Íþróttaráð

62. fundur 01. september 2016 kl. 17:00 - 18:55 í Fannborg 2, 2. hæð, litla sal
Fundinn sátu:
  • Jón Júlíusson starfsmaður nefndar
  • Jón Finnbogason aðalfulltrúi
  • Hlín Bjarnadóttir aðalfulltrúi
  • Árni Þorsteinsson varafulltrúi
  • Magnús Jakobsson varafulltrúi
  • Matthías Páll Imsland aðalfulltrúi
  • Rannveig Bjarnadóttir aðalfulltrúi
  • Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri fræðslusviðs
Fundargerð ritaði: Jón Júlíusson Deildarstjóri íþróttadeildar
Dagskrá

1.16082131 - Kostnaður við íþróttaiðkun í Kópavogi

Formaður íþróttaráðs lagði fram og kynnti samantekt sem hann vann upp úr fjárhagsáætlun bæjarins og innsendum gögnum sem lögð hafa verið fram í íþróttaráði, um kostnað við íþróttaiðkun barna og ungmennna í Kópavogi árið 2016.
Lagt fram, almenn umræða. Nefndarmenn lýstu ánægju með þá samantekt sem lögð var fram á fundinum. Íþróttafulltrúa falið að vinna úr þeim tölulegu upplýsingum sem birtust í kynningunni til birtingar á heimasíðu Kópavogsbæjar eða með öðrum opinberum hætti. Óskað eftir því að samantekt sem þessi verði lögð fyrir íþróttaráð að ári liðunu þegar nýjar tölur liggja fyrir hjá þeim aðilum sem hlut eiga að máli. Samantekt sem þessi er til þess fallin að auka yfirsýn íbúa og íþróttafélaganna yfir rekstur og umfang íþróttastarfs í Kópavogi.

2.16082196 - Afnot af íþróttamannvirkjum og reiknuð leiga vegna íþróttafélaga í bænum

Reglur íþróttaráðs Kópavogs vegna aðstöðu til æfinga og keppni í íþróttamannvirkjum í eigu Kópavogsbæjar voru samþykktar í íþróttaráði 19.mars 2015 og Bæjarráði Kópavogs 26. mars 2015.
Á grundvelli ofangreindra reglna mun íþróttafélögum í Kópavogi verða sendur reikningur nú í haust vegna afnota af íþróttamannvirkjum Kópavogsbæjar. Í 1. málsgr. 7. gr. reglnanna segir "Fyrir þau íþróttafélög sem uppfylla skilyrði sem fram koma í 2. gr. skal vera um reiknaða leigu að ræða. Á móti reiknaðri leigu kemur samhliða styrkur frá íþróttaráði að sömu fjárhæð sem viðkomandi íþróttafélag skal færa sem styrk á móti reiknaðri leigu í sínum ársreikningum."

Íþróttaráð felur íþróttadeild að finna út reiknaða húsaleigu út frá kostnaði hvers mannvirkis á árinu 2015 deilt niður á fjölda eininga í hverju húsi á árinu 2016. Út frá úthlutuðum tímum hvers aðila er þannig hægt að finna út reiknaða húsaleigu á árinu 2016. Íþróttaráð felur íþróttadeild að upplýsa aðila sem hafa fengið úthlutuðum tímum um reiknaða húsaleigu hverju sinni í samræmi við ofangreindar reglur.

3.1601376 - Íþróttakarl og Íþróttakona Kópavogs - Framkvæmd kjörsins 2016

Á fundi íþróttaráðs þann 11. janúar sl. samþykkti Íþróttaráð að vinna að því á árinu 2016 að opna valið á íþróttakonu og karli ársins í Kópavogi þannig að bæjarbúar geti verið þátttakendur í valinu með beinum kosningum og fól íþróttafulltrúa að leggja fram tillögur að nýjum reglum til umræðu fyrir Íþróttaráð.
Lögð fram drög að nýjum reglum til umræðu.
Almenn umræða, málinu frestað.

4.16082077 - Ósk um undanþágu fyrir frístundastyrk í líkamsrækt.

Lagt fram erindi frá íbúa dags. 29. ágúst sl., þar sem óskað er eftir "undanþágu frá þeirri reglu Kópavogsbæjar sem takmarkar rétt ungmenna til að fá styrk vegna hreyfingar innan veggja líkamsræktarstöðva, sbr. d-lið 4. gr. reglna um frístundastyrki þar sem segir"; "Starfsemi sem ekki telst styrkhæf er starfsemi trúfélaga og annarra lífsskoðunarfélaga, stjórnmálasamtaka, viðvera eftir skóla og stök líkamsræktarkort.
Almennar umræður. Afgreiðslu frestað.

5.16081667 - Breiðablik-tímaúthlutun/sundurliðun í íþróttahúsum Kópavogsbæjar 2016-2017.

Lagt fram erindi frá Aðalstjórn Breiðabliks dags. 19. júlí 2016, þar sem óskað er eftir því að íþróttaráð upplýsi hverjir hafi fengið úthlutað tímum í íþróttahúsunum Fagralundi og Digranesi veturinn 2016/2017. Óskað er eftir því að upplýsingarnar verði sundurliðaðar í 6 liðum.
Lögð fram samantekt íþróttadeildar á umbeðnum upplýsingum.
Íþróttaráð fagnar þeirri fyrirspurn sem lögð er fram með erindi aðalstjórnar Breiðabliks. Íþróttaráð felur íþróttadeild að taka saman heildstætt yfirlit yfir úthlutun á öllum tímum í íþróttamannvirkjum á vegum Kópavogsbæjar og birta þá niðurstöðu á heimasíðu Kópavogsbæjar.

6.16081669 - HK blakdeild-úthlutun tíma í Fagralundi 2016-2017.

Lagt fram erindi frá blakdeild HK dags., 5. ágúst 2016, þar sem óskað er að fá æfingatíma í Fagralundi á sunnudögum frá 9-18 fyrir meistaraflokka félagsins og þá fullorðinsflokka sem hafa tekið þátt og munu taka þátt í Íslandsmóti á vegum BLÍ á næsta tímabili.
Íþróttaráð vísar erindinu frá. Framsetning á erindinu uppfyllir ekki þær kröfur sem fram koma í reglum íþróttaráðs Kópavogs vegna aðstöðu til æfinga og keppni í íþróttamannvirkjum í eigu Kópavogsbæjar. Auk þess þarf erindi um úthlutun á tímum í mannvirkjum á vegum Kópavogsbæjar að berast frá aðalstjórn hvers félags fyrir sig en ekki einstökum deildum þeirra. Erindið barst frá Blakdeild HK en ekki aðalstjórn.

Fundi slitið - kl. 18:55.