Lögð fram tillaga Skipulags- og umhverfissviðs að breyttu Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012. Tillagan nær til vesturhluta Rjúpnahæðar sem er um 16 ha að stærð og sett fram á uppdrætti í mkv. 1:10.000, dags. 19. október 2010. Nánar tiltekið afmarkast skipulagssvæðið af lögsögumörkum Kópavogs og Garðabæjar í suður, opnu svæði sem liggur að lögsögumörkum Kópavogs og Garðabæjar í vestur, skógræktarsvæði í Smalaholti og Rjúpnahæð í norður og opnu svæði meðfram fyrirhugaðri byggð við Austurkór og Auðnukór í austur.
Í breytingunni felst að íbúðum er fjölgað á svæðinu úr 132 íbúðum í liðlega 162 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Þéttleiki byggðarinnar eykst úr 9 íbúðum á ha í ca 11. Íbúum fjölgar á svæðinu og verða á svæðinu fullbyggðu um 500 miðað við 3 í íbúð.
Reiknað er með um 55 íbúðum í einbýli; 22 íbúðum í parhúsum; 66 íbúðum í tveggja og þriggja hæða fjölbýlishúsum og 19 íbúðum í raðhúsum. Nýtingarhlutfall fyrir einstaka landnotkunarreiti er sem hér segir til viðmiðunar: Fyrir fjölbýlishús 0,5 til 0,8; fyrir parhús að meðaltali 0,4, fyrir einbýlishús að meðaltali 0,3 og fyrir raðhús 0,5.
Tillagan er í samræmi við breytingu á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 sem staðfest var af umhverfisráðherra 23. nóvember 2006.