Umhverfis- og samgöngunefnd

8. fundur 12. september 2011 kl. 17:00 - 19:00 í Fannborg 2, fundarherbergi 3. hæð
Fundargerð ritaði: Hólmfríður Þorsteinsdóttir umhverfisfulltrúi
Dagskrá

1.1010296 - Sorpmál í Kópavogi

Lagt fram minnisblað dags. 9. september 2011 um stöðu flokkunar á sorpi hjá Kópavogsbæ.

Deildarstjóri framkvæmdadeildar, Stefán L. Stefánsson kynnti stöðu mála og næstu skref. Umhverfis- og samgöngunefnd fagnar þeim breytingum sem verða á sorphirðu í maí 2012. 

Jóhanna Heiðdal Sigurðardóttir og Helgi Jóhannesson mættu til fundar.

2.707101 - Borgarholtsbraut, hraðahindranir

Lagt fram erindi dags. 26. júní 2011 frá Kristínu Þórarinsdóttur og Tómasi Þorsteinssyni þar sem óskað er eftir aðgerðum til að draga úr umferðarhraða.

Umhverfis- og samgöngunefnd ítrekar beiðni sína dags. 21. september 2010 um umsögn frá skipulagsnefnd varðandi það að gera Borgarholtsbrautina að vistgötu frá lóðarmörkum húsa númer 19 og 21 í austri, vestur að gatnamótum við  Kópavogs/Kársnesbraut. Einnig samþykkir nefndin að umferðarmál götunnar í heild verði skoðuð í samhengi við endurskoðun umferðarskipulagsins á Kársnesinu í heild.

3.1108256 - Hábraut, hraðahindrun

Lagt fram erindi dags. 22. júlí 2011 frá Guðmundi Frey Sveinssyni þar sem óskað er eftir gangbrautum/hraðahindrunum yfir Hábraut og við menningarstofnanirnar við Hamraborgina.

Hábrautin ber ekki hraðahindranir sökum bratta en athuga skal með gangbrautir í samhengi við gerð hjólreiðaáætlunar í vetur.

4.1108386 - Lækjarhjalli, bílastæði

Lagt fram erindi dags. 19. júní 2011 frá Elínu Hrefnu Kristjánsdóttur þar sem óskað er eftir að gerð verði gestastæði við götuna.

Umhverfis- og samgöngunefnd hafnar erindinu þar sem gatan er samkvæmt skipulagi, en samþykkir að sent verði dreifibréf til íbúa götunnar.

5.1109075 - Ásakór 3, gangbraut

Lagt fram erindi dags. 7. september 2011 frá Svavari Ó Péturssyni þar sem óskað er eftir gangbraut yfir Ásakór.

Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkir að málaðar verði tvær gangbrautir yfir Ásakór til að auka öryggi vegfarenda.

6.1104046 - Hjólreiðaáætlun Kópavogsbæjar

Á fundi umferðarnefndar 21. september 2010 var nefndarmanni falið að leiða vinnuhóp við skipulagningu hjólaleiða í Kópavogi. Fyrstu niðurstöður voru lagðar fram á fundi 1. febrúar 2011 og málinu vísað til nýrrar umhverfis- og samgöngunefndar.
Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar 11. apríl lagði nefndin til að óskað yrði eftir tillögum frá hjólreiðasamtökum og íbúum varðandi hentuga stofnstíga fyrir hjólreiðar innan Kópavogsbæjar og tengingar við önnur sveitarfélög.
Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar 12. september 2011 var lögð fram skýrsla um niðurstöður talninga á göngustígum í Kópavogi og spurningakönnunar. Einnig var lögð fram kostnaðaráætlun vegna ráðgjafar við gerð hjólreiðaáætlunar.

Málið kynnt og rætt. Umhverfis- og samgöngunefnd minnir á að við endurskoðun aðalskipulags Kópavogs og Staðardagskrár 21 verði reiðleiðum frá Glaðheimum um Linda- og Salahverfi, breytt í hjóla og/eða göngustíga.

7.1108325 - Óskað eftir umsögn um þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Á fundi bæjarráðs 25. ágúst 2011 var erindi frá iðnaðarráðuneytinu dags. 19. ágúst 2011 þar sem óskað er eftir athugasemdum um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða vísað til umhverfis- og samgöngunefndar til umsagnar.

Lagt fram og frestað til næsta fundar.

8.1004287 - Umhverfisstefna leikskóla Kópavogs

Endurskoðuð umhverfisstefna leikskóla Kópavogs lögð fram til kynningar.

Umhverfis- og samgöngunefnd óskar leikskólum Kópavogs til hamingju með metnaðarfulla umhverfisstefnu og óskar þeim góðs gengis til að vinna samkvæmt henni.

9.1109076 - Stefna um hraðatakmarkandi aðgerðir í Kópavogi

Lögð fram tillaga um gerð stefnu varðandi hraðatakmarkandi aðgerðir í Kópavogi.

Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkir að stefnan verði unnin samhliða umferðaröryggisáætlun og endurskoðun umferðarskipulagsins.

10.1108116 - Síðsumarsganga 2011

Umhverfis- og samgöngnefnd minnir á síðsumarsgönguna sem verður á fimmtudaginn kl. 17.00 í trjásafninu.

Fundi slitið - kl. 19:00.