Leiðbeiningar um forsendugreiningu

Þegar farið er í breytingar á manngerðu umhverfi er lykilatriði að greina það umhverfi og byggð sem fyrir er. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða víðtækar breytingar, sem skapa tækifæri til að stuðla að sjálfbærari byggð. Við skipulag og uppbyggingu á þróunarsvæðum, þarf að huga að ýmsum þáttum í umhverfinu, fyrirliggjandi stefnu bæjarins í ýmsum málaflokkum og skipulagi, auk þess að hafa samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila í nágrenninu. Þetta á við hvort sem um er að ræða uppbyggingu á óbyggðu landi eða landi þar sem byggð er fyrir.

Hefur eftirfarandi verið skoðað við þróun og breytingar á byggð?

Samráð: Hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila og þá sem þekkja svæðið best, s.s. íbúa á öllum aldri,
atvinnurekendur og aðra notendendur?

Stóra myndin: Samræmist uppbyggingin stefnu í aðal- og svæðisskipulagi og annarri stefnumörkun bæjarins?

Landslag: Er unnið með landhalla og önnur landslagseinkenni, sem skapa áhugavert umhverfi fyrir byggð?

Náttúrulegt umhverfi: Er gott aðgengi að náttúru og komið í veg fyrir að hún raskist?

Skuggavarp: Er byggðinni komið þannig fyrir að byggingar varpi sem minnstum skugga á lóðir og almenningsrými?

Hljóðvist: Hafa verið gerðar ráðstafanir til að draga úr hljóðmengun með hljóðveggjum eða öðrum leiðum?

Vindáttir: Veitir byggðin skjól á útisvæðum fyrir helstu vindáttum?

Sjónásar: Er gott útsýni í átt að mikilvægum kennileitum og áhugaverð sjónarhorn?