Arnarnesvegur - Deiliskipulag frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti þann 29. apríl 2025 lýsingu fyrir gerð deiliskipulags fyrir Arnarnesveg í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Í undirbúningi er að gera deiliskipulög fyrir tvo vegkafla Arnarnesvegar. Annars vegar fyrir um 1,6 km kafla milli Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar innan Garðabæjar og Kópavogs (mál nr. 660/2025), og hins vegar fyrir um 1,1 km kafla frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi innan Kópavogs (mál nr. 717/2025).

 

Deiliskipulögin tvö munu ná yfir veghelgunarsvæðin, stíga og gatnamót að nálægum íbúðarsvæðum. Unnið er að veghönnun beggja vegkaflanna með breytingum sem eru til þess ætlaðar að auka umferðaröryggi og um leið eru hljóðvarnir, stígatengingar og staðsetningar strætóstöðva yfirfarnar.

 

Bæði deiliskipulögin eru áfangar á þeirri vegferð að í gildi verði deiliskipulög fyrir Arnarnesveg innan Kópavogs og Garðabæjar.

 

Á vegkaflanum frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi er verið að endurhanna gatnamót til að auka umferðaröryggi og til að bæta umferðarflæði, en í dag er vegkaflinn tvíbreiður vegur með eina akrein í hvora átt með hringtorgi og tveimur T-gatnamótum. Til að ná því markmiði er til skoðunar að gera eftirfarandi breytingar:

 

  • Fækka skurðpunktum akandi umferðar á gatnamótum Arnarnesvegar við Sólarsali og breyta þeim þannig að einungis verði hægt að beygja til hægri af Arnarnesvegi inn á Sólarsali og keyra út af Sólarsölum til hægri.

 

  • Breyta gatnamótum við Salaveg í hringtorg. Í dag eru þar T gatnamót sem anna illa framtíðar umferð þegar Arnarnesvegur verður tengdur við Breiðholtsbraut, sem nú er í framkvæmd. Þá er hringtorg í meiri samfellu við yfirbragð Arnarnesvegar alls.

 

Fyrir nánari upplýsingar er vísað í fylgiskjalið Skipulagslýsing dags. 19. mars 2025.

 

Deiliskipulagslýsingin er aðgengileg á vef Garðabæjar og Kópavogs og á vef skipulagsgáttar, www.skipulagsgatt.is, Arnarnesvegur milli Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar (mál: 660/2025) og Arnarnesvegur milli Fífuhvammsvegar og Rjúpnavegar (717/2025).

 

Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að senda inn rafrænar ábendingar til og með miðvikudagsins 18. júní 2025 í gegnum vef skipulagsgáttar, www.skipulagsgatt.is. Ef óskað er eftir frekari upplýsingum um lýsingu deiliskipulaganna er hægt að hafa samband við starfsfólk skipulagsdeildar með því að senda tölvupóst á skipulag@kopavogur.is.

Arnarnesvegur - Deiliskipulag frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi
Tímabil
29. maí til 18. júní 2025