Íþróttaráð

71. fundur 11. maí 2017 kl. 17:00 - 22:59 í íþróttamiðstöðinni Kórnum, Vallakór 12
Fundinn sátu:
  • Gunnar Guðmundsson starfsmaður nefndar
  • Jón Júlíusson starfsmaður nefndar
  • Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri fræðslusviðs
  • Jón Finnbogason aðalfulltrúi
  • Lovísa Ólafsdóttir aðalfulltrúi
  • Hlín Bjarnadóttir aðalfulltrúi
  • Matthías Páll Imsland aðalfulltrúi
  • Rannveig Bjarnadóttir aðalfulltrúi
  • Magnús Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Jón Júlíusson Deildarstjóri íþróttadeildar
Dagskrá

Almenn mál

1.17031238 - Íþróttadeild-Aðstaða íþróttafélaga í Kópavogi

Á 70. fundi íþróttaráðs var ákveðið að funda með stærstu íþróttafélögum bæjarins. Fundurinn fer fram í starfsstöð HK í Kórnum. Megninefni fundarins verður tileinkað málefnum er lúta að starfsemi félagsins og aðstöðu.
Lögð fram kynning og minnisblað Aðalstjórnar Breiðabliks frá síðasta fundi ráðsins sem haldinn var þann 30. mars sl. í Smáranum.
Formaður íþróttaráðs setti fundinn og bauð fulltrúa HK velkomna til fundar við ráðið. Fulltrúar HK á fundinum voru þeir Sigurjón Sigurðsson formaður, Birgir Bjarnason framkvæmdastjóri, Ragnheiður Kolviðsdóttir og Einar Tómasson úr aðalstjórn félagsins.

Formaður HK þakkaði boð íþróttaráðs og lýsti ánægju með að vera kominn til fundar með ráðinu. Kynnti hann stefnu HK með máli og myndum og fór yfir hvar skóinn kreppir og hverjar væru helstu áherslur er lúta að æfinga- og keppnisaðstöðu deilda félagsins næstu árin.
Íþróttaráð þakkar fulltrúum HK fyrir kynninguna sem og þá forgangsröðun sem fram kemur í minnisblaði félagsins gagnvart nýjum framkvæmdum sem og endurbótum á æfingaaðstöðu félagsins sem send verður íþróttaráði í kjölfar fundarins. Íþróttaráð mun innan tíðar fá niðurstöður úr ítarlegri rannsókn sem gerð hefur verið á gervigrasvöllum í Kópavogi síðustu mánuði. Málið verður aftur til umræðu innan ráðsins þegar sú skýrsla liggur fyrr.
Íþróttaráð óskar HK til hamingju með Íslandsmeistaratitla félagsins í meistaraflokki karla og kvenna í Blaki.

Almenn mál

2.1512539 - Viðmiðunarreglur um notkun Kópavogsvallar og stofnun Vallarráðs.

Lögð fram samantekt Vallarráðs frá síðastliðnu hausti.
Umræðu frestað.

Almenn mál

3.1705545 - Sumarnámskeið 2017

Gögn um sumarnámskeið 2017 lögð fram og kynnt.
Lagt fram.

Almenn mál

4.1704271 - Fótboltafélagið Einherjar, beiðni um afnot af íþróttavöllum

Lögð fram fyrirspurn frá fótboltafélaginu Einherja um möguleg afnot af grasvöllum yfir sumartímann.
Íþróttaráð felur íþróttadeild að kanna möguleika þess hvort hægt sé að verða við óskum fyrirspyrjenda.

Almenn mál

5.1704308 - Sumardvöl í Reykjadal, ósk um aðild að frístundastyrkjakerfi

Lagt fram erindi dags. 6.5.2017 um ósk um aðild Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra að frístundastyrkjakerfi Kópavogs.
Félagið býður upp á sumardvöl fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal. Starfsemin er með aðild að frístundakerfi Reykjavíkur.
Íþróttaráð samþykkir að heimila Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra aðild að Frístundastyrkjakerfi Kópavogsbæjar.

Almenn mál

6.1702067 - Áskorun til íþróttaráðs

Lagður fram tölvupóstur frá íbúa í bænum, dags. 1.2.2017 sl., þar sem óskað er eftir, "Endurskoðun ráðstöfunar frístundarstyrks til kaupa á líkamsræktarkorti fyrir ungmenni fædd 1999, 2000 og 2001. Í erindi sínu vísar bréfritari til framkvæmdar við ráðstöfun frístundastyrksins til sambærilegra aldurshópa í nágrannasveitarfélögum Kópavogs. Erindinu var frestað á 69. fundi íþróttaráðs.
Lýðheilsustefna Kópavogsbæjar var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs sl. þriðjudag. Meðal markmiða stefnunnar er að auka og jafna aðgengi íbúa að heilsueflandi tilboðum í Kópavogi.
Því leggur íþróttaráð til við bæjarráð að líkamsræktarkort fyrir ungmenni á aldrinum 16-18 ára verði samþykkt sem styrkhæf starfsemi og að reglum um frístundastyrki verði breytt með þeim hætti að lok 4. greinar d. liðar, verði felld út orðin "og stök líkamsræktarkort".
Inn komi nýr liður, h. liður 4. greinar sem hljóði svo:
Heimilt er að veita styrk til ungmenna, 16-18 ára miðað við fæðingaár, til kaupa á 3ja til 12 mánaða kortum að líkamsræktarstöðvum sem uppfylla skilyrði um fræðslu til iðkenda og fagmennsku í sinni starfssemi.

Umsóknir um sérstyrki

7.1704628 - Birta Rún Grétarsdóttir-Ósk um styrk

Lagt fram bréf frá Signýju Yrsu Pétursdóttur dags. 25.4.2017 sl., þar sem hún, f.h dóttur sinnar, óskar eftir fjárstyrk frá íþróttaráði vegna náms dótturinnar í íþróttamenntaskóla, Toppidrettsgymnas (NTG) í Kongsvinger í Noregi. Þar mun hún stunda framhaldsskólanám og handboltaæfingar.
Íþróttaráð getur ekki orðið við erindinu.

Önnur mál

8.1705548 - SÍK - erindi Starfsstjórnar SIK vegna úthlutunar styrkja og æfingatíma fyrir árið 2017.

Lagt fram erindi frá Starfsstjórn SÍK, dags. 10. maí sl. Þar óskar starfsstjórn SÍK eftir því við íþróttaráð að íþróttadeild og íþróttaráð annist úthlutun starfs- og sérstyrkja fyrir árið 2017 sem og úthlutun æfinga- og keppnistíma í íþróttamannvirkjum bæjarins fyrir veturinn 2017-2018. Við úthlutun verði stuðst við sömu reglur og viðmið og gert hefur verið sl. ár.
Íþróttaráð samþykkir beiðni Starfsstjórnar SÍK.

Önnur mál

9.1705766 - Lengdur opnunartími á laugardögum í Salalaug í sumar

Lögð fram tillaga um að lengja opnunartíma Salalaugar frá 20:00 til 22:00 á laugardögum frá 1. júní og út september.
Deildarstjóri greindi frá áætluðum kostnaði við tillöguna og að það væri innan ramma fjárhagsáætlunar ársins.
Íþróttaráð samþykkir tillöguna fyrir sitt leiti en vísar málinu til afgreiðslu bæjarráðs.

Fundi slitið - kl. 22:59.