Bæjarráð

2879. fundur 10. ágúst 2017 kl. 07:30 - 10:25 á Digranesvegi 1, bæjarráðsherbergi - Víghóll
Fundinn sátu:
  • Theódóra S Þorsteinsdóttir formaður
  • Margrét Friðriksdóttir varafulltrúi
  • Hjördís Ýr Johnson aðalfulltrúi
  • Pétur Hrafn Sigurðsson aðalfulltrúi
  • Ólafur Þór Gunnarsson áheyrnarfulltrúi
  • Birkir Jón Jónsson aðalfulltrúi
Starfsmenn
  • Pálmi Þór Másson bæjarlögmaður
Fundargerð ritaði: Pálmi Þór Másson bæjarlögmaður
Dagskrá

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

1.1708169 - Kársnesskóli, nýbygging. Stýrihópur. Erindisbréf o.fl.

Frá bæjarstjóra, lögð fram drög að erindisbréfi stýrihóps vegna byggingar nýs Kársnesskóla.
Bæjarráð samþykkir framlagt erindisbréf stýrihóps vegna byggingar nýs Kársnesskóla með fimm atkvæðum.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

2.1610412 - Sérstakur húsnæðisstuðningur

Frá sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 4. júní, lagt fram erindi vegna reglna um sérstakan húsnæðisstuðning þar sem lagt er til að viðmiðunarstuðull verði hækkaður við útreikning bóta.
Bæjarráð samþykkir erindið með fimm atkvæðum.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

3.1707304 - Skeljabrekka 4 og Auðbrekka 3 - 5. Samkomulag

Frá lögfræðideild, lögð fram drög að samkomulagi við Lund fasteignafélag og Selkóp ehf. um lóðirnar Skeljabrekku 4 og Auðbrekku 3-5. Einnig lagt fram sem fylgiskjal með samkomulaginu rammasamkomulag um þróun og uppbyggingu deiliskipulags Auðbrekku.
Bæjarráð samþykkir framlagt samkomulag með 5 atkvæðum.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

4.17052043 - Sunnubraut 30, byggingarleyfi.

Frá byggingarfulltrúa, Honter Einangrunarlausnir ehf., Skemmuvegur 4, Kópavogi, sækir um leyfi til að rífa húsið að Sunnubraut 30. Byggingarfulltrúi samþykkti erindið 1. júní 2017. Samrýmist lögum nr. 160/2010. Bæjarstjórn frestaði málinu á fundi sínum þann 27. júní síðastliðinn.
Bæjarráð samþykkir erindið með fimm atkvæðum.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

5.1708076 - Gervigras, greining efna- og loftgæða.

Guðjón Atli Auðunsson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Páll Stefánsson frá Heilbrigðiseftirliti gera grein fyrir athugun á dekkjakurli á gervigrasvöllum og sparkvöllum í Kópavogi.
Lagt fram.

Gestir

  • Guðjón Atli Auðunsson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands - mæting: 08:10
  • Páll Stefánsson frá Heilbrigðiseftirliti - mæting: 08:10

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

6.1707116 - Tillaga frá Ólafi Þór Gunnarssyni um að kannaður verði kostnaður við námsgögn barna í grunnskóla í Kópavogi

Frá deildarstjóra grunnskóladeildar, dags. 2. ágúst, lagt fram minnisblað um kostnað vegna kaupa á námsgögnum fyrir nemendur í grunnskólum Kópavogs.
Lagt fram.

Bókun:
"Undirritaður þakkar svörin. Svörin benda til að kostnaður við þessa breytingu sé slíkur að bærinn ætti að taka hann til sín. Kópavogsbær á að taka þetta skref í átt að gjaldfjálsum grunnskóla.

Ólafur Þór Gunnarsson"

Fundarhlé hófst kl. 8.57. Fundi fram haldið kl. 9.07.
Bókun Theódóru S. Þorsteinsdóttur, Margrétar Friðriksdóttur, Hjördísar Ýr Johnson og Ármanns Kr. Ólafssonar:
"Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 13. júní sl. var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum tillaga þess efnis að grunnskólarnir fari í aðgerðir til að lækka ritfangakostnað og að miðað verði við að kostnaður vegna hvers nemanda verði ekki hærri en 4000 kr. á næsta skólaári 2017-2018. Þessar breytingar á innkaupum teljum við mikilvægt skref til að lækka ritfangakostnað fjölskyldna sem og til að auka nýtni og draga úr sóun í samræmi við áherslur í umhverfismálum. Þá hefur innleiðing spjaldtölva verið mikilvægur þáttur í að tryggja jafnræði meðal barna auk þess að draga úr kostnaði við námsgögn."

Bókun Ólafs Þórs Gunnarssonar:
"Öll skref í þá átt að gera grunnskólann gjaldfrjálsan eru jákvæð."

Bókun Péturs Hrafns Sigurðssonar:
"Undirritaður beinir því til bæjarstjóra að sjá til þess að stjórnendur allra grunnskóla fari eftir ákvörðun bæjarstjórnar, en svo virðist sem misbrestur sé þar á."

Bókun Birkis Jóns Jónsonar:
"Ég árétta bókun mína frá bæjarstjórnarfundi þann 13. júní sl.
"Ég fagna tillögu menntaráðs um að lækka ritfangakostnað fjölskyldna vegna skólagöngu grunnskólanema. Mikilvægt er að grunnskólar skipuleggi sameiginleg innkaup í samstarfi við foreldra. Hins vegar tel ég að þessi námsgögn eigi að vera grunnskólanemum gjaldfrjáls. Grunnskólar í Kópavogi ættu því að útvega öll þau gögn sem nauðsynlegt er að nemendur hafi tiltæk vegna náms, hvort sem það eru pappír, ritföng eða annað. Við gerð fjárhagsáætlunar Kópavogsbæjar árið 2018 þarf að tryggja fjármuni vegna þessa. Birkir Jón Jónsson""

Bókun Ármanns Kr. Ólafssonar:
"Ég minni á að allir viðbótarkostnaður grunnskólanna er tekinn af skattfé frá íbúum Kópavogs."

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

7.1706615 - Álalind 1, sala Þjónustumiðstöðvar.

Frá bæjarstjóra og sviðsstjóra umhverfissviðs, dags. 14. júlí, lagt fram erindi þar sem óskað er heimildar bæjarráðs til sölu húsnæðis Þjónustumiðstöðvar að Álalind 1 til niðurrifs samhliða því að selja byggingarrétt á lóðinni Álaind 18-20 fyrir fjölbýlishús með 43 íbúðum (um er að ræða sömu lóð, númer breytist).
Bæjarráð samþykkir erindið með þremur atkvæðum gegn atkvæði Péturs Hrafns Sigurðssonar og hjásetu Birkis Jóns Jónsonar.

Bókun:
"Undirritaður telur ótímabært að selja byggingarrétt á lóðinni Álalind 18 - 20 undir fjölbýlishús. Þessi lóð er ein sú síðasta í eigu Kópavogsbæjar. Kópavogsbær á að nýta lóðina og byggja húsnæði fyrir fyrstu kaupendur og fjölskyldur sem þurfa á félagslegum íbúðum að halda.
Pétur Hrafn Sigurðssonar."

Fundarhlé hófst kl. 9.23. Fundi fram haldið kl. 9.49.

Bókun Theódóru S. Þorsteinsdóttur, Margrétar Friðriksdóttur, Hjördísar Ýr Johnson og Ármanns Kr. Ólafssonar:
"Kópavogsbær stendur mjög framarlega hvað varðar framboð á félagslegu húsnæði eins og skýrt hefur komið fram í fjölmiðlaumræðu að undanförnu. Unnið er í húsnæðismálum bæjarins í samræmi við stefnumótun sem samþykkt var af öllum bæjarfulltrúm á fyrri hluta kjörtímabilsins. Þá má geta þess að fyrir liggja kaupsamningar um fimm íbúðir auk þess sem verið er að vinna að samningum um fimm íbúðir til viðbótar. Einnig er búið að gera rammasamning við Smárinn 201 um að bærinn hafi kauprétt á 4,5% íbúða í því hverfi í samræmi við fyrrgreinda húsnæðisstefnu og það sama á við um GG verk á Auðbrekkureitnum. Húsnæðisstefnan tekur líka á fyrstu íbúðakaupum og er sérstaklega horft til þess í við deiliskipulagi á þéttingasvæðum og rammasamningum við Bygginaraðila. Kópavogsbær hefur ekki þá stefnu að byggja heilu fjölbýlishúsin undir félagslegt húsnæði og hefur verið miðað við í kringum 10% í fjölbýli.

Hvað lóðaframboð varðar fer að styttast í næsta áfang á Glaðheimasvæðinu þar sem unnið verður áfram skv. stefnu Kópvogsbæjar í húsnæðismálum."

Bókun Ólafs Þórs Gunnarssonar:
"Ég tek undir bókun Péturs Hrafns Sigurðssonar."

Bókun Birkis Jóns Jónssonar:
"Ég minni á nauðsyn þess að auka fjölbreytni í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Kópavogi. Byggingasamvinnufélög hafa gefið góða raun í Kópavogi og gríðarlegur fjöldi íbúða hefur byggst upp með þeim hætti hér í bæ á undanförnum áratugum. Það er nauðsynlegt að bæjaryfirvöld stuðli að því að slík félagasamtök geti byggt húsnæði í bænum."

Ýmis erindi

8.1603662 - Fluglestin - tillaga að samstarfssamningi við SSH og aðildarsveitarfélög

Frá SSH, dags. 14. júní, lögð fram drög að tillögu að samstarfssamningi milli SSH og Fluglestarinnar-þróunarfélags ehf. vegna Hraðlestar til og frá Keflavíkurflugvelli, sem stjórn SSH vísaði til efnislegrar umfjöllunar hjá aðildarsveitarfélögunum á fundi þann 6. júní síðastliðinn.
Bæjarráð frestar erindinu.

Bókun Birkis Jóns Jónssonar:
"Þann 14. júní sl. óskuðu Samtök Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu (SSH) eftir álitsgerð frá Landslögum - lögfræðistofu um samningstexta milli SSH og Fluglestarinnar - þróunarfélags ehf. Verkefnið er gríðarlega umfangsmikið og því nauðsynlegt að slík álitsgerð liggi fyrir áður en bæjarráð afgreiðir málið. Álitsgerðin hefur ekki borist bæjarráði Kópavogs.
Hvað Fluglestina varðar eru mörg álitaefni sem þarf að hafa á hreinu sem varða hagsmuni íbúa höfuðborgarsvæðisins og kjörnum fulltrúum ber skylda til að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir áður en lengra er haldið. Farið var ítarlega yfir nokkra þætti málsins í greinargerð lögfræðisstofunnar á fyrri stigum málsins og margar ábendingar um endurbætur á samningstexta komu fram. Það er ótækt að bæjarráð afgreiði fyrirliggjandi samningsdrög fyrr en að greinargerð, sem kallað hefur verið eftir, liggur fyrir."

Ýmis erindi

9.1707335 - Þakkarbréf vegna framlags Kópavogsbæjar til Símamóts Breiðabliks árið 2017

Frá Knattspyrnudeild Breiðabliks, dags. 26. júlí, lagt fram þakkarbréf vegna framlags Kópavogsbæjar til Símamóts Breiðabliks árið 2017.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

10.1707003F - Skipulagsráð - 12. fundur frá 31.07.2017

Fundargerð í 16. liðum.
Lagt fram.
  • 10.3 1704274 Kársnesbraut 57. Kynning á byggingarleyfi.
    Lögð fram að nýju að lokinni kynningu tillaga Bjarna Snæbjörnssonar, arkitekts fh. lóðarhafa að viðbyggingu við íbúðarhúsið að Kársnesbraut 57. Um er að ræða viðbyggingu sem mun tengja saman núverandi bílaskúr og íbúðarhús, tveggja hæða bygging að samanlögðum gólfflefi um 40 m2. Uppdrættir í mkv. 1:100 ásamt skýringarmyndum.
    Á fundi skipulagsráðs 18. apríl 2017 var samþykkt með tilvísan í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Kársnesbrautar 55, 59 og Holtagerðis 4, 6 og 8. Athugasemdafresti lauk 14. júlí 2017. Engar ábendingar eða athugasemdir bárust.
    Niðurstaða Skipulagsráð - 12 Skipulagsráð samþykkir erindið og vísar til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð samþykkir framlagt erindi með fimm atkvæðum.
  • 10.4 1703846 Melahvarf 3. Breytt deiliskipulag.
    Lögð fram að nýju að lokinni kynningu tillaga Gunnars Sigurðssonar arkitekts fh. lóðarhafa lóðar nr. 3 við Melahvarf um byggingu einbýlishúss ásamt hljóðveri og gestahúsi. Í tillögunni felst að byggja 127,3 m2 einbýlishús á einni hæð ásamt 246,9 m2 hljóðveri með milligólfi og 54 m2 stakstæðu gestahúsi, í heildina samtals 428,2 m2. Lóðin er 1,569 m2 og með byggingunum yrði nýtingarhlutfall 0,27. Uppdráttur í mkv. 1:100 og 1:1500 ásamt skýringarmyndum dags. 2. janúar 2017. Á fundi skipulagsráðs 20. mars var samþykkt með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa ofangreinda breytingu. Á fundi bæjarstjórnar 28. mars 2017 var ofangreind afgreiðsla skipulagsrás staðfest. Tillagan var auglýst frá 7. júní 2017. Athugasemdafresti lauk 21. júlí 2017. Engar athugasemdir eða ábendingar bárust. Niðurstaða Skipulagsráð - 12 Skipulagsráð samþykkir erindið og vísar til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð samþykkir framlagt erindi með fimm atkvæðum.
  • 10.6 1707230 Austurkór 66. Breytt deiliskipulag.
    Lögð fram tillaga Ívars Haukssonar byggingartæknifræðings dags. 14. júní 2017 fyrir hönd lóðarhafa Austurkórs 66. Í tillögunni felst að hækka hluta hússins þannig að hámarkshæð fari upp í 6,9 m. Leyfileg hámarkshæð er 7,5 m. en hún er breytileg eftir staðsetningu á byggingarreit. Við breytinguna nær tæplega 6 m2 hluti af þaki hússins upp fyrir ytri byggingarreit, frá 0-51 cm. Sjá skilmálateikningu dags. 15. janúar 2017 og uppfærð 29. maí 2017. Einnig lagt fram undirskrifað samþykki lóðarhafa Austurkórs 64A, 64B, 80, 82, 84 og 86. Niðurstaða Skipulagsráð - 12 Skipulagsráð samþykkir erindið og vísar til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð samþykkir framlagt erindi með fimm atkvæðum.
  • 10.7 1707229 Austurkór 68. Breytt deiliskipulag.
    Lögð fram tillaga Ívars Haukssonar byggingartæknifræðings dags. 14. júní 2017 fyrir hönd lóðarhafa Austurkór 68. Í tillögunni felst að hækka hluta hússins þannig að hámarkshæð fari upp í 6,9 m. Leyfileg hámarkshæð er 7,5 m. en hún er breytileg eftir staðsetningu á byggingarreit. Við breytinguna nær tæplega 6 m2 hluti af þaki hússins upp fyrir ytri byggingarreit, frá 0-51 cm. Sjá skilmálateikningu dags. 15. janúar 2017 og uppfærð 29. maí 2017. Einnig lagt fram undirskrifað samþykki lóðarhafa Austurkórs 64A, 64B, 80, 82, 84 og 86. Niðurstaða Skipulagsráð - 12 Skipulagsráð samþykkir erindið og vísar til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð samþykkir framlagt erindi með fimm atkvæðum.
  • 10.11 1703856 Kópavogsbraut 75. Breytt deiliskipulag.
    Lagt fram að nýju leiðrétt tillaga Kristins Ragnarssonar, arkitekts dags. 16. mars 2017 þar sem fram kemur að lóðin er á deiliskipulögðu svæði. Í erindinu felst ósk um heimild til að rífa einbýlishús á lóðinni byggt 1953 ásamt bílskúr byggður 1977 samtals 112,7 m2 að flatarmáli. Lóðin er 986,0 m2 og núverandi nýtingarhlutfall 0,11. Jafnframt er óskað heimildar til að byggja á lóðinni fjögurra íbúða hús á tveimur hæðum auk kjallara og tveimur innbyggðum bílskúrum. Samanlagður gólfflötur er áætlaður liðlega 750 m2 og nýtingarhlutfall 0,8. Hámarkshæð miðað við aðkomuhæð er áætluð 6,2 m. Miðað er við tvö bílastæði á íbúð innan lóðar. Uppdrættir í mkv. 1:1000 ásamt greinargerð og skýringarmyndum. Niðurstaða Skipulagsráð - 12 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan til 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu að breyttu deiliskipulagi Kópavogsbrautar 75. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð samþykkir framlagt erindi með fimm atkvæðum.
  • 10.12 1707262 Smárinn. Reitur A 10. Breytt deiliskipulag.
    Lögð fram tillaga Tendra arkitektúr fh. lóðarhafa að breyttu deiliskipulagi á svæði A10 í 201 Smári. Í tillögunni felst að lega og fyrirkomulag bílastæða og opinna svæða á lóð fyrirhugaðra húsa á svæðinu breytist. Opin bílgeymsla við hús A er felld út; hús A verður 4-6 hæðir í stað 4-7 hæða; hús C verður 4-7 hæðir í stað 4 hæða og í því húsi verður fjöldi íbúða 18 í stað 9. Fjöldí bílastæða ofanjarðar er óbreyttur þ.e. 30 stæði en bílastæðum í bílageymslu neðanjarðar er fjölgað úr 55 í 57. Sorp verður í djúpgámum við gangstíg í stað sorpgeymslum í kjallara fyrirhugaðra húsa. Þá er sett inn kvöð um sjónlínur frá útkeyrslu milli húsa A og b til að auka umferðaröryggi gagnvart umferð úr suðri. Tillagan er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:500 ásamt skýringarmyndum og greinargerð dags. 19. júlí 2017. Niðurstaða Skipulagsráð - 12 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan til 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu að breyttu deiliskipulagi á reit A 10. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

    Samþykkt.

    Bókun frá Margréti Júlíu Rafnsdóttur:
    "Tel óráðlagt að tvöfalda íbúðafjölda úr 9 í 18 í húsi C, það eykur ennfrekar álag á umhverfi og nærliggjandi byggð."

    Bókun frá Theódóru S. Þorsteinsdóttur, Júlíusi Hafstein, Sigríði Kristjánsdóttur, Kristni D. Gissurarsyni, Guðmundi G. Geirdal, Ásu Richardsdóttur og Andrési Péturssyni:
    "Í þessari tillögu er ekki verið að auka byggingarmagn heldur er verið að fjölga minni íbúðum Fjölgun minni íbúða í Kópavogi er algjörlega í samræmi við þá húsnæðisstefnu sem birtist m.a. í Húsnæðisskýrslu sem unnin var í þverpólitískri sátt strax í upphafi kjörtímabilsins."

    Bókun frá Margréti Júlíu Rafnsdóttur:
    "Mikill fjöldi lítilla íbúða er nú þegar í byggingu í Kópavogi."
    Niðurstaða Bæjarráð samþykkir framlagt erindi með fimm atkvæðum.

    Bókun Ólafs Þórs Gunnarssonar:
    "Ég tek undir bókanir Margrétar Júlíu Rafnsdóttur."

    Bókun Ármanns Kr. Ólafssonar, Margrétar Friðriksdóttur og Hjördísar Ýr Johnson:
    "Tökum undir bókun meirihluta skipulagsráðs."
  • 10.13 1707278 Vesturvör 16-28 og Hafnarbraut 20. Deiliskipulag. Svæði 5.
    Lögð fram tillaga skipulags- og byggingardeildar og Tvíhorfs arkitekta, dags, 31. júlí 2017 að deiliskipulagi svæði 5 sem samanstendur af lóðunum Vesturvör 16-20, 22-24, 26-28 og Hafnarbrautar 20. Nánar til tekið nær tillagan til svæðis sem er um 35.000 m2 að flatarmáli og afmarkast af lóðarmörkum Hafnarbrautar 12 og Vesturvarar 96 til 104 til suðurs, lóðarmörkum Hafnarbrautar 25 og 27 til vesturs , Fossvogi til norðurs og lóðarmörkum Vesturvarar 14 og Bryggjuhverfi Kópavogs til austurs.

    Í tillögunni felst að sameina lóðirnar að Vesturvör 22 og 24 og byggja fjölbýlishús á 2-4 hæðum auk inndreginnar þakhæðar og kjallara í stað 1.530 m2 atvinnuhúsnæðis sem fyrir er á lóðunum. Hámarksflatarmál hússins verður eftir breytingu 8.400 m2 þar af 600 m2 í kjallara og 1.800 m2 í niðurgrafinni bílageymslu. Lóðarmörk breytast og stækkar lóð til norðurs og verður eftir breytingu 5.135 m2. Gert er ráð fyrir 59 íbúðum á lóðinni. Að jafnaði er gert ráð fyrir 1.3 bílastæðum á íbúð í allt 79 stæði þar af 59 stæði í niðurgrafinni bílageymslu. Aðkoma að lóðinni verður frá Hafnarbraut.
    Tillaga er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:1000 ásamt greinargerð, skýringarmyndum, skipulagsskilmálum, skýringarhefti B dags. 31. júlí 2017. Með tillögunni fylgir minnisblað frá verkfræðistofunni Mannviti dags. 31. júlí 2017 sem fjallar um umhverfismál og möguleg áhrif uppbyggingar á svæðinu á nærliggjandi byggð.

    Í tillögunni felst einnig að sameina lóðirnar að Vesturvör 26 og 28 og byggja fjölbýlishús á 2-4 hæðum auk inndreginnar þakhæðar og kjallara í stað 1.870 m2 atvinnuhúsnæðis sem fyrir er á lóðunum. Hámarksflatarmál hússins verður eftir breytingu 12.350 m2 þar af 900 m2 í kjallara og 2.750 m2 í niðurgrafinni bílageymslu. Lóðarmörk breytast og stækkar lóð til norðurs og verður eftir breytingu 4.784 m2. Gert er ráð fyrir 86 íbúðum á lóðinni. Að jafnaði er gert ráð fyrir 1.3 bílastæðum á íbúð í allt 112 stæði þar af 86 stæði í niðurgrafinni bílageymslu. Aðkoma að lóðinni verður frá Hafnarbraut.
    Tillaga er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:1000 ásamt greinargerð, skýringarmyndum, skipulagsskilmálum, skýringarhefti B dags. 31. júlí 2017. Með tillögunni fylgir minnisblað frá verkfræðistofunni Mannviti dags. 31. júlí 2017 sem fjallar um umhverfismál og möguleg áhrif uppbyggingar á svæðinu á nærliggjandi byggð.

    Landnotkun á lóðunum við Hafnarbraut 20 og Vesturvör 16-20 er óbreytt.

    Tillagan er sett fram á uppdrætti í mk. 1:1000 ásamt greinargerð, skýringarmyndum, skýringarhefti B, dags. 31. júlí 2017. Með tillögunni fylgir minnisblað frá verkfræðistofunni Mannviti dags. 31. júlí 2017 sem fjallar um umhveffismál og möguleg áhrif uppbyggingar á svæðinu á nærliggjandi byggð.

    Niðurstaða Skipulagsráð - 12 Skipulagsráð samþykkir að með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

    Samþykkt af Theodóru S. Þorsteinsdóttur, Júlíusi Hafstein, Sigríði Kristjánsdóttur, Kristni D. Gissurarsyni, Ásu Richardsdóttur og Andrési Péturssyni.

    Guðmundur Gísli Geirdal situr hjá.

    Bókun frá Ásu Richardsdóttur:
    "Ég tel ástæðu til að útfæra frekar strandlengjuna á þessu svæði, hvað varðar notkun og útlit ."
    Niðurstaða Bæjarráð samþykkir framlagt erindi með fimm atkvæðum.
  • 10.15 1611457 Nónhæð. Breyting á deiliskipulagi.
    Lögð fram tillaga ARKÍS, arkitekta að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar. Nánar tiltekið nær tillagan til svæðis sem er um 31.000 m2 að flatarmáli og afmarkast af Arnarnesvegi til suðurs, Smárahvammsvegi til austurs, suðurmörkum lóða við Foldarsmára 2-22 (sléttartölur) til norðurs og Arnarsmára 32 og 34 til vesturs. Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir samfélagsþjónustu og opnu svæði á svæðinu en í tillögu að breyttu deiliskipulagi er ráðgerð íbúðarbyggð á svæðinu og opnu svæði, sem mun nýtast almenningi til leikja og útiveru. Í tillöguni eru ráðgerðar 3 lóðir A, B og C fyrir fjölbýlishús á 2-5 hæðum með allt að 140 íbúðum. Áætlað byggingarmagn ofanjarðar er allt að 15.600 m2 og nh. deiliskipulagssvæðisins því um 0,5. Að jafnaði eru ráðgerð 1,2 bílastæði á íbúð bæði ofanjarðar og í bílgeymslum neðanjarðar. Aðkoma að húsi A verður frá Arnarsmára og að húsum B og C frá Smárahvammsvegi. Tillagan er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:1000 ásamt greinargerð, skýringarmyndum, skipulagsskilmálum og skýringarhefti dags. í júlí 2017. Þá lögð fram greinargerð VSÓ ráðgjöf: Breyting á deiliskipulagi Nónhæðar. Umhverfismat skv. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 dags. í júlí 2017 og greinargerð VERKÍS: Nónhæð - deiliskipulag minnisblað varðandi hljóðvist dags. 7: júlí 2017. Niðurstaða Skipulagsráð - 12 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan til 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu að breyttu deiliskipulagi Nónhæðar. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

    Bókun frá Ásu Richardsdóttur:
    "Ég minni á óskir íbúa hvað varðar hæð bygginga."
    Niðurstaða Bæjarráð samþykkir framlagt erindi með fimm atkvæðum.

    Bókun Péturs Hrafns Sigurðssonar:
    "Tek undir bókun Ásu Richardsdóttur þar sem minnt er á óskir íbúa hvað varðar hæð bygginga."

Fundi slitið - kl. 10:25.