Bæjarráð

3212. fundur 10. apríl 2025 kl. 08:15 - 11:59 í bæjarstjórnarsal, Hábraut 2
Fundinn sátu:
  • Orri Vignir Hlöðversson formaður
  • Hjördís Ýr Johnson varaformaður
  • Andri Steinn Hilmarsson aðalmaður
  • Theódóra S Þorsteinsdóttir aðalmaður
  • Helga Jónsdóttir aðalmaður
  • Bergljót Kristinsdóttir, aðalmaður boðaði forföll og Hákon Gunnarsson vara áheyrnarfulltrúi, sat fundinn í hans stað.
  • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pálmi Þór Másson bæjarritari
Fundargerð ritaði: Pálmi Þór Másson bæjarritari
Dagskrá

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

1.24121552 - Ársreikningur Kópavogsbæjar 2024

Lagður fram fullgerður ársreikningur Kópavogsbæjar, stofnana og fyrirtækja bæjarins fyrir árið 2024 og tilbúnn til endurskoðunar.
Kynning og umræður.

Bæjarráð samþykkir ársreikning Kópavogsbæjar, stofnana og fyrirtækja bæjarins fyrir árið 2024 með fimm atkvæðum og vísar honum til endurskoðunar og afgreiðslu bæjarstjórnar.

Gestir véku af fundi kl. 9:10.

Gestir

  • Davíð Arnar Einarsson endurskoðandi Grant Thornton - mæting: 08:15
  • Ingólfur Arnarson skrifstofu áhættu og fjárstýringar - mæting: 08:15
  • Sif Jónsdóttir, endurskoðandi Grant Thornton - mæting: 08:15

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

2.25031723 - Gjaldskrár 2025

Frá menntasviði, sem þáttur í hagræðingaraðgerðum bæjarstjóra, lögð fram til samþykktar bæjarráðs uppfærð gjaldskrá varðandi tekjutengda afslætti á dvalargjöldum leikskóla ásamt reglum.
Kynning og umræður.

Bæjarráð frestar afgreiðslu á reglum um tekjutengda afslætti á dvalargjöldum leikskóla.

Gestir véku af fundi kl. 9:56.

Gestir

  • Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri menntasviðs - mæting: 09:44
  • Sindri Sveinsson rekstrarstjóri menntasviðs - mæting: 09:44

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

3.25041402 - Sumarnámskeið 2025 - gjaldskrár

Lagt fram til samþykktar bæjarráðs gjaldskrá vegna sumarnámskeiða 2025.
Tillögu Sigurbjargar E. Egilsdóttur um að vísa málinu til umsagnar í ungmennaráði er hafnað með þremur atkvæðum gegn atkvæðum Helgu Jónsdóttur og Theódóru S. Þorsteinsdóttur.

Bókun:
"Undirrituðum finnst miður að meirihlutinn hafni því að vísa tillögu um hækkun gjalda á sumarnámskeiðum barna til umsagnar Ungmennaráðs Kópavogs.

Hlutverk ráðsins er að gæta hagsmuna barna og ungmenna í Kópavogi, og þessi tillaga snertir þá hagsmuni með afgerandi hætti. Kópavogsbær ber jafnframt ábyrgð sem barnvænt sveitarfélag. Áður en ákvarðanir sem varða börn eru teknar, skal meta áhrif þeirra á börn og það sem barni er fyrir bestu á alltaf að hafa forgang.

Gjaldskrárhækkun af þessari stærðargráðu getur haft í för með sér að sum börn, sérstaklega þau sem koma úr tekjulægri fjölskyldum, fái ekki tækifæri til að sækja sumarnámskeið. Aðgerðin getur því takmarkað aðgengi að frístundum sem eru í eðli sínu afar mikilvægar fyrir félagsfærni, öryggi og velferð barna yfir sumartímann."

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Theodóra S. Þorsteinsdóttir
Helga Jónsdóttir
Hákon Gunnarsson


Bókun:
"Hlutverk ungmennaráðs er m.a. að veita ungu fólki vettvang og leiðir til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Verklagið hefur verið að gjaldskrárbreytingar eru ekki teknar til umræðu hjá nefndum sem snúa að tilteknum hópum, sem dæmi breytingar á gjaldskrám er snúa að málefnum aldraða eða málefnum fatlaðra."

Ásdís Kristjánsdóttir
Orri V. Hlöðversson
Hjördís Ýr Johnson
Andri S. Hilmarsson


Bæjarráð samþykkir með þremur atkvæðum gegn atkvæðum Helgu Jónsdóttur og Theódóru S. Þorsteinsdóttur framlagða gjaldskrá fyrir sumarnámskeið 2025.


Bókun:
"Undirrituð mótmæla harðlega hækkun gjaldskrár fyrir sumarnámskeið barna í Kópavogi um 53% til 105%. Slík hækkun er í andstöðu við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá mars 2024. Þar er áhersla er lögð á að gjaldskrárhækkunum verði stillt í hóf eins og kostur er á samningstíma kjarasamninganna, sér í lagi varðandi barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Fyrirhuguð hækkun sumarnámskeiðsgjalda gengur gegn þessum markmiðum og felur í sér umtalsvert aukið fjárhagslegt álag á barnafjölskyldur í Kópavogi en skiptir litlu sem engu í tekjuöflun bæjarsjóðs.

Tryggja þarf að gjaldskrár fyrir þjónustu við börn og fjölskyldur haldist innan eðlilegra marka og í samræmi við þau sameiginlegu markmið sem sett hafa verið um verðstöðugleika og bætt lífskjör."

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Theodóra S. Þorsteinsdóttir
Helga Jónsdóttir
Hákon Gunnarsson


Bókun:
"Líkt og kemur fram í minnisblaði menntasviðs hafa athugasemdir komið fram þess efnis að Kópavogsbær sé í beinni samkeppni um sumarnámskeið við kirkjur og íþróttafélög bæjarins. Þessar breytingar eru í samræmi við verðlagningu sumarnámskeiða nágrannasveitarfélaga."

Ásdís Kristjánsdóttir
Orri V. Hlöðversson
Hjördís Ýr Johnson
Andri S. Hilmarsson


Bókun:
"Meirihlutinn réttlætir hækkun á gjöldum fyrir sumarnámskeið með því að vísa til samkeppni við kirkjur og íþróttafélög. Kópavogsbær hefur boðið upp á ódýrari sumarnámskeið og þannig tryggt að öll börn hafi raunverulegt tækifæri til þátttöku í uppbyggilegu sumarstarfi, óháð fjárhagsstöðu foreldra.

Þá bendir meirihlutinn á að verklagið hafi verið að gjaldskrárbreytingar fari ekki til umræðu hjá nefndum sem snúa að tilteknum hópum. En hér er um börn að ræða ? og Kópavogur titlar sig barnvænt sveitarfélag. Það krefst þess að ávallt séu áhrif ákvarðana á börn sérstaklega metin, ekki síst þegar þær hafa bein áhrif á aðgengi þeirra að frístundum, félagslegri þátttöku og velferð.

Ungmennaráð hefur einmitt það hlutverk að koma með sjónarmið barna - og á ekki aðeins að vera skraut eða samráðsvettvangur þegar það hentar. Þegar ákvörðun hefur áhrif á líf barna í bænum - sérstaklega neikvæð áhrif - þá ber að nýta þann vettvang.

Það er engin „hefð“ sem réttlætir að hagsmunir barna séu sniðgengnir. Hefðir breytast - og það er kominn tími til að verklagið í Kópavogi taki mið af þeirri ábyrgð sem felst í því að kalla sig barnvænt sveitarfélag."

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Theodóra S. Þorsteinsdóttir
Helga Jónsdóttir
Hákon Gunnarsson

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

4.25012787 - Nónsmári 1-17. breytt deiliskipulag. Beiðni um endurupptöku máls

Frá bæjarlögmanni, dags. 10.02.2025, lögð fram umsögn um beiðni um endurupptöku máls. Umsögn lögfræðideildar lögð fram 13.02.2025. Bæjarráð frestaði málinu 13.02.2025 og áréttaði ósk um álit bæjarlögmanns á endurupptöku málsins. Bæjarráð tók málið fyrir 20.02.2025 og 03.04.2025 og frestaði því.

Bókun:

"Hlutverk bæjarfulltrúa, sem þiggja umboð sitt frá kjósendum, er að gæta að hag heildarinnar þó ekki þannig að réttur einstaklinga sé fyrir borð borinn. Þetta mál á sér forsögu. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála synjaði 18. október 2023 kröfu um að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um að hafna tillögu um breytingu deiliskipulags Nónhæðar. Sú krafa kom frá sama aðila og nú biður aftur um endurskoðun. Staðfesting úrskurðarnefndarinnar byggðist á því markmiði skipulagslaga að réttaröryggis skuli gætt og að almenningi sé gefinn kostur á að hafa áhrif á skipulagsákvarðanir stjórnvalda. Úrskurðað var að málefnalegt hafi verið og í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar og lögmætisregluna að litið væri til samráðs sem hafði átt sér stað við málsmeðferð fyrri breytinga.



Endurupptaka stjórnsýslumáls samkvæmt 24.gr. stjórnsýslulaga er leið til að leiðrétta rangar ákvarðanir. Réttaröryggi krefst þess að stjórnsýsluákvarðanir séu að jafnaði endanlegar nema sterk rök réttlæti breytingar, svo sem verulegir formgallar eða ný gögn sem hefðu breytt niðurstöðu málsins. Deiliskipulag er veigamikil stjórnsýsluákvörðun. Til að viðhalda trausti almennings á stjórnvöldum þarf slík ákvörðun að njóta virðingar. Í bréfi bæjarritara til bæjarráðs kemur fram að upplýsingar um annmarka á íbúðagerð gagnvart skipulagsskilmálum hafi legið fyrir, þegar ákvörðun var tekin, þó svo að ekki hafi verið sérstaklega vakin athygli á þeim. Vera kunni að afstaða bæjarstjórnar hefði orðið önnur, ef sjónarmiðin hefðu verið gerð skýrari frá upphafi. Skipulagsfulltrúa bendir á að það sé á ábyrgð hönnuða að koma íbúðum fyrir svo að þær uppfylli byggingarreglugerð, með hliðsjón af skipulagsskilmálum. Við skoðun á grunnmynd hússins telur skipulagsfulltrúi mögulegt að endurskipuleggja íbúðir þannig að dagsbirta berist úr tveimur áttum, til dæmis með því að minnka íbúðir á endum og stækka þær í miðjuhluta hússins.



Það er skylda bæjarstjórnar að gæta réttaröryggis og því aðeins á að endurupptaka stjórnsýsluákvörðun að nýjar upplýsingar eða sönnunargögn komi fram, form- eða efnisannmarkar séu á ákvörðun eða ákvörðunin hafi byggst á bersýnilega röngum lagalegum eða efnislegum forsendum. Staðfest er með fyrirliggjandi mótmælum íbúa í grenndinni að afstaða þeirra til deiliskipulagsins er óbreytt frá því að málsmeðferð sem var undanfari deiliskipulagsins var leidd til lykta. Í þessu máli eru skilyrði til þess að endurupptaka stjórnsýsluákvörðun alls ekki fyrir hendi."



Helga Jónsdóttir

Theódóra S. Þorsteinsdóttir

Sigurbjörg E. Egilsdóttir

Bergljót Kristinsdóttir.
Fundarhlé hófst kl. 9:13, fundi fram haldið kl. 9:40.

Bæjarráð frestar málinu.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

5.2402741 - Breytingar á skipulagi og starfsumhverfis leikskóla Kópavogsbæjar

Á 3201. fundar bæjarráðs þann 23.01.2025 fór fram kynning á niðurstöðum starfsmanna- og foreldrakönnunar í leikskólum Kópavogs sem framkvæmd var sumarið 2024. Bæjarráð samþykkti á þeim fundi að óska eftir minnisblaði sviðsstjóra menntasviðs um stöðu breytinga kerfisins út frá þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. Nú lagt fram svar sviðsstjóra dags. 08.04.2025.
Lagt fram og kynnt.

Umræður.

Gestir véku af fundi kl. 10:58.

Bókun:
"Í minnisblaðinu kemur fram að skólaárið 2023-2024 hafi engin tilfelli átt sér stað þar sem loka þurfti deild, og sama gildi það sem af er skólaárinu 2025. Undirrituð óskar eftir upplýsingum um:

1. Fjölda daga sem starfsemi einstakra deilda í leikskólum bæjarins hefur verið rekin undir viðmiðum um öryggismörk, bæði skólaárið 2023-2024 og það sem af er skólaárinu 2025.
2. Hvernig haldið er utan um skráningar um slík tilvik.
3. Hvort og þá hvernig foreldrum sé tilkynnt ef barnahópurinn er undir umsjón færri starfsmanna en öryggismörk gera ráð fyrir.

Markmiðið með beiðninni er að fá betri innsýn í raunverulega stöðu mönnunar í leikskólum bæjarins, sérstaklega með hliðsjón af því að markmið breytinganna var að tryggja fullnægjandi viðveru starfsfólks með börnum."

Sigurbjörg E. Egilsdóttir

Gestir

  • Sigrún Hulda Jónsdóttir deildarstjóri leikskóladeildar - mæting: 10:11
  • Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri menntasviðs - mæting: 10:11

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

6.2504218 - Fyrirspurn frá bæjarstjóra varðandi matarsóun í grunnskólum Kópavogsbæjar

Frá bæjarstjóra, lögð fram beiðni um að fá upplýsingar varðandi matarsóun í grunnskólum Kópavogs.
Umræður.

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra menntasviðs.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

7.24112572 - Fyrirspurn nefndarfulltrúa jafnréttis- og mannréttindaráðs um úttekt á aðgengi og stuðningi við eldri borgara og annarra viðkvæmra hópa við notkun stafrænnar þjónustu

Á fundi bæjarráðs þann 9.1.2025 var fjallað um fyrirspurn frá nefndarmanni Samfylkingar í jafnréttis- og mannréttindaráði um úttekt á aðgengi og stuðningi við eldri borgara og aðra viðkvæma hópa við notkun stafrænnar þjónustu. Málið var tekið til umræðu í bæjarráði að beiðni Bergljótar Kristinsdóttur bæjarfulltrúa Samfylkingar. Bæjarráð vísaði erindinu til umsagnar sviðsstjóra velferðarsviðs. Nú lögð fram umsögn velferðarsviðs dags. 03.04.2025.
Lagt fram.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

8.25033163 - Tillaga frá bæjarfulltrúa Samfylkingar um að tekjuviðmið sem notuð eru til grundvallar tekjutengdum afsláttum á dvalargjöldum leikskóla hækki samkvæmt launavísitölu.

Frá skrifstofu áhættu- og fjárstýringar, dags. 08.04.2025, lagt fram svar við fyrirspurn bæjarfulltrúa Samfylkingar varðandi tekjutengda afslætti.
Lagt fram.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

9.2504176 - Lækjarbotnaland 53d. Beiðni um framlengingu lóðarleigusamnings

Frá bæjarritara, lögfræðiþjónustu, dags. 04.04.2025, lögð fram umsögn varðandi endurnýjun lóðarleigusamnings. Óskað er eftir heimild bæjarráðs til endurnýjunar lóðarleigusamningsins til tíu ára.
Bæjarráð samþykkir með fimm atvæðum að veita heimild til endurnýjunar lóðaleigusamnings til tíu ára.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

10.25041007 - Útboð lóðar undir atvinnuhúsnæði. Urðarhvarf 12

Frá bæjarritara, lögfræðiþjónustu. dags. 08.04.2025, lögð fram drög að úthlutunarskilmálum.
Umræður.

Gestur vék af fundi kl 11:17

Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum framlögð drög að úthlutunarskilmálum lóðarinnar Urðarhvarf 12.

Gestir

  • Ása A. Kristjánsdóttir yfirlögfræðingur - mæting: 11:13

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

11.2212577 - Vatnsendi. Tilkynning frá Hæstarétti Íslands.

Frá bæjarritara, lögfræðiþjónustu, lagt fram til kynningar bréf Hæstaréttar Íslands dags. 4. apríl 2025 þar sem tilkynnt er um að leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar frá 6. febrúar 2025 í máli nr. 549/2023: Magnús Pétur Hjaltested gegn Kópavogsbæ og gagnsök hafi verið hafnað.
Lagt fram og kynnt.

Umræður.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

12.24062508 - Skaðabótakrafa vegna vinnuslyss á grundvelli kjarasamningsákvæðis

Frá bæjarritara, lögfræðiþjónustu: Niðurstaða skaðabótamáls E-1568/2024, vegna vinnuslys í grunnskóla.
Lagt fram og kynnt.

Umræður.

Ýmis erindi

13.2504527 - Til umsagnar 268. mál - Verndar og orkunýtingaráætlun (bætt málsmeðferð og aukin skilvirkni)

Frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, dags. 03.04.2025, lagt fram til umsagnar 268. mál - Verndar og orkunýtingaráætlun (bætt málsmeðferð og aukin skilvirkni).
Bæjarráð vísar erindinu til yfirlögfræðings.

Ýmis erindi

14.2504530 - Nýjar samþykktir EBÍ - breytingar á kjöri í fulltrúaráð EBÍ

Frá Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands, dags. 02.04.2024, lagðar fram nýjar samþykktir varðandi breytingar á kjöri í fulltrúarráð EBÍ.
Bæjarráð vísar málinu til afgreiðslu bæjarritara.

Ýmis erindi

15.2504780 - Fjárhagsáætlun vatnsvernd og vatnsnýting - uppfærsla

Frá SSH, dags. 04.04.2025, lagt fram erindi varðandi uppfærslu í tengslum við vatnsvernd og vatnsnýtingu.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

16.2503008F - Menningar- og mannlífsnefnd - 3. fundur frá 02.04.2025

Fundargerð í 12 liðum.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

17.2503022F - Skipulags- og umhverfisráð - 6. fundur frá 07.04.2025

Fundargerð í tíu liðum.
Lagt fram.
  • 17.6 24021690 Smiðjuvegur 76. Breytt deiliskipulag.
    Lögð fram uppfærð tillaga Nordic Office of Architecture ehf. dags. 4. apríl 2025 f.h. lóðarhafa lóðarinnar nr. 76 við Smiðjuveg um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Í breytingunni felst að komið verði fyrir 1093m² viðbyggingu við núverandi hús á lóðinni. Lóðarmörk breytast í samræmi við fyrirhugaða viðbyggingu og stækka til norðausturs og mörk skipulagssvæðis breytast einnig í samræmi við tillögu að lóðarstækkun. Lóðin stækkar úr 6049m² í 7471,3m², heildar byggingarmagn eykst úr 3012.7m² í 4105.7m² og nýtingarhlutfall eykst úr 0,50 í 0,55. Á fundi skipulagsráðs þann 15. júlí 2024 var samþykkt að auglýsa tillöguna. Kynningartíma lauk 28. október 2024 og athugasemdir bárust. Á fundi skipulagsráðs þann 4. nóvember 2024 var erindið lagt fram að nýju að lokinni kynningu ásamt innsendum athugasemdum. Afgreiðslu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Uppfærður uppdráttur í mkv. 1:1000 dags. 4. apríl 2025.
    Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 4. apríl 2025.
    Elín Mjöll Lárusdóttir tók sæti á fundinum undir þessum lið.
    Niðurstaða Skipulags- og umhverfisráð - 6 Samþykkt með áorðnum breytingum dags. 4. apríl 2025 og með vísan til umsagnar skipulagsdeildar dags. 4. apríl 2025. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.
  • 17.7 2410082 Deiliskipulag. Arnarnesvegur milli Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar. Skipulagslýsing.
    Lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að skipulagslýsingu dags. 19. mars 2025 vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagsgerðar tveggja vegkafla Arnarnesvegar. Annars vegar milli Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar og hinsvegar frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi. Vegkaflinn milli Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar er 1,6 km á lengd og er innan Kópavogs og Garðabæjar. Deiliskipulagið mun ná yfir veghelgunarsvæðin, stíga og gatnamót að nálægum íbúðarsvæðum. Unnið er að veghönnun beggja vegkaflanna með breytingum sem eru til þess ætlaðar að auka umferðaröryggi og um leið eru hljóðvarnir, stígatengingar og staðsetningar strætóstöðva yfirfarnar. Í dag er Arnarnesvegur á stærstum hluta þessa kafla tvíbreiður vegur með eina akrein í hvora átt með hringtorgum á gatnamótum. Verið er að skoða mögulegar útfærslur á fyrirkomulagi vegarins og gatnamóta á þessum kafla út frá hæðarlegu og afkastagetu. Markmiðið er að halda hringtorgunum í núverandi legu en breikka hringtorg Arnarnesvegar og Smárahvammsvegar í tvær akreinar. Fyrir liggur skv. aðalskipulagi Garðabæjar að gerð verður vegtenging í undirgöngum til að tengja væntanlega uppbyggingu í Arnarlandi við þegar byggt hverfi í Akralandi.
    Skipulagslýsingin er unnin af Eflu fyrir Kópavogsbæ og Garðabæ í samvinnu við Vegagerðina.
    Niðurstaða Skipulags- og umhverfisráð - 6 Samþykkt að framlögð skipulagslýsing verði kynnt með vísan til 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.
  • 17.8 2501990 Deiliskipulag. Arnarnesvegur frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi. Skipulagslýsing.
    Lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að skipulagslýsingu dags. 19. mars 2025 vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagsgerðar tveggja vegkafla Arnarnesvegar. Annars vegar milli Hafnarfjarðarvegar og Reykjanesbrautar og hinsvegar frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi. Vegkaflinn frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi er um 1,1 km á lengd og er alfarið innan Kópavogs. Deiliskipulagið mun ná yfir veghelgunarsvæðin, stíga og gatnamót að nálægum íbúðarsvæðum. Unnið er að veghönnun beggja vegkaflanna með breytingum sem eru til þess ætlaðar að auka umferðaröryggi og um leið eru hljóðvarnir, stígatengingar og staðsetningar strætóstöðva yfirfarnar. Á vegkaflanum frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi er verið að endurhanna gatnamót til að auka umferðaröryggi og til að bæta umferðarflæði, en í dag er vegkaflinn tvíbreiður vegur með eina akrein í hvora átt með hringtorgi og tveimur T-gatnamótum. Til skoðunar er að fækka skurðpunktum akandi umferðar og bæta við hringtorgi á gatnamótum við Salaveg.
    Skipulagslýsingin er unnin af Eflu fyrir Kópavogsbæ og Garðabæ í samvinnu við Vegagerðina.
    Niðurstaða Skipulags- og umhverfisráð - 6 Samþykkt að framlögð skipulagslýsing verði kynnt með vísan til 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.

Fundargerðir nefnda

18.2504292 - Fundargerð 32. fundar Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 31.03.2025

Fundargerð 32. fundar frá 31.03.2025.
Lagt fram.

Erindi frá bæjarfulltrúum

19.25041045 - Tillaga frá bæjarfulltrúum minnihluta um birtingu fundargagna bæjarráðs Kópavogs

Frá fulltrúum Pírata, Viðreisnar, Samfylkingar og Vina Kópavogs, dags. 08.04.2025, lögð fram svohjóðandi tillaga:

Lagt er til að bæjarráð Kópavogs samþykki að öll fylgigögn sem tilheyra dagskrá fundar verði birt á vef Kópavogsbæjar samhliða því sem fundarboð og dagskrá eru send út og birt opinberlega."
Bæjarráð vísar málinu til umsagnar bæjarritara.

Fundi slitið - kl. 11:59.