Velferðar- og mannréttindaráð

10. fundur 07. nóvember 2025 kl. 09:00 - 11:05 Hlégarði Mosfellsbær
Fundinn sátu:
  • Björg Baldursdóttir formaður
  • Svava Halldóra Friðgeirsdóttir aðalmaður
  • Matthías Björnsson, aðalmaður boðaði forföll og Signý Sigurrós Skúladóttir varafulltrúi, sat fundinn í hans stað.
  • Hólmfríður Hilmarsdóttir aðalmaður
  • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir aðalmaður
  • Einar Örn Þorvarðarson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sigrún Þórarinsdóttir starfsmaður velferðarsviðs
  • Jóhanna Lilja Ólafsdóttir verkefnastjóri
  • Rannveig María Þorsteinsdóttir Gestur
  • Elín Thelma Róbertsdóttir Gestur
  • Nanna Björk Bjarnadóttir Gestur
Fundargerð ritaði: Jóhanna Lilja Ólafsdóttir Skrifstofustjóri
Dagskrá
Um er að ræða sameiginlegan fund félagsmálanefnda sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Á 6. fundi velferðar- og mannréttindaráðs dags. 23. júní 2025 var lagt fram erindi frá Reykjavíkurborg þar sem kannaður var vilji til að halda sameiginlegan fund félagsmálanefnda sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem rætt yrði um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Velferðar- og mannréttindaráð tók jákvætt í erindið.

Á fundinn mættu fulltrúar félagsmálanefnda Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópaovgsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness ásamt fulltrúum starfsfólks sveitarfélaganna í velferðarmálum.

Almenn erindi

1.23011677 - Heimilislausir með miklar og flóknar þjónustuþarfir

Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar kynnir þjónustu borgarinnar í málaflokkinum. Að kynningu lokinni verður opnað fyrir umræður.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, fundarstjóri og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, bauð viðstadda velkomna og kynnti markmið með fundinum sem var að marka framtíðarsýn í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Hún bauð velkomna í pontu Soffíu Hjördísi Ólafsdóttur, deildarstjóra í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hjá Reykjavíkurborg sem kynnti þjónustu borgarinnar í málaflokknum.

Að kynningu lokinni var opnað fyrir umræður.

Helgi Áss Grétarsson frá velferðarráði Reykjavíkurborgar tók til máls.

Margrét Vala Marteinsdóttir frá fjölskylduráði Hafnarfjarðar tók til máls.

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir frá velferðarráði Reykjavíkur tók til máls.

Dögg Harðardóttir frá velferðarnefnd Mosfellsbæjar tók til máls.

Þorvaldur Daníelsson frá velferðarráði Reykjavíkurborgar tók til máls.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir frá velferðarráði Garðabæjar tók til máls.

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar tók til máls.

Sturla Þorsteinsson frá velferðarráði Garðabæjar tók til máls.

Fundarstjóri tók því næst til máls og fékk vilyrði fundargesta fyrir því að unnin væri sameiginleg ályktun fundar. Sviðsstjórar velferðarsviða ásamt staðgenglum og fundarritara unnu að gerð ályktunar á meðan stutt kaffihlé var tekið.

Ályktun var því næst varpað upp á skjá til yfirlestrar fundargesta og til gerð tillaga til breytinga. Að loknum nokkrum breytingum er vörðuðu inntak ályktunar og málfar var ályktun samþykkt samhljóða.

Ályktunin er svo hljóðandi:

Ályktun um stöðu heimilislausra einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir

Miklar framfarir hafa átt sér stað í þjónustu við heimilislausa einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir á undanförnum árum. Aukin áhersla hefur verið lögð á kortlagningu og greiningu á notendahópi, aukið notendasamráð og nýsköpun í þróun á þjónustuleiðum fyrir einstaklinga með mismunandi þjónustuþarfir. Reykjavíkurborg hefur leitt þá vinnu og verið styðjandi við önnur sveitarfélög. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að Reykjavíkurborg ber meginþungann af kostnaði vegna málaflokksins og hefur leitast eftir aukinni samvinnu annarra sveitarfélaga.

Sveitarfélögin í Kraganum eru hvert og eitt með samstarfssamning við Reykjavíkurborg um nýtingu á neyðarþjónustu. Þá hafa þau unnið að uppbyggingu þjónustunnar í málaflokknum í sínum sveitarfélögum. Brýnt er að sveitarfélög fari í formlegt samstarf um aðra þjónustu sem byggir á sérhæfingu og þekkingu sem myndast hefur á undanförnum árum hjá borginni, svo sem hjá Vettvangs- og ráðgjafateymi.

Sameiginlegur fundur félagsmálanefnda á höfuðborgarsvæðinu skorar á ríkið að móta stefnu í málaflokknum til framtíðar og leggur áherslu á að ríkið komi meira að fjármögnun hans. Þá leggur fundurinn einnig áherslu á að unnið verði áfram að framþróun málaflokksins hjá hverju og einu sveitarfélagi og þar verði m.a. stuðst við skýrslu um málefni heimilislausra sem gefin var út í mars 2023 á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Fundi slitið - kl. 11:05.