Bæjarráð

3232. fundur 23. október 2025 kl. 08:15 - 12:47 í bæjarstjórnarsal, Hábraut 2
Fundinn sátu:
  • Orri Vignir Hlöðversson formaður
  • Hjördís Ýr Johnson varaformaður
  • Andri Steinn Hilmarsson aðalmaður
  • Theódóra S Þorsteinsdóttir aðalmaður
  • Helga Jónsdóttir aðalmaður
  • Bergljót Kristinsdóttir, aðalmaður boðaði forföll og Hákon Gunnarsson vara áheyrnarfulltrúi, sat fundinn í hans stað.
  • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pálmi Þór Másson bæjarritari
Fundargerð ritaði: Pálmi Þór Másson bæjarritari
Dagskrá

Ýmis erindi

1.25093845 - Fjárhagsáætlun heilbrigðiseftirlitisins og gjaldskrá fyrir árið 2026

Frá Heilbrigðiseftirliti, dags. 30.09.2025, lögð fram til samþykktar bæjarráðs og bæjarstjórnar fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og gjaldskrá.

Bæjarráð frestaði erindinu 02.10.2025 og óskar eftir að fá á fund sinn framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlitsins og fulltrúa Kópavogsbæjar í stjórn Heilbrigðiseftirlitsins vegna málsins.
Lagt fram og kynnt.

Umræður.

Gestir viku af fundi kl. 8:49

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun og gjaldskrá fyrir árið 2026 til staðfestingar bæjarstjórnar.

Gestir

  • Svanur Karl Grétarsson, fulltrúi Kópavogsbæjar í stjórn Heilbrigðiseftirlitsins - mæting: 08:15
  • Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins - mæting: 08:15

Ýmis erindi

2.25101572 - Fjárhagsáætlun vatnsvernd og vatnsnýting 2026

Frá SSH, dags. 15.10.2025, lögð fram bókun um samráðshóp um vatnsvernd og vatnsnýtingu á höfuðborgarsvæðinu. Óskað er eftir að tillit verði tekið hennar í fjárhagsáætlunargerð sveitarfélagsins fyrir árið 2026.

Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum að vísa málinu til gerðar fjárhagsáætlunar.

Ýmis erindi

3.25101761 - Til umsagnar tillaga til þingsályktunar um dreifingu starfa, 152. mál

Frá efnahags- og viðskiptanefnd. dags. 17.10.2025, lagt fram til umsagnar tillögu til þingsályktunar um dreifingu starfa, 152. mál. Frestur til að senda inn umsögn er til og með 30. október nk.
Lagt fram.

Ýmis erindi

4.25101570 - Til umsagnar frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn), 81. mál

Frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, dags. 15.10.2025, lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn), 81. mál. Frestur til að senda inn umsögn er til og með 29. október nk.



Lagt fram.

Ýmis erindi

5.25101759 - Til umsagnar tillaga til þingsályktunar um tilraunaverkefni um lokun vegkafla sem áformað er að setja undir borgarlínu, 62. mál

Frá umhverfis- og samgöngunefnd sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um tilraunaverkefni um lokun vegkafla sem áformað er að setja undir borgarlínu, 62. mál.Frestur til að senda inn umsögn er til og með 30. október nk.
Lagt fram.

Ýmis erindi

6.25102116 - Lækjarbotnaland 53 D erindi til bæjarráðs

Frá eigendum íbúðarhúss að Lækjarbotnalandi 53D, lögð fram beiðni um að lóðarleigusamningur verði endurskoðaður.
Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum að vísa málinu til umsagnar lögfræðiþjónustu.

Fundargerðir nefnda

7.2509019F - Lýðheilsu- og íþróttanefnd - 6. fundur frá 16.10.2025

Fundargerð í sjö liðum.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

8.2510011F - Leikskólanefnd - 173. fundur frá 16.10.2025

Fundargerð í 17 liðum.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

9.2510007F - Skipulags- og umhverfisráð - 17. fundur frá 20.10.2025

Fundargerð í 11 liðum.
Lagt fram.
  • 9.3 2201629 Auðbrekka þróunarsvæði. Svæði 4, Auðbrekka 15 til 27, oddatölur. Deiliskipulag.
    Lögð fram á vinnslustigi tillaga skipulagsdeildar dags. 17. október 2025 að deiliskipulagi fyrir svæði 4 á þróunarsvæðinu í Auðbrekku (ÞR-2). Í tillögunni felst áframhaldandi þróun svæðisins úr athafnasvæði í blandaða byggð. Íbúðir á svæði 4 verða samtals 89 á svæði 4. Þriðjungi íbúða verður komið fyrir á efstu hæð í núverandi atvinnuhúsnæði sem breytt verður í íbúðarhúsnæði að hluta og hækkað um eina hæð. Nýbygging við Auðbrekku 15. Gert er ráð fyrir að byggingarmagn á svæðinu geti aukist um 6.300 m2. Atvinnuhúsnæði verður áfram á jarðhæðum við Auðbrekku.
    Tillagan er sett fram á uppdrætti og skilmálahefti dags 17. október 2025.
    Einnig er lögð fram skipulagslýsing dags. 2015, uppfærð 17. okt 2025, drög að umhverfismati dags. 17. október 2025, Áhættumati vegna loftslagsbreytinga dags 9. maí 2025, skýringarhefti-B dags. í október 2025 og húsakönnun dags. október 2025.
    Brynja Guðnadóttir verkefnastjóri gerði grein fyrir erindinu.
    Niðurstaða Skipulags- og umhverfisráð - 17 Samþykkt að framlögð tillaga verði forkynnt á vinnslustigi með vísan til 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.
  • 9.5 24041399 Borgarlínan í Kópavogi. Lota 1. Breytt deiliskipulag Kársneshafnar. Bakkabraut norðan Vesturvarar.
    Lögð fram uppfærð tillaga skipulagsdeildar dags. 1. október 2025 að breytingu á deiliskipulagi Kársneshafnar fyrir Bakkabraut norðan Vesturvarar ásamt gatnamótum Bakkabrautar og Vesturvarar. Skipulagsbreytingin nær til þess gatnarýmis sem tengist fyrirhugaðri Borgarlínu og þeim samgöngumannvirkjum sem henni fylgja. Borgarlínustöð er staðsett við norðurmörk lóða Hafnarbrautar 27 og Vesturvarar 30. Lóðarmörk nærliggjandi lóða breytast og innviðum Borgarlínu er afmarkað 25m breitt bæjarland við stöðina. Tillagan var auglýst frá 19. maí til 3. júlí 2025. Á fundi skipulags- og umhverfisráðs þann 6. október 2025 var athugasemdum sem bárust á kynningartíma vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Lagt fram að nýju ásamt umsögn dags. 13. október 2025 og uppfærðum uppdrætti dags. 1. október 2025. Niðurstaða Skipulags- og umhverfisráð - 17 Samþykkt með áorðnum breytingum dags. 1. október 2025 með fimm atkvæðum Hjördísar Ýrar Johnson, Andra Steins Hilmarssonar, Leós Snæs Péturssonar, Kolbeins Reginssonar og Hákonar Gunnarssonar gegn atkvæði Kristins Dags Gissurarsonar. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
    Gunnar Sær Ragnarsson sat hjá við afgreiðslu málsins.
    Niðurstaða Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.
  • 9.6 2501990 Arnarnesvegur. Milli Fífuhvammsvegar og Rjúpnavegar. Nýtt deiliskipulag. Skipulagsýsing.
    Lögð fram tillaga umhverfissviðs að deiliskipulagi Arnarnesvegar frá Fífuhvammsvegi að Rjúpnavegi, dags. 10. otkóber 2025. Í tillögunni er gerð breyting á T-gatnamótum við Sólarsali til að bæta umferðarflæði og auka umferðaröryggi með fækkun skurðpunkta. Einnig er gerð breyting á gatnamótum við Salaveg þar sem gert er ráð fyrir hringtorgi. Til framtíðar er miðað við að Arnarnesvegur geti á þessi svæði orðið fjögurra akreina vegur (2 2) og er hann sýndur þannig á uppdrætti. Tillagan er unnin af Eflu fyrir Kópavogsbæ og Vegagerðina.
    Uppdráttur í mkv. 1:2000, dags. 10. október. 2025. Einnig er lagt fram kort sem sýnir hljóðstigsreikning frá Arnarnesvegi.
    Niðurstaða Skipulags- og umhverfisráð - 17 Samþykkt að framlögð tillaga að deiliskipulagi verði auglýst með vísan til 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.
  • 9.8 25092015 Íþróttamannvirki í Kópavogsdal. Breytt deiliskipulag.
    Lögð fram umsókn Þóru Guðrúnar Gunnarsdóttur dags. 16. september 2025 f.h. Skautasambands Íslands um breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals til að koma fyrir fjölnota íþrótta- og heilsumiðstöð með bílageymslu í kjallara í Kópavogsdal. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa þann 13. október 2025 var umsókninni vísað til skipulags- og umhverfisráðs. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 13. október 2025. Niðurstaða Skipulags- og umhverfisráð - 17 Synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 13. október 2025. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.

Fundargerðir nefnda

10.2510021F - Innkaupanefnd - 8. fundur frá 20.10.2025

Fundargerð í fjórum liðum.
Lagt fram.

Umræður.

Theódóra S. Þorsteinsdóttir og Helga Jónsdóttir óska eftir frestun á máli nr. 1 2402380 - Stúka HK Kórinn

Hafnað með þremur atkvæðum gegn atkvæðum Theódóru S. Þorsteinsdóttur og Helgu Jónsdóttur.


Fundarhlé hófst kl. 10:06, fundi fram haldið kl. 12:29


Bókun:
"Meirihlutinn bendir á að innkaupanefnd hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu í málinu. Sú afgreiðsla liggur fyrir og meirihlutinn styður þá afgreiðslu. Verkefnið á sér langan aðdraganda og var samþykkt í fjárhagsáætlun 2025. Verkefnið var kynnt í bæjarráði þann 20. febrúar 2025 ásamt öllum gögnum þess. Þar var ferill málsins rakinn og farið yfir kostnaðargreiningu, fjármögnun og rekstrarkostnað. Í afgreiðslu innkaupanefndar felst engin fjárhagsleg skuldbinding af hálfu bæjarins, heldur einungis heimild til að auglýsa eftir áhugasömum aðilum. Skrifstofa áhættu- og fjárstýringar mun uppfæra greiningar á fjárhagslegum áhrifum verkefnisins samhliða því sem áætlanir skýrast og verkefninu vindur fram."

Andri Steinn Hilmarsson
Hjördís Ýr Johnson
Orri V. Hlöðversson


Bókun:
"Það er hlutverk bæjarráðs að hafa eftirlit með stjórnsýslu bæjarins. Í samkeppnisviðræðum er markmiðið að þróa hagkvæmustu launsina í samstarfi við tilboðsgjafa. Verklagsreglur í slíkum viðræðum þurfa að vera skýrar, hver markmiðin eru og hverjir vinna að samningagerð fyrir Kópavogsbæ. Uppfæra þarf umsögn sviðsstjóra frá því í febrúar til að hún sé í samræmi við forvalsskilmálana og taki á hlutverki bæjarráðs í eftirliti með útboðsvinnunni."

Sigurbjörg E. Egilsdóttir
Hákon Gunnarsson
Helga Jónsdóttir
Theódóra S. Þorsteinsdóttir


Bókun:
"Enn og aftur fer Kópavogsbær af stað með vanbúið mál í opinberum innkaupum. Undirbúningur er með öllu ófullnægjandi rétt eins og fyrir framkvæmd við byggingu Barnaskóla Kársness og fleiri framkvæmdir á vegum Kópavogsbæjar. Innkaupanefnd hefur aðeins heimild til fullnaðarafgreiðslu ef ákvörðunin rúmast innan fjárhagsáætlunar. Svo er ekki í þessu tilfelli. Útboðsgögn eru ekki í samræmi við þau gögn sem kynnt voru í bæjarráði fyrir 9 mánuðum. Upplýsingar um hagrænt og fjárhagslegt mat eru ófullnægjandi. Það að auglýsa fyrst forval og kalla svo eftir uppfærðum greiningum á fjárhagslegum áhrifum er óábyrg fjármálastjórn."

Theódóra S. Þorsteinsdóttir


Bókun:
"Við vísum í fyrri bókun þar sem kemur fram að málið hefur verið unnið í samræmi við samþykktir bæjarins. Þar kemur jafnframt fram að verkefnið felur á þessu stigi ekki í sér fjárhagslega skuldbindingu og greiningar verða uppfærðar eftir því sem verkefnið þróast."

Andri Steinn Hilmarsson
Hjördís Ýr Johnson
Orri V. Hlöðversson


Bókun:
"Um leið og bjóðendur skila fullnægjandi gögnum í forvali og eru valdir áfram í viðræður er stigið fyrsta skrefið í átt að samningsgerð, með tilheyrandi skuldbindingu fyrir sveitarfélagið. Því skiptir vandaður undirbúningur á þessu stigi raunverulega máli.

Kjarni málsins er ekki hvort auglýsing forvals teljist tæknilega skuldbinding eða ekki, heldur að hér er um stóra og kostnaðarsama framkvæmd að ræða þar sem eðlilegur og vandaður undirbúningur á undan dregur úr áhættu og kostnaði síðar. Samkeppnisviðræður móta ramma verkefnisins, væntingar á markaði og vægi valforsenda. Reynslan hefur sýnt að ófullnægjandi undirbúningur leiðir til tafa og aukakostnaðar. Að mati undirritaðra er því rétt að undirbúa málið betur áður en haldið er af stað."

Sigurbjörg E. Egilsdóttir
Hákon Gunnarsson
Helga Jónsdóttir
Theódóra S. Þorsteinsdóttir


Bókun:
"Fullyrðingar um skort á upplýsingum eða undirbúningi eiga sér ekki stoð ef horft er til gagna málsins."

Orri Hlöðversson
Hjördís Ýr Johnson
Andri Steinn Hilmarsson


Bókun:
"Okkur greinir á um hvað telst til fullnægjandi upplýsinga. Það er óábyrgt að fara af stað í jafnviðamikið verkefni og hér um ræðir með þau gögn sem nú liggja fyrir."

Sigurbjörg E. Egilsdóttir
Hákon Gunnarsson
Helga Jónsdóttir
Theódóra S. Þorsteinsdóttir

Fundargerðir nefnda

11.2510022F - Menntaráð - 150. fundur frá 21.10.2025

Fundargerð í þremur liðum.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

12.25102197 - Fundargerð 519. fundar stjórnar Sorpu bs. frá 08.09.2025

Fundargerð 519. fundar stjórnar Sorpu bs. frá 08.09.2025.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

13.25102199 - Fundargerð 520. fundar stjórnar Sorpu bs. frá 22.09.2025

Fundargerð 520. fundar stjórnar Sorpu bs. frá 22.09.2025.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

14.25102200 - Fundargerð 521. fundar stjórnar Sorpu bs. frá 13.10.2025

Fundargerð 521. fundar stjórnar Sorpu bs. frá 13.10.2025.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

15.2510051 - Fundargerð 430. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 01.10.2025

Fundargerð 430. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 01.10.2025.

Umræður. Bæjarráð frestaði umfjöllun fundargerðarinnar 09.10.2025.
Lagt fram.

Fundargerðir nefnda

16.25101462 - Fundargerð 986. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitafélaga frá 10.10.2025

Fundargerð 986. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitafélaga frá 10.10.2025.
Lagt fram.

Erindi frá bæjarfulltrúum

17.2510535 - Tillaga frá bæjarfulltrúa Vina Kópavogs

Frá bæjarfulltrúa Vina Kópavogs, dags. 07.10.2025, lögð fram tillaga varðandi þróunarsvæðið á vestanverðu Kársnesi. Tillögunni fylgir greinargerð. Bæjarráð frestaði erindinu á fundi sínum 9. október sl.
Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu.

Erindi frá bæjarfulltrúum

18.25102445 - Beiðni um umsögn

Mál tekið inn með afbrigðum.



Lögð fram tillaga frá bæjarfulltrúa Pírata þar sem óskað er eftir umsögn um feril máls nr. 2508729 „Framtíðin í fyrsta sæti- grunnskólatillögur“.



Tillaga:

"Bæjarráð felur bæjarrita að taka saman umsögn um feril máls nr. 2508729 „Framtíðin í fyrsta sæti - grunnskólatillögur“. Samkvæmt dagskrá menntaráðs 19. ágúst sl. var málið lagt fram til kynningar, en var síðan afgreitt á fundinum þrátt fyrir andmæli menntaráðsfulltrúa, bæði á fundinum sjálfum og strax í kjölfar fundarins í tölvupósti til formanns og ritara frá öðrum fulltrúa. Óskað er eftir umfjöllun um hvort málsmeðferðin hafi verið í samræmi við samþykkt samráðs- og vinnuferli. Þá er óskað eftir afstöðu til þess hvort gætt hafi verið að hlutverki menntaráðs í málsmeðferð við framlagningu útfærslu á samræmdum matskvörðum undir sama málsnúmeri, sem menntaráð fékk aðeins til kynningar en ekki afgreiðslu."

Sigurbjörg E. Egilsdóttir

Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu.

Fundi slitið - kl. 12:47.