Barnasáttmálinn í Kópavogi

Unnið er að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs.

Samráðsgátt um Barnasáttmála SÞ

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti 22. maí 2018 að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og komast þannig í alþjóðlegan hóp barnvænna sveitarfélaga. Stýrihópur, með þátttöku barna og ungmenna, vinnur að innleiðingunni, þar sem lögð er áhersla á að vinna með grunnstoðir Barnasáttmálans. Grunnstoðirnar eru: 2. greinin sem fjallar um jafnræði og enga mismunun, 3. greinin sem fjallar um að við gerum ávallt það sem barni fyrir bestu, 6. greinin sem fjallar um rétt barns til að lifa og þroskast, 12. greinin sem fjallar um rétt barns til að tjá sig.

Innleiðingarferli og aðgerðaráætlun

Innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er unnið í samstarfi við Unicef á Íslandi og fylgir ákveðinni forskrift sem er í átta liðum og gera má ráð fyrir að taki tvö ár. Sextán manna stýrihópur skipaður börnum og ungmennum, fulltrúum sviða bæjarins og fulltrúum bæjarstjórnar vann fyrstu drög að aðgerðaráætlun sem byggir á fyrirliggjandi opinberum gögnum um stöðu, heilsu og líðan barna í Kópavogi auk þess að taka mið af skoðunum barna og ungmenna í sérstakri könnun bæjarins, úr rýnihópasamtölum og niðurstöðum ungmennaþings sem haldið var í bænum í byrjun árs 2019. 

Samráðsgátt um innleiðingu

Í gegnum samráðsgátt er nú leitað eftir áliti íbúa og starfsmanna bæjarins á fyrstu drögum aðgerðaáætlunarinnar. Samráðsgátt er opin frá 15.nóvember til 15. desember 2019. Fjölskyldur og skólasamfélag  eru sérstaklega hvött til að taka þátt enda þátttaka barna ein af grundvallarákvæðum sáttmálans. 

Samráðsgátt

Barnvænt sveitarfélag

Barnvænt sveitafélag er bær, borg eða samfélag sem stýrt er af sveitar- eða bæjarstjórn þar sem markmiðið er að bæta aðstæður barna og tryggja að ávallt sé tekið tillit til réttinda barna s.s. við gerð stefnu, verkefna eða við aðra ákvarðanatöku. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities (CFC) en það hefur verið innleitt í fjölda sveitarfélaga víðsvegar um heim 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð að lögum árið 1990 en allar þjóðir heims – að undanskildum Bandaríkjunum – hafa samþykkt sáttmálann sem samanstendur af 54 greinum um réttindi barna. Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992 en fullgilding hans felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði sáttmálans. Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf.

Síðast uppfært 15. nóvember 2019