Bæjarráð

3225. fundur 04. september 2025 kl. 08:15 í bæjarstjórnarsal, Hábraut 2
Fundinn sátu:
  • Orri Vignir Hlöðversson formaður
  • Hjördís Ýr Johnson varaformaður
  • Andri Steinn Hilmarsson, aðalmaður boðaði forföll og Elísabet Berglind Sveinsdóttir varamaður, sat fundinn í hans stað.
  • Theódóra S Þorsteinsdóttir, aðalmaður boðaði forföll og Einar Örn Þorvarðarson varamaður, sat fundinn í hans stað.
  • Helga Jónsdóttir aðalmaður
  • Bergljót Kristinsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Auður Kolbrá Birgisdóttir lögfræðingur
  • Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Auður Kolbrá Birgisdóttir lögfræðingur
Dagskrá

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

1.25031723 - Gjaldskrár 2025

Frá deildarstjóra leikskóladeildar, dags. 18.08.2025, lögð fram tillaga að hækkun systkinafsláttar.

Niðurstaða Bæjarráð - 3223

Gestir véku af fundi kl. 8:43



Umræður.



Bæjarráð samþykkir að vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar, endurskoðað kostnaðarmat í samræmi við umræðu á fundi bæjarráðs mun liggja fyrir fundi bæjarstjórnar.



Bókun:

Frá því að Kópavogsmódelið var innleitt hefur það verið þróað í samræmi við þarfir á hverjum tíma í þeirri viðleitni að sníða það betur að notendum þess. Aukinn systkinaafsláttur er liður í þeirri þróun og léttir undir með þeim foreldrum sem eiga fleiri en eitt barn. Með þessari breytingu er verið að bregðast við og koma til móts við ábendingar og þarfir fjölskyldna í Kópavogi.



Hjördís Ýr Johnson

Andri Steinn Hilmarsson

Björg Baldursdóttir

Niðurstaða

Bæjarstjórn vísar málinu til frekari umfjöllunar í bæjarráði.

Nú lagt fram uppfærð tillaga, dags. 02.09.2025.
Umræður.

Sindri Sveinsson áhættu- og fjárstýringarstjóri víkur af fundi kl. 08:40
Sigrún Hulda Jónsdóttir deildarstjóri leikskólaskóladeildar víkur af fundi 08:40

Bæjarráð samþykkir tillögu um hækkun systkinafsláttar í leikskólum.

Jafnframt vísar bæjarráð til grunnskóladeildar að vinna tillögu um breytingu á afslætti er varðar frístund fyrir næsta fund bæjarráðs.

Gestir

  • Sindri Sveinsson áhættu og fjárstýringarstjóri - mæting: 08:29
  • Sigrún Hulda Jónsdóttir deildarstjóri leikskóladeildar - mæting: 08:29

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

2.2507941 - Fyrirspurn bæjarfulltrúa Helgu Jónsdóttur um aðgengi að byggingum í Fannborg á framkvæmdartíma

Frá umhverfissviði, dags. 29.08.2025, lagt fram svar við fyrirspurn bæjarfulltrúa Vina Kópavogs, Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar varðandi aðgengi að byggingum í Fannborg á framkvæmdartíma, ásamt umbeðinni aðkomuáætlun.
Lagt fram.

Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs víkur af fundi kl. 09:28
Guðrún Edda Finnbogadóttir skrifstofustjóri umhverfissviðs víkur af fundi kl. 09:28

Fundarhlé hófst 09:28
Fundarhlé lauk 10:21

Bókun:
Í umræðu um framkvæmdir í miðbæ hefur verið skýr samstaða um að byggingarleyfi verði ekki veitt nema fyrir liggi fullnægjandi lausnir sem tryggja aðgengi allra, sbr. bókun meirihlutans 3. júlí sl.
Svarið sem nú er lagt fyrir fundinn byggist annað hvort á misskilningi eða vísvitandi útúrsnúningi. Fyrirspurn okkar er skýr og lýtur að aðgengi hreyfihamlaðra að byggingum í Fannborg á framkvæmdatíma. Ósk okkar var um sundurliðaðar upplýsingar fyrir hvern fasa fyrirhugaðrar uppbyggingar um fjarlægðir í metrum frá bílastæðum hreyfihamlaðra að aðalinngangi hverrar byggingar.

Svarið sem bæjarráð fær frá umhverfissviði er drög að aðgengisáætlun sem gera verði ráð fyrir að taki breytingum milli framkvæmdafasa. Engar vegalengdir eru málsettar og engin leið er að gera sér grein fyrir fjarlægð frá bílastæðum að aðalinngangi bygginga.

Við óskuðum eftir staðfestingu á að sérmerkt bílastæði hreyfihamlaðra verði ekki fjær en 25 m. frá aðalinngangi heimilis og þjónustustofnana eins og áskilið er í 1. mgr. 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar. Vangaveltur um nýjar byggingar, gamlar byggingar, byggingar sem á að rífa eða byggingar sem fá að standa eiga ekkert erindi í svar við fyrirspurn okkar. Hreyfihamlaðir eiga einfaldlega tilkall til þess að fjarlægðin sé innan 25 metra meðan á áralöngum framkvæmdum á reitnum stendur.

Við hljótum að krefjast þess að fá án dráttar svar við fyrirspurn sem réttur okkar stendur til að fá skýrt og skilmerkilega.

Bergljót Kristinsdóttir
Einar Örn Þorvarðarson
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Helga Jónsdóttir

Bókun:
Það er óásættanlegt og bæjarfulltrúum minnihlutans til minnkunar að væna starfsmenn bæjarins um útúrsnúning þegar þeir eru að sinna störfum sínum af ábyrgð og fagmennsku. Í fyrirliggjandi aðkomuáætlun er skýrt tekið fram að aðgengi og fjarlægðir að bílastæðum fyrir hreyfihamlaða verði sambærilegar og nú er. Þetta var ítarlega rakið og staðfest á fundi skipulags- og umhverfisráðs við afgreiðslu byggingaráforma. Gerð er krafa um að framkvæmdaraðilar uppfylli kröfur um fullnægjandi aðgengi á framkvæmdatíma og skuldbindi sig til að aðlaga aðgengið að þörfum hreyfihamlaðra í hverjum áfanga verksins. Fjarlægðir bílastæða fyrir hreyfihamlaða hafa verið kynntar og rökstuddar ítarlega í fylgigögnum byggingaráforma. Aðgengisáætlun og fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða verða aðlagaðar að þörfum íbúa eins og kostur er á meðan á framkvæmd stendur. Þá skal áréttað að farið verður eftir byggingarreglugerð, gildandi lögum og reglum á öllum stigum framkvæmdatíma.

Ásdís Kristjánsdóttir
Orri Vignir Hlöðversson
Hjördís Ýr Johnson
Elísabet Sveinsdóttir


Gestir

  • Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs - mæting: 08:56
  • Guðrún Edda Finnbogadóttir, skrifstofustjóri umhverfissviðs - mæting: 08:58

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

3.2508460 - Bréf til bæjarstjórnar Kópavogs - aukaspurningar varðandi fyrirhugaðar breytingar á Traðar- og Fannborgarreitnum

Frá umhverfissviði, dags. 29.08.2025, lagt fram svar við erindi íbúa í Hamraborg 32, dags. 30. júní og 10. ágúst 2025, vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Fannborgarreit og Traðarreit-vestri.

Lagt fram.

Bókun:
Því miður er margt jafnóljóst eftir svarið og fyrir. Svör stjórnsýslunnar við einstökum spurningum íbúanna hljóta að vekja viðbrögð okkar. Til dæmis

Sagt er: Í þéttbýli mega íbúar gera ráð fyrir að upp komi aðstæður, s.s. vegna framkvæmda sem valdi tímabundnu raski og óþægindum. Við framkvæmdir er reynt eftir fremsta megni að halda ónæði og raski í lágmarki. Þá er framkvæmdaraðilum skylt að fara eftir öllum gildandi lögum og reglum er varða framkvæmdir af þessu tagi.
Við hljótum að spyrja hvort íbúar sem eignuðust íbúðir í grónu hverfi í Hamraborg, Fannborg og nágrenni gátu fyrirfram gert ráð fyrir þeim stórkarlalegu sprengingum og framkvæmdum, sem standa eiga upp við húsveggi í miðju hverfisins um langt árabil? Svar okkar er NEI. Við teljum bæinn ganga langt yfir þau mörk í framkvæmdum sem nokkur hópur íbúa á að þurfa að sætta sig við og getur búið sig undir. Það er lögmætt markmið að byggja upp miðbæ en meðalhófsregla stjórnsýslulaganna takmarkar hvað hægt er að leggja miklar byrðar á afmarkaðan hóp íbúa til að ná því markmiði. Hér fer því fjarri að meðalhófs sé gætt.

Sagt er: Framkvæmdir af þessari stærðargráðu eru ekki óalgengar og hafa m.a. átt sér stað sambærilegar framkvæmdir í nágrannalöndum sem og nágrannasveitarfélögum. Í þéttbýli má almennt vænta þess að upp geti komið tímabil þar sem slíkt rask á sér stað. Við köllum eftir dæmunum um sambærilegar framkvæmdir í nágrannalöndum og nágrannasveitarfélögum sem vísað er til. Við könnumst ekki við nein slík dæmi og teljum óhjákvæmilegt að þekkja þau.

Helga Jónsdóttir
Einar Örn Þorvarðarson
Bergljót Kristinsdóttir
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir

Bókun:
Áform um endurskipulag miðbæjarsvæðis nánar tiltekið Fannborgarreits hófst árið 2017 og eru í samræmi við sameiginlega stefnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem kemur fram í svæðisskipulagi, samþykkt var í júní 2015. Gildandi skipulag tók gildi á síðasta kjörtímabili og eftir því er unnið. Með áherslu á betri nýtingu lands er óhjákvæmilegt að það verði rask í þéttbýli eins og á við um til dæmis Traðarreit eystri, Heklureitinn, Lýsisreitur á Granda og Hverfisgötu. Verkefni allra sem að Fannborgarverkefninu koma er að lágmarka óþægindi á framkvæmdatíma.

Ásdís Kristjánsdóttir
Orri Vignir Hlöðversson
Hjördís Ýr Johnson
Elísabet Sveinsdóttir

Orri Vignir Hlöðversson víkur af fundi kl. 10:25.
Hjördís Ýr Johnson tekur sæti formanns á fundinum.

Gestir

  • Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfisviðs
  • Guðrún Edda Finnbogadóttir, skrifstofustjóri umhverfissviðs

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

4.2509080 - Úthlutun lóða Skyggnishvarf 13-17

Tillaga að úthlutun lóða til Fjallasólar ehf.
Bæjarráð samþykkir með tveimur atkvæðum og hjásetu Einars Arnars Þorvarðarsonar og Helgu Jónsdóttur framlagða tillögu að úthlutun Skyggnishvarfs 13-17 til Fjallasólar ehf. og vísar henni til staðfestingar bæjarstjórnar.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

5.2509081 - Úthlutun lóða Skyggnishvarf 19-23

Tillaga um úthlutun lóða til Fjallasólar ehf.
Bæjarráð samþykkir með tveimur atkvæðum og hjásetu Einars Arnars Þorvarðarsonar og Helgu Jónsdóttur framlagða tillögu að úthlutun Skyggnishvarfs 19-23 til Fjallasólar ehf. og vísar henni til staðfestingar bæjarstjórnar.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

6.25081926 - Staða á kaupum og sölum félagslegra íbúða árið 2025

Frá áhættu- og fjárstýringarskrifstofu, dags. 02.09.2025, lögð fram umsögn um stöðu á kaupum og sölum félagslegra íbúða árið 2025.
Lagt fram.

Bókun:
Í framlögðu svari áhættu- og fjárstýringarstjóra er vitnað til húsnæðisnefndar Kópavogs sem undirrituð kannast ekki við og hefur ekki verið starfandi frá árinu 2010 ef marka má fundargerðir á vef bæjarins.
Ekki er sýnt fram á neina marktæka áætlun um eignasafn félagslegra íbúða bæjarins heldur er starfsmanni á skrifstofu áhættu- og fjárstýringar falið að leita að hentugum íbúðum þegar tími gefst. Engin framtíðarsýn eða stefna hefur verið sett fram af bæjarstjórn sem ber ábyrgð á málaflokknum. Þessi stóri og mikilvægi málaflokkur hefur verið í skötulíki í umsjá meirihluta sjálfstæðis- og framsóknarmanna í áraraðir. Félagslegum íbúðum í bænum hefur ekki fjölgað í takt við fjölgun í bæjarfélaginu og enginn vilji virðist til að bæta þar úr. Biðlistar eru þar til staðfestingar en fjöldi þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði er að staðaldri um hundrað fjölskyldur.

Bergljót Kristinsdóttir
Einar Örn Þorvarðarson
Helga Jónsdóttir
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir

Fundarhlé hófst kl. 10:44
Funarhlé lokið kl. 11:00

Bókun:
Kópavogsbær stendur sig vel í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði. Að baki hverri íbúð er einstaklingur eða fjölskylda sem þarfnast öryggis og stöðugleika. Flest kaup á undanförnum árum hafa verið í nýbyggingum, þar sem bærinn hefur rétt á að kaupa allt að 4,5% íbúða á viðkomandi svæðum. Það hefur gert okkur kleift að bjóða fólki gott húsnæði í nýjum hverfum. Sjö af þeim átta íbúðum sem keyptar hafa verið á árinu eru einmitt í nýbyggingum.

Hjördís Ýr Johnson
Ásdís Kristjánsdóttir
Elísabet Sveinsdóttir

Bókun:
Kópavogsbær stendur Reykjavíkurborg langt að baki í framboði á félagslegu húsnæðis. Við eigum að bera okkur saman við þá sem eru okkur framar.

Bergljót Kristinsdóttir
Einar Örn Þorvarðarson
Helga Jónsdóttir
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir

Gestir

  • Sindri Sveinsson áhættu og fjárstýringarstjóri

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

7.2509143 - Sameiginleg beiðni Gnaris og Manntaks um framsal lóða til Stöðvarhvarfs 2-8 ehf.

Beiðni Gnaris ehf. og Manntaks ehf. um framsal og veðsetningu lóða við Stöðvarhvarf 2-8 til félagsins Stöðvarhvarfs 2-8 ehf.
Bæjarráð vísar málinu til umsagnar sviðsstjóra umhverfissviðs.

Ýmis erindi

8.25081891 - Styrkbeiðni fyrir Hjartadagshlaupið

Frá Hjartamiðstöðinni ehf., dags. 27.08.2025, lögð fram beiðni um styrk.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til bæjarritara.

Ýmis erindi

9.2509171 - Samningur sveitarfélaganna og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins

Frá SSH, dags. 01.09.2025, lögð fram drög að sameiginlegum samningi sveitarfélaganna og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins vegna áranna 2026-2028 og er skrifstofu SSH falið að senda þau til afgreiðslu á vettvangi sveitarfélaganna.
Bæjarráð samþykkir framlögð drög að sameiginlegum samningi sveitarfélaganna og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins vegna áranna 2026-2028 og vísar þeim til staðfestingar bæjarstjórnar.

Fundargerðir nefnda

10.2508010F - Lýðheilsu- og íþróttanefnd - 5. fundur frá 28.08.2025

Fundargerð í níu liðum.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

11.2508026F - Innkaupanefnd - 6. fundur frá 01.09.2025

Fundargerð í sjö liðum.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

12.2508006F - Skipulags- og umhverfisráð - 13. fundur frá 01.09.2025

Fundargerð í átta liðum.
Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.
  • 12.7 25032174 Digranesvegur 15. Kópavogsskóli. Nýtt deiliskipulag.
    Lögð fram tillaga umhvefissviðs að deiliskipulagslýsingu dags. 29. ágúst 2025, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir nýtt deiliskipulag Kópavogsskóla að Digranesvegi 15. Fyrirhugað deiliskipulagssvæði er um 2,2 ha að flatarmáli og afmarkast af skipulagsmörkum deiliskipulags miðbæjar Kópavogs reiti B1-1, B4, B2 og B1-3 til vesturs, skipulagsmörkum deiliskipulags leikskóla við Skólatröð og að lóðarmörkum Vallartraðar 2, 6, 8 og 10 ásamt lóðamörkum Skólatraðar 1, 3, 5, 7, 9 og 11 til norðurs, skipulagsmörkum deiliskipulags Traðarreitar eystri til austurs og að lóðamörkum Digranesvegar 15 til suðurs.
    Elín Mjöll Lárusdóttir verkefnastjóri gerði grein fyrir erindinu.
    Niðurstaða Skipulags- og umhverfisráð - 13 Samþykkt með vísan til 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð skipulagslýsing verði auglýst. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.

Fundargerðir nefnda

13.2508024F - Menntaráð - 147. fundur frá 02.09.2025

Fundargerð í fjórum liðum.
Lagt fram.

Fundi slitið.