Íþróttaráð

70. fundur 30. mars 2017 kl. 17:00 - 19:25 í íþróttahúsinu Smáranum
Fundinn sátu:
  • Jón Júlíusson starfsmaður nefndar
  • Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri fræðslusviðs
  • Jón Finnbogason aðalfulltrúi
  • Lovísa Ólafsdóttir aðalfulltrúi
  • Gunnar Gylfason varafulltrúi
  • Magnús Jakobsson áheyrnarfulltrúi
  • Matthías Páll Imsland aðalfulltrúi
  • Rannveig Bjarnadóttir aðalfulltrúi
Fundargerð ritaði: Jón Júlíusson Deildarstjóri íþróttadeildar
Dagskrá

1.17031238 - Aðstaða íþróttafélaga í Kópavogi

Við undirbúning fundarins var ákveðið að halda 70. fund íþróttaráðs að starfsstöð Breiðabliks í Smáranum, enda meginefni fundarins tileinkuð málefnum er lúta að aðstöðu og starfsemi félagsins.
Formaður íþróttaráðs setti fundinn og bauð fulltrúum Breiðabliks velkomna til fundar við ráðið.
Fulltrúar Breiðabliks á fundinum voru þeir Sveinn Gíslason formaður, Kristján Jónatansson framkvæmdastjóri og Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar og verðandi framkvæmdastjóri félagsins.
Formaður Breiðabliks þakkaði boð íþróttaráðs og lýsti ánægju með að vera kominn til fundar með ráðinu. Kynnti hann ásamt framkvæmdastjórum málefni félagsins, fór yfir hvar skóinn kreppir og hverjar væru helstu áherslur er lúta að æfinga- og keppnisaðstöðu deilda félagsins.
Íþróttaráð þakkar fulltrúum Breiðabliks fyrir kynninguna sem og þá forgangsröðun sem fram kemur í erindi félagsins. Íþróttaráð mun innan tíðar fá niðurstöður frá VSÓ verkfræðistofu, sem var fengin til að greina aðstöðu og nýtingu hennar hjá Breiðablik.
Málið verður aftur til umræðu innan ráðsins þegar sú skýrsla liggur fyrir. Þá muna íþróttaráð einnig eiga fund með stjórnum HK, Gerplu, GKG og Spretts á næstu mánuðum.
Að lokum vill íþróttaráð ásamt starfsmönnum þakka Kristjáni Jónatanssyni fyrir farsælt samstarf á undanförnum áratugum og framlag hans til íþróttamála í Kópavogi, en hann mun láta af störfum á morgun 31. mars 2017.

2.1702428 - Aðstaða fyrir knattspyrnudeild Breiðabliks - Bókun

Á síðasta fundi ráðsins kom fram ósk um að aðstöðumál knattspyrnudeildar Breiðabliks yrði rædd á næsta fundi ráðsins.
Samanber fyrsta dagskrárlið hefur sú beiðni verið uppfyllt.

3.1703585 - Dansíþróttafélag Kópavogs-Beiðni um afnot af íþróttahúsi Breiðabliks fyrir nemendasýningu

Lögð fram beiðni DÍK um að fá íþróttahús Breiðabliks Smáranum fyrir nemendasýningu sunnudaginn 30.apríl 2017. frá klukkan 12-16.
Hægt er að verða við óskum DÍK um nemendasýningu í Smáranum frá kl. 16-20, þann 30. apríl nk.

4.17031266 - Krikketfélag Kópavogs, ósk um æfingaaðstöðu sumarið 2017

Lögð fram fyrirspurn frá íslenska Krikketfélaginu um mögulega æfinga og keppnistíma um helgar í sumar (júní-júlí). Félagið hafði aðgang að æfingaaðstöðu á svipuðum tíma sl. ár.
Starfsmönnum íþróttadeildar falið að kanna hvort hægt sé að koma til móts við óskir félagins og leggja tillögu um það fram á næsta fundi ráðsins.

5.17031420 - Viðhald gervigrasvalla - Námskeið á vegum Kópavogsvallar

Fulltrúi Samfylkingarinnar vakti máls á frábæru framtaki forstöðumanns og starfsmanna Kópavogsvallar fyrir að hafa staðið fyrir mjög velheppnaðri ráðstefnu/námskeiði um viðhald gervigrasvalla. Á námskeiðinu voru erlendir fagaðilar fyrirlesarar og var það mjög vel sótt af umsjónarmönnum gervigrasvalla af öllu landinu. Vildi hann koma á framfæri hrósi til forstöðumannsins.
Íþróttaráð tók undir hrósið og þakkaði forstöðumanni og hans fólki fyrir framtakið.

Fundi slitið - kl. 19:25.