Íþróttaráð

75. fundur 28. september 2017 kl. 17:00 - 19:30 í íþróttamiðstöðinni Versölum, Versölum 3
Fundinn sátu:
  • Gunnar Guðmundsson starfsmaður nefndar
  • Jón Júlíusson starfsmaður nefndar
  • Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri fræðslusviðs
  • Jón Finnbogason aðalfulltrúi
  • Lovísa Ólafsdóttir aðalfulltrúi
  • Gunnar Gylfason varafulltrúi
  • Rannveig Bjarnadóttir aðalfulltrúi
  • Magnús Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Jón Júlíusson Deildarstjóri íþróttadeildar
Dagskrá
Matthías Imsland boðaði forföll sem og varamanns síns, skömmu fyrir fundinn.

Almenn mál

1.17031238 - Íþróttadeild-Aðstaða íþróttafélaga í Kópavogi

Á 70. fundi íþróttaráðs var ákveðið að funda með stærstu íþróttafélögum bæjarins. Fundurinn er haldinn í starfsstöð Gerplu í Versölum. Á fundinum verða málefni er lúta að starfsemi og aðstöðu félagsins í brennidepli.
Áður en fundur hófst var íþróttaráði boðin vettvangsskoðun um mannvirkið.
Formaður íþróttaráðs setti fundinn og bauð fulltrúa Gerplu velkomna til fundar með ráðinu. Þau voru Harpa Þorláksdóttir formaður, Olga Bjarnadóttir framkvæmdastjóri og stjórnarmennirnir Marta Kristín Sigurjónsdóttir, Ragnheiður Margrét Ólafsdóttir, Hjalti R. Eiríksson, Sigrún Óskarsdóttir og Sif Pálsdóttir

Framkvæmdastjóri Gerplu þakkaði boð íþróttaráðs og lýsti yfir ánægju stjórnarinnar með að funda með ráðinu. Kynnti hún starfsemi og umfang félagsins og fór yfir helstu áherslur er lúta að innra starfi félagsins. Æfinga- og keppnisaðstaða Gerplu mun stóraukast með nýju íþróttahúsi við Vatnsendaskóla og breyta miklu hvað varðar aðgengi að æfingum hjá félaginu. Vék hún að því fjölbreytta framboði sem félagið bíður upp á og sýndi hlutfallslega skiptingu deilda innan félagsins.
Íþróttaráð fékk einnig kynningu frá Kristni deildarstjóra hópfimleikadeildar á þróunarverkefninu "Að finnast þú mikilvægur í stóru íþróttafélagi" sem hópeflisverkefni sem Gerpla hefur starfrækt sl. ár innan deildarinnar.
Íþróttaráð þakkar fulltrúum Gerplu fyrir kynninguna.
Lovísa Ólafsdóttir vék af fundi kl 18:30

Almenn mál

2.1709960 - Íþróttahátíð Kópavogs 2017

Þrjú undanfarin ár hefur Íþróttahátíð Kópavogs verið haldin í samvinnu við íþróttafélög í bænum á starfsstöðvum þeirra.
Íþróttaráð samþykkir að íþróttahátíð Kópavogs 2017 verði haldin í Kórnum í samvinnu við HK fyrri hluta janúar 2018.

Almenn mál

3.17091003 - Aðstaða til knattspyrnuiðkunar hjá Breiðablik - Úttekt VSÓ 2017

Lögð fram Úttekt Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar (VSÓ) um "Aðstöðu til knattspyrnuiðkunar hjá Breiðablik", sem unnin var fyrir Kópavogsbæ á þessu ári.
Skýrslan lögð fram. Deildarstjóri fór lauslega yfir helstu atriði greiningarinnar.
Umræðu frestað til næsta fundar ráðsins.

Almenn mál

4.1708076 - Gervigras, greining efna- og loftgæða.

Lögð fram skýrsla um "Áhættumat á notkun gervigrasvalla í Kópavogi", en að ósk Kópavogsbæjar fór fram ítarleg rannsókn á áhættu við notkun gervigrasvalla, bæði valla utandyra og innanhúss.
Þessi skýrsla gerir grein fyrir niðurstöðum þessarar rannsóknar.
Íþróttaráð lýsir ánægju sinni með þá vönduðu skýrslu sem liggur fyrir fundinum og telur mikilvægt að efni hennar verði kynnt vel innan íþróttafélaga í bænum er aðstöðuna nota.
Í því sambandi mun höfundur skýrslunnar kynna helstu niðurstöður rannsóknarinnar fyrir fulltrúum íþróttafélaganna en sá fundur verður eftir miðjan október nk.

Almenn mál

5.1705766 - Lengdur opnunartími á laugardögum í Salalaug í sumar

Lagt fram yfirlit yfir fjölda gesta, tekjur sem og útlagðan kostnað við af lengda opnum Salalaugar á laugardögum á tímabilinu 1. júní til 28.sept.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 19:30.