Umhverfis- og samgöngunefnd

169. fundur 21. nóvember 2023 kl. 16:30 - 19:28 á Digranesvegi 1, Vatnsenda 1. hæð
Fundinn sátu:
  • Bergur Þorri Benjamínsson formaður
  • Gunnar Sær Ragnarsson, aðalmaður boðaði forföll og Kristín Hermannsdóttir varamaður, sat fundinn í hans stað.
  • Guðjón Ingi Guðmundsson aðalmaður
  • Jane Victoria Appleton aðalmaður
  • Indriði Ingi Stefánsson aðalmaður
  • Leó Snær Pétursson, aðalmaður boðaði forföll og Andrés Pétursson vara áheyrnarfulltrúi, sat fundinn í hans stað.
  • Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Birkir Rútsson deildarstjóri gatnadeildar
Fundargerð ritaði: Birkir Rútsson Deildarstjóri gatnadeildar
Dagskrá

Almenn erindi

1.2309454 - Starfshópur - heildarsýn fyrir Kópavogsdal

Heildarsýn fyrir Kópavogsdal. Vinna starfshóps.
Lagt fram og kynnt.

Almenn erindi

2.2208338 - Vatnsendahæð - Vatnsendahvarf. Breyting á aðalskipulagi.

Lögð er fram að nýju tillaga skipulagsdeildar, dags. í febrúar 2023, uppf. í nóvember 2023, að breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 fyrir Vatnsendahvarf/Vatnsendahæð ásamt fylgiskjölum. Tillagan var uppfærð með vísan til sameiginlegrar umhverfismatsskýrslu, dags. 24.01.2023, uppf. 21.06.2023, fyrir tillögu að breytingu á aðalskipulagi og tillögu að nýju deiliskipulagi í Vatnsendahvarfi. Gerðar voru minni háttar lagfæringar í texta tillögunnar til útskýringa, ekki efnislegar breytingar.



Í aðalskipulagsbreytingunni felst að afmörkun landnotkunarreita fyrir íbúðarsvæði, opin svæði og samfélagsþjónustu er breytt. Fellt er út svæði fyrir verslun og þjónustu í útjaðri íbúðarsvæðisins og sú þjónusta sem þar var fyrirhuguð færð miðsvæðis inn í hverfið nálægt skóla og leikskóla. Staðsetning minjasvæðis er leiðrétt. Skilgreiningin "tengibraut" á Kambavegi að og frá hverfinu (ÍB-6) er felld niður. Breytingarnar eru í samræmi við tillögu að deiliskipulagi sem auglýst var samtímis.



Umhverfismatsskýrslan var uppfærð samkvæmt ábendingum Náttúrufræðistofnunar Íslands um að meta áhrif deiliskipulagsins á náttúrufar óveruleg frekar en jákvæð.



Á fundi skipulagsráðs 19. júní 2023 var lögð fram að lokinni kynningu skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 31. gr. sömu laga tillaga skipulagsdeildar, dags. í febrúar 2023, að breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 fyrir Vatnsendahvarf/Vatnsendahæð. Kynningartíma lauk 8. júní 2023. Þá voru lagðar fram athugasemdir og ábendingar sem bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 3. júlí 2023 var erindið lagt fram á ný ásamt umsögn Minjastofnunar sem barst eftir að kynningartíma lauk. Afgreiðslu málsins var frestað og athugasemdum vísað til umsagnar skipulagsdeildar.



Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 2. nóvember 2023 ásamt fylgiskjölum.

Auður D. Kristinsdóttir kynnir
Umhverfis og samgönguefnd gerir ekki athugasemdir við tillöguna.

Almenn erindi

3.2011714 - Vatnsendahæð - Vatnsendahvarf. Deiliskipulag.

Lögð fram að nýju tillaga Arkþing/Nordic arkitekta f.h. umhverfissviðs að deiliskipulagi nýs íbúðahverfis í Vatnsendahvarfi. Tillagan er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:2000, skýringaruppdrætti og greinargerð dags. 20.02.2023, uppf. 1.11.2023, ásamt sameiginlegri umhverfismatsskýrslu, dags. 24.01.2023, uppf. 21.06.2023, fyrir tillögu að deiliskipulagi og tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 fyrir svæðið. Tillögurnar voru auglýstar samtímis.

Megintilgangur deiliskipulagsvinnunnar er að móta hverfi með vistvænum áherslum í samræmi við markmið Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040. Deiliskipulagssvæðið er um 29 ha og liggur að mörkum fyrirhugaðs Arnarnesvegar, Kórahverfis og Hvörfum í Vatnsenda. Gert er ráð fyrir nýju íbúðahverfi með fjölbreyttu formi íbúða, leikskóla/skóla og útivistarsvæðum ásamt möguleika á verslun og þjónustu. Í tillögunni er gert ráð fyrir um 500 íbúðum alls í sérbýli (einbýli, raðhús/parhús), klasabyggingum og fjölbýlishúsum á 2-3 hæðum auk kjallara.

Á fundi skipulagsráðs þann 20. febrúar var samþykkt að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kynningartíma lauk 8. júní 2023. Á fundum skipulagsráðs þann 19. júní sl. og þann 3. júlí sl. voru lagðar fram athugasemdir og ábendingar sem bárust á kynningartíma, málinu var vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Alls bárust 10 ábendingar og umsagnir á kynningartíma við tillögu að nýju deiliskipulags og tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir Vatnsendahvarf. Brugðist var við umsögn Minjastofnun Íslands með því að gera rannsókn á fornleifum og bætt var við skilmálum um að girða af MV-9 á framkvæmdatíma. Ennfremur var sameiginlegt umhverfismat tillagnanna uppfært eftir ábendingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Gerðar eru leiðréttingar/lagfæringar í deiliskipulagsgögnum sem lýst er í neðangr. umsögn skipulagsdeildar.

Þá er lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 2. nóvember 2023 ásamt fylgiskjölum.

Bergdís Bjarnadóttir arkitekt frá Nordic gerir grein fyrir erindinu.

Kristjana H. Kristjánsdóttir var gestur undir málinu.
Umhverfis og samgönguefnd gerir ekki athugasemdir við tillöguna.

Almenn erindi

4.23051119 - Hámarkshraðaáætlun Kópavogsbæjar

Kynningu og umræðum um hámarkshraðaáætlun Kópavogs haldið áfram frá síðasta fundi nefndarinnar þann 17. október síðastliðinn. Ragnar Þór Þrastarson er gestur undir liðnum.
Kynningu og umræðum haldið áfram á næsta fundi.

Almenn erindi

5.23101080 - Hindranir vegna illa lagðra rafhlaupahjóla

Á 168. fundi umhverfis- og samgöngunefndar 17. október var óskað umsagnar umhverfissviðs vegna viðbragða við rafhlaupahjólum sem er lagt á óábyrgan hátt í bæjarlandi að lokinni notkun. Umsögn umhverfissviðs lögð fram. Ragnar Þór Þrastarson er gestur undir liðnum.
Umhverfis- og samgöngunefnd leggur til að umhverfissvið hefji samtal við rafhlaupahjólaleigur í samræmi við tillögur ræddar á fundinum.

Hlé gert á fundi kl. 18:52

Fundi haldið áfram kl. 19:05

Hlé gert á fundi 19:21

Fundi haldið áfram 19:25

Almenn erindi

6.23091400 - Fyrirspurn nefndarfulltrúa. Ráðstöfun fjármuna til gang- og hjólastíga

Fyrirspurn nefndarfulltrúa varðandi ráðstöfun fjármuna í stígaframkvæmdir. Á 168. fundi umhverfis- og samöngunefndar 17. október 2023 var afgreiðslu málsins frestað.
Bókun frá fulltrúum Pírata, Samfylkingar, Vinum Kópavogs og Viðreisnar
Það er mjög óheppilegt að stór hluti af því fé sem bærinn ráðstafar árum saman síðan 2019 til hjólastíga sé ekki nýtt til framkvæmda og hverfi úr málaflokknum þegar ekki er framkvæmt. Sérstaklega með tilliti til öryggis hjólandi vegfarenda og til að hvetja fólk til þátttöku í orkuskiptum í samræmi við samgöngustefnu bæjarins. Nú virðist miðað við fjárhagsáætlun verði engum fjármunum varið til stígagerðar utan samgöngusáttmála.

Bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks
Meirihluti Umhverfis og samgöngunefndar tekur ekki undir bókun minnihlutans og bendir á þá uppbyggingu sem þegar hefur verið lokið við og fyrirhugaðar eru á næstu árum.

Fundi slitið - kl. 19:28.