Hvernig sæki ég um breytingu á húsnæði eða lóð?

Að ýmsu er að huga þegar að sótt er um breytingu á húsnæði eða lóð:
Er deiliskipulag í gildi á svæðinu?
Sækja þarf um breytingu á deiliskipulagi, ef deiliskipulag er í gildi fyrir það svæði sem um ræðir og ekki er heimild fyrir þeirri
breytingu sem óskað er eftir. Lóðarhafi þarf að greiða fyrir breytinguna og í einhverjum tilfellum ráða skipulagsráðgjafa til
þess að vinna breytingu á deiliskipulagi. Lista yfir skipulagsráðgjafa sem uppfylla skilyrði til gerðar skipulagsáætlana má sjá á
heimasíðu Skipulagsstofnunar. Rammaákvæði í aðalskipulagi og gæðaviðmið setja ramma utan um efnislega meðferð umsókna.

Er breytingin á ódeiliskipulögðu svæði?
Sækja þarf um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa skv. 44 gr. skipulagslaga ef um er að ræða breytingu á ódeiliskipulögðu
svæði. Umsókninni er síðan vísað til skipulagsfulltrúa sem tekur hana til meðferðar og leggur fyrir skipulagsráð. Rammaákvæði í
aðalskipulagi og gæðaviðmið setja ramma utan um efnislega meðferð umsókna. Byggingarteikningar, mæli- og hæðarblöð, sem
sýna stærð og afmörkun lóðar og landhæðir, má nálgast á byggingarteiknigrunni Kópavogs.

Eru fleiri eigendur/lóðarhafar?
Í fjöleignarhúsum þarf samþykki húsfélags og/eða meðeigenda að liggja fyrir nýjum íbúðum, breytingum á sameign,
viðbyggingum, breytingum á útliti og lóð í samræmi við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Er breytingin á lóðarmörkum?
Ef verið er að gera breytingu við lóðamörk skal afla samþykkis aðliggjandi lóðarhafa.

Er húsið friðlýst, friðað eða varðveisluvert?
Ef um friðlýst, friðað eða varðveisluvert hús er að ræða, eða hús byggt fyrir 1925, þarf að leita umsagnar Minjastofnunar í
samræmi við lög um menningarminjar nr. 80/2012.

Gilda sértæk rammaákvæði aðalskipulags á svæðinu?
Sértæk rammaákvæði gilda fyrir fjögur afmörkuð svæði á Kársnesi og Digranesi.

Hvílir höfundarréttur arkitekts eða hönnuðar á húsinu?
Ef hús fellur undir lög um höfundarrétt hönnuða nr. 73/1972 þarf að leita samþykkis handhafa höfundarréttar.

Kalla framkvæmdirnar á færslu lagna eða nýjar tengingar?
Ef framkvæmdirnar kalla á færslu lagna eða breytingar á tengingum við fráveitukerfi, þarf að hafa samband við viðeigandi
veituþjónustu. Hægt er að skoða veitur í kortasjá Kópavogsbæjar. Mikilvægt er að kynna sér legu lagna áður en að farið er að grafa í
jörðu til þess að koma í veg fyrir skemmdir.

○ Kópavogsbær hefur umsjón með kaldavatnslögnum og fráveitulögnum.
○ Veitur ohf. sjá um heitavatnslagnir og rafmagnslagnir.

Kalla framkvæmdirnar á breytingar eða afnot af bæjarlandi?
Ef framkvæmdirnar kalla á afnot eða breytingar á bæjarlandi, s.s. niðurtekt á kantsteinum, breytingu á legu göngustíga o.s.frv. þarf
að taka það sérstaklega fram í byggingarleyfisumsókn.

Mögulegt er að senda inn fyrirspurn til skipulagsfulltrúa
Til þess að fá afstöðu skipulagsfulltrúa og/eða skipulagsráðs áður en að sótt er um byggingarleyfi eða breytingu á deiliskipulagi.

Sækja um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa
Byggingarteikningar, mæli- og hæðarblöð, sem sýna stærð og afmörkun lóðar og landhæðir, má nálgast á byggingarteiknigrunni
Kópavogs.

Eftir að búið er að afla byggingarleyfis, er hægt að ráðast í framkvæmdir.

Yfirlitsmynd af Kópavogi