugsanlega hnikað. Farið var í nýtt útboð. Út úr því fékkst ekki sú hagræðing sem væntingar stóðu til. Samhliða þessu hófu starfsmenn menntasviðs vinnu við að reikna ítarlega hugsanlega hagkvæmni þess að elda heima og niðurstaða var sú að tveir skólar elda heima í vetur. Verður þeirri aðgerð fylgt nákvæmlega eftir og ákvörðun um frekari breytingar sem teljast okkur hagkvæmar til framtíðar tekin í kjölfar þess. Þannig hefur í öllu verið fylgt tilmælum um að leita allra leiða sem okkur eru færar og eru innan marka laga um þessa þjónustu í grunnskólum.

Rannveig Ásgeirsdóttir""

 

Ármann Kr. Ólafsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Þetta er greinargerð en ekki bókun en breytir því ekki að engra nýrra leiða var leitað og lýsir lítilli hugmyndaauðgi.

Ármann Kr. Ólafsson""

 

Bæjarráð samþykkir tillögu sviðsstjóra menntasviðs um að hækka verð á skólamáltíðum í 395 kr. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

25.1101641 - Stjórn Héraðsskjalasafns 15/8

73. fundur

26.1101878 - Stjórn Strætó bs. 12/8

158. fundur

27.1108003 - Umhverfis- og samgöngunefnd 22/8

6. fundur

28.1108257 - Grillaðstaða í Kópavogsdal

Umhverfis- og samgöngunefnd hafnaði tillögum um staðsetningu um grillsvæði í Kópavogsdal.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:

""Undirritaður leggur til að bæjarráð samþykki eina af tillögu garðyrkjustjóra þar sem gert er ráð fyrir grillaðstöðu nálægt tjörninni í Kópavogsdal.

Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson""

 

Tillagan var felld með þremur atkvæðum en tveir greiddu atkvæði með henni.

 

Ólafur Þór Gunnarsson lagði fram eftirfarandi tillögu:

""Bæjarráð beinir því til garðyrkjustjóra að leggja fram nýjar tillögur um staðsetningu að grillaðstöðu í Kópavogsdal í umhverfis- og samgöngunefnd í samræmi við fyrri ákvörðun framkvæmdaráðs þar um.

Ólafur Þór Gunnarsson""

 

Bæjarráð samþykkir tillöguna einróma.

 

Hjálmar Hjálmarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Undirritaður er út af fyrir sig ekki á móti grillaðstöðu við tjörnina í Kópavogsdal eins og kemur fram í tillögu Gunnars I, Birgissonar.  Hins vegar þarf málið að fara eðlilega leið til nefnda og starfsmanna til afgreiðslu.  Þess vegna greiði ég atkvæði með tillögu formanns bæjarráðs.

Hjálmar Hjálmarsson""

29.1108090 - Ósk um launalaust námsleyfi

Frá bæjarritara, lögð fram beiðni frá starfsmanni Listasafns, dags. 26/7, þar sem óskað er eftir launalausu námsleyfi í eitt ár.

Bæjarráð vísar erindinu til starfsmannastjóra til umsagnar.

30.1106522 - Beiðni um yfirlit yfir aðkeypta lögfræðiþjónustu

Frá fjármálastjóra, dags. 22/8, yfirlit sem Gunnar Ingi Birgisson óskaði eftir í bæjarráði 30/6, yfir aðkeypta lögfræðiþjónustu.

Gunnar Ingi Birgisson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Þakka svörin en bendi á að þarna er ein og hálf milljón vegna lögfræðiþjónustu sem er greidd vegna málskostnaðar bæjarfulltrúa.

Gunnar Ingi Birgisson""

 

Ólafur Þór Gunnarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

""Vegna bókunar Gunnars Inga Birgissonar vill undiritaður taka fram að þar sem ofangreindum málum er ekki lokið hafa engar greiðslur runnið til undirritaðs og svo mun ekki verða þar til málinu líkur í Hæstarétti.

Ólafur Þór Gunnarsson""

 

Gunnar Ingi Birgisson lagði fram eftirfarandi fyrirspurn til bæjarstjóra:

""Fyrir hvaða vinnu var Landslögum greitt og fyrir hvaða vinnu var Lagastofnun HÍ greitt?

Gunnar Ingi Birgisson""

31.1106524 - Ósk um kostnaðarmat

Frá fjármálastjóra, dags. 23/8, yfirlit, sem Ómar Stefánsson óskaði eftir í bæjarráði 30/6, yfir kostnaðarauka, sem ekki hefur verið samþykktur á fjárhagsáætlun ársins 2011.

Ómar Stefánsson óskaði fært til bókar að hann þakkar góð svör, en bendir á að það þyrfti að fylgja öllum liðum hvernig samþykktir áttu sér stað í bæjarráði.

32.1108156 - Fyrirspurn um tekjur af lóðasölu

Frá fjármálastjóra, dags. 23/8, svar við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar í bæjarráði 11/8 um nettó tekjur af lóðasölu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

""Þökkum svarið. Það er greinilegt að það er að ganga eftir sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa haldið fram að lóðir í Kópavogi mundu fyrst ganga út á höfuðborgarsvæðinu þegar farið yrði að byggja á ný. Þá er nauðsynlegt að standa við þau fyrirheit að tekjur af lóðasölu fari í niðurgreiðslu skulda.

Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson""

33.1108166 - Lækjarbotnaland 45, kauptilboð

Frá bæjarlögmanni, lagt fram erindi Kristjáns Sigurðssonar, varðandi forkaupsréttindi að Lækjarbotnalandi 45, ásamt tillögu þar sem lagt er til að Kópavogsbær gangi inn í kauptilboðið.

Bæjarráð samþykkir tillögu um að nýta forkaupsrétt.

34.1108221 - Smiðjuvegur 11, Icethai ehf-Bankok. Beiðni um umsögn

Frá bæjarlögmanni, dags. 17/8, lagt fram bréf sýslumannsins í Kópavogi dags. 11. ágúst 2011, þar sem óskað er eftir umsögn bæjarráðs vegna umsóknar Icethai ehf., um rekstrarleyfi fyrir veitingastaðinn Icethai að Smiðjuvegi 11, Kópvogi, en umsóknin fellur undir flokk II, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2007.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti og staðfestir að afgreiðslutími og staðsetning staðar eru innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagins segja til um.

35.1108224 - Hagasmári 1, Sushigryfjan ehf. Beiðni um umsögn

Frá bæjarlögmanni, dags. 17/8, lagt fram bréf sýslumannsins í Kópavogi dags. 10. ágúst 2011, þar sem óskað er eftir umsögn bæjarráðs vegna umsóknar Sushigryfjunar efh., kt. 510711-1490, Hagasmára 1 Smáralind, um rekstrarleyfi fyrir veitingastaðinn Sushigryfjuna (áður Adesso) að Hagasmára 1, Smáralind, en umsóknin fellur undir flokk II, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2007.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti og staðfestir að afgreiðslutími og staðsetning staðar eru innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagins segja til um.

36.1106226 - Ósk um reglur um svör við fyrirspurnum

Frá bæjarlögmanni, dags. 24/8, lagt fram svar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 3/8, varðandi rétt sveitarstjórnarmanna til svara við fyrirspurnum.

Lagt fram. Umræðu frestað.

37.1106014 - Vinnudrög að nýrri byggingarreglugerð. Óskað eftir umsögn.

Frá sviðsstjóra umhverfissviðs, dags. 16/8, umsögn um drög að nýrri byggingarreglugerð, en athugasemdum hefur þegar verið skilað til umhverfisráðuneytisins vegna tímafrests.

Bæjarráð samþykkir tillögu sviðsstjóra umhverfissviðs að umsögn.

38.1108158 - Fyrirspurn varðandi Kórinn

Frá sviðsstjóra menntasviðs, dags. 23/8, svar við fyrirspurn Gunnars Inga Birgissonar í bæjarráði 11/8, varðandi endurnýjun leigusamnings Kópavogsbæjar og KSÍ um Kórinn.

Lagt fram.

 

Gunnar Ingi Birgisson óskaði fært til bókar að hann þakkar fyrir framlagt svar.

39.1108343 - Niðurgreiðsla æfingagjalda 2011

Frá sviðsstjóra menntasviðs, dags. 23/8, varðandi niðurgreiðslu æfingagjalda 2011-2012

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

""Meirihlutinn hefur margsinnis farið á skjön við fárhagsáætlun og ekki hikað við að eyða umfram hana, m.a. tugmilljónum til fjárfestinga og rekstrar, þrátt fyrir mótmæli Sjálfstæðisflokksins. Af þeim sökum hefur meirihlutinn sagt upp samstöðu um fjárhagsáætlunina. Við greiðum því atkvæði gegn þessari lækkun. Fyrst meirihlutinn telur sig sífellt geta eytt umfram fjárhagsáætlun þá væri réttara að verja þeim fjármunum í barna- og unglingastarf innan bæjarins.

Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson""

 

Ómar Stefánsson tók undir bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks.

 

Tillagan samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks.

40.1108377 - Viðbótarúthlutun sérkennslu 2011-2012

Frá sviðsstjóra menntasviðs, dags. 24. ágúst, varðandi viðbótarúthlutun kennslutímamagns til grunnskóla Kópavogs vegna nemenda með miklar sérþarfir, skólaárið 2011-2012.

Bæjarráð samþykkir tillöguna með einu greiddu atkvæði. Tveir bæjarfulltrúar sátu hjá.

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

""Meirihlutinn er nú þegar búinn að missa skólana fram úr fjárhagsáætlun þrátt fyrir sáralítinn niðurskurð á milli ára. það verður vandséð hvar taka á fjármagn í þessa aukningu. Hvar á að fá þessa peninga?

Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson""

 

Hafsteinn Karlsson og Hjálmar Hjálmarsson viku af fundi undir þessum lið.

41.1107051 - Erindi frá Skóla Ísaks Jónssonar vegna nemenda utan sveitarfélags

Frá sviðsstjóra menntasviðs, dags. 23/8, varðandi framlag Kópavogsbæjar með nemendum í Ísaksskóla.

Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins.

42.1108312 - Umsókn um launalaust leyfi

Frá sviðsstjóra menntasviðs, lögð fram beiðni frá starfsmanni leikskóla, dags. 18/8, þar sem óskað eftir launalausu námsleyfi.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar sviðsstjóra menntasviðs og starfsmannastjóra til umsagnar.

43.1108279 - Nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins: Gátlisti og umræðuskjal

Frá innanríkisráðuneytinu, dags. 10/8, lagður fram gátlisti og umræðuskjal nefndar varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarstjóra til umsagnar.

44.1107256 - Stjórnsýslukæra vegna synjunar félagsmálaráðs að hluta á beiðni um heimgreiðslu

Frá innanríkisráðuneytinu, dags. 11/8, bréf frá umboðsmanni Alþingis, sem ekki fylgdi áður sendum gögnum frá ráðuneytinu, varðandi kæru vegna synjunar félagsmálaráðs Kópavogs að hluta til á beiðni um heimgreiðslu.

Lagt fram.

45.1108325 - Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Frá iðnaðarráðuneytinu, dags. 19/8, óskað er eftir athugasemdum um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfis- og samgöngunefndar til umsagnar.

46.1010175 - Samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna þjónustu við fatlaða

Frá SSH, dags. 19/8, varðandi tillögu stjórnar SSH til aðildarsveitarfélaga að samstarfssamningi um þjónustu fatlaðra um samþykkt sveitarfélaganna á verkalagsreglum mats- og inntökuteymis og um fjárveitingu vegna tímabundinnar ráðningar starfsmanns fyrir samráðshópinn.

Lagt fram.

47.1004260 - Elliðahvammur, starfsleyfi eggja- og kjúklingaframleiðslu

Frá Þorsteini Sigmundssyni f.h. Hvamms ehf., afrit af bréfi til umhverfisráðuneytis, dags. 16/8, varðandi starfsleyfi Hvamms ehf. til eggja- og kjúklingaframleiðslu.

Lagt fram.

48.1002162 - Vatnsendablettur 132

Frá Sigurbirni Þorbergssyni, dags. 19/8, varðandi bætur vegna Vatnsendabletts 132.

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra umhverfissvið til umsagnar.

49.807076 - Austurkór 24. Óskað eftir að viðbótargatnagerðargjöld á lóðinni verði felld niður.

Frá Lögleiðum slf., lögmannsstofu, dags. 17/8 varðandi viðbótargatnagerðargjöld Austurkórs 24.

""Þetta bréf er áfellsdómur fyrir stjórnsýslu bæjarins en í því kemur fram að viðkomandi hafi ekki fengið svör, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir um málið.

Gunnar Ingi Birgisson""

  

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra umhverfissviðs til umsagnar.

50.1108358 - Bakkabraut 7a

Frá Lótushúsinu, dags. 22/8, óskað er eftir lækkun eða niðurfellingu fasteignagjalda fyrir Bakkabraut 7a, vegna mannúðar- og góðgerðarstarfsemi sem fram fer í húsnæðinu.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarritara til umsagnar.

51.1108357 - Ósk um endurskoðun framlags til Tónlistarskóla Kópavogs

Frá Tónlistarskóla Kópavogs, dags. 19/8, óskað eftir endurskoðun framlags til skólans.

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra menntasviðs til umsagnar.

52.1108259 - Austurkór 74.

Frá Ástu Jóhannsdóttur og Bjarna Jóhannessyni, dags. 14/8, óskað rökstuðnings vegna úthlutunar á lóðinni að Austurkór 74, ásamt tillögu að svari.

Bæjarráð vísar erindinu til skrifstofustjóra umhverfissviðs til umsagnar.

53.1108258 - Austurkór 54. Ósk um rökstuðning vegna úthlutunar lóðar

Frá Sigríði Rut Stanleysdóttur, tölvupóstur dags. 12/8, óskað upplýsinga um hvers vegna ekki var dregið þegar lóðinni að Austurkór 54 var úthlutað, ásamt tillögu að svari.

Bæjarráð vísar erindinu til skrifstofustjóra umhverfissviðs til umsagnar.

54.1108344 - Austurkór 74. Beiðni um skýringar varðandi úthlutun á lóð

Frá Kjartani Antonssyni, tölvupóstur dags. 15/8, óskað skýringa á hvers vegna ekki var dregið um lóðina Austurkór 74, ásamt tillögu að svari.

Bæjarráð vísar erindinu til skrifstofustjóra umhverfissviðs til umsagnar.

55.1108217 - Hlíðarhjalli 68-76

Frá íbúum Hlíðarhjalla 68-76, dags. 1/7, óskað er eftir að settur verði upp spegill við innakstur í húsagötuna.

Sviðsstjóri umhverfissviðs hefur svarað erindinu með bréfi dags. 19/8 sl.

56.1108261 - Beiðni um rökstuðning og skýringar vegna innheimtu bílastæðisgjalds með fasteignagjöldum 2011

Frá stjórn Hamraborgarráðs, dags. 11/8, óskað upplýsinga varðandi gjaldtöku fyrir bílastæði í Hamraborg 14 - 38.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarlögmanns til umsagnar.

57.1108250 - Beiðni um afhendingu jafnréttisáætlunar, ásamt framkvæmdaáætlun

Frá Jafnréttisstofu, dags. 15/8, beiðni um afhendingu jafnréttisáætlunar sveitarfélagsins, ásamt framkvæmdaáætlun.

Bæjarráð vísar erindinu til jafnréttis- og mannréttindaráðs til úrvinnslu.

58.1001050 - Samstarf við Vinnumálastofnun

Frá Vinnumálastofnun, dags. 16/8, bókun við samstarfs- og þjónustusamning Vinnumálastofnunar og Kópavogsbæjar.

Lagt fram.

59.1005063 - Þríhnúkagígur

Frá Skipulagsstofnun, dags. 11/8, óskað er umsagnar um tillögu Þríhnúka ehf. að matsáætlun um aðgengi o.fl. við Þríhnúkagíg.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfis- og samgöngunefndar og skipulagnefndar umhverfissviðs til umsagnar.

60.1108356 - Skil á skýrslum um refa- og minkaveiðar

Frá Umhverfisstofnun, dags. 19/8, varðandi skil á skýrslum um refa- og minkaveiðar á veiðiárinu 2010/2011.

Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 10:15.