Rammahluti aðalskipulags fyrir þróunarsvæði á vestanverðu Kársnesi. Vinnslutillaga.

Í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kynnt vinnslutillaga rammahluta aðalskipulags fyrir vestanvert Kársnes.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti þann 14. janúar 2025 að auglýsa breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 á vinnslustigi vegna rammahluta aðalskipulags fyrir þróunarsvæði á vestanverðu Kársnesi.

Svæðið afmarkast af strandlínu Kársness til norðurs og vesturs og af núverandi íbúðarbyggð við Þinghólsbraut, Kársnesbraut og Huldubraut austurs og suðurs. Alls er skipulagssvæðið um 57,2 ha. Svæðið er skilgreint sem samgöngumiðað þróunarsvæði í gildandi aðalskipulagi, þar sem gert er ráð fyrir þéttri og blandaðri byggð við Borgarlínu. Viðfangsefni tillögunnar snýr einkum að áframhaldandi þróun svæðisins með sérstakri áherslu á gæði byggðar, góðar samgöngutengingar m.a. fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og almenningsrými. Sett er fram heildarsýn fyrir framtíðarþróun svæðisins, sem verður útfærð nánar í deiliskipulagsáætlunum fyrir tiltekna reiti á svæðinu.

Opin hús verða haldin í Safnaðarheimili Kársnessóknar, Hábraut 1A, á eftirfarandi dögum:

  • Fimmtudaginn 6. febrúar. Opið hús milli kl. 16 og 19.
  • Laugardaginn 8. febrúar. Opið hús milli kl. 13 og 16.
  • Mánudaginn 10. Febrúar Opið hús milli kl. 16 og 19.

Þar geta íbúar og aðrir hagsmunaaðilar komið og kynnt sér ofangreinda vinnslutillögu ásamt fylgigögnum. Vakin er athygli á að staðsetning hefur verið breytt frá fyrri auglýsingu.

Athugasemdum og ábendingum skal skila í gegnum skipulagsgátt www.skipulagsgatt.is, máls nr. 580/2024, eigi síðar en föstudaginn 21. febrúar 2025. Ef óskað er eftir frekari upplýsingum um vinnslutillögu rammahluta aðalskipulags er hægt að hafa samband við starfsfólk skipulagsdeildar með því að senda tölvupóst á skipulag@kopavogur.is.

Vakin er athygli á að athugasemdir teljast til opinberra ganga í allri skipulagsmeðferð. Skipulagsfulltrúi Kópavogsbæjar notar upplýsingar sem eru settar fram vegna athugasemda við skipulag til úrvinnslu og auðkenningar. Kópavogsbær er afhendingarskyldur aðili samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og afhendir gögn til varðveislu til Þjóðskjalasafns Íslands.

Rammahluti aðalskipulags fyrir þróunarsvæði á vestanverðu Kársnesi. Vinnslutillaga.
Tímabil
16. janúar - 21. febrúar 2025