Frá bæjarlögmanni, dags. 10.02.2025, lögð fram umsögn um beiðni um endurupptöku máls. Umsögn lögfræðideildar lögð fram 13.02.2025. Bæjarráð frestaði málinu 13.02.2025 og áréttaði ósk um álit bæjarlögmanns á endurupptöku málsins. Bæjarráð tók málið fyrir 20.02.2025 og 03.04.2025 og frestaði því.
Bókun:
"Hlutverk bæjarfulltrúa, sem þiggja umboð sitt frá kjósendum, er að gæta að hag heildarinnar þó ekki þannig að réttur einstaklinga sé fyrir borð borinn. Þetta mál á sér forsögu. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála synjaði 18. október 2023 kröfu um að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um að hafna tillögu um breytingu deiliskipulags Nónhæðar. Sú krafa kom frá sama aðila og nú biður aftur um endurskoðun. Staðfesting úrskurðarnefndarinnar byggðist á því markmiði skipulagslaga að réttaröryggis skuli gætt og að almenningi sé gefinn kostur á að hafa áhrif á skipulagsákvarðanir stjórnvalda. Úrskurðað var að málefnalegt hafi verið og í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar og lögmætisregluna að litið væri til samráðs sem hafði átt sér stað við málsmeðferð fyrri breytinga.
Endurupptaka stjórnsýslumáls samkvæmt 24.gr. stjórnsýslulaga er leið til að leiðrétta rangar ákvarðanir. Réttaröryggi krefst þess að stjórnsýsluákvarðanir séu að jafnaði endanlegar nema sterk rök réttlæti breytingar, svo sem verulegir formgallar eða ný gögn sem hefðu breytt niðurstöðu málsins. Deiliskipulag er veigamikil stjórnsýsluákvörðun. Til að viðhalda trausti almennings á stjórnvöldum þarf slík ákvörðun að njóta virðingar. Í bréfi bæjarritara til bæjarráðs kemur fram að upplýsingar um annmarka á íbúðagerð gagnvart skipulagsskilmálum hafi legið fyrir, þegar ákvörðun var tekin, þó svo að ekki hafi verið sérstaklega vakin athygli á þeim. Vera kunni að afstaða bæjarstjórnar hefði orðið önnur, ef sjónarmiðin hefðu verið gerð skýrari frá upphafi. Skipulagsfulltrúa bendir á að það sé á ábyrgð hönnuða að koma íbúðum fyrir svo að þær uppfylli byggingarreglugerð, með hliðsjón af skipulagsskilmálum. Við skoðun á grunnmynd hússins telur skipulagsfulltrúi mögulegt að endurskipuleggja íbúðir þannig að dagsbirta berist úr tveimur áttum, til dæmis með því að minnka íbúðir á endum og stækka þær í miðjuhluta hússins.
Það er skylda bæjarstjórnar að gæta réttaröryggis og því aðeins á að endurupptaka stjórnsýsluákvörðun að nýjar upplýsingar eða sönnunargögn komi fram, form- eða efnisannmarkar séu á ákvörðun eða ákvörðunin hafi byggst á bersýnilega röngum lagalegum eða efnislegum forsendum. Staðfest er með fyrirliggjandi mótmælum íbúa í grenndinni að afstaða þeirra til deiliskipulagsins er óbreytt frá því að málsmeðferð sem var undanfari deiliskipulagsins var leidd til lykta. Í þessu máli eru skilyrði til þess að endurupptaka stjórnsýsluákvörðun alls ekki fyrir hendi."
Helga Jónsdóttir
Theódóra S. Þorsteinsdóttir
Sigurbjörg E. Egilsdóttir
Bergljót Kristinsdóttir.
Bæjarráð samþykkir ársreikning Kópavogsbæjar, stofnana og fyrirtækja bæjarins fyrir árið 2024 með fimm atkvæðum og vísar honum til endurskoðunar og afgreiðslu bæjarstjórnar.
Gestir véku af fundi kl. 9:10.